Ríkisstjórnin búin að stórskaða málstaðinn

Sífellt færri stjórnarþingmenn eru tilbúnir til að samþykkja uppgjafaskilmála Breta og Hollendinga vegna efnahagsstríðs þeirra á hendur Íslendinga, þ.e.a.s ríkisábyrgðina á Icesave skuldum Landsbankans.  Þessir uppgjafaskilmálar setja slíkar fjárhagslegar drápsklyfjar á Íslendinga til næstu áratuga, að þeir yrðu að teljast óviðunandi, jafnvel þótt mögulegt væri að standa í skilum, en það myndi draga lífskjörin svo mikið niður, að óviðunandi væri, að ekki sé talað um, ef stöðnun eða afturkippur kæmi í efnahagslífið næstu fimmtán árin.  Þá yrði greiðslubyrðin algerlega óviðráðanleg.

Samningnum verður að hafna og senda nýja öfluga samninganefnd til að ná fram viðunandi lausn á þessu máli, en staðan verður þó þung, vegna afstöðu ríkisstjórnarinnar í málinu til þessa.  Forsætis-, utanríkis-, félagsmála-, fjármálaráðherrar o.fl. stjórnarliðar, hafa keppst við að lýsa Icesave samningnum sem góðri og réttlátri niðurstöðu málsins og engin leið yrði að ná betri samningi.

Samningurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis og hefur því ekkert gildi, fyrr en Alþingi samþykkir hann.  Alþingi hlýtur því að vera í fullum rétti til að hafna honum eða samþykkja hverjar þær breytingar á honum, sem því sýnist.  Alþingi er ekki stimpilpúði fyrir ríkisstjórnina og heiður þingsins er í húfi í þessu máli. 

Þess vegna er ekki hægt að sætta sig við að ráðherrar og einstaka þingmenn keppist við, að tala máli kúgara þjóðarinnar og leggja Bretum og Hollendingum öll vopn upp í hendurnar í framhaldi málsins.

Því miður var ekki bara samninganefnd Íslands í Icesave málinu handónýt málstað Íslands, heldur eru ráðherrarnir það einnig.   


mbl.is Icesave sett á ís?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og heldurðu virkilega að ef sjálfstæðismenn hefðu sent sína "færustu sérfræðinga" (les. góðvini sína) að niðurstaðan hefði orðið eitthvað verulega frábrugðin?  Forsætisráðherra, Seðlabankastjóri og dýralæknirinn Árni ásamt Samfylkingarmönnum voru búnir að samþykkja þessa leið, þ.e. að ríkið myndi ábyrgjast greiðslur og við fengjum lán fyrir því frá Hollendingum og Bretum.  Samningsniðurstaðan yrði algerlega sú sama, hugsanlega smá frávik í tímalengd greiðslna og vöxtum (ekki víst að það væri endilega hagstæðara). Og þá væri staðan sú að Sjálfsstæðismenn væru að berjast fyrir samningnum með kjafti og klóm í þinginu og Steingrímur og co væru trylltir í andstöðu. 

Gunnar (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 10:12

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er alveg sama hver hefði skipað samninganefndina, ef niðurstaðan hefði orðið sú sama og samninganefnd Svavars og Steingríms skilaði af sér.  Allir sanngjarnir menn hefðu mótmælt henni af sama krafti.

Samningurinn öðlast ekki gildi fyrr en Alþingi staðfestir hann og því er enginn samningur kominn á, fyrr en það hefur verið gert, því allir slíkir samningar eru undirritaðir með fyrirvara um slíka staðfestingu.

Ef Alþingi á ekki að hafa síðasta orðið, til hvers er þá verið að ræða þessa staðfestingu á Alþingi?

Axel Jóhann Axelsson, 23.7.2009 kl. 10:36

3 identicon

Ég get ekki séð neitt athugavert við það að Alþingi setji fram sín ákvæði inn í þennan samning. Samningur er gerður til þess að efna hann. Það verða að vera til forsendur til staðar í þjóðfélaginu að hægt verði að greiða þennan samning, þannig að fyrirvarar verða að komast inn í samninginn til að verja okkar stöðu. Ef þeir ekki samþykkja slíka fyrirvara á Alþingi að HAFNA þessum samningi.

Það má benda bretum á óuppgerða skuld sína við  Bandaríkin, þ.e. þau lán sem Bretar fengu frá Bandaríkjunum í fyrri heimstyrjöld. Þeir gátu ekki greitt og sendu tilkynningu til USA að þjóðin hefði ekki efni á því að greiða skuldabréfin. Bandarískir þegnar hafa borið þessar skuldir  Breta. Þessar skuldir voru ekki nauðarsamningur, heldur lán á skuldabréfi  sem USA veitti Bretum.

Eggert Guðmundsson (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband