Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
7.5.2009 | 09:47
Væskislegt
Ekki var við að búast, að Peningastefnunefnd og norski förusveinninn í seðlabankanum, hefðu dug og þor til að lækka stýrivextina jafn mikið og þurft hefði. Miðað við 13% stýrivexti eru raunvextir ennþá 11,6%, því verðbólgan er ekki nema 1,4% núna. Áður en Alþjóðagjaldeyrisstjóðurinn, sem stjórnvöld fela sig á bak við í þessu efni, kom hér að málum voru stýrivextir komnir niður í 12% og þótti mönnum þá nóg um.
Eftir hrunið voru stýrivextir hækkaðir upp í 18%, þegar engin rök voru fyrir slíku, því eðlileg viðbrögð við kreppunni hefðu átt að vera skörp lækkun stýrivaxta, en ekki hækkun. Allir seðlabankar, annarsstaðar en hér, hafa verið að lækka sína vexti, sem viðbrögð við kreppunni og eru stýrivextir annarra seðlabanka á bilinu 0,5-2%.
Furðulegt er, ef menn álíta að hér á landi gildi einhver önnur hagfræðilögmál en annarsstaðar í heiminum. Með þessari stefnu í vaxtamálum og vinstri stjórn í landinu, mun kreppan verða lengri og dýpri, en hún annars hefði orðið.
Allt útlit er fyrir að í haust muni seðlabankinn þurfa að grípa til seðlaprentunar til þess að reyna að koma efnahagslífinu upp úr þeirri verðhjöðnun, sem nú er útlit fyrir að taki við og er enn bölvaðri en verðbólgan.
Það er eins og allt sé reynt til að gera ástandið verra.
![]() |
Stýrivextir lækka í 13% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2009 | 17:19
Greiðslu(verk)fall
Orðið "greiðsluverkfall" er í raun alveg ótrúlegt orðskrýpi. Ef skuldari greiðir ekki af skuldum sínum, flokkast það ekki undir að hann hafi lagt niður eitthvert verk, heldur verður einfaldlega greiðslufall hjá honum og skuldin fer af háum vöxtum yfir á enn hærri dráttarvexti. Að ákveðnum tíma liðnum frá greiðslufallinu fer skuldin í lögfræðiinnheimtu, með tilheyrandi viðbótarkostnaði, og að lokum verður eignin, sem veðsett var fyrir skuldinni, sett á uppboð og seld hæstbjóðanda.
Skuldabréf er samningseyðublað, sem lánveitandi og lántakandi undirrita báðið í votta viðurvist og á eyðublaðinu kemur allt fram um upphæð skuldarinnar, tryggingar fyrir henni og hvernig hún skuli endurgreidd. Standi lántakandi ekki við sinn hluta samningsins og greiðir ekki afborganir á réttum tíma, þýðir ekkert fyrir hann að segjast bara vera í verkfalli og ætli kannski að borga þegar honum dettur í hug að aflýsa verkfallinu.
Ef skuldari getur ekki staðið við upphaflega skilmála samningsins, þá fer hann auðvitað til síns lánveitanda og gerir nýjan samning um eftirstöðvarnar. Geti hann staðið við samninginn, þá ber honum auðvitað að gera það möglunarlaust.
Það þýðir ekkert að segjast ekki borga "af því bara".
![]() |
Greiðsluverkföll ekki mikið nefnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.5.2009 | 15:23
Húsaræningjar
Nýlega ruddist glæpagengi inn í hús á Arnarnesinu og rændi þar ýmsum munum frá húsráðendum og hélt húsinu og íbúum þess á sínu valdi í tuttugu mínútur. Atburðurinn vakti viðbjóð með þjóðinni og lögreglan lagði sig alla fram um að hafa uppi á glæpamönnunum, sem tókst fljótt og vel, og sitja þeir ennþá í gæsluvarðhaldi.
Nú er samskonar glæpalýður að verki á Vatnsstíg og eini munurinn er sá, að nú er ekki verið að stela munum úr húsinu, heldur er verið að ræna húsinu sjálfu. Þá bregður svo einkennilega við, að fjölmiðlar birta yfirlýsingu frá glæpagenginu og ef að líkum lætur munu birtast viðtöl við glæpamennina, bæði í blöðum og sjónvarpi. Þegar lögreglan hefur afskipti af þessum glæpalýð, er hún sökuð um hörku og fantaskap við handtökur. Siðan fær þessi skríll góðlátlega áminningu og byrjar fljótlega aftur á glæpum sínum.
Skyldu Arnarnesræningjarnir hafa sloppið með klapp á bakið, ef þeir hefðu haft vit á að senda fjölmiðlum yfirlýsingu til réttlætinar gerða sinna, eða jafnvel kallað saman blaðamannafund?
![]() |
Hópur fólks kominn inn á Vatnsstíg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.5.2009 | 13:16
Norskir seðlabankastjórar
Norski seðlabankastjórinn í Noregi lækkaði stýrivexti í morgun niður í 1,5%. Því er spáð af greiningardeildum bankanna að norski seðlabankastjórinn á Íslandi muni lækka stýrivexti um 1,5%, þannig að eftir lækkun verði þeir 14%. Núverandi verðbólgustig er 1,4%, þannig að með þessu yrðu raunvextir seðlabankans 12,6%. Þetta er auðvitað algert heimsmet, sem enginn hefur áhuga á að slá.
Í fréttinni segir seðlabankastjórinn (sá norski í Noregi): "Svein Gjerdem, seðlabankastjóri, segir í yfirlýsingu að nýjar upplýsingar bendi til þess að núverandi fjármálakreppa sé sú dýpsta sem komið hafi frá síðari heimsstyrjöld."
Fyrst kreppan er að verða svona djúp í Noregi, væri þá ekki ráð fyrir norska seðlabankastjórann á Íslandi og stjórnvöld, að fara að gera sér grein fyrir því að kreppan á Íslandi hefur þegar náð því stigi, sem sá norski í Noregi óttast?
Ef sá skilningur væri fyrir hendi, yrðu íslensku stýrivextirnir lækkaðir niður í 3-4% á morgun.
![]() |
Norskir vextir lækka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.5.2009 | 15:47
Vanhæf ríkisstjórn
Alveg er makalaust ef ríkisstjórnarflokkunum dettur í alvöru í hug að skjóta því til stjórnarandstöðunnar hvort sækja á um aðild að ESB, eða ekki. Ekkert lýsir vanhæfi þessarar stjórnar betur, ef satt er að hún sé "sammála um að vera ósammála" í þessu eina kosningamáli Smáflokkafylkingarinnar.
Ef leggja á þingsályktunartillögu fyrir Alþingi, hver á þá að semja tillöguna? Á hún að vera svo almenn, að ekki kæmu fram í henni samningsmarkmiðin? Á að reyna að fá stjórnarandstöðuna til að skrifa upp á tillöguna fyrirfram, eða á bara að vonast til að hún samþykki hvaða tillögu, sem Smáflokkafylkingunni dytti í hug að leggja fram? Þetta er í raun svo fáráðnleg hugmynd frá stjórnarflokkunum, að varla er eyðandi tíma í að fjalla um þessa vitleysu.
Sjálfstæðisflokkurinn telur aðild að ESB þjóni ekki hagsmunum Íslands núna, Framsókn vill umsókn með svo ströngum skilyrðum, að engar líkur eru til að samningar næðust, Borgarahreyfingin hefur enga stefnu í málinu, en sumir þingmenn hennar hafa sagt að þeir væru til í aðildarviðræður, rétt til að sjá hvað út úr þeim kæmi og VG er algerlega andvígt aðildarviðræðum. Smáflokkafylkingin ein vill fara í skylyrðislausar aðildarviðræður og það strax, væntanlega án nokkurs undirbúnings, eða samningsmarkmiða.
Alþingi verður að athlægi um víða veröld, þegar stjórnarflokkarnir fara að rífast sín á milli um þetta mál á Alþingi. Ríkisstjónin er að sýna það sem áður var reyndar vitað, þ.e. að þetta er VANHÆF RÍKISSTJÓRN.
Skyldu Vinstri grænir beita málþófi, til að koma í veg fyrir samþykkt þingsályktunartillögunnar?
![]() |
Kemur ekki til greina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.5.2009 | 14:42
Djörfung ríkisstjórnarinnar
"Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segist telja að svigrúm sé nú til þess, að nafnvextir lækki jafnhratt og verðbólgan. Sagðist hann á blaðamannafundi í dag myndu fagna djarfri ákvörðun Seðlabankans um vaxtalækkun en vaxtaákvörðunardagur er nú á fimmtudag." Á þessum orðum hefst frétt mbl.is um væntingar ríkisstjórnarinnar til djörfungar Seðlabankans á fimmtudaginn. Miðað við fyrri verk norska förusveinsins og peningastefnunefndarinnar er ekki að vænta stórafreka úr þeirri átt.
Við hverja stýrivaxtaákvörðun ruglar bankinn um tólf mánaða verðbólgu aftur í tímann, en hún skiptir nákvæmlega engu máli í framtíðinni, því núverandi verðbólgustig er aðeins 1,4%. Ef Gylfa á að verða að ósk sinni þyrfti stýrivaxtalækkunin næsta fimmtudag að fara strax niður í 3-4% og niður í 1% fyrir lok ársins, enda verður þá líklega verðhjöðnun í landinu, en ekki verðbólga.
Nú kemur í fyrsta skipti fram hjá ríkisstjórninni að gríðarlegt verk væri framundan í ríkisfjármálum og nú þyrfti hún að fá skoðanir frá fulltrúum launþega, atvinnurekenda, bænda og sveitarfélaga. Það var nú tími til kominn, að stjórnin færi að gera sér grein fyrir þeim efnahagsvanda sem þjóðfélagið er í og hefur reyndar átt í um átta mánaða skeið. Betra seint en aldrei.
Eftir uppgjöfina í ESB málinu, þyrfti ríkisstjórnin sjálf að fara að sýna dálitla djörfung á einhverjum sviðum.
![]() |
Myndi fagna djarfri vaxtalækkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.5.2009 | 09:15
Stjórnarmyndunarhneyksli
Smáflokkafylkingin sagði fyrir kosningar að ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir stjórnarmyndun eftir kosningar yrði að umsókn um aðild að ESB væri hornsteinn væntanlegrar ríkisstjórnar, t.d. sagði Björgvin Sigurðsson að Smáflokkafylkingin "myndi ekki selja þetta mál frá sér aftur".
Nú berast fregnir af því, að stjórnarflokkarnir geti ekki komið sér saman um lausn ESB málsins og ætli að vísa málinu til stjórnarandstöðunnar til úrlausnar. Annar eins aumingjaskapur hefur aldrei fyrr í lýðveldissögunni komið fram við stjórnarmyndanir og getur ekki kallast neitt annað en reginhneyksli.
Í fréttinni segir: "Eftir því sem næst verður komist er niðurstaðan sú að það verði meirihluta Alþingis að ákveða hvort hafnar verða aðildarviðræður við Evrópusambandið, óháð ólíkri stefnu stjórnarflokkanna til aðildar. Sú ákvörðun eigi ekki að raska stjórnarsamstarfinu."
Smáflokkafylkingin ætlar að treysta á, að stjórnarandstaðan samþykki aðildarviðræður og VG ætlar að treysta á, að hún felli þær. Niðurstaðan á ekki að raska stjórnarsamstarfinu. Það er ekki hægt að bjóða upp á ríkisstjórn, sem ekki getur náð niðurstöðu í því, sem Samfylkingin kallar brýnasta og nauðsynlegasta mál samtímans.
Fyrst það á að vísa þessu máli til afgreiðslu stjórnarandstöðunnar, er þá ekki best að vísa öllum öðrum málum til hennar og núverandi ríkisstjórn segi af sér vegna aumingjaskapar, jafnt í þessu máli sem öðrum.
![]() |
ESB-málið til Alþingis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2009 | 17:22
Veruleikafirring
Það er með ólíkindum hve veruleikafirring íslenskra banka- og útrásarvíkinga hefur verið alger á undangengnum "lánærum". Í fréttinni kemur fram að: "Persónulegar ábyrgðir Björgólfs Guðmundssonar á skuldbindingum fyrirtækja hans hjá Landsbanka Íslands nema nú um 58 milljörðum króna."
Margur maðurinn hefur farið illa á því að skrifa upp á persónulegar ábyrgðir á lægri upphæðum en þetta og ótrúlegt að Landsbankinn taki persónulegar ábyrgðir fyrir öðrum eins upphæðum. Ef til vill er skýringin sú, að þessi stóri ábyrgðarmaður var einnig formaður bankaráðs Landsbankans og hafði þar með greiðari aðgang að sjóðum bankans en aðrir. Einhver hefði nú leyft sér að kalla það nánast hámark fjármálaspillingar, en eftir því sem fleira kemur í ljós í þessum efnum, blikna eldri málin alltaf í samanburðinum.
Í fréttinni er einnig sagt að heildareignir Björgólfs hafi verið að verðmæti 143 milljarðar króna í ársbyrjun 2008, en ekkert sagt um hve háar skuldir stóðu á móti þessum eignum. Til að setja þessa tölu í eitthvert samhengi, er hún hærri en allur áætlaður tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi á árinu 2009. Að einn einstaklingur hafi verið að spila fjárhættuspil með slíkar upphæðir undirliggjandi, er í raun svo fáráðnlegt, að engu tali tekur.
Grátlegast af öllu er, að sumir útrásarvíkinganna spiluðu með miklu stærri pott í sínu glæfraspili og þegar öll spil verða lögð á borðið, mun áhætturugl og tap Björgólfs líklega blikna í þeim samanburði.
![]() |
Björgólfur ábyrgur fyrir 58 milljörðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2009 | 13:32
Stórundarlegt fréttamat fjölmiðla
Afar undarlegt hefur verið að fylgjast með fréttum af stjórnarmyndunarviðræðunum undanfarna viku, en um fátt hefur verið fjallað varðandi þær, annað en ágreining flokkanna um ESB. Til þess að beina athygli frá því sem skiptir máli í þessum viðræðum, hafa stjórnarflokkarnir ýtt undir þessa umræðu og fjölmiðlarnir hafa fallið beint í gryfjuna.
Haft er eftir Jóhönnu, ríkisverkstjóra í fréttinni að: Við ætlum okkur að starfa út þetta kjörtímabil og viljum því hafa fast land undir fótum. Þar fyrir utan vita allir að bil var á milli flokkanna að því er varðar Evrópumálin og engan skyldi undra að við þurfum að gefa okkur tíma til að ná niðurstöðu þar, sagði Jóhanna í gær.
Allri síðustu viku var sem sagt eytt í snakk um ESB og ekki fyrr en í dag, að starfshópur er skipaður til að ræða um efnahagsvandann og ríkisfjármálin (þ.e. niðurskurðinn blóðuga). Þetta eru þau mál sem alvarlegust eru og umsókn um aðild að ESB mun ekki leysa, heldur verður þjóðin að vinna sig út úr þeim sjálf. Á "nýja Íslandi með gagnsæi og upplýsingaflæði til almennings" er látið eins og þessi vandi sé eitthvert smámál, sem verði leyst um leið og búið sé að ná einhverri niðurstöðu varðandi ESB.
Það er ekki boðlegt að bjóða þjóðinni upp á svona vinnubrögð. Fjölmiðlarnir dansa með í vitleysunni og ganga nánast ekkert á flokkana um hvernig á að taka á þeim málum sem brenna á almenningi, en það eru ekki ESB mál, enda meirihluti þjóðarinnar á móti sambandsaðild.
Fjárlög fyrir næsta ár verða "neyðarfjárlög" og þurfa samþykki Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. AGS frestaði öðrum hluta lánsáætlunar sinnar til Íslands, vegna ónógs niðurskurðar í ríkisfjármálum og óvissu í stjórnmálunum. Nú mun sjóðurinn ekki sætta sig við annað en áætlunum hans verði hrundið í framkvæmd.
Nú eru í gangi stjórnarmyndunarviðræður AGS við VG og SMF og um það eiga fjölmiðlarnir að fjalla.
![]() |
Stjórnarmyndunarviðræðum haldið áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2009 | 09:23
Áhrifalaus gjaldþrot
Fyrir rúmum átta mánuðum birtust fréttir af miklum fyrirtækjasölum og -kaupum fjárfestingafélagsins Fons og kom fram að með þessum viðskiptum hefði Fons hagnast um áttatíu milljarða króna og væri þar með orðið eitt öflugasta fjárgestingafélag á Íslandi. Þessa, ekki svo gömlu, frétt, má sjá hér
Nú koma fréttir af því að Fons sé gjaldþrota, en gjaldþrotið hafi engin áhrif á helstu félögin, sem áður voru í eigu Fons, því þau eru komin inn í önnur félög, t.d. Iceland Express o.fl., sem eftir sem áður eru í eigu Pálma Haraldssonar og líklega einnig Jóhannesar Kristinssonar.
Sennilega voru útrásarvíkingarnir snillingar eftir allt saman, þ.e. snilliganr í sýndarviðskiptum og í því að blekkja erlenda banka til að taka þátt í að fjármagna blekkingarnar. Ekki þurfti að blekkja íslensku bankana, því þeir voru beinir þátttakendur í vitleysunni.
Nú er að koma í ljós að útrásarvíkingarnir eru einnig snillingar í því, að setja fyrirtækin sín á hausinn, án þess að verða gjaldþrota sjálfir.
Jóhannes í Bónus kemur svo reglulega í fjölmiðla og grætur örlög sín og útrásarvíkinganna.
Margir gráta með og vorkenna honum og hingum útrásarvíkingunum, fyir hvað allir séu vondir við þá.
![]() |
Gjaldþrot Fons hefur ekki áhrif á Ticket |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)