Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
17.6.2010 | 12:07
Verða fjármögnunarfyrirtækin lokuð á morgun?
Hæstaréttardómarnir frá því í gær hafa valdið miklu uppnámi hjá bönkunum og þá ekki síður fjármögnunarfyrirtæknunum, sérstaklega þeim sem nánast eingöngu stunduðu lán til bíla- og vélakaupa til einstaklinga og fyrirtækja.
Bíla- og vélalánin voru undantekningarlítið gengistryggð, þ.e. höfuðstóll lánasamninganna var tilgreindur í íslenskum krónum og síðan tengdir við dagsgengi erlendra mynta, sem Hæstiréttur hefur nú kveðið upp úr um að var algerlega ólöglegt, samkvæmt lögum um verðtryggingu fjárskuldbindinga.
Lánafyrirtækjunum til mikils happs er frídagur í dag og enda þótt hátíðarhöld séu um allt land í dag, mun hugur margra fullorðinna a.m.k. vera upptekinn af hugsunum um lánin sín og hvort þau falli undir sömu skilgreiningu og lánin, sem Hæstiréttur dæmdi um í gær.
Ekki kæmi á óvart að fjármögnunarfyrirtækin yrðu lokuð á morgun, vegna "vörutalningar" eða hvers annars, sem þeim dettur í hug að bera fyrir sig, jafnvel bara "vegna veðurs".
Verði þau opin á annað borð munu verða langar biðraðir við dyr þeirra strax við opnun.
Lán mögulega áfram verðtryggð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2010 | 18:55
Á Hæstiréttur að leggjast í útreikninga á bílalánum?
Fyrstu viðbrögð lánafyrirtækjanna við þeim dómi Hæstaréttar að bannað sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum, bendir ekki til þess að öll kurl séu komin til grafar ennþá. Lánastofnanirnar munu einhvern veginn reyna að þvæla málunum áfram og reyna að finna leiðir til að klóra í bakkann.
Landsbankinn, sem er eigandi SP fjármögnunar, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna dómsins, þar sem m.a. þetta kemur fram: "Á þessu stigi er ekki vitað nákvæmlega hversu mikil áhrifin af dóminum verða á eignir SP-Fjármögnunar þar sem ekki er skorið úr um hvernig reikna á lánin. Ákveðin óvissa er því enn til staðar og er mikilvægt að henni verði eytt hið fyrsta."
Fram að þessu hafa íslenskar lánastofnanir ekki verið í neinum vandræðum með að reikna út afborganir og vexti af lánum, jafnt verðtryggðum, gengistryggðum og lánum án allra verðtrygginga. Það vekur nokkra furðu, að ætlast til þess að útreikningar á lánunum fylgdu frá Hæstarétti. Slíkir útreikningar eru varla í hans verkahring og því er hér um fyrirslátt að ræða, til að vinna tíma og hugsa upp mótleiki.
Líklegast er að lánafyrirtækin fari í nýtt mál og geri þá kröfu að í stað gegnistryggingar komi verðtrygging og munu bera því við, að alltaf hafi staðið til að lánin myndu hækka í takt við verðlag og fyrst þessi tegund verðtryggingar hafi verið ólögleg, hljóti að mega reikna á þau "venjulega" verðtryggingu.
Næstu dagar, vikur og mánuðir munu snúast um bílalán og lítið annað.
Ekki ljóst hvernig eigi að reikna á lánin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
16.6.2010 | 16:25
Hvað svo?
Hæstiréttur hefur dæmt gengistryggðu bílalánin ógild, þ.e. aldrei var heimilt að tengja íslenskan höfuðstól við dagsgengi erlendra mynta.
Þetta er stórmerkur tímamótadómur, en fréttir hafa ekki ennþá birst af forsendum dómsins, t.d. hvort upphaflegur höfuðstóll og vextir skulu þá uppreiknast óverðtryggt, eða hvort dómurinn hljóðar upp á að þessi aðferð við verðtryggingu sé ólögleg, en venjuleg verðtrygging miðuð við framfærsluvísitölu eigi þá að gilda í staðinn.
Fréttir næstu daga munu ekki snúast um annað en þennan dóm, enda stórmerkilegur.
Þjóðhátíðardagurinn og samþykkt ESB um að hefja aðildarviðræður við Íslendinga munu algerlega týnast í fréttaflóðinu af Hæstaréttardóminum.
Gengistryggingin dæmd óheimil | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
16.6.2010 | 13:36
Viðbrögð við Kínasamningunum?
Það er siður margra þjóða, að senda hver annarri hamingjuóskir á þjóðhátíðardögum og slíkt hafa Bandaríkjamenn ávallt gert í tilefni af þjóðhátiðardegi Íslendinga, enda voru þeir þjóða fyrstir til að viðurkenna sjálfstæði Íslands árið 1944.
Nú bregður hins vegar svo við, að Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sendir slíka kveðu á myndbandi, þar sem hún ávarpar þjóðina í eigin persónu og flytur henni kveðju þjóðar sinnar og er þetta nýmæli í samskiptum ríkja. Í ávarpi sínu minnir hún á núna vinni Ísland og Bandaríkin saman að því að stuðla að firði, framförum og velsæld um allan heim. Einnig tekur hún fram að á erfiðum tímum megi Íslendingar vita að Bandaríkin styðji við bakið á þeim.
Hvort þessi nýstárlega þjóðhátíðarkveðja er svar Bandaríkjamanna við fréttum af því, að Íslendingar séu nýbúnir að skrifa undir ýmsa viðskipta- og gjaldeyrissamninga við Kína, skal ósagt látið, en vissulega ýtir myndbandið undir slíkar hugrenningar. Eins er þess að minnast, að Bandaríkjamenn vildu ekki gera gjaldmiðlasamning við Íslendinga á árinu 2008, þegar slíkir samningar voru gerðir við öll hin norðurlöndin.
Ekki má heldur gleyma því, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur gert það sem í hans valdi stendur undanfarin ár, til að spilla samskiptum Íslands við Bandaríkin til þess að nýta sér verri samskipti landanna til áróðurs fyrir inngöngu Íslands í ESB, með þeim rökstuðningi að Ísland þurfi að leita sér nýrra bandamanna.
Einn liður í því að spilla samskiptum þjóðanna var að móðga svo fráfarandi sendiherra Bandaríkjamanna, að hér á landi var ekki skipaður nýr fyrr en tæpum tveim árum eftir að sá niðurlægði yfirgaf landið.
Slíkar móðganir gagnvart sendiherrum eru túlkaðar sem móðgun við þjóð þeirra og það vissi Össur vel og var einmitt tilgangur hans með dónaskap sínum.
Clinton sendir Íslendingum kveðju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
16.6.2010 | 08:38
Varð ekki trúður, en borgarstjóri í staðinn
Jón Gnarr þreytist ekki á að lýsa þeim berskudraumi sínum að verða trúður í Sirkus Billy Smart, en sá draumur hafi því miður aldrei ræst, en það næsta sem hann hafi komist í að uppfylla æskudrauminn hafi verið með því að verða borgarstjóri í Reykjavík.
Góðir trúðar eru þeim eiginleikum gæddir, að þeir geta bæði fengið fólk til að hlæja og gráta, oftast með látbragðsleik einum saman og oft skemmir bara fyrir, ef þeir reyna að bæta tali og texta inn í atriði sín. Utan sirkushringsins er sagt að hinir bestu trúðar séu oft hæglátir, feimnir og ekkert endilega skemmtilegir í mannlegum samskiptum, enda ekki tamt að tjá sig í orðum.
Jón Gnarr á það sameiginlegt með mörgum öðrum trúðum, utan sirkustjaldsins, að vera ótrúlega klaufalegur í svörum, kemur illa fyrir sig orði, rekur oft í vörðurnar og lætur hreinlega illa að tala öðruvísi en eftir fyrirfram skrifuðu handriti. Í tilfelli borgarmálanna er hann algerlega á gati og svarar yfirleitt út í hött, enda hefur hann ekki hugmynd um hvað málin snúast innan borgarkerfisins og þó fólk stökkvi ekki alskapað inn á þann vettvang, frekar en annan, þá væri að minnsta kosti hægt að ætlast til, að reynt væri að kynna sér þau mál, sem fólk tekur að sér að sinna í annarra umboði.
Leiktjöldin hafa verið dregin frá og sirkussýningin er byrjuð, með Jón Gnarr í hlutverki trúðsins.
Aðrir borgarfulltrúar virðast aðallega vera búningahönnuðir og "sminkur" sem sjá um andlitsfarðann.
Jón Gnarr með lyklavöldin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.6.2010 | 15:06
Bullandi borgarstjóri sem ætlar ekki að gera neitt
Í upphafi, þegar Jón Gnarr tilkynnti að hann hygðist bjóða fram til borgarstjórnar og verða borgarstjóri, þá sagðist hann ekki ætla að gera neitt sjálfur, heldur láta starfsmönnum borgarinnar alla vinnuna eftir, en njóta bara þess að vera í þægilegri innivinnu á góðum launum og með einkabílstjóra og ætlaði sér ekki að vera á skrifstofunni nema tvo til þrjá tíma á dag, enda myndi hann ekki þurfa þess, þar sem hann ætlaði ekki að gera neitt.
Nú virðist þessi draumsýn hans vera að rætast, þar sem allir flokkar í borgarstjórn ætla að taka þátt í gríninu og létta honum lífið í nýja starfinu eins mikið og mögulegt er. Alla kosningabaráttuna skein í gegn, að Jón Gnarr hafði ekki minnstu hugmynd um út á hvað starfsemi borgarstjórnar gengi og öll svör hans um borgarmálefnin báru þess glöggt vitni.
Ekki tók betra við í dag, þegar hann flutti innsetningarræðu sína í borgarstjóraembættið, því annað eins bull hefur ekki heyrst lengi, eins og úrdráttur úr ræðunni, sem birtur er hér á mbl.is, ber með sér. Þar segir hann að draumur sinn hafi frá barnæsku verið sá, að verða trúður og er ekki annað að skilja, en að hann líti svo á að nú sé sá draumur hans að rætast. Um annað í þessari ruglræðu vísast nánar í fréttina sjálfa.
Lokaatriði þess trúðsleiks, sem fluttur var í borgarstjórn í dag, endaði samkvæmt fréttinni á þessa leið:
"Jón sagðist trúaður á að hægt væri að fá borgarbúa til að hafa minni áhyggjur og vera betri hver við annan. Sagði hann að áhyggjur hefðu aldrei skilað neinu eða leyst nein vandamál. Hún væri andstæða jákvæðninnar. Kærleikurinn væri gjörningur, því það væri ekki til neins að játa einhverjum ást sína í sífellu, en gera aldrei neitt gott fyrir viðkomandi. Þess vegna ætlaði hinn nýi meirihluti að reyna að gera eitthvað gott fyrir borgarbúa. Sagði Jón að hann hefði ákveðið að gera Kardimommubæinn að vinabæ Reykjavíkur.
All you need is love, love is all you need, sagði Jón að lokum."
Án nokkurs vafa verður þessi fíflagangur túlkaður sem tákn um breytta og betri tíma í íslenskri pólitík.
Það er líklega rétt túlkun, a.m.k. hefur svona skrípaleikur ekki tíðkast í pólitík hér á landi hingað til.
Meira ímyndunarafl en rökhugsun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.6.2010 | 13:17
Hefndarþorstinn plagar Jóhönnu Sigurðardóttur.
Það voru gífurleg vonbrigði fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, að ríkissaksóknari komst að sömu niðurstöðu og Rannsóknarnefnd Alþingis, að engin ástæða væri til að stefna Jónasi Fr. Jónssyni, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins og bankastjórum Seðlabankans, sérstaklega Davíð Oddsyni, fyrir dóm vegna þeirra tveggja eða þriggja atriða, sem rannsóknarnefndin taldi að flokkaðist undir mistök eða handvömm í starfi í aðdraganda bankahrunsins.
Jóhanna hefur verið mikil hatursmanneskja Davíðs í langan tíma og hennar fyrsta verk sem forsætisráðherra var að bola honum úr starfi seðlabankastjóra og fórnaði hinum tveim í leiðinni, því allt var til vinnandi við að reyna að niðurlægja Davíð. Nokkrum mánuðum síðar tók hann við ritstjóraembætti Moggans og eftir að skýrslan kom út, fyrirskipaði Jóhanna þingnefnd undir forsæti Atla Gíslasonar, að kæra Davíð á grundvelli rannsóknarskýrslunnar, þó rannsóknarnefndin hefði ekki talið til þess ástæðu, enda var kærunni vísað frá af ríkissaksóknara.
Jóhanna er þó ekki dauð úr öllum æðum, því nú hefur hún fyrirskipað Atla að skipa undirnefnd til að rannsaka einkavæðingu bankanna í þeirri von, að eitthvað bitastætt finnist í því ferli, sem hægt væri að nudda Davíð uppúr og helst að senda til ríkissaksóknarans í von um að hægt væri að ákæra, bara fyrir eitthvað.
Hefndarþorsti Jóhönnu er svo óslökkvandi, að hún gefur það út, að ef Atli Gíslason gegni ekki þessari skipun hennar, þá skipi hún bara rannsóknarnefnd sjálf, því svo mikið ligggi við að reyna að koma höggi á höfuðóvin hennar.
Hvers vegna hún skipar ekki nefndina sjálf núna strax, er hins vegar hulin ráðgáta.
Einkavæðing bankanna rannsökuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.6.2010 | 10:54
Vonandi er Hanna Birna ekki að skjóta sig í fótinn
Ef frétt Vísis er rétt, um að Hanna Birna hafi samþykkt að taka að sér að verða forseti borgarstjórnar fyrir meirihluta brandarakallanna í Besta flokknum og hina algerlega ófyndnu Samfylkingu, verður að telja að hún sé að taka mikla pólitíska áhættu.
Góð samvinna milli allra borgarfulltrúa er allra góðra gjalda verð, en staðreyndin er sú, að Besti flokkurinn og Samfylkingin mynduðu með sér meirihlutasamstarf, með málefnasamningi og embættaskiptum, sem Sjálfstæðisflokki og VG var haldið utan við.
Verði þetta niðurstaðan verður að gera ráð fyrir að henni fylgi samkomulag um formennsku í einhverjum af þungaviktarnefndum borgarstjórnar, því embætti forseta borgarstjórnar er fyrst og fremst virðingarstaða, án mikilla áhrifa eða valda. Forseti borgarstjórnar er annast þó undirbúning borgarstjórnarfunda og stýrir þeim, ásamt því að vera fulltrúi borgarstjórnar við ýmis opinber tækifæri.
Hér hafa oft verið settar fram miklar efasemdir um þennan nýja meirihluta í borgarstjórn og sú skoðun látin í ljós, að Hanna Birna ætti ekki að taka þessu boði um forsetastól borgarstjórnar, og alls ekki nema raunveruleg áhrif á málefnasamninginn og framkvæmd hans fylgi.
Í dag og ekki síður á næstu mánuðum kemur í ljós, hvort Hanna Birna og Sjálfstæðismenn í borgarstjórn séu að skjóta sig í fótinn með þessari ákvörðun.
Vísir: Hanna Birna þiggur embættið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2010 | 08:52
Ekkert rætt um fjárhagsstöðu heimilanna á síðasta degi þingsins
Síðasti dagur þessa þings er runninn upp og eru fyrirséðar miklar annir á þingfundi í dag, enda eru 23 mál til afgreiðslu, þar af allmörg til lokaafgreiðslu.
Í gær lýstu ýmsir þingmenn því yfir, að ekki kæmi til greina að fresta þinginu, án þess að málefni heimilanna í landinu fengju sómasamlega afgreiðslu áður en síðasta þingfundi yrði slitið. Einna sterkust yfirlýsing þar um kom frá fjármálaráðherranum, Steingrími J. Ef dagskrá þingsins í dag er skoðuð, kemur í ljós að ekki eitt einasta mál, sem tengist fjárhagsvanda heimilanna er á dagskránni, nema vera skyldi liður nr. 7. sem nefnist "Aðför og gjaldþrotaskipti (árangurslaust fjárnám)"
Ýmis bráðnauðsynlegri mál, en vandi heimilanna, er hinsvegar til umræðu og má þar t.d. nefna frumvarp um erfðabreyttar lífverur og siðareglur fyrir stjórnarráðið. Hvort tveggja bráðnauðsynleg mál, sem ekki geta beðið til haustsins, eins og fjármálin og atvinnumálin.
Til glöggvunar er líklega rétt að birta dagskrá þessa síðasta þingfundar hér fyrir neðan, svo fólk geti kynnt sér brýnustu málin, sem til úrlausnar eru á Alþingi á lokadegi þingsins:
142. þingfundur 15.06.2010 kl. 10:00
1. | Óundirbúinn fyrirspurnatími. |
2. | Kosning þriggja aðalmanna og jafnmargra varamanna í kjararáð, frá 1. júlí 2010, til fjögurra ára, skv. 2. gr. laga nr. 47 14. júní 2006, um kjararáð. |
3. | Kosning eins aðalmanns og eins varamanns í dómnefnd skv. 2. gr. laga nr. 45/2010 um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum. |
4. | Upprunaábyrgð á raforku (EES-reglur) 576. mál, lagafrumvarp iðnaðarráðherra. 3. umræða. |
5. | Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra (EES-reglur, tímamörk í upplýsingagjöf) 484. mál, lagafrumvarp félags- og tryggingamálaráðherra. 3. umræða. |
6. | Sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands 508. mál, lagafrumvarp dómsmála- og mannréttindaráðherra. 3. umræða. |
7. | Aðför og gjaldþrotaskipti (árangurslaust fjárnám) 447. mál, lagafrumvarp dómsmála- og mannréttindaráðherra. 3. umræða. |
8. | Höfundalög (EES-reglur, takmarkanir á höfundarétti o.fl.) 523. mál, lagafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra. 3. umræða. |
9. | Ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi (heildarlög) 574. mál, lagafrumvarp iðnaðarráðherra. 3. umræða. |
10. | Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum (EES-reglur, aukin vernd launamanna) 556. mál, lagafrumvarp félags- og tryggingamálaráðherra. 3. umræða. |
11. | Stjórnlagaþing (heildarlög) 152. mál, lagafrumvarp forsætisráðherra. 3. umræða. |
12. | Samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012 582. mál, þingsályktunartillaga samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Síðari umræða. |
13. | Þjóðaratkvæðagreiðslur (heildarlög) 112. mál, lagafrumvarp forsætisráðherra. Frh. 2. umræðu. |
14. | Erfðabreyttar lífverur (EES-reglur, upplýsingagjöf til almennings) 516. mál, lagafrumvarp umhverfisráðherra. 2. umræða. |
15. | Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (EES-reglur, heildarlög) 255. mál, lagafrumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra. 2. umræða. |
16. | Stjórnarráð Íslands (siðareglur) (siðareglur) 375. mál, lagafrumvarp forsætisráðherra. 2. umræða. |
17. | Afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi 383. mál, þingsályktunartillaga BirgJ. Síðari umræða. |
18. | Stjórn fiskveiða (byggðakvóti) (byggðakvóti) 424. mál, lagafrumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 2. umræða. |
19. | Stjórn fiskveiða (tilfærsla aflaheimilda) (tilfærsla aflaheimilda) 468. mál, lagafrumvarp EKG. 2. umræða. |
20. | Stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir 650. mál, lagafrumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 2. umræða. |
21. | Varnarmálalög (afnám Varnarmálastofnunar) 581. mál, lagafrumvarp utanríkisráðherra. 2. umræða. |
22. | Vatnalög og varnir gegn landbroti (afnám laganna) 577. mál, lagafrumvarp iðnaðarráðherra. 2. umræða. |
23. | Veiting ríkisborgararéttar 667. mál, lagafrumvarp allsherjarnefndar. 1. umræða. |
Þétt dagskrá á þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Í viðtali við Moggann segist Steingrímur J. skilja vel, hvers vegna stór meirihluti þjóðarinnar sé andvígur því að Ísland verði innlimað sem smáhreppur í væntanlegt stórríki Evrópu.
Eftirfarandi klausa úr viðtalinu sýnir vel skilning Steingríms á málinu: Fólk fylgist með fréttum af erfiðleikum víða í Evrópu, stöðu evrunnar og fjárhagsvanda margra ríkja. Aukin Evrópusamvinna virðist ekkert sérstaklega spennandi við þær aðstæður, segir Steingrímur og bendir á svipaða þróun í viðhorfi almennings í löndunum í kringum okkar."
Það er ekki nóg með að formaður VG hafi fullan skilning á viðhorfi almennings á Íslandi, heldur skilur hann vel hvernig margir í löndunum í kringum okkur hugsa ESB þegjandi þörfina. Hins vegar virðist formaðurinn ekki hafa neinn skilning á afstöðu sinna eigin flokksmanna, sem ítrekað hafa samþykkt á þingum sínum að Ísland skuli alls ekki ganga í bandalagið og reyndar hafa þeir á sinni stefnuskrá að sækja ekki einu sinni um aðild.
Það er mjög gott og ánægjulegt, þegar ráðamenn eru skilningsríkir á vilja þjóðar sinnar.
Enn betra væri, ef þeir virtu þann vilja einhvers.
Skilur lítinn stuðning við ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)