Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Velferð í fyrirrúmi - eða hitt þó

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna byrjaði sinn feril með upphrópunum um, að hagur heimilanna og þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu yrði hafður í forgangi í anda norrænna velferðarstjórna.

Afar lítið hefur farið fyrir efndum í þessum efnum, enda stjórnarflokkarnir meira en uppteknir í baráttu innbyrðis og sín í milli, um ESB, Icesave, stóriðjumál o.fl., o.fl., þannig að norrænu velferðarmálin hafa ekkert komist að.

Í darraðardansinum vegna ofangreindra mála, hafa t.d. málefni öryrkja og aldraðra algerlega gleymst og nú hefur Landssamband eldri borgara sent frá sér harðorða athugasemd vegna vanefnda ríkisstjórnarinnar í þeim málum, sem að öldruðum snúa.

Í yfirlýsingu landssambandsins segir ma:  "Það hefur verið viðtekin venja, að lífeyrir aldraðra hækkaði í samræmi við hækkun lágmarkslauna.LEB væntir þess, að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fylgi þeirri venju og geri ekki verr við eldri borgara en fyrri ríkisstjórnir í því efni."

Í stjórnarandstöðu náðu Vinstri grænir oft ekki upp í nefið á sér, fyrir reiði yfir því hve fyrri ríkisstjórnir voru vondar við öryrkja og eldri borgara.

Það er hart að áminna þurfi "norrænu velferðarstjórnina" svo harkalega, eftir því hvernig fulltrúar hennar töluðu í stjórnarandstöðunni.  

Ríkisstjórnin minnir enn á umskiptinginn í þjóðsögunni.


mbl.is LEB andvígt því að grunnlífeyrir falli niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bildt handrukkar fyrir Breta og Hollendinga

Össur, utanríkisgrínari, mun á morgun skríða á fjórum fótum, á fund Carls Bildt, formanns ráðherraráðs Evrópusambandsins, og taka við nokkrum svipuhöggum á sitt rauða og bólgna bak, vegna vonaðrar inngöngu Íslands í ESB.

Það er táknrænt, að ganga á fund norræns ráðamanns til að afhenda fullveldisafsalsbeiðni Íslands, því síðast þegar það var gert, var það Noregskonungur sem móttók slíka gjörð af hálfu Íslendinga.  Mörg hundruð ára barátta fyrir endurheimt fullveldis og loks sjálfstæðis verður nú fótum troðin, af bognum, brotnum og kúguðum "leiðtogum" þjóðarinnar.

Í fréttinni kemur fram að:  "Bildt sagði er hann kom fyrir nefnd þingmanna Evrópuþingsins í gær að Íslendingar hafi þegar gengið í gegnum stóran hluta þess aðlögunarferlis sem nauðsynlegt sé til aðildar."  Án þess að það sé útskýrt nánar, á hann væntanlega við, að Ísland sé aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og því séu tiltölulega fá atriði, sem berja þurfi Íslendinga til fylgis við.

Athyglisverðara er það, sem kemur fram í lok fréttarinnar:  "„Það eru mikilvæg mál sem enn á eftir að leiða til lykta en stór hluti ferlisins hefur þó farið fram,” sagði Bildt."

Þarna á Bildt augljóslega við Icesace efnahagsþvinganir ESB gegn Íslendingum.  Þar með er það opinbert, að Carl Bildt er formlegur handrukkari fyirir Breta og Hollendinga.


mbl.is Ræðir við Bildt um ESB umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fá náðasamlegast að ganga í ESB

Margir virðast halda að nóg sé fyrir Íslendinga að senda einfalt bréf til ESB með beiðni um  inngöngu í sambandið og í leiðinni sé ESB sett ýmis skilyrði fyrir inngöngu Íslands, svo sem í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

Þetta er auðvitað reginfirra, því margoft hefur komið fram frá forkólfum ESB, að ekkert land fái inngöngu í sambandið, nema það uppfylli skiyrði ESB um inngönguna, enda skiljanlegt, því nýjir félagar í hvaða félagi sem er, geta ekki sett þeim félagsskap sem þeir vilja ganga í, afarkosti um breyttar reglur, sér í hag.

Þetta virðast margir hérlendis ekki hafa áttað sig á, þrátt fyrir margar ítrekanir framkvæmdastjóra ESB, stækkunarstjóra, annarra embættismanna og stjórnmálamanna innan ESB.  Utanríkisráðherra Hollands tekur af öll tvímæli í þessu efni í eftirfarandi tilvitnun:  "Verhagen segir í samtali við Trouw að það sé algjörlega nauðsynlegt að Ísland samþykki samkomulagið. Annars geti liðið langur tími þar til Ísland fái inngöngu í Evrópusambandið."   Hér er utanríkisráðherrann auðvitað að meina nauðungarsamninginn um ríkisábyrgð á hluta skulda Landsbankans.

Hvað eru íslenskir stjórnmálamenn tilbúnir til að leggjast lágt, til þess að að ganga í ESB.


mbl.is Þrýst á Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lansbankann til almennings

Ekki bregður Steingrímur J. þeim vana sínum að tala í hálfkveðnum vísum um þau mál sem hann er að fjalla hverju sinni.  Reyndar talar hann oft mikið, en segir afar lítið, því flestum málum er haldið algerlega leyndum, þangað til upplýsingarnar eru togaðar út úr ríkisstjórninni með töngum og þá smátt og smátt á löngum tíma.

Nú má ekki upplýsa, hvort ríkisábyrgð á hluta af skuldum Landsbankans muni leiða til þess að erlendir kröfuhafar hinna bankanna vilji eignast þá, að hluta eða öllu leyti.  Ekki er heldur hægt að upplýsa hverjir þessir erlendu aðilar séu, en samt sagt að þeir muni líklega samþykkja að verða bankaeigendur á Íslandi.  Erlent eignarhald, að hluta eða öllu leyti, mun þó ekki breyta neinu um bankastarfsemi á Íslandi í framtíðinni, því Steingrímur J. segist ætla að sjá til þess að bankarnir verði eins og hverjir aðrir sparisjóðir í framtíðinni og stundi sem minnst milliríkjaviðskipti.

Samþykki Alþingi að skella Icesave skuldum Landsbankans á almenning til greiðslu, væri lágmark að ríkið samþykkti um leið, að hlutafjárframlagi ríkissjóðs til Landsbankans verði skipt jafnt milli allra Íslendinga, átján ára og eldri.  Þetta yrði gert um leið og formlega yrði gengið frá "kaupum" erlendu lánadrottnanna á Kaupþingi og Glitni.

Með þessu móti væri mögulegt að gera almenning örlítið sáttari við meðferðina á sér, ef svo slysalega myndi vilja til að Icesave samningurinn yrði samþykktur.


mbl.is „Erfitt en verður að leysast"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samningur við sjálfar sig eða Jóhönnu Sig.?

Fjármáleftirlitið hafði gefið ríkisstjórninni og skilanefndum bankanna lokafrest til 17. júlí til að ljúka endurskipulagningu bankakerfisins, annars myndi Fjármálaeftirlitið sjálft taka málið yfir.  Nú tilkynnir ríkisstjórnin að skilanefndirnar séu búnar að ná samkomulagi við sjáfar sig, um að Glitnir og Kaupþing "kaupi" aftur þá starfsemi, sem klofin var út úr þessum bönkum í fyrrahaust.  Gefið er í skyn að þar með komist þessir bankar í eigu erlendra aðila, en eitt smáatriði er eftir, en það er að þessir erlendu kröfuhafar muni sætta sig við samkomulag skilanefndanna við sjálfar sig.

Að vísu hefur komið fram, að ekki er fullljóst hverjir kröfurhafarnir eru í þessa banka, því sagt er að það komi ekki að fullu fram, fyrr en í nóvember, þegar kröfulýsingarfrestur rennur út.  Einnig er tilkynnt að ríkissjóður hafi frest til 14. ágúst, til þess að leggja bönkunum til nýtt hlutafé, sem erlendu kröfuhafarnir mega kaupa, ef þeir vilja, sem ríkisstjórnin telur "líklegt" að þeir muni vilja.

Svona er hægt að fresta frágangi á öllum málum, með yfirlýsingum um að hitt og þetta verði framkvæmt fyrir þessa og þessa dagsetninguna, en svo situr allt við sama borð.  Þetta er orðin viðtekin aðferð ríkisstjórnarinnar, til að blekkja almenning og fjölmiðla, sem gleypa allt hrátt, sem frá ráðherrunum kemur.

Enginn veit ennþá hvort þessi samningur skilanefndanna er einungis við sjálfar sig eða við Jóhönnu Sig.

Að minnsta kosti er þetta ekki samningur við erlenda kröfuhafa bankanna.


mbl.is Óvissu um bankana eytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bjargar ESB

Því er haldið fram í grein í New York Times, að aðild að Evrópusambandinu og Evra hefði bjargað miklu í efnahagshruninu hérlendis, t.d. hefði verið von til að fá lán frá Evrópska seðlabankanum, eins og Ungverjar.  Ekki er nú séð fyrir endann á efnahagsþrengingum Ungverjalands, frekar en annarra ESB ríkja, sem mörg hver eru að hruni komin efnahagslega.

Ekki bjargar Evran eða ESB Írum, Spánverjum eða Austurríki og ekki bjargar ESB Lettlandi og fleiri löndum, sem nú eru að niðurlotum komin.  Samfylkingin hefur verið óþreytandi að ljúga því að þjóðinni að aðildarumsókn að ESB, ein og sér, muni auka svo traust á Íslandi, Íslendingum og íslensku atvinnulífi, að allir erfiðleikar yrðu úr sögunni, eins og hendi væri veifað.

Tveim dögum eftir að Alþingi samþykkti að senda inn aðildarumsókn að ESB, hafnaði Evrópski fjárfestingarbankinn að veita Orkuveitu Reykjavíkur lán til uppbyggingar orkuvera, sem selja eiga rafmagn til þegar samþykktra stóriðjuverkefna.

Ef þetta er dæmi um aukið traust Evrópulanda til íslensks atvinnulífs, þarf landið ekki fleiri traustsyfirlísingar úr þeirri átt.


mbl.is Fjárfestar vissu að Seðlabankinn kæmi ekki til bjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja ekki borga Icesave

Helstu rök ríkisstjórnarinnar fyrir samþykkt ríkisábyrgðar á Icesave skuldum Landsbankans, eru þau, að annars verði Ísland útilokað frá samfélagi þjóðanna og enginn muni vilja eiga viðskipti við Íslendinga og hvað þá lána þeim einn einasta dollar, eða evru, í framtíðinni.  Enda er því haldið fram, að enginn vandi sé fyrir almenning á Íslandi að taka að sér að greiða þetta, því hér verði svo mikill hagvöxtur og vöruskiptajöfnuður við útlönd á næstu áratugum. 

Allir vita að þetta eru falsrök og samþykkt ríkisábyrgðarinngar eingöngu rándýrt meðmælabréf með aðildarumsókn að ESB.  Líklega er búið að fá vilyrði frá ESB um að sambandið kaupi Ísland inn í ESB með loforði um að yfirtaka Icesave skuldirnar, gegn aðgangi að auðlindum Íslands.

Þegar aðildarsamningur Íslands að ESB mun liggja fyrir, verður hann kynntur þannig, að íslenska þjóðin geti ekki hafnað honum, því með honum munum við losna undan Icesave og eins og allir muni þá eiga að vita, þá geti Íslendingar alls ekki borgað, enda hafi verð gerð mistök við útreikningana.  Þar til viðbótar munu Icesave rökin verða endurvakin, þ.e. að Íslendingar geti ekki fellt aðild að ESB, vegna þess að þá verði Íslandi útskúfað úr samfélagi þjóðanna og enginn muni vilja eiga viðskipti við Íslendinga, hvað þá lána þeim einn einasta dollar og hvað þá evru.

Svona mun málflutningurinn ganga aftur og meira að segja systurflokkur flokks Angelu Merkel í Þýskalandi er strax búinn að sjá í gegnum þetta, enda segir í fréttinni:  "Markus Ferber, leiðtogi CSU á Evrópuþinginu segir að Evrópusambandið geti ekki bjargað Íslandi út úr efnahagskreppunni. "

Bragð er að þá barnið finnur.

Íslendingar þurfa að fara að skilja, að þeir verða að bjarga sér sjálfir, hér eftir sem hingað til.


mbl.is Andsnúnir inngöngu Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfa tíma til að lesa

Árni Þór Árnason, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, telur það afar slæman kost að fresta umræðum um ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans fram á haust, þó hann viti varla hvers vegna það væri slæmur kostur.  Í fréttinni segir hann:  "Ég þori ekki að fullyrða um hvort og þá hvaða afleiðingar það hefði að fresta málinu en ég held í sjálfu sér að málið sé ágætlega þroskað."

Fyrr í fréttinni segir Árni:  "Það liggur hins vegar fyrir gríðarlegt magn af gögnum í málinu, fleiri möppur og ég veit ekki hvenær þingmenn ætla að komast yfir þau öll."  Í þessu felst, að gögn málsins séu svo fyrirferðamikil, að þingmenn hafi ekki haft nokkurn tíma til þess að kynna sér þau.  Þingmenn hafa verið svo uppteknir undanfarið við afsal fullveldisins, að enginn tími hefur gefist til að sinna öðrum málum, hvorki Icesave, né brýnum efnahagsmálum, atvinnumálum eða málefnum heimilanna í landinu.

Fyrst nefndarformaðurinn veit ekki hvenær þingmenn ætla að komast yfir öll gögn Icesavemálsins, er rétt að benda honum á, að einmitt væri upplagt að fresta því til haustsins, svo þingmenn geti kynnt sér gögnin í þinghléinu.

Þetta hefði jafnvel alþingismanni úr stjórnarliðinu átt að geta látið sér detta í hug, því þetta liggur í augum uppi. 

 


mbl.is Frestun Icesave slæmur kostur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæpnum hraðað

Foringjar þeirra þjóðnýðinga, sem samþykktu í gær að grátbiðja ESB um Ísland fengi að gerast afdalahreppur í stórríki Evrópusambandsins, biðu ekki boðanna, í sæluvímu sinni yfir vel heppnuðum svikum við þjóðina, með að skrifa kvölurum þjóðarinnar og segja þeim frá afrekum sínum.

Tillagan um að fá að verða hreppsómagi í stórríkinu var samþykkt um klukkan tvö eftir hádegi í gær og samkvæmt fréttinni var beiðnin um fullveldisafsalið afhent í Stokkhólmi í dag, en fréttin segir:  "Bréfið er dagsett í gær og undirritað af Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra."  Áður hafði verið sagt að bréfsnifsið yrði afhent á fundi ESB, sem haldinn verður þann 27. júlí n.k., en ánægja með óþokkaverkið hefur verið svo mikil, að engu er líkara en pappírinn hafi verið sendur með einkaþotu til Stokkhólms, svona í anda útrásarvina Samfylkingarinnar.

Á lögreglumáli, myndi þetta heita að um staðfastan ásetning um glæp væri að ræða.


mbl.is Búið að sækja um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknir efnahagsbrota

Við rannsókn Baugsmálsins fyrsta var saksóknaraembættið vanbúið til að takast á við svo stórt og flókið mál, enda voru Baugsmenn með allar helstu lögfræðistofur landsins, ímyndarsmiði og fjölmiðla í sinni þjónustu, sér til varnar.  Eftirmynnilegar eru fréttamyndir úr réttarsalnum, þar sem saksóknarinn sat einn við málflutning, gegn allt að níu lögmönnum sem önnuðust vörnina á staðnum, en þar fór einungis toppurinn á varnarjakanum.

Að lokum fór svo, að verjendum tókst að snúa og þvæla málinu fram og til baka, árum saman, og hártoga allar sakargiftir á þann hátt, að sýknað var í flestum ákæruliðum.  Sagt var að þetta hefði líkst vörninni í morðmálinu gegn O. J. Simpson, þar sem sakborningurinn var sýknaður, vegna þess hvernig lögmönnum hans tókst að snúa út úr og véfengja öll sönnunargögn, skjólstæðingi sínum í hag.

Þess vegna er nú afar nauðsynlegt, að leggja til allt það fjármagn og sérfræðingalið, sem mögulegt er, til þess að væntanlegum verjendum banka- og útrásarmógúla takist ekki að eyðileggja allar ákærur, eingöngu vegna þess að ákæruvaldið hafi ekki mannskap til að standa gegn verjendahernum.  Enginn þarf að efast um að væntanlegir sakborningar munu hafa peninga til að ráða alla snjöllustu verjendur landsins og jafnvel erlendar lögfræðiskrifstofur í tilraunum sínum til að hnekkja öllum ákærum.

Þrátt fyrir kreppu, verður þjóðin að hafa efni á að rannsaka meinta efnahagsglæpi, þótt flóknir séu.


mbl.is Rannsókn á efnahagsbrotum efld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband