Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Falsaðar vísindaniðurstöður

Breska læknablaðið Lancet hefur neyðst til að afturkalla grein frá árinu 1998 eftir lækninn Andrew Wakefield sem hélt því þar fram, að bólusetning gegn nokkrum barnasjúkdómum ylli einhverfu.

Greinin hafði mikil áhrif, eða eins og segir í fréttinni:  "Þetta skaut foreldrum víða um heim skelk í bringu og verulega dró úr bólusetningunum með þeim afleiðingum að mislingar, sem áður höfðu vart sést, blossuðu upp að nýju og ollu dauða eða miklum skaða hjá mörgum börnum."

Þetta er að sjálfsögðu stóralvarlegt mál og spurning hvort ekki ætti að draga þennan Wakefield fyrir rétt, a.m.k. á grundvelli manndrápa af gáleysi.

Nýlega komst einnig upp, að vísindamenn hefðu falsað niðurstöður rannsókna um hlýnun jarðar, en Umhverfisstofnun SÞ byggir á þeim niðurstöðum í vinnu sinni og reyndar flest umhverfisverndarsamtök heims, hampa þeim niðurstöðum óspart, jafnvel þó komið hafi í ljós, að um falsanir sé að ræða.

Lærdómurinn, sem af þessu má draga, er sá, að engum vísindamönnum er treystandi, fyrr en niðurstöður þeirra hafa verið margprófaðar, af mörgum óskildum rannsóknaraðilum.


mbl.is Lancet afturkallar 12 ára gamla grein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofnæmi fyrir Svandísi og VG

Svandís Svavarsdóttir segir að viðbrögð við skemmdarverkaúrskurði sínum vegna skipulagsmála við neðri hluta Þjórsár, minni á ofnæmisviðbrögð.

Fram hefur komið, að hrepparnir voru löngu búnir að endurgreiða Landsvirkjun þennan skipulagskostnað, þannig að helstu rök Svandísar fyrir synjuninni voru alls ekki fyrir hendi lengur.

Það er ekkert svo vitlaus ályktun hjá Svandísi, að um ofnæmisviðbrögð hafi verið að ræða, þegar fólk sá hana og heyrði vegna þessa máls.  Ónæmiskerfi almennings er orðið stórskaddað, eftir heils árs skemmdarverkastarfsemi ríkisstjórnarinnar gegn atvinnulífinu í landinu.

Þess vegna lýsa viðbrögðin sér eins og um heiftarlegt ofnæmi sé að ræða.

Enda er líklegast að þetta sé í raun og veru ofnæmi fyrir svikum og lygum ráðherranna.


mbl.is Minnir á ofnæmisviðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt upp á borðið

Steingrímur J. segir aðspurður um hvort einhverju hafi verið logið í Seðlabanka Hollands um stöðu Landsbankans:  Það er ýmislegt í bakgrunni málsins sem við höfum ekki getað notað og ekki getað verið með í opinberri umræðu, vegna þess hvað það er viðkvæmt og gæti skaðað hagsmuni landsins. Þannig að maður hefur eiginlega verið með hendur bundnar á bak aftur að verja sig þegar að manni er veist vegna þessa máls."

Enn og aftur kemur í ljós, að alls kyns gögnum hefur verið leynt fyrir almenningi í þessari endalausu Icesave sögu, vegna þess að þau séu svo "viðkvæm"  og almenningur þoli ekki að heyra sannleikann umbúðalaust.

Þessum sama almenningi er ætlað að greiða atkvæði um uppgjafarskilmálana gagnvart Bretum og Hollendingum og þar með hvort íslenskur almenningur verði seldir í skattaánauð til þeirra um áratugaskeið,  langt umfram lagalega skyldu.  Til þess að mynda sér skoðun, þarf að birta öll gögn málsins, bæði þau sem Alþingismenn hafa fengið að sjá og hin, sem haldið hefur verið leyndum í læstum herbergjum. 

Nú lætur Steingrímur eins og þetta muni allt koma fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, en í fyrsta lagi er ekki víst að skýrslan verði birt fyrir kosningar og í öðru lagi á Steingrímur J. að leggja fram öll gögn, sem máli skipta fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Hafi einhver logið vísvitandi að hollenskum, breskum eða íslenskum yfirvöldum, þá á að láta hinn sama svara fyrir þær gerðir sínar fyrir dómstólum, ekki seinna en strax.


mbl.is Erfið samningsstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kökur í staðinn fyrir brauð

Ríkisstjórnin sér ástæðu til að gæða sér á tertu í tilefni eins árs afmælis síns, en því miður fagnar enginn með henni og fáir senda afmæliskveðju.

Á þessu ári, sem ríkisstjórnin hefur starfað, hefur ekkert þokast í rétta átt frá hruni, þvert á móti hefur hún með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi, lengt og dýpkað kreppuna, sem sést best á auknum gjaldþrotum fyrirtækja og einstaklinga, auknu atvinnuleysi, drætti og töfum á öllum framkvæmdum, sem mögulegt hefði verið að koma í gang og svo mætti áfram telja.

Kaupmáttur minnkar stöðugt og verðbólga er viðvarandi í engri eftirspurn, sem skýrist fyrst og fremst af skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar.

Jóhann Sigurðardóttir og Steingrímur J., gætu gert þessi fleygu orð að sínum í tilefni dagsins: 

"Ef fólkið á ekki brauð, af hverju borðar það þá ekki bara kökur?"


mbl.is Kaka í tilefni dagsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þurfa Jón Ásgeir og Arion banki að hafa snör handtök

Skiptastjóri Baugs telur að félagið hafi verið orðið ógjaldfært þegar í mars 2008, en í júlí það ár kom Jón Ásgeir Högum undan þrotabúinu, með rausnarlegri aðstoð Kaupþings banka, sem nú heitir Arion banki.  Þegar þessi "viðskipti" áttu sér stað var aðilum í innsta hring bankanna, þar á meðal Jóni Ásgeiri, fullljóst hvert stefndi með bankana og fyrirtæki útrásartaparanna.

Undanfarið hefur Arion banki verið að leita leiða, til að koma Högum undan gjaldþroti 1998 ehf. og yfir til Jóns Ásgeirs, en vegna mikillar andstöðu þjóðféagsins hefur ekki fundist nógu klók lausn á þeirri tugmilljarða skuldaniðurfellingu, sem til þarf.

Nú þegar útlit er fyrir að bústjóri Baugs fari í riftunarmál við 1998 ehf. vegna undanskotsins á Högum úr þrotabúinu, verða Jón Ásgeir í Bónus og Arion banki að finna skjóta lausn á málinu, drífa sig að koma Högum í hendurnar á nýju félagi Baugsfeðga og lýsa 1998 ehf. gjaldþrota, til þess að flækja málin og a.m.k. tefja um nokkur ár, á meðan hvert þrotabú Jóns Ásgeirs í Bónusi á eftir öðru, stefnir því næsta, til riftunar á undanskotum úr þrotabúum.

Mottó útrásartaparanna var, og er, aldrei að borga sjálfur í dag, það sem hægt er að láta aðra borga á morgun.


mbl.is Baugur ekki gjaldfær þegar Hagar voru seldir 2008?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sefjunarástand

Á blómatíma banka- og útrásarvitleysunnar var nánast allt þjóðfélagið á öðrum endanum í eyðslu- og fjárfestingarsukki og fólk og fyrirtæki tók lán, eins og þeim væri borgað fyrir það, en ekki að þau ættu að borga lánin til baka, þegar kæmi að skuldadögunum.

Yfirvöld og eftirlitsstofnanir vissu með þó nokkrum fyrirvara í hvað stefndi með Matadorspilið, sem banka- og útrásarruglararnir spiluðu, en voru í ákaflega miklum vanda, með viðbrögð, því hefði verið sagt opinberlega, að bankarnir væru að stefna sjálfum sér í þrot, hefðu þeir umsvifalaust farið í þrot, því áhlaup hefði verið gert á þá samdægurs.

Annað, sem hélt voninni í yfirvöldum, voru umsagnir matsfyrirtækjanna, sem gáfu bönkunum einkunina AAA+, alveg fram að hruni og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn sagði að efnahagsástandið á Íslandi væri öfundsvert.

Allt gerði þetta að verkum að ekki var brugðist við í tíma og eins og áður sagði, spurning hvernig yfirvöld áttu að bregðast við í því andrúmslofti sefjunar og meðvirkni, sem tröllreið þjóðfélaginu.

Eftirá er auðvelt að vera vitur, enda fyrirfinst varla sá maður núna, sem veit nákvæmlega hvað hefði átt að gera.


mbl.is Talaði ekki um Seðlabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn flækist Svandís fyrir atvinnuuppbyggingu

Svandis Svavarsdóttir gerir það ekki endasleppt í hörkulegri baráttu sinni gegn mögulegri atvinnuuppbyggingu í landinu.  Fyrst tafði hún afgreiðsu á málum Suðurstrandarlínu um tíu mánuði, sem varð til að tefja alla uppbyggingu á Suðurnesjum og nú á að beita öllum brögðum til að reyna að koma í veg fyrir virkjun neðri hluta Þjórsár.

Nú er gripið til þess ráðs, að synja staðfestingar allra skipulagsbreytinga, sem snúa að virkjunum í neðri hluta Þjórsár, vegna þess að Landsvirkjun greiddi fyrir skipulagsvinnuna, en ekki sveitarfélögin, sem í hlut eiga.

Þetta er langsótt, því Landsvirkjun hefði auðveldlega getað veitt fjármagni í sveitasjóðina, sem síðan hefðu greitt fyrir skipulagsvinnuna, þannig að þarna er verið að hengja sig í aukaatriði, en ekki aðalatriði.

Atlaga Vinstri grænna að atvinnulífi landsmanna virðist engan enda ætla að taka.


mbl.is Synjar skipulagi við Þjórsá staðfestingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rólegir dagar á Alþingi - þingnefnd um einfalt mál

Einn er sá þingmaður, sem öðrum fremur leggur sig eftir að innleiða alls kyns skringilegheit á Alþingi, t.d. hefur hún lagt til að ráðherrar verði ekki titlaðir ráðherrar, ef þeir eru kvenkyns og að hætt verði að klæða smábörn í blátt eða bleikt, eftir því, hvort um stráka eða stelpur sé að ræða, svo eitthvað sé nefnt.

Vegna þess hve rólegt er í þinginu á næstunni, enda engin vandamál í þjóðfélaginu, sem þarf að fjalla um, þá ætlar hún að bera upp tillögu um rannsóknarnefnd Alþingis, sem hefði það hlutverk, að sálgreina Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson.  Það er í sjálfu sér verðugt verkefni, en óvíst að þingnefnd sé rétti aðilinn í verkið.

Samkvæmt Valdísi verður þetta verkefnið:  "Nefndinni verður samkvæmt tillögunni gert að fara yfir hvernig ákvörðunin var tekin, af hverjum, hvers vegna og með hvaða hætti." 

Þetta er svo sem ekki flókið verkefni.  Stutta svarið er einfaldlega:  Ákvörðunin var tekin með því að segja já.  Ákvörðunin var tekin af DO og HÁ.  Ákvörðunin var tekin vegna beiðnar frá Bandaríkjamönnum.  Ákvörðunin var tekin með þeim hætti að DO og HÁ sögðu fyrst JÁ upphátt og svo skrifuðu þeir svarið á miða, sem var faxaður til Wasinton.

Það þarf varla heila þingnefnd til þess að finna þetta út.


mbl.is Þingmenn rannsaki þátttöku í Íraksstríði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samræmið málatilbúnaðinn

Sjaldan er hægt að lýsa sig sammála Karli Th. Birgissyni, vegna ýmissa einkennilegra skoðana hans á mönnum og málefnum.  Aldrei þessu vant, ratar þó frá honum talsvert sannleikskorn, þegar hann segir að ekki gangi, að talað sé fyrir tveim gjörólíkum stefnum í Icesavemálinu á erlendum vettvangi.

Um það hefur áður verið bloggað hér, að ríkistjórn og forseti samræmi málflutning sinn á opinberum vettvangi og ekki síst í umræðum erlendis og í viðræðum við ráðamenn í öðrum löndum.  Forsetinn hefur verið mjög harðorður, réttilega, í garð Breta og Hollendinga vegna tilraunar þeirra til að hneppa íslenska skattgreiðendur í ánauð til næstu áratuga, en ríkisstjórnin hefur verið óþreytandi í vörn fyrir þrælapískarana.

Þjóðin er nánast einróma og samsíga í andstöðu sinni gegn því að verða skattaþrælar Breta og Hollendinga um áratungaskeið, en sú nauðung er studd af norðurlöndunum og ESB, ásamt íslensku ríkisstjórninni og sumum fylgismönnum hennar.

Því er bráðnauðsynlegt að bæði forsetinn og ríkisstjórnin tali einum rómi um þessa kúgun, þ.e. rödd þjóðarinnar.


mbl.is „Taktu leikhlé, herra forseti"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætli Steingrímur J. telji þeim ekki hughvarf?

Sósialíski vinstriflokkurinn í Noregi er nú að komast á þá skoðun, að ekki ætti að tengja lán Noregs og hinna norðurlandanna til Íslands við lausn Icesave deilunnar og hyggst taka upp baráttu þess efnir á norska þinginu.

Steingrímur J. er nú farinn til Kaupmannahafnar til fundar við félaga sína á norðurlöndunum, þ.e. formenn systurflokka VG, en þeir munu ætla að samræma málflutning sinn í ýmsum málum, sem vinstrinu er hugleikið um þessar mundir.

Harðasti baráttumaður, hérlendis, fyrir málstað Breta og Hollendinga, er Steingrímur J. Sigfússon og hefur hann verið sofinn og vakinn í andstöðu sinni við hagsmuni Íslands í málinu og hvergi verið haggað, þrátt fyrir eindrenginn baráttuvilja þjóðarinnar gegn þrældómi fyrir kúgarana.

Því vaknar sú spurning, hvort Steingrímur J. muni ekki halda baráttu sinni gegn íslenskum hagsmunum áfram í Kaupmannahöfn og reyni að telja kjark í félaga sína í Kaupmannahöfn, þannig að þeir missi nú ekki móðinn og fari að taka afstöðu með Íslendingum.

Íslenska ríkisstjórnin vill ekki þyrla upp neinu ryki, sem gæti styggt Breta og Hollendinga.


mbl.is Munu krefjast lægri greiðslna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband