Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010
15.4.2010 | 08:42
Túristagos?
Vegna margra tiltölutega lítilla eldgosa á undanförnum áratugum, allt frá Heimeyjargosinu, erum við Íslendingar farnir að líta á eldgos eins og hverja aðra áramótabrennu, sem fólk flykkist að, sér og sínum til skemmtunar og án mikillar fyrirhyggju eða varúðar.
Eldgos undanfarinna áratuga hafa verið kölluð "túristagos" og þeim nánast fagnað eins og hverju öðru nýju og atvinnuskapandi verkefni, sem ferðaþjónustan gæti grætt vel á og vonast hefur verið eftir að gosin stæðu nógu lengi, til að hægt væri að hafa "gott upp úr þeim".
Nýja gosið í Eyjafjallajökli ætti að sýna okkur að þetta viðhorf til eldgosa er meira en varasamt, því þetta gos er hreint ekkert túristagos, því það stöðvar flugumferð í nágrannalöndunum og er alls ekki til að greiða götu ferðamanna og annarra, sem þurfa nauðsynlega að komast leiðar sinnar.
Þetta gos er þó einungis sýnishorn af því sem getur gerst ef Katla fer að gjósa, því fyrir utan allt það tjón, sem hún mun valda á fólki, mannvirkjum og búpeningi, mun hún væntanlega stöðva alla flugumferð í Evrópu og jafnvel miklu víðar, því öskufall frá henni gæti borist hálfan eða heilan hring um hnöttinn og hafa skelfilegar afleiðingar víða um heim.
Slíkt eldgos yrði aldeilis ekkert "túristagos", heldur gæti það þvert á móti drepið allan ferðaiðnað landsins og þó víðar væri leitað.
Eldgosið truflar flugumferð í Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2010 | 15:23
Ólíkt hefst fjármálaráðherrann að
Þegar erfiðleikar bresta á, þarf oft sannar hetjur til að takast á við vandann, sem aldrei leysist sjálfkrafa, en sumir ýta alltaf vandanum á undan sér eða gefast alveg upp, en aðrir ráðast að vandamálinu og leysa úr því.
Eftirfarandi klausa úr fréttinni lýsir vel viðbrögðum sannrar alþýðuhetju á örlagastundu, þegar brúnni á Markarfljóti var bjargað frá skemmdum vegna flóðsins, sem eldgosið orsakaði, en frásögnin er svona: "Bændur á svæðinu bera mikið lof á Guðjón Sveinsson gröfumann frá Uxahrygg á Rangárvöllum og segja að hann hafi forðað því að hlaupið olli ekki meira tjóni. Guðjón rauf þrjú skörð í veginn til að auðvelda hlaupinu að komast áfram og létti þannig þrýstingi á brúna.
Þegar Guðjón var að rjúfa skarð númer tvö sá hann að bylgja kom að honum. Hann hélt samt áfram að grafa, en þegar hann leit við sá hann að önnur og enn stærri bylgja var að koma. Þá bakkaði hann vélinni í snarheitum á öruggan stað og hóf að grafa þriðja skarðið í veginn.
Guðjón er núna að moka möl í áveituskarð í um 100 ára gömlum varnargarði við Markarfljót."
Þetta er lýsing á aðdáunarverðum viðbrögðum við aðsteðjandi vanda, en á meðan að á þessu stóð var fjármálaráðherra að álpast um veginn og varð innlyksa milli tveggja flóða, en björgunarmönnum þótti ástæða til að láta hann dúsa þar, en vera heldur til taks til að bjarga einhverju mikilvægara, ef á þyrfti að halda.
Ríkisstjórnin og ráðherrarnir ættu að taka hugsunarhátt og framtakssemi Guðjóns Sveinssonar frá Uxarhrygg til fyrirmyndar í sínum störfum. Þá er hugsanlegt að einhverntíma tækist að áorka einhverju til uppbyggingar atvinnulífsins í landinu og minnkunar atvinnuleysisins.
Það gerist ekki með því að standa og horfa á vandamálin vaxa á báðar hendur.
Gröfumaðurinn bjargaði miklu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
14.4.2010 | 10:33
Bankaeftirlit hvergi nógu mikið - allir sjá það núna
Eftir efnahagshrunið árið 2008 hefur komið í ljós að bankaeftirlit hefur alls staðar verið í lágmarki og tók frekar mið af hagsmunum bankanna sjálfra en viðskiptamanna þeirra. Mikil umræða hefur verið í Bandaríkjunum um allt of slakt bankaeftirlit, sem ekki hafði yfirsýn yfir það sem var að gerast þar í landi, t.d. vegna húsnæðislánanna, sem að lokum ollu lausafjárþurrð í fjármálakerfinu og ýtti gjaldþrotakeðju bankanna af stað.
Hér á landi hefur Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn legið undir miklum ásökunum um að hafa ekki fylgst nógu vel með innra starfi bankanna, sem þó blésu út, tuttugufalt á fáeinum árum, án þess að hið opinbera kerfi næði að fylgja þeim útblæstri eftir af sinni hálfu, enda treystu þessir aðilar meira og minna á upplýsingar frá bönkunum sjálfum og löggiltum endurskoðendum þeirra. Ábyrgð þessara löggiltu endurskoðenda er því mikil og viðbúið að fjöldi þeirra muni sæta ákærum fyrir óvönduð vinnubrögð og villandi áritanir á uppgjör bankanna.
Nú stígur Gordon Brown fram og biðst afsökunar á þeim mistökum, að hafa ekki í fjármálaráðherratíð sinni innleitt strangari löggjöf og eftirlit með breskum bönkum, enda hefur breski ríkissjóðurinn þurft að dæla ótrúlegum upphæðum til björgunar bankakerfisins, án þess þó að geta bjargað öllum bresku bönkunum.
Um þetta segir í fréttinni: "Sannleikurinn er sá að jafnt á heimsvísu sem og hér í Bretlandi hefðum við átt að auka eftirlitið með bönkunum, er haft eftir Brown í breskum fjölmiðlum. Hann segist nú sjá að hann hefði hátt að hafa almannahagsmuni að leiðarljósi en ekki bankanna, en tekur fram að hann hafi lært af reynslunni."
Reynslan hefur verið dýrkeypt í Bretlandi, þeirri aldagömlu banka- og viðskiptamiðstöð, þó þeirra banka- og viðskiptlífi hafi líklega ekki verið stjórnað af eintómum skúrkum, eins og raunin var hérlendis.
Það geta allir lært af þessari reynslu eins og Brown, en fyrir almenning var þetta dýrt nám.
Gordon Brown viðurkennir mistök | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.4.2010 | 09:00
Fyrirgefðu Björgólfur
Björgólfur Thor Björgólfsson biður Íslendinga afsökunar á slakri frammistöðu sinni á árunum fyrir hrun, en á þeim tíma taldi hann sig snjallastan Íslenskra banka- og útrásarbófa, enda á lista yfir ríkustu menn veraldar.
Í grein sinni segir Björgólfur, að eigna og skuldabólan hafi hvergi risið hærra en á Íslandi og hrunið hafi afhjúpað veikleika gjaldmiðilsins og efnahagslífsins. Síðan segir hann: "Gallarnir eru svo augljósir og djúpstæðir að dapurlegt er að heyra menn halda því fram að allt sem að þeim sneri hafi verið í allra besta lagi. Ekkert hafi mátt gera betur. Slíkar yfirlýsingar í rústunum miðjum bera vott um sama ábyrgðarleysið og leiddi til hrunsins.
Með þessum orðum virðist Björgólfur vera að snupra þá ráðherra, þingmenn og opinberu starfsmenn, sem í yfirheyrslum hjá Rannsóknarnefnd Alþingis töldu sig ekki bera ábyrgð á hruninu, en þá vaknar sú spurning hvort afsökunarbeiðni Björgólfs sé einlæg og hvort hann sjái sína eigin ábyrgð í réttu ljósi.
Kjarninn í afsökunarbeiðninni virðist vera þessi: "Ég bið ykkur afsökunar á andvaraleysi gagnvart þeim hættumerkjum sem hrönnuðust upp. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki auðnast að fylgja hugboði mínu þegar ég þó kom auga á hættuna. Ég bið ykkur afsökunar.
Vonandi fyrirgefur Björgólfur Thor, þó þetta verði ekki tekið sem einlæg iðrun og afsökunarbeiðni fyrir hans þátt, sem geranda og stórs ábyrgðaraðila að hruninu sjálfu.
Hans hlutur var stærri og meiri en eingöngu andvaraleysi.
Björgólfur biðst afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2010 | 16:04
Kemur Sjónvarpið þessu á Wickileaks?
Stríð eru skelfileg og bitna verst á óbreyttum borgurum, sem þurfa að þola allar þær hörmungar sem þeim fylgja og oft eru afleiðingar bardaga, sérstaklega í bardögum innan fjölmennra borga, eru iðulega þær, að fjöldi saklausra borgara lætur lífið vegna skothríðar eða sprengjuregns.
Eftir Íraksstríðið hefur geysað hálfgerð borgarastyrjöld milli innlendra trúarhópa og því hafa Bandaríkjamenn ekki getað kallað her sinn heim úr landinu, þar sem hann er nú að aðstoða innlend yfirvöld við að halda uppi lögum og reglum í landinu. Ekki er sá her saklausari en aðrir af því að drepa almenna borgara og gera ótal mistök þegar þeir telja sig eiga í höggi við hryðjuverkamenn, enda þekkjast þeir illa frá öðrum, nema af vopnunum og reyndar sjást þau sjaldnast, því oftast er um sjálfsmorðssprengjumenn og konur að ræða, sem myrða tugi og hundruð manna, um leið og þeir sprengja sjálfa sig í loft upp.
Nú berast fréttir af því að pakistanski herinn hafi orðið tugum óbreyttra borgara að bana í sprengjuárás á Talibana í afskekktu þorpi í Pakistan. Alltaf eru þessar fréttir jafn skelfilegar, en ekki er gert mikið úr þeim í fjölmiðlum, nema Bandaríkjamenn eigi hlut að máli, en þá fer heimspressan yfirleitt algerlega á hvolf, enda eðlilegt að gera meiri kröfu til þeirra en annarra.
Sjónvarpið íslenska aðstoðaði við að koma myndbandi á Wickileaks af skotárás Bandaríkjamanna á ætlaða óvini í Bagdad fyrir skömmu og sendi fréttamann á staðinn til að ræða við aðstandendur fórnarlambanna og var það bæði fróðleg frásögn og sorgleg um leið. Aldrei hefur Sjónvarpinu þó dottið í hug að senda fréttalið, hvorki til Íraks eða annarra landa, þegar aðrir fremja sambærileg voðaverk.
Nú er spurning hvort Sjónvarpið sendir ekki töku- og fréttalið til Pakistan, til þess að sýna okkur hvernig fólkinu þar líður eftir þessa árás og hvernig það mun geta tekist á við lífið í framhaldinu.
Ekki væri verra að fá myndir af árásinni, afleiðingum hennar og ferð sjónvarpsmanna á Wickileaks.
Saklausir borgarar sagðir hafa fallið í árásum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.4.2010 | 12:26
Bankastjórarugl
Eftir Sigurjóni Árnasyni, fyrrum bankastjóra Landsbankans, er eftirfarandi haft í tengslum við húsnæðislán bankanna: En hvað áttirðu að gera? Þegar kerfið er hannað þannig að ef þú ferð í viðskipti þá ertu læstur næstu 40 ár. Hvað áttu að gera? Og þú bara ferð út í vitleysuna líka. Og ég var alltaf hissa á að Moodys sögðu ekki við mann: Eruð þið klikkaðir? Ég var alltaf að vona að þeir mundu setja eitthvert vit í galskapinn.
Þessi yfirlýsing bankastjórans er með algerum ólíkindum, því hann segist hafa vitað fullvel, að húsnæðislán bankanna væru tóm vitleysa, væntanlega vegna þess að þeir voru að taka nokkurra mánaða lán sjálfir og endurlána þau svo til allt að fjörutíu ára. Einnig segir hann að hann hafi alltaf verið að vonast til að matsfyrirtækið Moody's hefði vit fyrir bankamönnunum og kæmi einhverju viti í galskapinn.
Þetta er einnig athyglisvert í ljósi þess að hann vissi líka hvað erlendu lánin væru stórhættuleg fólki, eða eins og hann saði sjálfur: En samt gerðist það af því að eftirspurnin var orðin svo gríðarleg. Þegar fólk er að kvarta yfir að það hafi fengið erlend lán og að þeim hafi verið otað að þeim, það er haugalygi.
Fyrst Sigurjón vildi láta Moody's hafa vit fyrir bönkunum vegna húsnæðislánanna, því höfðu bankarnir ekki vit á því að bjóða alls ekki upp á erlend lán til fólks með tekjur í krónum?
Fyrst enginn hafði vit fyrir Sigurjóni og félögum, og þeir gerðu sér grein fyrir heimsku sinni, áttu þeir að beita því litla viti sem þeir höfðu, til að yfirgefa stóla sína og láta þá eftir til hæfari manna.
Húsnæðislánin voru tómt rugl" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
13.4.2010 | 10:37
Landsdómur verður varla kallaður saman
Samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð, sjá hérna skal stefna ráðherrum fyrir Landsdóm hafi ráðherra brotið gegn þeim og þá aðallega vegna þrenns konar brota á lögunum, en þau eru:
- Ef hann brýtur gegn stjórnskipunarlögum landsins (stjórnarskránni)
- Ef hann brýtur gegn öðrum lögum
- Ef hann misbeitir stórlega valdi sínu eða framkvæmir nokkuð eða veldur því að framkvæmt sé nokkuð sem stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.
Í tilefni af rannsóknarskýrslunni hlýtur helst að koma til álita þriðji liðurinn hér að ofan, en þar er fjallað um atriði þar sem ráherra "stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu", en það hlýtur að vera meira en lítið vafamál, að hægt verði að heimfæra aðgerðir og aðgerðaleysi ráðherranna vegna þeirra atriða, sem skýrsluhöfundar telja þá hafa brugðist, geti flokkast undir að "stofna heill ríkisins í hættu".
Lögin eru frá 1963 og á þeim tíma hefur örugglega enginn verið að hugsa um bankahrun, heldur er miklu líklegra að verið sé að vitna til hreinna landráða í þágu annarra ríkja. Landsdómur hefur aldrei verið kallaður saman frá stofnun hans árið 1904 og hafa þó oft komið upp efnahagskreppur, sem hafa verið meira á ábyrgð stjórnvalda en sú, sem nú er við að glíma.
Niðurstöðu nefndarinnar verður beðið með óþreyju, en dómstóll götunnar verður örugglega fljótari að kveða upp úr um málið, án þess að taka tillit til varna eða málsbóta.
Landsdómur kallaður saman? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2010 | 08:50
Verkefni hlaðast á Sérstakan saksóknara
Rannsóknarnefnd Alþingis sendi fjölda ábendinga til ríkissaksóknara um mál sem upp komu við rannsókn nefndarinnar á aðdraganda bankahrunsins, þar sem nefndin bendir á fjölda atriða, þar sem hún telur lög hafa verið brotin á alvarlegan hátt.
Þetta eru atriði, sem snerta stjórnendur bankanna, eigenda þeirra og helstu skuldunauta bankanna, sem í flestum tilfellum er sami aðilinn, þ.e. eigendur bankanna tóku sér allt það fé í bönkunum, sem þeir komust yfir og til að fela lögbrotin voru notuð hundruð skúffufyrirtækja, skráð innanlands og utan.
Stærstu skúrkarnir eru Jón Ásgeir í Bónus, Pálmi í Iceland Express, Björgólfsfeðgar, Wernerbræður, Ólafur Ólafsson, Bakkabræður o.fl., ásamt stórum hópi stjórnenda í bönkunum. Jón Ásgeir var langstærsti einstaki fjármunakraflarinn, því Björgólfsfeðgar, sem voru næststórtækastir voru aðeins hálfdrættingar á við hann og nam þó sjálftaka þeirra nærri fimmhundruðmilljörðum króna.
Eftir því sem sjá má af umfjöllun um skýrslu rannsóknarnefndarinnar hefur ekki einu sinni hvarflað að þessum görpum að fara að lögum um fjármálafyrirtæki, heldur hefur allt verið gert til að fara í kringum þau til að raka fé í eigin vasa eigenda og stjórnenda bankanna og greinilegt að þeim þótti lítið til koma, ef ekki rann a.m.k. einn milljarður í vasann í hvert sinn sem einhverjir fjármálagerningar voru settir á svið milli bankanna og fyrirtækja eigendanna.
Eins og oft áður sökkva fjölmiðlar sér í smærri málin og láta þau stærri vera, eins og tilfellið er ennþá a.m.k. með skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Kannski er þetta viljandi gert, til þess að treina sér fréttaefnið fram á sumarið.
Grunur um lögbrot í fjölda tilvika | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2010 | 23:50
Röðin komin að sjálfum sökudólgunum
Umfjöllun allra fréttamiðla dagsins hafa nánast eingöngu snúist um aðgerðir og aðgerðaleysi opinberra aðila í aðdraganda bankahrunsins, en það voru alls ekki þessir aðilar sem orsökuðu hrunið, heldur glæpaklíkurnar, sem áttu og stjórnuðu bönkunum og helstu fyrirtækjunum, sem bankarnir lánuðu til, enda virðist allt bankakerfið hafa verið rekið í þágu örfárra einstaklinga.
Ekki er annað að sjá, en þessar glæpaklíkur hafi aðeins látið eigin hagsmuni ráða við allan rekstur bankanna, ef rekstur skyldi kalla, því eftir því sem meira kemur fram um þessa glæpastarfsemi, því ótrúlegri verða þær ósvífnu aðferðir, sem þessir náungar beittu til að raka fé í eigin vasa.
Umfjöllun fjölmiðlanna hlýtur núna að fara að beinast að aðalatriðum málsins og þeir fari að skýra betur út helstu niðurstöður skýrslunnar um hina raunverulegu gerendur í hruninu og hvað skýrsluhöfundar hafa að segja um ósvífni þeirra við að ræna bankana innanfrá.
Frásagnir fjölmiðlanna næstu daga munu verða á við svæsnustu glæpareifara.
Munurinn er auðvitað sá, að þetta munu verða sannar glæpasögur.
Sprenging í útlánum til FL og Baugs eftir stjórnarskiptin í Glitni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Með því að fylgjast með umfjöllun um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og lestri allra úrdrátta úr henni, sem birst hafa á netinu, kemur æ betur í ljós hvílíkar glæpaklíkur stjórnuðu nánast öllu fjármálalífi landsins í mörg ár og tók þó steininn úr þegar Bónusveldið og "viðskiptafélagar" náðu undirtökum í Glitni á árinu 2007.
Öllum bönkunum var stjórnað af glæpamönnum, sem rökuðu til sjálfra sín tugmilljörðum króna í arðgreiðslur, viðskiptaþóknanir, bónusa og annarar sjálftöku af öllu tagi. Í Landsbankanum voru það Björgólfsfeðgar, í Kaupþingi Ólafur Ólafsson, Hreiðar Már og Sigurður Einarsson og þeirra kumpánar og í Glitni Bónusveldið og félagar, sem virðast hafa verið einna stórtækasta glæpaklíkan.
Í ljós hefur komið að þessir garpar hafa greitt sjálfum sér og félögum sínum tugi milljarða í arðgreiðslur út úr gervifyrirtækjum sínum, sem öll voru fjármögnuð af bönkum þeirra með hreinum lögbrotum og öðrum sýndargerningum.
Sannarlega voru þetta glæpaklíkur, sem greiddu "gervimanni í útlöndum" tugmilljarða arð úr gervifyrirtækjum á Íslandi.
Gervimaður í útlöndum fær arð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)