Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009
25.7.2009 | 09:59
Flutningar til og frá
Undanfarna áratugi hafa þúsundir Íslendinga flutt af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og enginn hefur talið það sérstakt stórmál og ekki verið gert mikið úr því, hvað að baki hefur legið. Atvinnulífið á landsbyggðinni hefur verið mun fábreyttara, en á höfuðborgarsvæðinu, t.d. hefur ekki verið mikið úrval af störfum fyrir menntafólk utan Reykjavíkursvæðisins og miklar breytingar hafa orðið í annarri atvinnustarfsemi, sem ekki hefur getað keppt við fyrirtæki á suðvesturhorninu.
Í þeim mikla uppgangi undanfarinn áratug, sem aðalllega var á höfuðborgarsvæðinu, hafa miklir fólksflutningar orðið þangað af landsbyggðinni og ekki síður erlendis frá. Nú þegar kreppa er skollin á sunnanlands verða óhjákvæmilega einhverjir fólksflutningar þaðan, en þá er ekki að neinu að hverfa á landsbyggðinni, þannig að flutningar fólks geta ekki orðið annað en til annarra landa.
Það, sem takmarkar flutning til útlanda, er að atvinnuástandið víðast erlendis er alls ekki betra en hér á landi, um þessar mundir og því munu miklu færri flytja til útlanda, en annars hefði orðið. Það þykir hins vegar svo mikið fréttaefni, þegar harðnar á dalnum á Reykjavíkursvæðinu, að flutningar fólks þaðan er talinn, af fjölmiðlum, á við verstu náttúruhamfarir, en flutningar af landsbyggðinni aðeins óhjákvæmilegur fylgifiskur eðlilegrar byggðaþróunar.
Í nútíma atvinnuástandi, sem tekur sífelldum sveiflum, eru fólksflutningar líklega merki um dug og kraft þeirra, sem tilbúnir eru að leggja mikið á sig og sína, í baráttunnni fyrir betri lífskjörum.
Hundruð flytjast til Noregs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.7.2009 | 16:49
Dýr myndi Hafliði allur
Upp er komin deila milli Steingríms J., fjármálajarðfræðings, og Ragnars Hall, hæstaréttarlögmanns, um hvort Svavar Gestsson, samningatæknir, hafi samið við Breta og Hollendinga um lögfræðikostnað þeirra vegna ríkisábyrgðarinnar á Icesave skuldum Landsbankans.
Ragnar sagði að lögfræðikostnaðurinn sem félli á Íslendinga næmi um tveim milljörðum króna, en Steingrímur segir að ekkert sé minnst á lögfræðinga í samkomulaginu, einungis hafi verið samið um að greiða kostnað vegna útborgunar innistæðanna, annarsvegar tíu milljónir punda og hinsvegar sjömilljónir Evra, en það eru á gengi dagsins í dag 3.344.270.000 - þrjúþúsundþrjúhundruðfjörutíuogfjórarmilljónirogtvöhundruðþúsund - krónur. Nokkuð stór upphæð þetta.
Hver innistæðueigandi mun eiga að fá greiddar tæpar 3,8 milljónir króna að hámarki og að sögn Steingríms eru þeir um 350.000 talsins. Kostnaður Íslendinga fyrir hvern innistæðueiganda er því tæpar tíu þúsundir króna og verður það að teljast ríflegt á hverja útborgun.
Hvort sem hér er um lögfræðikostnað að ræða eða einhvern annan kostnað, verður hann að teljast meira en ríflegur. Sú fullyrðing Steingríms að krafa verði gerð um þennan kostnað úr þrotabúi Landsbankans, er lítils virði, því hún endar á ríkissjóði hvort sem er, þar sem eignir Landsbankans í Englandi duga ekki fyrir Icesave kröfunum, hvað þá þessum viðbótarkostnaði.
það hefði verið hægt að ráða 300 íslenska sérfræðinga í þetta verk í heilt ár, á forsætisráðherralaunum og öllum hefði þótt það dýrt.
Ekki minnst á lögfræðikostnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.7.2009 | 13:55
Leyniviðræður Ingibjargar Sólrúnar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur nýlega lýst undrun sinni á því að ESB skyldi ekki koma beint að samningnum um ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, en um það hefði hún sjálf verið búin að semja í nóvember s.l. Hún greindi hins vegar ekkert frá innihaldi þess samkomulags og ekki hafa fjölmiðlamenn heldur gengið eftir þeim upplýsingum, enda afar sjaldgæft að þeir sjái "fréttapunkta" í málum, heldur virðast þeir frekar láta mata sig á því, sem framámenn vilja að komist í hámæli.
Það sem er athyglisvert við þessa yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar er, að á sama tíma rauk hún til, öllum að óvörum, og krafðist þess, að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti að ganga í ESB, annars yrði stjórninni slitið. Í ljósi orða Ingibjargar Sólrúnar, verður að gera kröfu til þess, að upplýst verði hvort samhengi sé milli kröfunnnar á hendur Sjálfstæðisflokksins og samkomulags um að ESB kæmi beint að samningum um Icesave.
Af einhverjum dularfullum ástæðum leggur Samfylkingin ótrúlega mikla áherslu á samþykkt beggja málanna, þ.e. ríkisábyrgðina og umsóknina um aðild að ESB, þrátt fyrir að segja að málin séu ótengd.
Í þessu opna og gagnsæja stjórnkerfi, þar sem allt er uppi á borðum, yrðu fjölmiðlamenn fljótir að fá botn í þetta mál.
Rýnir í gögn vegna Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.7.2009 | 10:47
Krónan hjálpar - Evran ekki
Seðlabankinn spáir tiltölulega hröðum hagvexti í kjölfar kreppunnar, sem er auðvitað forsenda þess, að landið komist nokkurn tíma upp úr kreppunni. Ef ekki verður hagvöxtur, verður kreppa áfram. Það þarf ekki stjarneðlisfræðinga til að sjá það.
Annað sem er athyglisverðara í áliti Friðriks Más Baldurssonar, prófessors í hagfræði og fulltrúa í bankaráði seðlabankans, er það sem hann segir um hvernig krónan sé og verði bjargvættur þjóðarinnar á leið sinni út úr kreppunni. Hann segir t.d: "Það væri sérlega athyglisvert að Ísland sé eitt fárra landa í OECD þar sem utanríkisviðskipti draga úr niðursveiflunni. Áhrifin af veiku gengi krónunnar skipti hér mestu. Samdrátturinn á Írlandi er töluvert miklu snarpari heldur en hér. Þótt mörgum sé illa við krónuna, þá dempar hún niðursveifluna. "
Á Írlandi, sem er með Evruna, er snarpari samdráttur en á Íslandi, sem hefur sína Krónu og varð fyrir algeru bankahruni, sem Írland lenti ekki í. Að sögn Friðriks er Ísland eitt fárra landa innan OECD, þar sem útflutningur dregur úr niðursveiflunni, einmitt vegna eigin gjaldmiðils Íslands. Hefðu Íslendingar búið við Evruna við efnahagshrunið, væri ástandið hérna ennþá verra en það er núna, samanber Írland, að ekki sé talað um Lettland, þar sem allt er í rúst vegna tengingar Latsins við Evruna.
Enn og aftur geta Íslendingar þakkað fyrir sinn sjálfstæða gjaldmiðil.
Hraður vöxtur eftir kreppu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2009 | 09:07
Kærir norrænir vinir
"Vinaþjóðir" Íslands, ekki síst á norðurlöndunum keppast við að afneita tengingu aðildarumsóknar Íslands að ESB og afgreiðslu Alþingis á ríkisábyrgð vegna Icesave skulda Landsbankans, en beita síðan öllum brögðum á bak við tjöldin og jafnvel opinberlega, til að herða þumalskrúfuna á Íslendingum.
Fyrir nokkrum dögum bárust þær fréttir að Evrópski fjárfestingabankinn hefði neitað að afgreiða áður lofað lán til Orkuveitu Reykjavíkur til atvinnuuppbyggingar á Reykjanesi og nú tilkynnir Norræni fjárfestingabankinn, að hann sé hættur að lána til framkvæmda á Íslandi. Þetta eru þó þær lánastofnanir, sem ætla hefði mátt að myndu síðastar allar taka þátt í því efnahagslega stríði, sem Evrópuþjóðirnar heyja núna gegn Íslendingum.
Fulltrúi Norræna fjárfestingabankans er þó það heiðarlegur, að hann segir það umbúðalaust, að þessi ákvörðun bankans sé þáttur í stríðinu, því hann segir að ákvörðunin verði endurskoðuð, samþykki Íslendingar Icesavekúgunarsamninginn. Áður var ákvörðunin réttlætt með lánatapi NBI til Íslands, en það tap minnkar væntanlega ekkert við það eitt að Ísland skrifi undir uppgjafaskilmála Breta og Hollendinga vegna Icesave.
Ekki ber enn á því aukna trausti á Íslandi, sem Samfylkingin lofaði, með aðildarumsókninni að ESB, einni saman.
Hættir að lána Íslendingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.7.2009 | 16:41
Ekki samskonar stjórnmálamenn og í þorskastríðunum
Samfylkingin hefur jafnan reynt að koma því inn hjá þjóðinni, að aðildarumsóknin að ESB, ein og sér, muni auka svo traust á Íslandi og Íslendingum, að efnahagurinn fari á fljúgandi siglingu umsvifalaust. Fremsta tímarit um efnahagsmál í Evrópu fjallar um umsókn Íslands að ESB og virðist ekki sannfært um þessa galdralausn og telur að umheimurinn sé það ekki heldur, að minnsta kosti ekki allur, en í fréttinni segir t.d: "Þá sé ástand efnahagsmála á Íslandi skelfilegt og þýskir og hollenskir áhrifamenn hafi þegar gefið í skyn að ekki komi til greina að Íslendingar fái aðild að sambandinu fyrr en þeir hafi komið þeim málum ílag."
Össur, utanríkisgrínari, rétti ESB vopnin í sjávarútvegsmálunum upp í hendurnar, með því að lýsa því yfir á Alþingi, að hann vissi vel að Íslendingar myndu ekki fá neinar undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni, enda þyrftu þeir þess ekki, vegna sérstöðu landsins. Economist er sammála grínaranum um þetta efni, en lítur málið hins vegar allt öðrum augum, eða eins og þar segir: "Litlar líkur verði að teljast á því því að Íslendingar fái undanþágu frá sjávarútvegsstefnu sambandsins og staðfesta Íslendinga í þorskastríðunum gefi ekki til kynna að þeir muni gefa neitt eftir varðandi yfirráð yfir fiskimiðum sínum."
Þarna skjátlast Economist hrapalega, að minnsta kosti varðandi ráðherra og þingmenn Samfylkingarinnar.
Þjóðin getur ekki þakkað það nógsamlega, að þetta fólk skuli ekki hafa verið við völd í þorskastríðunum.
Economist: Líklegt að farið verði að dæmi Norðmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.7.2009 | 13:28
Hvað hefur ESB að bjóða?
Össur, utanríkisgrínari, segir að Ísland hafi margt að bjóða ESB, svo sem kunnáttu til að stjórna fiskveiðiauðlindum, heilbrigði matvæla, nýtingu jarðvarma og jafnvel eitthvað fleira.
Allt þetta geta Íslendingar boðið Evrópuríkjunum og öðrum sem áhuga hafa á, án þess að ganga í ESB. Íslendingar eru aðilar að Evrópska efnahagsvæðinu og geta boðið fram alla sína aðstoð þar og auk þess er hægt að selja slíka þekkingu til hvers sem hafa vill, ekki síst ef Ísland væri utan ESB.
Þetta er því sami blekkingarleikurinn og sá, að halda því fram að Íslendingar fengju ódýrari matvæli og lægri vexti af lánum, eingöngu með inngöngu í ESB.
Carl Bildt tók undir með grínaranum, starfsbróður sínum, og til viðbótar gat hann þess að Ísland myndi veita ESB aðgang að norðuslóðum, en sá aðgangur verður sífellt verðmætari, t.d. vegna siglingaleiða, auðlinda o.fl. Ekki síst vegna þessara framtíðarhagsmuna leggur ESB áherslu á að ná að innlima Ísland í stórríki framtíðarinnar.
Bildt lét þess hins vegar algerlega ógetið, hvaða hag Íslendingar hefðu af inngöngunni, umfram hagsmunina af Evrópska efnahagssvæðinu.
Það hefði verið viðkunnanlegra, ef þeir félagar hefðu a.m.k. látið líta út fyrir að hagur Íslands væri í fyrirrúmi.
Össur: Ísland hefur margt að bjóða ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2009 | 10:11
Sótt um tvisvar?
Daginn eftir að Alþingi samþykkti, illu heilli, að sækja um aðild að Evrópusambandinu, afhenti Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra, umsóknina, undirritaða af forsætis- og utanríkisráðherra, í forsætisráðuneyti Svíþjóðar.
Svo mikið lá á, að koma umsókninni til skila, að hún var afhent í Stokkhólmi nákvæmlega einum sólarhring eftir samþykkt Alþingis. Því er óskiljanlegt hvaða plagg Össur, grínari, er nú að afhenda Carli Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar. Er þetta eingöngu leiksýning, þar sem Carl Bildt var áður búinn að "lána" Össuri umsóknareyðublaðið, til þess að Össur gæti rétt honum það aftur, fyrir framan ljósmyndara og fjölmiðlamenn.
Varla hefur Össur verið að sækja um aðild að ESB í annað sinn.
Þó gæti það verið, því Össur er svo gamansamur.
Afhenti Svíum aðildarumsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.7.2009 | 09:09
Ríkisstjórnin búin að stórskaða málstaðinn
Sífellt færri stjórnarþingmenn eru tilbúnir til að samþykkja uppgjafaskilmála Breta og Hollendinga vegna efnahagsstríðs þeirra á hendur Íslendinga, þ.e.a.s ríkisábyrgðina á Icesave skuldum Landsbankans. Þessir uppgjafaskilmálar setja slíkar fjárhagslegar drápsklyfjar á Íslendinga til næstu áratuga, að þeir yrðu að teljast óviðunandi, jafnvel þótt mögulegt væri að standa í skilum, en það myndi draga lífskjörin svo mikið niður, að óviðunandi væri, að ekki sé talað um, ef stöðnun eða afturkippur kæmi í efnahagslífið næstu fimmtán árin. Þá yrði greiðslubyrðin algerlega óviðráðanleg.
Samningnum verður að hafna og senda nýja öfluga samninganefnd til að ná fram viðunandi lausn á þessu máli, en staðan verður þó þung, vegna afstöðu ríkisstjórnarinnar í málinu til þessa. Forsætis-, utanríkis-, félagsmála-, fjármálaráðherrar o.fl. stjórnarliðar, hafa keppst við að lýsa Icesave samningnum sem góðri og réttlátri niðurstöðu málsins og engin leið yrði að ná betri samningi.
Samningurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis og hefur því ekkert gildi, fyrr en Alþingi samþykkir hann. Alþingi hlýtur því að vera í fullum rétti til að hafna honum eða samþykkja hverjar þær breytingar á honum, sem því sýnist. Alþingi er ekki stimpilpúði fyrir ríkisstjórnina og heiður þingsins er í húfi í þessu máli.
Þess vegna er ekki hægt að sætta sig við að ráðherrar og einstaka þingmenn keppist við, að tala máli kúgara þjóðarinnar og leggja Bretum og Hollendingum öll vopn upp í hendurnar í framhaldi málsins.
Því miður var ekki bara samninganefnd Íslands í Icesave málinu handónýt málstað Íslands, heldur eru ráðherrarnir það einnig.
Icesave sett á ís? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.7.2009 | 14:25
Nú hriktir illilega í VG
Það hefur verið ljóst undanfarnar vikur að djúpar sprungur eru komnar í samstarfið innan Vinstri grænna og ekki síður milli flokkanna í ríkisstjórn. Samfylkingin hangir saman á ESB líminu og hefur samþykkt möglunarlaust hvaðeina, sem þurft hefur til þess að komast að samningaborði ESB. Nú eru hinsvegar farnar að berast fréttir af því, að jafnvel sumum þingmönnum Samfylkingarinnar sé hætt að lítast á Icesave blikuna og séu orðnir tvístígandi í málinu, án þess þó að þora að viðurkenna það opinberlega.
Bardaginn, manna á milli, hefur hins vegar verið miklu sýnilegri innan VG, en þar var hart tekist á um samþykktina um aðildarumsóknina að ESB og ef ekki hefðu komið til fimm stjórnarandstæðingar, hefði tillagan fallið á atkvæðum þeirra VG manna sem greiddu atkvæði samkvæmt samvisku sinni. Ótrúlegasta atkvæði, sem greitt hefur verið á Alþingi, var greitt af Svanhildi Svavarsdóttur, sem lýsti því í löngu máli, að hún væri algerlega andvíg aðildarumsókninni að ESB og þess vegna myndi hún greiða atkvæði með henni. Vitlausara geta mál ekki orðið.
Nú gliðnar sprungan milli VG manna enn, því nú þurfti að kúpla Lilju Mósesdóttur út úr Efnahags- og skattanefnd, til þess að hægt væri að ná að afgreiða "meirihlutaálit" stjórnarliða út úr nefndinni. Lilja Mósesdóttir, sem er doktor í hagfræði, hefur lýst sig algerlega andvíga samningi Svavars stúdents og Steingríms J., jarðfræðings, sem álíta sig hafa miklu meira vit á málinu en hún.
Ekkert virðist framundan, annað en VG klofni. Spurningin er bara hvort það verður í tvo eða þrjá smáflokka.
Icesave keyrt út úr efnahags- og skattanefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)