Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Þorgerður Katrín yfirgefur sviðið sem hetja

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur tilkynnt að hún muni láta af embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins og gera hlé á þingstörfum sínum, án þess að hafa fengið á sig aðrar ákúrur en þær, að vera gift manni sem dansaði með banka- og útrásarvíkingum fyrir bankahrun og var þáði þær arfavitlausu og gríðarháu launauppbætur, sem áttu að felast í hlutabréfakaupum í Kaupþingi, gegn láni sem einungis var með veði í bréfunum sjálfum.

Þessar syndir eiginmannsins verður Þorgerður Katrín nú að axla og fórnar sér þar með í þágu þeirrar vonar, að afsögn hennar megi verða til þess að slá á spillingarumræðuna og skapa frið í þjóðfélaginu.  Þorgerður Katrín hefur átt farsælan stjórnmálaferil, sem ekkert hefur skyggt á, annað en athafnir eiginmanns hennar og verður hennar sárt saknað úr stjórnmálunum.

 Í ræðu sinni á trúnaðarmannafundi Sjálfstæðisflokksins sagði hún m.a:  "Það er sárt að kveðja varaformannsembættið, en ég get ekki horft fram hjá minni ábyrgð, minni samvisku og mínum trúverðugleika. Ég vil ekki að persóna mín í embætti varaformanns skyggi á það endurreisnarstarf sem vinna þarf innan flokksins, eða þær gríðarlegu mikilvægu kosningar sem framundan eru núna á vormánuðum.“

Þetta eru drengileg ummæli og trúnaður hennar við þjóðina og flokkinn verður ekki dreginn í efa, en eins og ástatt er, er þetta hárrétt ákvörðun hjá henni og vonandi verður þessi aðgerð hennar til þess, að Sjálfstæðisflokkurinn verði enn sterkari, en nokkru sinni fyrr og tvíeflist eftir það endurreisnarstarf sem hann hefur gengið í gegnum undanfarið.


mbl.is Þorgerður stígur til hliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegar afleiðingar eldgossins

Afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli eru nú þegar orðnar viðbjóðslegar, eins og Páll Eggert Ólafsson, bóndi á Þorvaldseyri, orðaði það eftir að hafa horft upp á kolsvartan öskumökkinn leggjast yfir bæ sinn.

Strax á fyrstu dögum þessa goss eru afleiðingar þess orðnar skelfilegar, bæir og búpeningur er í stórhættu, fuglar á svæðinu hrynja niður og beitilönd og tún gætu orðið ónýtanleg um langan tíma.  Vegir eru stórskemmdir og brýr í hættu, þannig að fjárhagslegt tjón er þegar orðið gríðarlegt.

Þetta eldgos, ekki þó stærra en það er, hefur raskað allri flugumferð um veröld alla og samkvæmt fréttum tapa flugfélögin í heiminum a.m.k. 25 milljörðum króna á dag vegna þessa og allar áætlanir ferðamanna eru að engu orðnar og ekki hefur verið hægt að nota sjúkraflugvélar, t.d. í Noregi, þar sem flytja þurfti veikan mann af borpalli sjóleiðis, en það tók 10 klukkutíma, þar sem ekki var hægt að nota sjúkraþyrlu.

Svona gríðarlegar og skelfilegar afleiðingar eldgossins kippir okkur harkalega aftur niður á jörðina, eftir "gleðina og skemmtunina" af gosinu á Fimmvörðuhálsi, sem umgengist var eins og áramótabrenna og það lofað og prísað sem lyftistöng fyrir ferðaiðnaðinn.  Nú er hann algerlega lamaður, enda forsvarsmenn hans strax byrjaðir að kvarta hástöfum yfir afleiðingunum núna.

Allt þetta sýnir að hve náttúruöflin geta verið skelfileg í hrikaleik sínum og hvað mannskepnan er bjargarlaus gagnvart þeim.


mbl.is „Þetta er viðbjóður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáráðlegar árásir á Bjarna Benediktsson

Þingmenn Hreyfingarinnar voru með ótrúlegt uppistand á Alþingi í dag, þar sem þeir kröfðust þess að fjöldi samþingmanna þeirra segði af sig frá þingstörfum vegna þess að þeir hefðu lesið á blogginu, að þar héldu einhverjir furðufuglar slíkum kröfum á lofti.

Það er furðuleg framkoma þingmanna sem virðast vilja láta taka sig alvarlega, að hlaupa í ræðustól með órökstuddar kröfur um afsögn félaga sinna á þinginu, eingöngu af því að þeir halda að það geti aflað þeim einhverra stundarvinsælda á þessum tímum nornaveiða gegn hverjum þeim sem fólk lítur á pólitíska andstæðinga sína. 

Sá sem einna mest verður fyrir þessum ofsóknum þessa dagana er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem ekki er bendlaður við neitt misjafnt í aðdraganda bankahrunsins og ekki fékk á sig neinar ávirðingar í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.  Þrátt fyrir það leyfir fók sér að ráðast á hann með óhróðri og ásökunum um hvers konar glæpamennsku, þó vitað sé að ekkert sé á bak við þessar siðlausu árásir á pólitískan andstæðing.

Það er algerlega eðlilegt að hafa mismunandi sýn á stjórnmálin, flokkana og fulltrúa þeirra í sveitarstjórnum og á Alþingi, en það er algerlega óþolandi að ata auri á andstæðingana persónulega í stað þess að gagnrýna skoðanir þeirra.

Þeir sem stunda svona auðvirðilegan málflutning lýsa með því sínum eigin vesæla innri manni.


mbl.is Illugi færði fram sterk rök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. fer á bak við þjóðina

Hér á blogginu var Steingrími J. hælt fyrir að hafa náð samkomulagi við AGS um að önnur endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS yrði tekin til afgreiðslu á fundi stjórnar sjóðsins í dag, enda fullyrtu bæði Steingrímur J. og Gylfi Magnússon, að búið væri að tryggja stuðning meirihluta aðildarþjóða sjóðsins.

Jafnfram var settur sá fyrirvari, að ef í ljós kæmi að á bak við samkomulagið um endurskoðunina væri einhver leynisamningur um Icesave, þá væri þetta ekkert til að þakka fyrir, heldu væri þá um hrein að ræða gegn íslensku þjóðinni, sem búin var að hafna algerlega í þjóðaratkvæðagreiðslunni, að íslenskir skattgreiðendur yrðu gerðir að fjárhagslegum þrælum fjárkúgunarþjóða.

Nú virðist vera að koma í ljós, að svikaóttinn hafi verið á rökum reistur og Hollendingar hafi gefið það út, að þeir standi ekki lengur í vegi fyrir endurskoðun efnahagsáætlunarinnar, enda liggi fyrir leynisamningur um að skattgreiðendur verði látnir bera byrðarnar af sukki glæpamanna, sem misnotuðu bankana sjálfum sér til ábata, en hirtu hvorki um hag almennings eða lánadrottna.

Væntanlega mun það skýrast í kvöld, hvort Steingrímur J. er að svíkja þjóðina með svikasamningum við Breta og Hollendinga, sem hann hefur haldið vandlega leyndum, þrátt fyrir loforð ríkisstjórnarinnar að hafa alla stjórnsýslu opna og gagnsæja, þar sem allt væri uppi á borðum.

Sé þetta raunin ætti ríkisstjórnin að fela sig undir borðunum og ekki láta nokkurn mann sjá sig.


mbl.is Segja Ísland ætla að greiða með vöxtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illugi gerir það eina rétta

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið þá ákvörðun að víkja sæti á Alþingi á meðan Sérstakur saksóknari rannsakar starfsemi peningamarkaðssjóða bankanna fyrir hrun, en Illugi átti sæti í stjórn eins slíks.

Þessi ákvörðun Illuga er hárrétt, því sjálfsagt er að fólk víkji tímabundið úr opinberum störfum lúti það rannsókn opinberra saksóknara vegna gruns um að hafa ekki staðið rétt að málum í störfum, sem það hefur tekið að sér, hvort sem er innan þingsins eða utan.

Þetta setur Þorgerði Katrínu einnig í þá stöðu, að þurfa að skoða sín mál ofan í kjölinn, ekki vegna ávirðinga á hana sjálfa, heldur vegna fyrri starfa eiginmanns hennar og þáttöku hans í hlutabréfakaupum í Kaupþingi án annarra veða en bréfanna sjálfra.  Þó ósanngjarnt sé fyrir Þorgerði Katrínu, sem ekki er undir neinni rannsókn sjálf, að neyðast til að taka sér hlé frá þingstörfum, þá gæti það reynst nauðsynlegt til að skapa frið innan þingsins og ekki síður til að gefa flokknum færi til þess að endurvinna þann trúverðugleika, sem fallið hefur á, vegna hrunsins, sem þó var auðvitað glæpamönnum að kenna, en ekki pólitíkusum.

Leiði rannsókn ekkert óeðlilegt í ljós varðandi störf Illuga, tekur hann sæti sitt á þinginu á ný, eins og ekkert hafi í skorist, en verði fundnar á hann einhverjar ávirðingar, mun hann víkja til framtíðar.

Erfiðara er að meta framtíðarstöðu Þorgerðar Katrínar, þar sem hún er afburðastjórnmálamaður, sem býr með eiginmanni, sem af skammsýni sinni glaptist af tíðarandanum, eins og reyndar meirihluti almennings, en var stórtækari í lántökum, en Jón og Gunna úti í bæ.


mbl.is Illugi fer í leyfi frá þingstörfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótúristavænt

Undanfarnar vikur hefur ferðaþjónustan á landinu fagnað því, sem kallað hefur verið "túristagos" á Fimmvörðuhálsi og innlendir og erlendir ferðamenn jafnvel lagt lífið að veði við að komast til að skoða þennan skemmtilega varðeld í óbyggðum.

Sá skemmtilegi varðeldur var þó aðeins smásýnishorn af því sem koma skyldi, því um leið og fór að gjósa í Eyjafjallajökli tók alvara lífsins við, því þá fór alvara lífsins að minna rækilega á sig með stórflóðum og öskufalli, sem nú hefur sett flugferðir um allan hnöttinn í uppnám, tafir og tap, bæði fyrir flugfélögin og ekki síður ferðamennina, sem komast ekki lönd eða strönd, hversu brýnt sem erindið er.

Síðan gæti Katla farið að gjósa og þá væri allt sem á undan er gengið eins og hjóm eitt, miðað við það sem þá gæti gerst, bæði í gífurlegum tjónum hér innanlands, ásamt því að raska öllum flugferðalögum um heiminn ennþá meira en nú er að gerast.

Eldgos eru dauðans alvara og engin túristabeita.  Áhrifin á túristana eru aðallega þau, að þeir komast ekki í til að njóta frídaganna sinna, hvar í heiminum sem þeir hugsuðu sér að gera það.  Ekki síður hefur þetta alvarleg áhrif á viðskiptaferðir og það sem verst er, sjúkraflug.

Eins mikið og ferðaþjónustan fagnaði fram að þessu, er hún nú brostin í mikinn grát yfir örlögum sínum. 

 

 


mbl.is Flug lamað annan daginn í röð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgvin getur ekki annað á meðan á rannsókn stendur

Björgvin Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, sem Ingibjörg Sólrún hélt að miklu leyti utan við fundahöld með seðlabankamönnum í aðdraganda hrunsins, er einn þeirra sem á þeim tíma sat á ráðherrastóli og Rannsóknarnefnd Alþingis kvað upp úr með að væri sekur um vanrækslu í starfi vegna aðgerðarleysis á þeim örlagaríku tímum.

Sérstök þingnefnd, undir forystu Atla Gíslasonar, þingmanns VG, hefur það hlutverk með höndum, að taka ákvörðun um hvort Björgvini, Geir Haarde og Árna Matthiesen verði stefnt fyrir Landsdóm vegna þeirrar vanrækslu, sem rannsóknarnefndin sakar þá um, en rannsóknarnefndin kvað ekki upp endanlegan dóm þar um.

Á meðan nefnd Atla er að fara yfir rannsóknarskýrsluna og meta hvort þremenningunum verði stefnt fyrir Landsdóminn og málið er að öðru leyti til meðferðar í þinginu, er Björgvini ekki sætt á þingi, en kemur væntanlega aftur til þingstarfa, komist nefndin að þeirri niðurstöðu, að ekki sé tilefni til stefnu, eða Landsdómur sýknar hann af öllum ákærum.

Björgvin er sá eini þremenninganna, sem gaf kost á sér til setu á Alþingi og getur því ekki annað en vikið af þinginu, a.m.k. um stundarsakir.


mbl.is Björgvin víkur af þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grafalvarlegt ástand í atvinnumálum

Samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja sinna eru horfur á að störfum í þjóðfélaginu muni fækka um 1.500 á þessu ári og mun þá atvinnuleysi verða komið upp í um 10% við næstu áramót.

Þrátt fyrir mikinn fagurgala stjórnvalda um að "margt hafi verið gert" til að fá hjólin til að snúast í atvinnulífinu, er þetta það sem við blasir, þ.e. að atvinnuleysi mun aukast og hátt í 20.000 manns munu verða á atvinnuleysisskrá og til viðbótar hafa nokkur þúsund manns flutt af landi brott og því mælast raunverulega töpuð störf mun færri vegna þess.

Í fréttatilkynningu SA kemur m.a. þetta fram:  "Yfirfært á atvinnulífið í heild samsvarar þessi niðurstaða fækkun um rúmlega 1.500 starfsmenn í þessum atvinnugreinum á árinu. Launagreiðslur sem falla brott af þeim sökum nema um 8 milljörðum króna á ársgrundvelli, segir á vef SA."  Jafnframt mun þetta viðbótaratvinnuleysi kosta Atvinnuleysistryggingarsjóð a.m.k. 250 milljónir króna á mánuði, en heildartap launþeganna mun verða hátt í fimmmilljarðar króna á ári.

Þetta er grafalvarleg staða og óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli ennþá tefja og í raun stoppa allar stóriðjuframkvæmdir, sem hugsanlegt er að gætu komist í gang, væri ekki fyrir þessa skemmdarstarfsemi stjórnvalda.


mbl.is Útlit fyrir störfum fækki um 1.500
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álfheiði blöskrar og fleirum einnig

Ekki hefði verið hægt að ímynda sér að hægt yrði að vera sammála Álfheiði Ingadóttur um nokkurt mál, því svo einstrenginslegar og öfgafullar eru skoðanir hennar yfirleitt, að þær falla yfirleitt ekki inn í hugsunarhátt eðlilega þenkjandi fólks.

Ummæli hennar um Ólaf Ragnar Grímsson, klappstýru útrásarinnar, sem hún lét falla á Alþingi í dag, eru hins vegar orð að sönnu, en hún sagði m.a:  „Ég verð að segja, að mér ofbuðu viðbrögð eins aðalleikara og klappstýru í útrásinni, sem er forseti Íslands, við skýrslunni í fjölmiðlum í gær. Ég harma þau.“

 

"Hún bætti síðar við að hún hefði búist við öðrum viðbrögðum í ljósi áramótávarps forsetans 1. janúar 2008. „Þar mátti  kenna nokkra iðrun yfir aðkomu hans og embættisins að útrásinni. Það er ljóst, að það er á fleiri vígstöðum sem menn þykjast ekki bera ábyrgð en stjórnmálaflokkum. “"

Í þessu efni má segja að kjöftugum hafi ratað rétt orð á munn, sem sjaldgæft er með Álfheiði, en fólk var farið að trúa því, eftir að forsetinn neitaði Icesavelögunum staðfestingar, að hann væri fullur iðrunar og tilbúinn til þess að taka afstöðu með þjóðinni.

Það hefur hann nú afsannað með gagnsókn sinni gegn rannsóknar- og siðferðisskýrslunum.


mbl.is Ofbauð viðbrögð forseta Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álfheiður étur ofan í sig hrokann

Hrokagikkurinn Álfheiður Ingadóttir, illu heilli heilbrigðisráðherra, fór mikinn fyrir nokkru síðan og lýsti yfir trúnaðarbresti milli sín og forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, vegna þess að hann hafði leyft sér að óska aðstoðar ríkisendurskoðanda við að skilja reglugerð, sem hrokagikkurinn hafði sent frá sér í flaustri og var enda svo illa unnin og óskír, að þeir sem áttu að framfylgja henni, skyldu hana hreinlega ekki.

Af því tilefni lýsti Álfheiður yfir því, að hún myndi veita forstjóranum formlega áminningu fyrir þá ósvífni hans, að ræða við annað fólk en hana og hana eina, enda ættu allir heilbrigðisstarfsmenn landsins að lúta henni í auðmýkt og ekki dirfast að bera skilningsleysi sitt á gerðum hennar undir aðra en hana sjálfa.

Þar sem hrokagikkurinn er líka skapofsi, var þetta upphlaup hennar eintómt frumhlaup og nú hefur hún étið hrokann ofan í sig og lýst því yfir, að engin ástæða sé, eða hafi verið, til þessara hótana og yfirgangs gagnvart undirmanninum og lofar hún nú bót og betrun í framtíðinni, enda hafi henni nú tekist að skilja mistök sín og setja umrædda reglugerð í skiljanlegt horf, svo hægt væri að vinna eftir henni.

Afsökunarbeiðni fyrir flumbruganinn fylgdi hins vegar ekki, enda tíðkast ekki að ráðamenn játi á sig ábyrgð í nokkru máli.


mbl.is Ekki tilefni til áminningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband