Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
12.4.2010 | 13:30
Fyrstu viðbrögð eftir kynningu skýrslunnar
Við áhorf og hlustun á fréttamannafund Rannsóknarnefndar Alþingis og Siðgæðisnefndarinnar virðist vera hægt að draga eftirfarandi ályktanir af henni:
Bönkunum og helstu fyrirtækjum landsins var stjórnað af nokkrum glæpaklíkum með einbeittan brotavilja, sem beindist aðallega að því að skara eld að eigin köku og undandrætti fjármuna á eigin bankareikninga í skattaskjólum.
Stjórnvöld voru allt of veikburða til að þora að leggja í baráttu við glæpaklíkurnar, ráðherrar og starfsfólk stjórnsýslunnar ætluðust til að einhver annar en það sjálft ætti að móta tillögur um varniráætlanir og þess vegna var ekkert aðhafst.
Fjármálaefitlitið var undirmannað og illa skipað og hafði ekki þekkingu né getu til að gagnrýna endurskoðaða reikninga bankanna og þær skýrslur sem lagðar voru fyrir það og hafði heldur enga burði til að fylgja sínum litlu athugasemdum eftir.
Seðlabankinn var eini aðilinn, sem varðaði við ástandinu, en gerði það ekki á nógu formlegan hátt og vegna haturs Ingibjargar Sólrúnar á Davíð Oddsyni var ekki mark tekið á ábendingum hans, að bankinn hefði ekki lagaheimildir til að grípa inn í málin. Í öðrum efnum gerði bankinn mistök og sýndi vanrækslu með aðgerðum í sumum efnum og aðgerðarleysi í öðrum.
Forsetinn mærði og dásamaði glæpaklíkurnar og dró upp þá mynd af þeim, að þar færu einstakir snillingar og öll gagnrýni á þá væri runnin undan rótum öfundarmanna og óvina mestu viðskiptasnillinga veraldar.
Þjóðin fékk að lokum sinn skammt, með því að hafa dansað hrunadansinn í takt við undirspil forsetans og glæpamannanna, enda siðferðisvitund okkar sem þjóðar ekki merkileg.
Niðurstaðan er því sú, að allir eru sekir, en misjafnlega mikið þó.
Seðlabanki braut eigin reglur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.4.2010 | 08:33
Hvernig verður umræðan, áður en búið verður að lesa skýrsluna?
Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis mun verða birt klukkan hálf ellefu í dag og Alþingi mun síðan taka skýrsluna til umræðu eftir hádegið, án þess að nokkur einasti þingmaður verði búinn að lesa annað en lokaorð skýrslunnar.
Eins mun fara af stað kröftug umræða út um allt þjóðfélagið án þess að nokkur hafi í raun grunndvöll til að byggja skoðanir sínar á, því það mun taka marga daga að fara í gegnum skýrsluna af einhverju viti og brjóta efni hennar til mergjar.
Flestir munu þurfa að byggja skoðun sína á skýrslunni eftir umfjöllun fjölmiðlanna um hana, en þeir hafa hins vegar flestir sýnt að þeir eru langt í frá hlutlausir, þegar kemur að því að greina mál og útskýra, heldur byggast skoðanir þeirra og framsetning aðallega á pólitískum skoðunum og eigendatengslum.
Á meðan hismið verður skilið frá höfrunum, verður a.m.k. fjörug umræða um Davíð Oddsson.
Skýrslan handan við hornið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.4.2010 | 18:51
Hvað ætti að valda óróa?
Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, hvetur fólk til að halda ró sinni og stillingu við útkomu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, en ekkert kemur fram um, hvað ætti að valda einhverri sérstakri ólgu, umfram það, sem verið hefur í samfélaginu vegna bankahrunsins og afleiðinga þess.
Stöðugt hafa verið að síast út fréttir af framferði eigenda bankanna og lánveitingum þeirra til sjálfra sín, sem voru svo geðveikislegar og lítið í ætt við viðskiptavit, að fólk hefur orðið agndofa vegna þeirrar siðblindu þessarar manna sem afhjúpast betur og betur.
Þó fólk sé ekki orðið ónæmt fyrir þessum fréttum, er engin ástæða til að almenningur hafi ekki meiri stjórn á sjálfum sér en svo, að hann fari að æða út á götur og torg með skrílslæti og uppþot, þó út komi skýrsla, sem setur þessar gjörðir allar í samhengi og hverjir séu ábyrgari en aðrir fyrir því hvernig fór.
Aðeins brot almennings hefur það hugarfar, sem þarf til að fremja glæpi eins og þá sem skýrslan mun vafalaust afhjúpa og því ætti að vera lítil hætta á, að fólk flykkist út á götur til að aflífa sökudólgana.
Fólk haldi ró sinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.4.2010 | 14:08
Árni Páll enn að "útfæra"
Árni Páll boðaði það með miklum hvelli fyrir rúmum mánuði síðan, að hann væri að ganga frá frumvarpi til laga um að lækka höfuðstól allra erlendra bílalána niður í 110% af matsverði bifreiðar, breyta þeim síðan í verðtryggð lán með 15% vöxtum, en aðeins ætti eftir að "útfæra" hugmyndina nánar. Frumvarpið átti hins vegar að leggja fram í "næstu viku".
Stuttu síðar kom yfirlýsing frá Árna um að nú væri hann kominn í viðræður við bílalánafyrirtækin um erlendu lánin og gengju þær bara vel, en að vísu ætti eftir að "útfæra" lausnirnar á málinu, en von væri á niðurstöðu í "næstu viku".
Enn skeiðar Árni Páll fram á völlinn og segist búinn að vera í miklum og ströngum viðræðum við lánafyrirtækin, en þau hafi bara ekki efni á að afskrifa neitt, enda muni Deutse Bank stefna ríkinu, ef það neyði þessum afskriftum upp á sig, því það er þýski bankinn, sem á flestar kröfurnar og er þar að auki vanur því, að fá sín útlán endurgreidd og skilur ekki íslenska hugsunarháttinn um lántökur og endurgreiðslur þeirra.
Vænta má frumvarps frá Árna Páli í "næstu viku", þegar búið verður að "útfæra" hugmyndirnar.
Lög sett um bílalán náist ekki samkomulag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.4.2010 | 11:52
Þessu fólki er ekki viðbjargandi
Það bregst nánast aldrei, að þegar gefnar eru út viðvaranir um óveður og fólki ráðlagt að halda ekki til fjalla, jökla eða á hálendið yfirleitt, að þá bregst varla að kalla þurfi út björgunarsveitir til að leita að einhverjum, stundum rjúpnaskyttum, stundum göngufólki og stundum jeppa- og vélsleðafólki, sem álpast upp á jökla.
Það er minna hægt að hneykslast á útlendingum, sem þekkja ekki staðhætti og vita jafnvel ekki hvernig og hversu snögg veðrabrigðin eru oft, en þegar Íslendingar eiga í hlut, gilda engar afsakanir og liggur við að viðvörunum um óveður ætti að fylgja yfirlýsing um að ef fólk tekur ekki mark á þeim, þá fari það til fjalla á eigin ábyrgð og ekki verði haft fyrir því að kalla út leitarflokka.
Nú síðustu daga hafa glumið í öllum fjölmiðlum viðvaranir um óveður á gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi, en þrátt fyrir það er fólk að lenda þarna í vandræðum, eins og þessi setning úr fréttinni ber með sér: " Að sögn lögreglu þurftu nokkrir frá að hverfa sem reyndu að komast að eldgosinu um Mýrdalsjökul í gær, vegna bleytu, krapa og slæmrar færðar."´
Erlenda göngufólkið, sem lætur fyrirberast í Baldvinsskála hefur líklega lagt í göngutúrinn áður en veðrið skall á og er ekki í sérstakri lífshættu, en þeim sem láta sér detta í hug að fara í bíltúr upp á jökul, eftir þær viðvaranir sem dunið hafa undanfarið, er ekki viðbjargandi og því ætti ekki heldur að gera neinar tilraunir til að bjarga þeim.
Föst á Fimmvörðuhálsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.4.2010 | 18:36
Siðblindir útrásarvíkingar
Það sem hefur verið að opinberast almenningi undanfarið og á sjálfsagt eftir að koma miklu betur í ljós, bæði með útgáfu rannsóknarskýrslunnar og ekki síður þegar Sérstakur saksóknari fer að birta ákærur sínar, er ótrúleg siðblinda helstu starfsmanna bankanna og eigenda þeirra, sem oftast voru einnig stærstu skuldarar eigin banka.
Helsta vopn siðblindingjanna upp á síðkastið er að hóta hverjum þeim, sem dirfist að fjalla um þá málsókn og skaðabótakröfum vegna "ærumeiðinga" og nokkrum fréttamönnum hefur verið stefnt nú þegar. Þessir siðblindingjar skilja ekki einu sinni að þeir sem mest hafa skaðað orðspor þeirra eru þeir sjálfir og hafa þeir enga utanaðkomandi aðstoð þurft til þess.
Jón Ásgeir í Bónus leyfir sér þá ósvífni að senda bréf til fjármálaráðherra til að reyna að koma því inn hjá ráðherrunum, að þeir hafi ekki fullt málfrelsi um ótrúlega fimleika bankaeigendanna við að koma fjármunum í eigin vasa og í banka- og skattaparadísir.
Þeir, sem ekki kunna að stökkva heljarstökk og flikk flakk, en gera það samt, eiga á hættu að fótbrotna.
Það hefðu þessir klunnar átt að hafa í huga, áður en þeir stukku.
Bakkar ekki með nein ummæli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2010 | 12:24
Ítrekaðar viðvaranir til skattsvikara
Í gær kom fram í fréttum að skattrannsóknarstjóri hefði fryst eignir tveggja auðmanna, sem grunaðir væru um skattsvik, enda hefði komið í ljós, að ýmsir, sem lægju undir grun, hefðu verið að skjóta eignum undan, t.d. með því að tæma bankareikninga "fyrir framan nefið á ríkinu".
Eins kom fram, að á næstu vikum og mánuðum myndu tugir slíkra kyrrsetninga verða framkvæmdar, til að byrja með yrði miðað við 50 milljóna króna skattundandrátt, en síðar yrðu kyrrsettar eignir vegna lægri upphæða.
Vinnubrögðin við lagabreytinguna, sem gerir þessar kyrrsetningar mögulegar, eru ótrúlega einkennileg, en nokkra mánuði tók að velta henni í gegnum Alþingi, án þess að nokkur sérstakur ágreiningur væri um málið, eða eins og skattrannsóknarstjóri segir: "Lagabreytingin sem gerð var nú í lok marsmánaðar og gerir embættinu kleift að frysta eignir hefði vissulega mátt koma fyrr, enda verið til umfjöllunar í þinginu í nokkur misseri. Vel hafi þó gengið að koma lagabreytingunni í gegn nú og samstaða ríkt um hana í þinginu."
Þessi langi aðdragandi að lagasetningunni var auðvitað tími, sem allir sem upp á sig vissu einhverja sök, eru búnir að koma öllum þeim eignum undan, sem mögulegt er og endurheimt þeirra verður því miklu erfiðari en ella. Við síendurteknar aðvaranir yfirvalda, munu þessi unanskot eigna margfaldast og færast stöðugt neðar í upphæðum, enda margir mánuðir til stefnu.
Um þessa ótrúlega kauðalegu framkvæmd var nánar fjallað í gær, hérna
Tollstjóri leitar eignanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.4.2010 | 19:32
Skattsvikararnir voru varaðir við með löngum fyrirvara
Stefán Skjarldarson, skattrannsóknarstjóri, hefur nú, seint og um síðir, fryst eignir tveggja grunaðra skattsvikara af stærri gerðinni, líklega útrásarvíkinga og boðar tuga slíkra aðgerða á næstu vikum og mánuðum.
Aðgerðirnar væru góðar og gildar út af fyrir sig, hefði ekki verið gefin út viðvörun um þessa framkvæmd með margra vikna fyrirvara, en snemma í vetur fór ríkisstjórnin og skattayfirvöld að tala um að bráðum yrði farið að grípa til svona aðgerða, til að forðast undanskot eigna. Nú er erftirfarandi hinsvegar haft eftir skattrannsóknarstjóranum: "Að bankareikningar hefðu verið tæmdir fyrir framan nefið á ríkinu". Menn hefðu ekki áttað sig á því hvað menn hefðu verið flinkir í að skjóta undan eignum."
Héldu yfirvöld virkilega að þau væru að kljást við einhverja viðvaninga? Datt þeim í hug, að þaulvanir svikahrappar myndu bíða með bankainnistæðurnar sínar og aðrar eignir, eftir því að skatturinn kæmi og kyrrsetti þær? Þetta lýsir slíkri fákænsku í stjórnsýslu og eftirliti, að með ólíkindum er, nema aðvaranirnar hafi verið gefnar með svona miklum fyrirvara viljandi, einmitt til þess að gefa skattsvikurunum tækifæri til að skjóta öllu undan, sem hægt væri að koma undan.
Ekki minnka undanskotin við það, að tilkynna að tugur slíkra mála sé í uppsiglingu. Ef einhver á eftir að skjóta undan eignum, mun hann gera það strax og bankar opna á mánudaginn.
Á mánudaginn verður rannsóknarskýrslan birt og þá verður enginn með hugann við að hindra skattaundanskot.
Eignir auðmanna frystar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.4.2010 | 15:34
Vel gert, ef ekki fylgir leynisamningur um Icesave
Undanfarið hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar lýst því yfir að líklega væri búið að tryggja meirihlutastuðning í stjórn AGS fyrir að önnur endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS verði tekin til afgreiðslu í stjórninni og lýsti Steingrímur J. þeirri von, að endurskoðunin yrði tekin fyrir nú í Aprílmánuði.
Nú virðist vera að koma á daginn, að þetta hafi verið rétt mat hjá Steingrími, sem verður að teljast afar óvenjulegt, því fram að þessu hefur nánast ekkert staðist af því, sem ríkisstjórnin hefur látið í veðri vaka, að hún væri að koma í verk, því venjulega hefur fylgt sú yfirlýsing, að eftir væri að útfæra málin nánar og svo hefur ekki til þeirra spurst aftur. Má þar til dæmis nefna aðgerðir vegna skuldavanda íbúða- og bílakaupenda, sérstaklega vegna erlendu lánanna.
Sé þessi fyrirtekt í stjórn AGS án allra skilyrða um að Íslendingar gangist undir fjárkúgun Breta og Hollendinga vegna Icesave, má hæla Steingrími J. fyrir að hafa komið endurskoðuninni á dagskrá stjórnar AGS, en um leið fellur þá væntanlega niður hræðsluáróðurinn um að hérlendis fari allt norður og niður, verði ekki látið undan hótunum kúgunarþjóðanna.
Sé hins vegar einhver leynisamningur um Icesave í pokahorninu, þá mun þjóðin aldrei sætta sig við niðurstöðuna og slíkt yrði ríkisstjórninni seint fyrirgefið.
Samkomulag um endurskoðun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.4.2010 | 11:31
Umræðan verði ekki eyðilögð með pólitísku karpi
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, beinir því til flokkssyskina sinna, að eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis verði birt, reyni þau ekki að hvítþvo sjálf sig allri ábyrgð á aðdraganda og hruns bankakerfisins og reyni að varpa henni alfarið yfir á aðra flokka.
Þetta er ágæt ábending frá Sigríði Ingibjörgu og ástæða til að beina henni einnig til annarra flokka, því aðalatriðið á að vera að reyna að finna hinar réttu skýringar á málinu og forðast pólitískan leðjuslag, sem eingöngu yrði til að beina athyglinni frá aðalatriðum málsins. Mestu skiptir að ábyrgð hvers og eins einstaklings verði dregin fram í dagsljósið, án tillits til þess hvar í flokki viðkomandi er, eða var, og réttur lærdómur verði dreginn að þessum skelfilegu málum.
Sennilega er alveg sama hve vel stjórnmálamenn og eftirlitsstofnanir hefðu reynt að fylgjast með starfsemi bankanna og eigenda þeirra, því sá sem haldinn er einbeittum brotavilja finnur alltaf leið til að fremja sín lögbrot og hylja slóð sína, a.m.k. um stundarsakir, en yfirleitt komsast svik alltaf upp um síðir.
Reikna má með að fyrsta vika umræðnanna um skýrsluna fari að mestu í að finna allt, sem þar er sagt um Davíð Oddsson og hvað sem það verður, mun verða deilt hart um þá umsögn, síðan mun umræðan flytjast yfir á aðra stjórnmálamenn, ef að líkum lætur, þá Bankaeftirlitið og svo að lokum að raunverulegum hrunameisturum, þ.e. bönkunum sjálfum, eigendum þeirra og öðrum fjárglæframönnum, sem settu hér allt á hliðina með glæfraverkum sínum. Enginn þeirra hefur þó sýnt nokkur merki iðrunar, eða að hann telji sig bera ábyrgð á þessum málum, enda siðblindan á eigin gjörðir alger.
Spenningurinn eftir birtingu skýrslunnar er mikil og umræðan verður vafalaust fjörug.
Hver og einn verður að gangast við ábyrgð sinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)