Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
9.5.2009 | 14:38
Stórmerkileg frétt um mokkasíur
Alveg er þessi frétt um páfann og mokkasíurnar merkileg, eða hitt þó heldur. Er virkilega ekkert merkilegra við þessa heimsókn páfans til Jórdaníu, annað en það að páfinn hafi gengið á mokkasíum eftir dregli, sem fylgdarmenn hans leiddu hann "rakleiðis á"?
Það mun vera venja að fara úr skóm, áður en gengið er inn í það helgasta í moskum múslima, en líklega hefur þessi dregill einmitt verið settur þarna sérstaklega af þessu tilefni, til þess að blessuðum páfanum yrði ekki kalt á tánum.
Fylgdarmaður páfa var ekki ómerkari maður en Ghazi bin Muhannad bin Talal, prins Jórdaníu og eins og sést vel á myndinni, sem fylgir fréttinni, gekk hann eftir þessum sama dregli á sandölum, að vísu berfættur, svo honum hefur kannski orðið kalt á tánum. Reyndar eru allir, sem sjást á myndinni, í skóm, jafnvel öryggisverðirnir sem alls ekki ganga eftir dreglinum.
Þó heimspressan sé upptekin af svona dellu, er óþarfi að hafa hvaða vitleysu sem er eftir henni.
Páfinn á mokkasíum í moskunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2009 | 12:48
Kattameindýr
Hvernig í ósköpunum á að framfylgja banni við lausagöngu kattameindýra í þéttbýli? Jú, þau eru auðvitað skotin á færi með haglabyssu, enda hefur meidýraeyðirinn á Húsavík heyrt að "margir óþolinmóðir borgarar hafi tekið málin í sínar hendur og aflífað lausa ketti og hunda."
Það er sennilega auðveldara að passa upp á hundameindýr en kattameindýr, því þau fyrrnefndu venjast taumi betur en hin. Kattameindýrin hinsvegar eru svo sjálfstæð, að þau kæra sig ekkert um að fara í spássitúra með eigendunum, hangandi í bandi. Þau vilja miklu frekar valsa um laus og liðug og meira að segja færa þau eigendum sínum stundum músameindýr inn í stofu og jafvel gera stykkin sín þar sem þeim sýnist.
Við þessu verða almennir borgarar náttúrulega að bregðast og a.m.k. Húsvíkingar ganga vopnaðir um götur til þess að losa bæinn við þessa meindýraplágu.
Í yfirlýsingu meindýraeyðis Húsavíkur segir: "Í raun svo það sé bara á hreinu þá ber mér að halda dýrunum í vörslu þangað til eigandi hefur vitjað þeirra og borgað umsamið gjald þeim til lausnar."
Til hvers er þá haglabyssan? Eiga eigendurnir að leysa hræin úr vörslu með því að borga umsamið lausnargjald?
Meindýraeyðir ver sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
9.5.2009 | 10:46
Viðvaranir seðlabankans
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að spá seðlabankans, um að krónan eigi ekki eftir að styrkjast verulega á næstunni, sé eins og blaut tuska framan í þau, þar sem menn hefðu vonast eftir að krónan styrktist allverulega.
Sennilega hefði verið betra að taka mark á spám seðlabankans fyrr, eða eins og fram kemur í fréttinni: "Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir viðvörunarorð Seðlabankans varðandi skuldsetningu í erlendri mynt hafa verið hundsuð. Það hefur ýmislegt verið sagt um Seðlabanka Íslands í umræðu um efnahagsmál en það er ekki hægt að segja að Seðlabankinn hafi ekki varað við lántökum í erlendri mynt á meðan tekjurnar eru í krónum. Það hafa forsvarsmenn bankans gert við ýmis tilefni undanfarin ár, sagði Þórarinn."
Þetta er hárrétt hjá Þórarni. Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, varaði oft opinberlega við erlendum lántökum einstaklinga og í Peningamálum seðlabankans, sem kemur út ársfjórðungslega, var í mörg ár varað við að gengi krónunnar væri allt of hátt í sögulegu samhengi.
Í nóvember árið 2007, þegar "lánærið" stóð sem hæst kom fram að seðlabankinn reiknaði með a.m.k. 20% gengisfellingu á fyrri hluta ársins 2008, með þessum fyrirvara: "Hátt raungengi , viðskiptahalli og endurmat erlendra fjárfesta á áhættu, gætu skapað þrýsting til lækkunar á gegni krónunnar umfram það sem gert er ráð fyrir í grunnspá."
Á þessum tíma var sagt að allt sem frá seðlabankanum kæmi, væri nánast grín, af því að aðalbankastjórinn væri fyrrverandi pólitíkus, sem ekkert mark væri á takandi.
Greinigdardeildir bankanna tóku undir að seðlabankinn væri ómarktækur og kepptust þess í stað við að útmála það fyrir landanum, að allt væri í blóma í landinu og bankarnir kepptust við að ýta erlendum lánum að almenningi, fyrirtækjum og sveitarfélögum vegna þess að þau væru svo hagkvæm, einmitt vegna hárra stýrivaxta seðlabankans. Stýrivextirnir voru auðvitað til þess að reyna að sporna gegn lánaæði landans.
Bankarnir og almenningur hefðu átt að hlusta betur á Davíð Oddsson, áður en það varð of seint.
Eins og blaut tuska | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.5.2009 | 08:54
Össur grínari
Össur Skarphéðinsson, uppistandari, hélt mikinn fjölmiðlasirkus vegan ummæla "flokksbróður" síns, Gordons Brown, um að Bretar ættu í viðræðum við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn um skuldir íslendinga vegna Icesave.
M.a. segir í fréttinni: "Össur bar í gær fram formlega kvörtun vegna ummæla Gordons Browns, forsætisráðherra Bretlands, í fyrirspurnatíma breska þingsins." Einnig kemur fram að: "Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segist ánægður með það sem kemur fram í yfirlýsingu frá breska forsætisráðuneytinu sem send var út í gærkvöldi. Þar er viðurkennd ábyrgð breska fjármálaráðuneytisins á Kaupthing Singer and Friedlander-bankanum auk þess sem fram kemur stuðningur við samkomulag íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn."
Hvað er Össur svona ánægður með í svarinu? Þar er ekkert minnst á það sem Gordon Brown sagði í þinginu, aðeins aumkunarverður útúrsnúningur og falsskýringar. Ekkert er minnst á hvort og þá um hvað, Bretar hafa verið að ræða við AGS um Icesave. Svarið virðist eingöngu sýna það, að Bretar, eins og Íslendingar, taka aldrei mark á Össuri, heldur glotta bara út í annað, af því að brandararnir eru oftast ekki í háum gæðaflokki.
Össur sagði í sjónvarpinu í gær, að hann væri bara "starfsmaður á plani", væntanlega hjá Steingrími J. Bjarnfreðarsyni.
Miðað við þessa uppákomu, ætti hann ennþá að vera "starfsmaður í þjálfun".
Ánægður með svör | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.5.2009 | 14:27
ESB og heimskapítalisminn
Í upphafi fréttarinnar kemur fram að: "Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eigi að herða þumalskrúfurnar á íslensku þjóðinni og sjá til þess að hún borgi eins og lánardrottnar geri kröfu um. Sjóðurinn sé heimslögregla kapítalismans."
Þessi yfirlýsing er athyglisverð fyrir þær sakir að "vinaþjóðir" okkar í Evrópu, þar með talin norðurlöndin, neituðu að koma Íslandi til aðstoðar (með lánum) þegar hrunið varð í haust, nema með því óhagganlega skilyrði að fyrst yrði leitað til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem myndi hafa umsjón með allri lánafyrirgreiðslu og annarri aðstoð.
Samkvæmt áliti Ögmundar eru þá ESB þjóðirnar og Noregur dyggir verðir heimskapítalismans, því í raun voru það þessar þjóðir sem kærðu til "heimslögreglu kapítalismans". Ef rétt er munað voru líka settar fram kröfur frá þessum þjóðum um að samið yrði við Breta um Icesave, fyrr yrði ekkert við Íslendinga talað.
Nú lýsir Össur, utanríkisráðherra, yfir því að hann sé búinn að fá nóg af félögum sínum í systurflokki Smáflokkafylkingarinnar í Bretlandi og þá ekki síst formanni þess flokks. Fram að þessu hefur Smáflokkafylkingarfólk haldið því fram að SMF og Breski verkamannaflokkurinn væri nánast eitt og hið sama og hafa fulltrúar SMF setið stoltir á ársþingum verkamannaflokksins og látið eins og þeir væru á sínu eigin þingi.
Hvenær ætlar Össur að lýsa því yfir að hann sé búinn að fá upp í kok af framgangi annarra ESB landa en Bretlands?
Heimslögregla kapítalismans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2009 | 09:56
Misgengi fasteignaverðs og -lána
Frá því að verðtrygging fasteignalána var sett í lög, í tíð vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar, hefur nokkrum sinnum skapast svokallað "misgegni" milli verðmætis fasteigna og lánanna, sem á þeim hafa hvílt. Þetta kom einna verst út á árunum 1982-1984, þegar verðbólga fór yfir 100%, en verðtrygging launa var afnumin. Þrátt fyrir það hefur verð fasteigna alltaf hækkað meira en sem nemur vísitölu lánanna, þegar yfir lengra tímabil er litið, þannig að eignmyndun í fasteignum hefur verið mikil.
Nú er svipað ástand uppi og var á fyrrnefndum árum, hvað varðar misgengi fasteignaverða og lána, en engin ástæða til að ætla annað, en að eftir nokkur ár muni þetta jafna sig aftur. Þess vegna vekur þessi hluti ályktunar málefnahóps VG upp spurningar: "Fall bankanna og efnahagshrunið samfara því hafi síðan aftur orsakað verðfall fasteigna, þannig að raunvirði þeirra sé í miklum fjölda tilfella orðið mun lægra en áhvílandi skuldir.
Málefnahópurinn leggur til að VG muni því beita sér fyrir því að þau lán sem hærri eru en sem nemur raunvirði eigna, verði færð niður sem því nemur."
Á þá að færa lánin niður í áætlað raunvirði eignanna, eins og það er núna, eða á að færa þau niður í það raunvirði, sem seðlabankinn áætlar að það verði 2011? Hvað á að gera, þegar fasteignaverð hækkar aftur og lánin verða lægri en raunvirði fasteignarinnar? Á þá að hækka lánin aftur? Hvað á að gera fyrir þá sem skulda 95% í sinni fasteign? Á að hækka þeirra lán í nafni jöfnuðar?
Svona illa fram settar tillögur eru ekki boðlegar í alvöru umræðu um vanda heimilanna.
Málefnahópur VG vill lækka höfuðstól lána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.5.2009 | 16:38
Opin og gagnsæ stjórnsýsla
Ríkisstjórnin, sem lýsti því yfir við valdatöku sína, að framvegis yrði stjórnsýslan opin og gagnsæ, hefur haldið fréttamannafundi vikulega á þriðjudögum, án þess að segja frá nokkru markverðu, sem stjórnin hyggst gera í efnahagsmálunum, hvað þá að nokkrar upplýsingar hafi verið gefnar um Icesave viðræður.
Reyndar sagði fjármálajarðfræðingurinn fyrir nokkuð löngu síðan að búast mætti við glæsilegum niðurstöðum í Icesave málinu fljótlega. Hann dró það svo til baka viku síðar og ekkert hefur frést af málinu, fyrr en farið er að ræða um það í breska þinginu og þá kemur þetta fram:
Það er forgangsmál að íslensk stjórnvöld borgi. Þess vegna eigum við í samningum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og önnur stjórnvöld um hversu hratt Ísland geti endurgreitt það tap, sem landið ber ábyrgð á," sagði Brown.
Eru Bretar að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um skuldir Íslendinga? Við hvaða önnur stjórnvöld eru Bretar að semja um þessar sömu skuldir?
Það er kominn tími til að þessi dáðlausa ríkisstjórn fari að upplýsa þjóðina um þessi mál og önnur.
NÚNA.
Forgangsmál að Íslendingar borgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2009 | 15:42
Nýjir tímar - aftur?
"Nýir tímar boða til mótmæla við Alþingishúsið klukkan 13 á morgun vegna aðgerðarleysis íslenskra stjórnvalda gagnvart stöðu heimilanna í landinu, að því er segir í tilkynningu."
Þetta eru sömu samtökin og efndu til sigurhátíðar þann 30. janúar s.l., þar sem þau töldu markmiðum sínum náð, þ.e. að hræða Smáflokkafylkinguna úr þáverandi ríkisstjórn og ganga til nýrrar með vinstri grænum, eins og sjá má á heimasíðu samtakanna hér
Á milli útifunda voru kröfuspjöld og annað mótmæladót geymt á skrifstofu vinstri grænna, enda stóðu þeir á bak við mótmælin (ásamt fleirum), eins og öllum er kunnugt. Borgarahreyfingin var hluti þessara mótmælenda, þrátt fyrir að á heimasíðunni megi finna þessa setningu: "Hjá Nýjum tímum göngum við þvert á allar pólitískar flokkslínur og neitum að vera grundvöllur fyrir pólitískt framapot."
Vonandi verður skrifstofa vinstri grænna opin á morgun, svo mótmælendur geti endurnýtt gamla mótmæladótið, enda er það í takti við vistvæna stefnu vinstri grænna í umhverfismálum.
Boðað til mótmæla á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.5.2009 | 14:01
Dómínóáhrif
Spá seðlabankans um lækkun íbúðaverðs getur haft víðtæk dómínóáhrif, því enginn mun vilja kaupa íbúð næstu tvö ár, en mjög margir munu reyna að selja sem fyrst, þ.e. áður en verðið lækkar meira. Þeir, sem búa í yfirveðsettum íbúðum, munu auðvitað ekki geta selt og búa því í þeim áfram, en aðrir, sem t.d. vildu minnka við sig munu reyna að selja, leigja svo um tíma og kaupa aftur þegar verð lækkar.
Þannig getur skapast ákveðinn vítahringur á fasteignamarkaði, sem slíkir spádómar ýta undir. Hitt er auðvitað rétt, að fasteignaverð var komið langt út fyrir öll vitræn mörk, því á tímabili hækkaði íbúðaverð um 40% á sama tíma og byggingavísitala hækkaði um 4%. Á því tímabili yfirbuðu fasteignakaupendur hvorn annan eins og verið væri að bjóða í síðustu fölu fasteignina í landinu.
Nú er sú bóla sprungin og þeir sem hæst spenntu bogann sitja í súpunni um tíma, en allt mun þetta jafna sig aftur eftir nokkur ár, þegar eðlilegt ástand kemst á aftur.
Framundan gæti verið verðhjöðnun og þá munu verðtryggðu lánin fara að lækkandi, sem kemur aðeins upp á móti lækkandi verði.
46% raunlækkun fasteigna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2009 | 11:49
Þumalskrúfa á ríkisstjórnina
Samkvæmt Peningamálum seðlabankans eru stýrivextir aðeins lækkaðir um 2,5% núna til að setja þrýsting á ríkisstjórnina um verulegan niðurskurð ríkisútgjalda núna strax og ekki síður á næstu þrem árum. Þó það sé ekki nefnt beinum orðum, þarf þessi niðurskurður að vera "blóðugur" og nema a.m.k. 60 milljörðum króna á ári, fram til 2013.
Í Peningamálum kemur fram að: "Peningastefnunefndin gerir einnig ráð fyrir að aðhald í ríkisfjármálum verði aukið í sumar. Gert er ráð fyrir verulegum niðurskurði útgjalda hins opinbera og að skattar verði hækkaðir, auk annarra tekjuaukandi aðgerða sem kæmu til framkvæmda í áföngum fram til ársins 2011. Gert er ráð fyrir að jöfnuður náist í rekstri ríkisins árið 2012 og að þannig skapist forsendur fyrir hægfara lækkun skulda ríkissjóðs."
Til að gulltryggja, að ríkisstjórnin skilji hvað bankinn (og AGS) eru að meina, er hnykkt á með því, sem bæði getur hljómað sem loforð og hótun: "Verði gengisþróun krónunnar og aðgerðir í fjármálum hins opinbera eins og nú er gert ráð fyrir, væntir peningastefnunefndin þess að stýrivextir verði lækkaðir umtalsvert til viðbótar eftir fund nefndarinnar í júní, enda verði þá komin til framkvæmda fleiri skref í efnahagsáætluninni. Eftir það gerir nefndin ráð fyrir hægari lækkun stýrivaxta."
Í stjórnarmyndunarviðræðunum hefur fólk verið látið halda að ESB málið hefði verið að vefjast fyrir, en það er eingöngu blekking. Tíminn hefur farið í að uppfylla skilyrði AGS og það hefur staðið í flokkunum.
Þegar stjórnarsáttmálinn verður kynntur um helgina, mun þetta koma í ljós.
Umtalsverð vaxtalækkun í júní | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)