Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Byrja á að spá öllu illu - hælast svo af því að það rætist ekki að fullu

Enn rær Steingrímur J. á sömu mið og áður, hælist um af því að hlutirnir gangi betur en "spáð" hafði verið þegar ríkisstjórnin tók við, fyrir sextán mánuðum síðan.  Ríkisstjórnin byrjaði feril sinn á því að spá öllu illu fyrir þjóðinni, efnahags- og atvinnumálum og kemur svo núna og klappar sjálfri sér á bakið fyrir hvað allt hafi nú gengið betur en "spáin" gerði ráð fyrir.

Í fyrra kynnti Steingrímur J. gífurlegar skattahækkanir, svo miklar að þjóðin stóð á öndinni yfir þeim ósköpum, sem yfir hana myndu dynja í þeim efnum.  Nokkrum mánuðum síðar voru kynntar skattahækkanir, sem voru töluvert minni, en upphaflega hafði verið boðað og þá var því borið við, að vegna betri stöðu en "spáð" hafði verið, þyrfti ekki að hækka skatta eins mikið og áður hefði verið gert ráð fyrir.  Þjóðin varpaði öndinni léttar og sætti sig við skattahækkanabrjálæðið, vegn þess að það var þó ekki eins brjálæðislegt og "spáð" hafði verið.

Nú segir Steingrímur J. að fylla þurfi upp í 43 milljarða gat á fjárlögum næsta árs, en það er 10 milljörðum minna en "spáð" hafði verið og af upp í þessa 43 milljarða verði "aðeins" 11 milljarðar fjármagnaðir með nýjum skattahækkunum og það sé talsvert minna, en áður hafði verið "spáð"

Þjóðin sættir sig við allt, bara ef það er miklu betra en áður hafði verið "spáð".


mbl.is „Verkefnið er að takast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kínverjar sækja í sömu hagsmuni á Íslandi og ESB

Kínverjar hafa verið ótrúlega hjálplegir Íslendingum upp á síðkastið, t.d. stutt okkur dyggilega í glímunni við AGS um endurskoðun samningsins um efnahagssamvinnuna við sjóðinn, en Bretar, Hollendingar og norðurlöndin hafa reynt að flækjast þar fyrir, í tilraunum sínum til að kúga þjóðina til uppgjafar vegna Icesave.

Einnig hafa Kínverjar og Íslendingar gert með sér gjaldeyrisskiptasamning sem Su Ge nýr sendiherra Kína á Íslandi, segir að  sé með fádæmum, en aðeins sex til sjö ríki hafi fengið viðlíka samning við kínverska seðlabankann.

Kínverjar eru ekki að gera þetta af eintómri hjartagæsku í garð Íslendinga, heldur eru þeir að hugsa um sína eigin hagsmuni á norðuhveli jarðar, en innan ekki svo langs tíma munu siglingar hefjast milli heimsálfa um norðuhöf og Kínverjar hafa lýst áhuga sínum á Íslandi sem umskipunarhöfn, þegar þar að kemur.  Hugsanleg olíuvinnsla í lögsögu Íslands í framtíðinni spillir heldur ekki fyrir, enda eru Kínverjar vanir að skipuleggja sína hagsmuni áratugi fram í tímann.

Enn annað sem Kínverjar líta til, er raforkan, því þeir hafa hug á stóriðju hérlendis og eru reyndar þegar byrjaðir að kanna þau mál og hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf við Landsvirkjun.

Þetta eru sömu hagsmunir og ESB ásælist með því að vilja innlima landið sem hrepp í stórríki Evrópu, sem reyndar virðist vera á fallandi fæti, áður en það varð nokkurn tíma almennilega gangfært.

Í tilefni af þessum fréttum skal ítekuð sú ráðlegging að hefja nú þegar kennslu í kínversku í íslenskum skólum, sem skyldufag.  Draga mætti úr þýskukennslu í staðinn, enda munu Kínverjar einnig ráða ESB áður en yfir líkur.


mbl.is Kína hjálpaði Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordæmi fyrir Kost að kæra Bónus

Ólafur Adolfsson, fyrrverandi knattspyrnukappi og nú apótekari á Akranesi, hefur lagt Lyf og heilsu að velli með miklum mun, eða hundraðmilljónir - núll, eftir að keðjan reyndi að þröngva honum út af markaðinum með bolabrögðum.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur nú staðfest úrskurð Samkeppniseftirlitsins um að Lyf og heilsa hafi beitt ólöglegum brögðum til að reyna að koma Ólafi á hausinn, strax eftir að hann opnaði apótek sitt á Akranesi og átti sú aðgerð að verða öðrum til viðvörununar um að leggja ekki í samkeppni við Wernerbræður, sem þekktir eru af ýmsu misjöfnu í viðskiptalífinu undanfarin ár.

Þessi úrskurður ætti að vera fordæmi fyrir Gerald Sullenberger að kæra Bónus vegna þeirra samninga sem Bónus hefur gert við birgja um sérkjör sér til handa, en þeim kjörum er viðhaldið með hótunum um að loka á viðskipti við viðkomandi, selji hann öðrum vörur á sömu kjörum og Bónus fær.

Það hefur komið fram, að íslenskir heildsalar og framleiðendur þora ekki að selja versluninni Kosti vörur á eðlilegum kjörum vegna hótana frá Bónus og því ætti þessi niðurstaða Áfrýjunarnefndar samkeppnismála að verða fyrirmynd fyrir aðra, að láta markaðráðandi fyrirtæki ekki komast upp með að drottna yfir markaði, með yfirgangi og hótunum.

Reyndar ætti ekki að þurfa að kæra Bónus sérstaklega, því öllum er kunnugt um vinnubrögð ráðamanna fyrirtækinsins og Samkeppniseftirlitið ætti að taka upp hjá sjálfu sér, að rannsaka gerðir og framkomu eigenda og stjórnenda þessa fyrirtækis í garð samkeppnisaðila.

Þessi úrskurður gefur alla vega svolitla von fyrir smáu aðilana í verslunarrekstri.


mbl.is Lyf & heilsa greiði 100 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra sólbekkjamálið kláraðist fyrir þinglok - mikill léttir

Þrátt fyrir gífurlegar annir á Alþingi síðustu dagana fyrir þinglok, tóks stjórnarflokkunum að ljúka einu af sínum stærstu málum í morgun, en það er bann við notkun ungmenna á ljósabekkjum á sólbaðsstofum.

Þrátt fyrir ótrúlega lélegt skipulag meirihlutans á þingstörfunum og þó búið sé að lengja þingið fram á sumarið, virðist það vera ófrávíkjanleg regla stjórnarinnar, að leggja alvörumálin ekki fyrir þingið fyrr en á síðustu stundu, til þess að gulltryggja að alger ringulreið ríki á þinginu, síðusta hálfa mánuðinn fyrir þinglok.

Með samþykkt stóra sólbekkjamálsins hefur ríkisstjórn Samfylkingar og VG náð að klára tvö þjóðþrifamál á þessum vetri, en til viðbótar við þetta merka mál var áður búið að banna kvenfólki að dansa berrassað innan veggja Goldfingers, nektarstaðarins hans Geira.

Verður þetta að teljast mikil og góð afköst hjá þessari ríkisstjórn og ekki hægt að ætlast til þess að hún afgreiði smámál á meðan, eins og fjárhagsvanda heimilanna, atvinnumál, efnahagsmál, orkumál, stóriðjumál eða önnur smámál, sem orðið hafa að sitja á hakanum vegna nektar á strippbúllum og í ljósabekkjum.

Ríkisstjórnir annarra landa hljóta að líta í forundran til þeirrar íslensku og eiga örugglega erfitt með að skilja forgangsmálin hér á landi.

Lái þeim það, hver sem vill.


mbl.is Ljósabekkjabann orðið að lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki tilhlökkunarefni fyrir íslenska launþega

Atvinnuleysi á Ísandi í apríl mældist 9%, enda ríkir hér dýpsta kreppa lýðveldistímans og hér er við völd ríkisstjórn, sem gerir allt sem í hennar valdi stendur til að halda atvinnuleysi sem mestu og dýpka og lengja kreppuna, eins mikið og mögulegt er, með því að berjast gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu í landinu.

Það sem vekur enn meiri athygli í fréttinni er, að atvinnuleysi innan ESB er ennþá meira en hér á landi, eða 9,7% og á evrusvæðinu 10,1%, eins og sjá má á bls. 2 í skjalinu, sem nálgast má hérna

Ríkisstjórn Íslands er væntanlega að aðlaga atvinnuleysi á Íslandi að því atvinnuleysi, sem er viðvarandi innan ESB, til þess að venja landann við það, sem koma skal, fari svo illa að Samfylkingunni takist að véla landið inn í stórríki Evrópu.

Þetta er a.m.k. ekkert tilhlökkunarefni eða falleg framtíðarsýn fyrir íslenska launþega.


mbl.is Atvinnuleysi að meðaltali 8,7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn reiknar með inngöngu Íslands í ESB

Skoðanakannanir sem birst hafa undanfarna mánuði sýna allar að mikill meirihluti þjóðarinnar er á móti innlimun Íslands í stórríki Evrópu og er eindregið þeirrar skoðunar að bjölluatinu í Brussel verði hætt.  Tölur um kosnað af þessari stríðni gagnvart ESB eru nokkuð á reiki, en þó mun kosnaðurinn af þessum prakkarastrikum Samfylkingarinnar verða einhversstaðar á bilinu 4-7 milljarðar króna.  Slíkar upphæðir væri hægt að nota til gagnlegri hluta.

Í liðinni viku var viðtal í sjónvarpsfréttum við þýskan stjórnmálafræðing og ráðgjafa þýskra stjórnmálamanna og taldi hann víst, að á fundi ESB þann 17. júní yrði samþykkt að taka upp viðræður við Íslendinga um innlimunina, sem hann taldi afar mikilvæga fyrir ESB vegna legu landsins og aðgang þess að norðuhöfum, ekki síst vegna framtíðarsiglinga milli heimsálfa og mikilvægi Íslands sem milliliðar í þeim siglingum.  Fleira taldi hann til, sem ESB myndi græða á innlimuninni, en þetta taldi hann stærsta atriðið.

Það, sem athyglisverðast var samt við viðtalið var, að þessi ráðgjafi þýskra stjórnvalda taldi engar líkur á því að Íslendingar myndu samþykkja hreppsaðildina að ESB og um það væru yfirmenn ESB sér algerlega meðvitaðir, þannig að enginn innan valdakerfis ESB reiknaði með að samningur við bandalagið yrði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi.

Almenningur á Íslandi veit þetta, ríkisstjórnir í Evróðpu vita þetta og stjórnkerfi ESB veit þetta.  Hvernig íslenska ríkisstjórnin kemst hjá því að gera sér grein fyrir þessu, er hulin ráðgáta.


mbl.is Meirihluti vill draga umsókn um aðild til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostnaðarsamt aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar

Á síðasta ári voru greiddir um 20 milljarðar króna í atvinnuleysisbætur og fyrstu fimm mánuði þessa árs hafa atvinnuleysisbætur numið 12 milljörðum króna.  Á öllu þessu ári stefnir því í að bæturnar verði um 25 - 26 milljarðar og ekkert útlit að þær verði minni á árunum 2011 og 2012 a.m.k.

Með þessu áframhaldi er útlit fyrir að atvinnuleysisbætur muni verða hátt í 100 milljarðar króna, áður en atvinnuleysið fer að minnka að ráði, samkvæmt spám, á árinu 2015.  Það alvarlega við þetta er, að ríkisstjórnin gerir minna en ekkert til að reyna að koma atvinnulífinu í gang aftur, heldur berst hún þvert á móti gegn öllum þeim atvinnutækifærum, sem hugsanlegt væri að koma í gang og myndu skapa fjölda starfa fljótt, t.d. orku- og stjóriðjuframkvæmdir.

Ríkisstjórnin er nánast óstarhæf vegna sundrungar, bæði innan flokkanna sem mynda stjórnina og ekki síður á milli þeirra og hennar helsta stórvirki á yfirstandandi þingi, er að hafa komið lögum í gegnum þingið, sem bannaði Geira á Goldfinger að sýna bera stelpurassa á búllunni sinni.

Framundan er erfið fjárlagagerð og ekkert sem bendir til þess að stjórnarflokkarnir geti komið sér saman um þær niðurskurðaraðgerðir, sem nauðsynlegt er að gripið verði til.  Miklu líklegra er að þeir geti komið sér saman um að bæta í skattahækkanabrjálæðið, en varla munu skattgreiðendur láta bjóða sér meira af slíku, mótmælalaust.

Besta sparnaðarráðið væri að ríkisstjórnin segði af sér og hleypti þeim að stjórnartaumunum, sem hafa vilja og getu til að stjórna landinu.


mbl.is 12 milljarðar í atvinnuleysisbætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfuðvígi ESB að klofna?

Nýja flæmska fylkingin, virðist vera orðinn stærsti flokkurinn á Belgiska þinginu, eftir kosningarnar í dag, en flokkurinn hefur það á stefnuskrá sinni að kljúfa Belgíu í tvö ríki, flæmskumælandi ríki og frönskumælandi.  Lengi hefur verið óeining á milli málsvæðanna í Belgíu og aldrei hafa verið meiri líkur á klofningi landsins, en einmitt nú.

Höfuðstöðvar ESB eru í Belgíu og venjulega er því haldið fram af ESBsinnum, að samkenndin og einingin sé svo mikil innan og milli aðildarríkjanna að brýn nauðsyn sé fyrir Íslendinga að koma sér inn í þetta bræðralag einingar og sátta.

Í fréttinni segir m.a:  "Raunveruleg hætta er talin á því að landið klofni. Finnst mörgum einkennilegt að land sem hýsir höfuðstöðvar Evrópusambandsins skuli vera við það að leysast upp. Belgar eiga að taka við formennsku í ESB í júlí."

Það er sannarlega athyglisvert að ríki, sem er við það að liðast í sundur, skuli vera að taka við forystuhlutverki í því að halda saman í einum hópi 27 ólíkum ríkjum Evrópu, allt frá Danmörku suður til Grikklans og frá Rúmeníu í austri til Írlands í vestri.

Sennilega fer á endanum fyrir "Evrópuhugsjóninni" eins og gamla draumnum, sem var orðaður svona:  "Öreigar allra landa sameinist".


mbl.is Flokkur aðskilnaðarsinna sigraði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónína Ben. alltaf umdeild

Það hefur lengi gustað um Jónínu Ben. og var hún t.d. úthrópuð af Baugsveldinu og velunnurum þess á tímum Baugsmálsins svokallaða, en síðar meir fékk hún algera uppreist æru vegna þess máls og var þá tekin í sátt af almenningi, að mestu leiti og til hennar hefur ríkt jákvætt viðhort síðan.

Hún er þó sífellt fréttaefni og hjónaband hennar og Gunnars í Krossinum vakti mikið umtal, þó það hafi meira verið á gamansömum nótum, en rætnum.  Á síðustu árum hefur Jónína staðið fyrir Detox meðferðum, fyrst í Póllandi en nú hér á Íslandi, sem notið hafa mikilla vinsælda og þeir sem reynt hafa, hafa gefið góða umsögn og talið sig líða mun betur á eftir, bæði líkamlega og andlega.

Ekki veit ég nákvæmlega hvernig þessi Detoxmeðferð er í smáatriðum, en að því er manni skilst er ristilhreinsun í boði fyrir þá, sem það vilja, án þess að það sé nokkur skylda í meðferðarprógrammi Jónínu.  Því er það alvarlegur hlutur, þegar læknar, sem telja sig missa spón úr aski sínum, ráðast að Jónínu og meðferð hennar með ofstopa, dylgjum og ósannindum, til þess að reyna að koma inn vantrú hjá fólki á þessu heilsuátaki hennar.

Svanur Sigurgeirsson, læknir, hefur verið í fararbroddi árásarlæknanna og segir hann að dæmi séu um amöbudsýkingar í görnum eftir ristilskolanir þar sem notast hefur verið við óhreinan tækjabúnað.  Ekki heldur hann því þó fram að hjá Jónínu sé notast við óhreinan tækjabúnað, né hafa læknar bent á eitt einasta dæmi um að fólk hafi veikst í meðferðinni, eða orðið meint af á nokkurn hátt.

Svona atvinnurógur gegn meðferð, sem ætlað er að auka vellíðan fólks, andlega og líkamlega, er algerlega óþolandi, enda ekki annað að sjá, en læknar séu að verja sína eigin hagsmuni með þessum árásum á Jónínu Ben.

Jónínu er óskað góðs gengis í baráttunni við "læknamafíuna".


mbl.is Ristilskolun og sníkjudýr í görnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnimáttarkennd Samfylkingar og Vinstri grænna

Undanfarin ár, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið landsfundi sína, hefur Samfylkingin alltaf boðað til síns landsfundar á sama tíma og alltaf beðið eftir að Sjálfstæðisflokkurinn greindi frá dagsetningum síns fundar og í kjölfarið auglýst sinn fund á sömu dögum.

Nú í endaðan júní heldur Sjálfstæðisflokkurinn aukalandsfund, aðallega til þess að kjósa nýjan varaformann, ásamt umræðu um þjóðfélagsmálin og þá rýkur Samfylkingin til og auglýsir flokksráðsfund á sömu dagsetningu og Sjálfstæðisflokkurinn heldur sinn fund.  Að þessu sinni tekur VG móðurflokk sinn, Samfylkinguna, til fyrirmyndar og boðar einnig til flokksráðsfundar.

Samfylkingin hefur haft þennan hátt á undanfarin ár, vegna öfundar út í þá athygli sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins vekur ávallt, enda mikill viðburður, þegar stærsti flokkur landsins heldur sína glæsilegu landsfundi.  Með þessu reynir Samfylkingin að draga úr athyglinni, sem beinist að Sjálfstæðismönnum og vill fá að vera með í umræðunni, sem skapast vegna landsfundar Sjálfstæðisflokksins.

Vinstri grænir grípa til sama ráðs að þessu sinni og lýsir þetta auðvitað engu öðru en mikilli minnimáttarkennd gagnvart alvöru stjórnmálafundi Sjálfstæðismanna.


mbl.is Boða til flokksráðsfunda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband