Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Opið og gegnsætt söluferli

Guðmundur Franklin Jónsson segir að mikilvægt sé, að fleiri en núverandi eigendur Haga, fái kost á að kaupa fyrirtækið.  Ef hann á við Bónusfeðga, þá eiga þeir ekkert í Högum, því Kaupþing er búið að yfirtaka 1998 ehf., sem var í raun aldrei annað en leppfyrirtæki fyrir bankann, þar sem hann hafði lánað 1998 ehf. fyrir öllu kaupverðinu og gott betur.

Sú krafa hlýtur að verða í heiðri höfð, að salan á Högum verði opin og gegnsæ, þannig að þeim skrípaleik, sem viðgekkst við kaup og sölu fyrirtækja milli útrásarglæframannanna og þegar þeir seldu og keyptu af sjálfum sér, verði hætt og allt verði haft uppi á borðum.

Fyrrverandi eigendum Haga á ekki að líðast að fá erlenda leppa, til að leggja fram sýndarhlutafé, til að auðvelda feluleik með tugmilljarða skuldaniðurfellingu til handa Baugsfeðgum.  Nóg er komið af slíku.

Einnig verður að gera þá kröfu, að væntanlegur hluthafalisti "Þjóðarhags" verði öllum aðgengilegur, þannig að ljóst verði frá upphafi, hverjir séu helstu bakhjarlar þess hóps og ekki sé hætta á að einhverjir aðrir útrásarglæframenn ætli að laumast bakdyramegin aftur inn í atvinnulífið í skjóli almenningshlutafélags.

Almenningur vill ekkert pukur og laumuspil lengur.


mbl.is Mikill áhugi á Högum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósannindi og falsrök

Finnur Árnason, duglegur forstjóri Haga, hefur sent frá sér yfirlýsingu til að mótmæla fréttum Moggans af málefnum Haga, eiganda þess 1998 ehf., og "eigendum" þess félags, sem eru Baugsfeðgar.  Flest sem kemur fram í yfirlýsingunni er ónákvæmt, villandi eða beinlínis rangt.

Hvergi hefur komið fram í umfjöllunum undanfarið, að til standi að fella niður skuldir af Högum, en hinsvegar hefur verið fjallað um skuldastöðu 1998 ehf. og hugsanlega skuldaniðurfellingu þess félags.  Finnur fullyrðir að "Hagar sé eina þvert á móti eina fyrirtæki landsins sem hafi á s.l. 18 mánuðum greitt upp að fullu með vöxtum skráðan skuldabréfaflokk, sem var meginhluti skulda félagsins.  Hagar séu nú vel fjármagnað félag til langs tíma."  Það mun vera rétt að félagið greiddi upp skuldabréfaflokk, sem skráður var í Kauphöll, en til þess notaði félagið ekki sitt eigið fé, heldur hefur komið fram, að skuldabréfin voru greidd upp með nýju langtímaláni frá Kaupþingi og Íslandsbanka.

Finnur lætur einnig eins og Mogginn berjist fyrir því, að Bónus verði án Jóhannesar í Bónus, þó ekki sé hægt að muna, hvar það hafi komið fram í blaðinu, en hins vegar hefur enginn barist harðar fyrir því að Bónus verði rekinn án Jóhannesar, en hann sjálfur og Jón Ásgeir, sonur hans.  Vörumerkið "Jóhannes í Bónus" er löngu búið að missa alla tiltrú og ekki hægt að sækja á mið þjóðarvorkunnar lengur út á það.

Þeir feðgar eru búnir að tapa hundruðum milljarða króna á brölti sínu, síðan þeir stofnuðu Bónus fyrir tuttugu árum og hefur fáum tekist að skapa aðra eins fjármálaóreiðu á stuttum tíma og þeim feðgum.  Sennilega yrði öllum fyrir bestu að ekkert fyrirtæki yrði framar rekið með þá feðga innanborðs.

Þjóðin er nú að súpa seyðið af gjörðum þeirra og annarra útrásarglæframanna.

Þeir sjálfir drekka bara Diet Coce og eru alsælir með það.


mbl.is Engar skuldir Haga afskrifaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sífelld ónákvæmni

Áróðursbragð stjórnarflokkanna endurtekur sig í sífellu, en það felst í því, að boða fyrst afar slæm tíðindi og koma svo fram skömmu síðar og segja, að sem betur fer sé útlitið nú ekki eins slæmt og það hafi litið út áður. 

Þessum áróðri er beitt hvað eftir annað, til þess að reyna að sætta fólk betur við þær arfavitlausu skattahækkunarbrjálæðistillögur, sem ríkisstjórnin er að reyna að koma sér saman um, en aðeins hefur náðst samstaða innan flokkanna og milli þeirra um hvað heildarskattheimtan skuli verða há, en ekki hvernig í ósköpunum eigi að vera hægt að leggja slíkar byrðar á þjóðina.

Nú segir Steingrímur J. að halli á rekstri ríkissjóðs verði ekki jafn mikill og talið hafi verið fyrir rúmum mánuði síðan og það séu mikil gleðitíðindi.  Þó hefur komið fram að hallinn á ríkisrekstrinum muni verða 500 milljarðar á árunum 2008 - 2011.  Sjálfsagt er að taka undir að það yrðu gleðitíðindi, ef ríkisstjórnarnefnunni tækist að halda hallanum innan þessara marka og enn meiri gleðitíðindi, ef henni tækist að spara í ríkisrekstrinum, en það er eitur í beinum vinstri manna. 

Skattpíningarleiðin er miklu auðveldari og alltaf hægt að friða almúgann, með því að segja að "byrðunum verði dreift á réttlátan og sanngjarnan hátt", þannig að þeir efnameiri verði látnir borga meira.  Þá gleðjast allir, en skilja ekki að "breyðu bökin" eru bök almennings.

Steingrímur sagði keikur í þinginu í dag:  "Þá væru atvinnuleysistölur heldur betri en útlit var fyrir sem þýddi að ekki þyrfti að leggja Atvinnuleysistryggingasjóði til jafn mikið fé og áætlað var. Loks væru tekjur ríkisins heldur að styrkjast á nýjan leik og virðisaukaskatturinn að gefa meiri tekjur sem sýndi að umsvifin séu að aukast í þjóðfélaginu á ný."

Allar spár benda til að atvinnuleysi muni aukast á næsta ári og fréttir, sem birtust í dag, sýna að velta í smásöluverslun heldur áfram að dragast saman, mánuð eftir mánuð, og ekkert útlit fyrir annað en að hún muni minnka enn, með sískertum kaupmætti almennings.

Fjármálaráðherra lætur svoleiðis smámuni ekki hafa nokkur áhrif á sig.


mbl.is Dregur úr halla ríkissjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bragð er að þá barnið finnur

Samfylkingin og hennar áhangendur, hafa hangið á því, eins og hundar á roði, að íslenskir skattgreiðendur skulduðu breskum sparifjáreigendum fullar bætur fyrir þær innistæður, sem þeir áttu hjá einkafyrirtækinu Landsbanka, í Englandi, við bankahrunið í fyrra.

Fram að þessu, hefur ekki heyrst ein einasta efasemdarrödd frá Samfylkingarliðinu, um málið, heldur hefur það allt gengið glatt í gegnum svipugöng Breta og Hollendinga og látið hýða sig duglega, enda litið á sig sem sakborninga í málinu og þar fyrir utan hafi þetta verið nauðsynleg fórn fyrir greiða inngöngu Íslands í ESB.

Nú kemur fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, seint og um síðir, og lýsir íslenska skattgreiðendur sýkna af kröfum kúgaranna, eða eins og segir í viðtali hennar við Sölva Tryggvason:  „Núna þegar við erum að reyna að semja okkur í gegnum Icesave, þá finnst mér svolítið eins og við komum fram eins og hinn seki.....göngum til samninganna eins og sakamaðurinn, en hins vegar séu bresk stjórnvöld laus allra mála, þau eru það auðvitað ekki.“

Einnig er þessi yfirlýsing Ingibjargar merkileg í ljósi framgöngu flokkssystkina hennar:  "Ingibjörg segir að sér finnist að íslenska samninganefndin hafi ekki lagt nógu mikla áherslu á ábyrgð Breta og ábyrgð Evrópusambandsins. Við séum að vinna samkvæmt „dirctívi" frá Evrópusambandinu sem sé meingallað, sérstaklega þegar komi að alþjóðlegum bönkum."

Er þetta ný vitrun innan Samfylkingarinnar?

Vita Jóhanna og Össur um um þetta?


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Komum fram eins og sá seki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veröld sem var?

Í grein Páls Kolbeins í Tíund, fréttablaði ríkisskattstjóra, koma fram margar fróðlegar upplýsingar um framtaldar tekjur, eignir og skuldir vegna ársins 2008.  Þar sem banka- og útrásarmatadorinn hrundi undir árslok 2008, lýsa þessar tölulegu upplýsingar frekar veröld sem var, en þeirri veröld sem nú er.

Til dæmis verður fróðlegt að bera niðurstöður fyrir árið 2009 við þessar tölur, t.d. þessa niðurstöðu:  "Fjölskyldur sem eiga meira en 150 milljónir eiga samtals 468 milljarða í framtaldar eignir. Það er 1.281 fjölskylda sem á þessar miklu eignir. Þetta eru 0,8% af öllum fjölskyldum í landinu, en hópurinn á 12,8% af öllum eignum."  Það er spurning hvort inni í þessum eignum séu talin t.d. hlutabréf, eða önnur verðbréf, sem síðan hafa orðið einskis virði vegna hrunsins.

Aðrar merkilegar upplýsingar eru t.d. þessar:  "79.149 fjölskyldur telja ekki fram neinar skuldir, þar af eru 67.433 einhleypingar og 11.706 hjón. Eignir þessa hóps námu 845 milljörðum. Um 60% fjölskyldna skulda innan við fimm milljónir eða ekki neitt."

Þetta verður einnig fróðlegt að bera saman við tölur vegna 2009, þegar þær liggja fyrir, því ekki er vitað hvernig þessi hópur hefur komið út úr kreppunni, en a.m.k. hafa verðbætur og gengishækkanir skulda ekki átt að hafa komið illa niður á þessu fólki.

Samkvæmt greininni áttu ýmsir í erfiðleikum, en það er eftir sem áður mikill minnihluti þjóðarinnar, sem eru auðvitað betri niðurstaða, en margur hefði reiknað með, en afleiðingar hrunsins endurspeglast að litlu leyti í þessari skýrslu.

Vonandi eru þetta þó vísbendingar um að afleiðingar kreppunnar á meirihluta þjóðarinnar, verði léttbærari, en þeir svartsýnustu hafa búist við.

 


mbl.is Þær ríkustu skera sig úr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa ekki efni á að taka á glæpum

Eini ráðherrann, sem stendur undir nafni nú um stundir, Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, lýsti áhyggjum sínum á Alþingi í dag, yfir stöðu dómsmála í landinu, en ákærum til dómstóla frá ríkissaksóknara hefur fjölgað um 80% á síðustu tveim árum og brátt fara að bætast við mál frá Sérstökum saksóknara.

Á undanförnum misserum hefur æ meira borið á erlendum glæpagengjum, sífellt stærri dópsmygl hafa verið upplýst og nú dreymir íslenska smákrimma um að komast í alvöruglæpahóp Hells Angels.   Fangelsin eru yfirfull og um 250 sakfelldir menn og konur þurfa að bíða mánuðum og árum saman, eftir því að vera látin afplána fangelsisrefsingar sínar.  Margir síbrotamenn ganga því lausir og stunda iðju sína óáreittir vegna plássleysis í fangelsunum.

Í þessu ljósi, verður það að teljast til tíðinda, að örla skuli á eftirákveiktri skynsemisglætu hjá stjórnarþingmönnum, en í fréttinni kemur fram:  " Í umræðunni sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, m.a. að það kunni að hafa verið mistök að gera hagræðingarkröfu til lögreglu, dómstóla og fangelsismála."

Orðanotkun þingmannsinns er auðvitað ekki gáfuleg, þar sem hagræðingarkrafa er alls ekki það sama og fjársvelti dóms- og lögregluembættanna landsins.

Eftir sem áður ber að þakka, að þarna virðist örla á skilningi á málinu, en það er ekki hægt að segja um mörg mál, sem ríkisstjórnarflokkarnir eru með til meðferðar þessar vikurnar.


mbl.is Verður að leysa vanda dómstóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víti til að varast

Vandamál Dana vegna vopnaðra átaka milli glæpagengja þar í landi, ætti að vera víti til varnaðar fyrir Íslendinga.  Hérlendis eru erlendar glæpaklíkur þegar byrjaðar að hreiðra um sig og fyrsti vísirinn að klúbbi Hells Angels hefur litið dagsins ljós og styttist í að hann verði fullgildur klúbbur, með þeim glæpaverkum, sem því fylgja.

Þegar Hells Angels hafa náð að fóta sig hérlendis, mun verða stutt í að til átaka muni koma við aðra glæpahópa um yfirráð fíkniefnamarkaðarins og fleiri kima undirheimanna.

Stjórnvöld verða að grípa í taumana strax og banna starfsemi Hells Angels og annarra skipulagðra og þekktra glæpahópa, ásamt því að beita erlenda glæpahópa hörðu, strax frá byrjun og koma þannig í vex fyrir vöxt þeirra og viðgang hér á landi.

Lögreglunni hefur orðið nokkuð ágengt í þessu efni, en betur má ef duga skal.

Þar sem fangelsin eru yfirfull þarf að vísa þessum glæpalýð beint úr landi, eftir að sök sannast og herða allt eftirlit með að hann komist ekki til baka.

Erfiðara verður að fást við þessar klíkur, eftir að þær byrja að skjóta hverjar á aðra, að ekki sé minnst á saklausa vegfarendur, sem verða svo óheppnir að lenda í skotlínunni.


mbl.is Dönsk stjórnvöld leita ráða hjá þeim bandarísku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppistand með besta móti

Grínarinn Össur Skarphéðinsson, gamanmálaráðherra, er kominn á stall með helstu uppistöndurum og grínleikurum heimsins, þ.e. hann þarf ekki að segja eitt einasta orð, til að fá áhorfendur til að veltast um af hlátri og gleði. 

Margir leikarar hafa orðið svo fastir í huga áhorfenda fyrir frábæra frammistöðu í frarsaleik, að nóg hefur verið fyrir þá, að sýna sig og þá tryllist salurinn úr hlátri, meira að segja áður en viðkomandi spaugari kemur upp nokkru orði.

Margur góður leikarinn hefur orðið að hætta að leika alvarleg hlutverk, því áhorfendur geta engan veginn séð hann fyrir sér, sem alvarlegan hlutverkatúlkanda.

Össur á reyndar ekki við þetta vandamál að stríða, því hann kann ekkert annað en farsaleik og er orðinn svo stórkostlegur sem slíkur, að fólk veltist um af hlátri af því einu að sjá af honum mynd í dagblaði.

Það er hins vegar óvíst, að það sé stjórnmálamanni til framdráttar, að vera svona hlægilegur.


mbl.is Samskipti við Bandaríkin með besta móti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlaus stjórn

Seinagangur í ákvarðanatöku ríkisstjórnarnefnunnar hefur orðið og mun verða til þess að dýpka og lengja kreppuna, sem ríkir í efnahagslífi þjóðarinnar og þær fáu ákvarðanir sem teknar eru, eru til þess að tefja og stöðva allar framkvæmdir, sem von var til að koma í gang, t.d. í orku- og stóriðjumálum.

Landinu virðist stjórnað með einhverskonar tilraunalekum á þeim fáu hugmyndum sem fæðast í kollum pólitískra aðstoðarmanna í ráðuneytunum, en öllum hugmyndum er lekið í fjölmiðla og síðan er beðið eftir viðbrögðum Fésbókar og Bloggheima.  Hugmyndirnar hafa nánast í öllum tilvikum verið svo arfavitlausar og fengið svo heiftarleg viðbrögð, að jafnóðum er dregið í land með þær, og sagt að þetta séu einungis vinnupappírar og ákvörðun verði ekki tekin fyrr en á morgun, fyrir helgi, í næstu viku eða fljótlega fyrir, eða eftir, mánaðamót.

Meira að segja ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, Mats Jesefsson, hinn sænski, gagnrýnir vinnubrögðin harðlega og telur að endurreisn efnahagslífsins sé ekki í forgrunni hjá stjórnvöldum þessa dagana.  Eftir honum er t.d. haft:  „Skortur á pólitískri ákvörðunartöku er það sem helst stendur í vegi fyrir viðreisn íslensks efnahags um þessar mundir.“

Einnig segir í fréttinni:  "Gagnrýndi hann stjórnvöld fyrir seinagang og sagði viðreisnina ekki hafa tekið jafn langan tíma í öðrum löndum og í fyrri kreppum. Þá sagði hann stjórnvöld ekki hafa lært nægilega mikið af reynslu annarra þjóða."

Hér er rétt að segja Amen.


mbl.is Josefsson gagnrýnir seinagang stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkissjóður í raun í ruslflokki

Ríkisstjórnarnefnan hefur ávallt haldið því fram, að um leið og búið væri að reka Davíð úr seðlabankanum, búið væri að sækja um aðild að ESB, búið væri að endurreisa bankana, búið væri að skrifa undir stöðugleikasáttmála, búið væri að skattleggja þjóðina í drep, ásamt nýjum og nýjum skýringum á því hvað þurfi að gera, þá muni traustið og trúin á íslenskt efnahagslíf og ekki síður ríkisstjórnarnefnuna sjálfa aukast svo mjög, að lánshæfismat þjóðarbúsins muni hækka upp úr öllu valdi og erlent lánsfé fara að streyma á ný inn í landið, nánast vaxtalaust.

 Því hefur ekki síst verið haldið fram, að eftir að ríkissjóður myndi vera búinn að taka á sig Icesave skuldir Landsbankans, þá muni smjör fara að drjúpa af hverju strái hérlendis og útlendingar myndu streyma til landsins, til þess að fá að sleikja smjörfjallið.

Það skal enn og aftur minnt á, að þetta hafa verið skýringar íslensku ríkisstjórnarnefnunnar frá mánuði til mánaðar, þegar traustið og lánshæfismatið hefur engan kipp tekið uppávið, en t.d. skoðanir matsfyrirtækjanna virðast af undarlegum ástæðum ekki alveg passa við hugarórana, sem bornir eru á borð innanlands.

Eftirfarandi kemur fram í fréttinni af nýbirtu mati Moody´s um lánshæfismat Íslands vegna skuldsetningar ríkissjóðs:  "Fram kemur í skýrslu matsfyrirtækisins um lánshæfismat Íslands að slík skuldabyrði muni þrengja verulega að fjármálum ríkisins og draga úr möguleikum þess að lánshæfiseinkunn þess muni skána fyrirsjáanlegri framtíð.

Um 20% af öllum tekjum ríkisins munu fara í að standa straum af hreinum vaxtagreiðslum á næsta ári. Meðaltalið í ríkjum sem eru með sama lánshæfismat og íslenska ríkið hjá Moody's er 9%. Gert er ráð fyrir að hlutfall íslenska ríkisins muni falla niður í 15% árið 2011."

Þarf frekari vitnanna við um bullustrokkana sem sitja í ríkisstjórn Íslands um þessar mundir?

Miðað við getuleysið hingað til, fara þeir að minnsta kosti ekki að strokka smör á næsu árum.


mbl.is Skuldsetning ríkisins kemur í veg fyrir hækkun lánshæfiseinkunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband