Bloggfærslur mánaðarins, október 2009
6.10.2009 | 10:14
Stuðningi við hvað?
Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur og formaður VG, sem nú er að láta rassskella sig í Istanbul, komst á milli svipuhögga í símann, til þess að grátbiðja félaga sína í VG, að þegja um ósættið og klofninginn innan VG og ríkisstjórnarinnar og gera hlé á atinu þangað til hann kæmi heim, pakkaður í sáraumbúðir.
Eftir áminningu til félaganna um að þeir hafi lofað að styðja ríkisstjórnina áfram, segir hann: "Í öðru lagi var alveg skýrt að það var ákveðið að halda áfram að láta á það reyna hvort hægt væri að lenda þessu Icesave-máli, að sjálfsögðu með það leiðarljósi að svo kæmi það til þingflokksins og skoðað yrði hverju tækist að ná fram. Það var samstaða um það hvað út af stæði og á hverju þyrftu að fást lagfæringar."
Þetta eru merkilegar yfirlýsingar, í fyrsta lagi að það skyldi skoðað í þingflokknum eftirá, hverju tækist að ná fram, þar sem Ögmundur var rekinn úr ríkisstjórninni, einmitt fyrir að vilja ekki gefa fyrirframsamþykki við kröfum þrælahaldaranna, en Jóhanna, meintur forsætisráðherra, krafðist fyrirfram samþykkis allra ráðherra og þingflokka við væntanlegri uppgjöf fyrir þrælapískurunum.
Í öðru lagi vaknar spurnin við síðustu setninguna, en þar segir að samstaða hafi verið um það, hvað út af stæði og hvaða lagfæringar þyrftu að fara fram á uppgjafaskilmálunum. Fram að þessu hefur Steingrímur alltaf sagt að Íslendingum bæri að greiða þessa skuld gamla Landsbankans og samningarnir, sem um það hefðu verið gerðir, væru þeir hagstæðustu sem hugsast gæti fyrir Ísland.
Hverjir eru núna að fara fram á lagfæringar? Eru það Bretar og Hollendingar? Hvaða lagfæringar? Í þágu hverra eiga þær lagfæringar að vera? Skyldi það vera í þágur þrælahöfðingjanna?
Vonandi fást svör við þessu strax og Steingrímur kemur til landsins og áður en hann fer að reyna að forða klofningi VG.
Hétu öll stuðningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2009 | 08:36
Snýr við blaðinu - of seint
Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, og Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, hafa haldið því staðfastlega fram allan sinn ríkisstjórnartíma, að Íslendingum bæri að greiða Icesave skuld einkabankans Landsbanka, þeim bæri að "standa við skuldbindingar sínar" við Breta og Hollendinga. Fyrir þessu hafa þau talað og barist með kjafti og klóm til þessa og sagt þrælasamninginn, sem Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, undirrituðu í skjóli nætur, vera sá besti sem hægt væri að ná, enda Íslendingum mjög hagstæður.
Nú kemur Jóhanna fram í breskum fjölmiðli og gagnrýnir Brown, forsætisráðherra Bretlands og trúbróður sinn, fyrir hryðjuverkalögin og segir þar og í stefnuræðu sinni, að ósanngjarnt sé, að Íslendingar séu látnir greiða fyrir gallað regluverk ESB. Þetta er alger viðsnúningur af hennar hálfu, nú þegar ár er liðið frá hruninu og setningu hryðjuverkalaganna.
Þessi viðsnúningur í málinu, akkúrat núna, er engin tilviljun. Jóhanna veit, að með því að falla frá fyrirvörum Alþingis við þrælasamninginn, mun ríkisstjórnin springa og eins er hún loksins farin að viðurkenna fyrir sjálfri sér, að þjóðin stendur nánast sem einn maður gegn Samfylkingunni í þessu máli.
Ráðherrarnir eru einnig að vakna upp við það, að með fyrirhuguðu skattabrjálæði sínu, er almenninggur búinn að fá yfir sig nóg af þessari ráðalausu dáðleysisríkisstjórn.
Jóhanna er farin að undirbúa jarðveginn fyrir nýjar kosningar, sem hún reiknar með að verði ekki síðar en í vor.
Jóhanna gagnrýnir Brown | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2009 | 15:14
Viðræðurnar voru gagnlegar
Alkunna er, að þegar fundir stjórnmálamanna, ekki síst í milliríkjasamskiptum, skila engum niðurstöðum, er jafnan sagt að fundirnir hafi verið ganlegir og viðræðum verði haldið áfram, því brýnt sé að leysa viðkomandi vandamál og vonandi muni nást niðurstaða innan skamms. Þegar þetta orðalag er notað, er venjulega hægt að reiða sig á, að ekkert hafi þokast með málin og þau í jafnmiklum hnút og áður, ef ekki verri.
Af þessum sökum segir Steingrímur J. að fundirnir með fjármálaráðherrum Bretlands og Hollands um helgina hafi verið gagnlegir, sem segir í raun ekkert annað en það, að ekkert hafi þokast með Icesave málið og þrælahaldararnir hafi ekki lagt frá sér svipurnar, líklega frekar látið glitta í gaddasvipur, sem þeir hafi hótað að beita á íslensku þjóðina fljótlega, verði ekki bakkað frá fyrirvörum Alþingis vegna Icesave skulda Landsbankans.
Össur Skarphéðinsson, grínari, átti fundi í síðustu viku með utanríkisráðherrum nýlendulandanna og voru þeir fundir ákaflega gagnlegir, að sögn Össurar, en skiluðu auðvitað engum árangri, öðrum en þeim, að nauðsynlegt væri að fá botn í þessa deilu sem fyrst.
Steingrímur J. á fund með æðsta handrukkara AGS á morgun og ef sá fundur verður eingöngu gagnlegur, en skili engri niðurstöðu, er ríkisstjórnin komin í pattstöðu með málið og verður að fara frá völdum.
Ofan á fjármálakreppuna kemur væntanlega stjórnarkreppa, sem verður þá helsta niðurstaða búsáhaldabyltingarinnar.
Steingrímur J.: Gagnlegur fundur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.10.2009 | 11:25
Ögmundur stillti ríkisstjórninni upp við vegg
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, segir að Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, hafi stillt sér upp við vegg, vegna andstöðu hans við fyrirhugaðar breytingar á fyrirvörum Alþingis vegna samningsins um Icesave skuldir einkabanka.
Þetta er auðvitað rétt, en vopnið snerist í höndum Jóhönnu, því með því að bakka ekki frá skoðunum sínum og segja sig heldur úr ríkisstjórninni, stillti Ögmundur ríkisstjórninni upp við vegg og hefur nú líf hennar í höndum sér, ásamt fylgismönnum sínum innan Vinstri grænna.
Ögmundararmur VG er farinn að brýna kutana, eins og sést á harði afstöðu Guðfríðar Lilju, vegna afsagnar Ögmundar og yfirlýsingu þeirra og fleiri vinstri grænna um, að Alþingi eigi og muni hafa síðasta orðið um allar breytingar á fyrirvörunum.
Greiði þessir þingmenn VG atkvæði á móti boðuðum breytingum á fyrirvörum Alþingis, mun ríkisstjórnin verða að segja af sér og um leið myndu vinstri grænir væntanlega klofna í tvo flokka, flokk Ögmundar og flokk Steingríms J. og óvíst hvor flokkurinn yrði stærri.
Því miður hefur ósamkomulag stjórnarflokkanna í nánast öllum málum orðið til þess að árið sem er að líða hefur ekki gagnast neitt í baráttunni við kreppuna, heldur þvert á móti orðið til þess að hún verður lengri og dýpri, en hún hefði þurft að verða.
Til hagsbóta fyrir þjóðina, má fara að vonast eftir því, að ríkisstjórnin fari frá á næstu vikum.
Ögmundur: Var stillt upp við vegg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.10.2009 | 09:22
Baugsmálið fyrsta hræðir
Þorvaldur Gylfason, prófessor, spáir því að ekki muni allir stórlaxarnir, sem tengjast íslenska fjármálahruninu sleppa að þessu sinni, án þess að taka fram í hvaða annað skipti hann telur þá hafa sloppið. Líklega er hann að vísa til Baugsmálsins fyrsta, sem rekið var fyrir dómstólum árum saman, án þess að ákærur næðust fram, nema í nokkrum smáöngum málsins.
Sækjandinn sat löngum einn í dómssalnum á móti her dýrustu lögfræðinga og endurskoðenda landsins, sem tókst að snúa öllum hlutum sakborningum í hag og tefja og toga alla málsmeðferð, svo árum skipti. Sennilega hafði saksóknarinn ekki nógu mörgum og góðum rannsakendum til að hafa við lögfræðinga- og sérfræðingastóði Baugsmanna, a.m.k. var sýknað í mörgum atriðum, sem allir sem tengjast viðskiptum voru vissir um að myndu leiða til sakfellingar.
Ekki má heldur gleyma andrúmsloftinu sem ríkti í þjóðfélaginu, en almenningsálitið fór gjörsamlega af hjörunum í afstöðunni með Baugsliðinu og gegn dómsvaldinu, lögreglunni og ríkisstjórninni, sem sérstaklega var ásökuð um pólitískar ofsóknir gegn blásaklausum vinum alþýðunnar.
Vegna þessarar reynslu dómskerfisins af erfiðum hvítflibbabrotum, má gera ráð fyrir að rannsókn á málum tengdum fjármálahruninu verði erfið og muni taka mörg ár.
Sporin hræða.
Stórlaxarnir munu ekki allir sleppa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2009 | 15:32
Skömm sé norðurlöndunum, að undanskildum Færeyingum
Fram að síðasta hausti var Íslendingum alltaf talin trú um, að norðurlöndin væru okkar kærustu vinaþjóðir, ekki síst Norðmenn, en eftir hrunið hefur annað komið í ljós. Strax eftir hrunið veittu Færeyingar íslendingum lán, að upphæð 6 milljarða króna, algerlega skilyrðislaust og nú lána Pólverjar 25 milljarða, óháð frágangi á Icesave skuldum Landsbankans, en þau skilyrði settu norðurlöndin, enda engin aðstoð borist þaðan.
Athyglisvert er að lesa þessa tilvitnun í fréttinni: "Það var sérstaklega gaman að eiga í þessum samskiptum við Pólverja, því þeir voru svo jákvæðir og hjálplegir og lögðu upp úr því að þeir væru með þessu að leggja sitt af mörkum. Þetta er að mörgu leyti ný staða fyrir Pólverja, sem sjálfir hafa gengið í gegnum mikla erfiðleika á undanförnum áratugum og þegið mikla aðstoð. Núna má segja að þeir séu komnir hinum megin við borðið, segir Steingrímur."
Þetta er þveröfugt við það, hvernig norðurlöndin hafa komið fram við Íslendinga. Þau hafa hvorki verið jákvæð, né hjálpleg, hvað þá að þau reyni að leggja sitt af mörkum í baráttunni við þrælahöfðingjana í Bretlandi og Hollandi.
Hafi norðulöndin ævarandi skömm fyrir sína framkomu.
Mikilvægt að þetta sé í höfn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.10.2009 | 12:35
Sanngjörn leið til jöfnunar afborgana
Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, hefur hrakist úr einu víginu í annað, vegna skulda heimilanna. Fram eftir öllu ári hélt hann því fram, að ekkert væri hægt að gera til að létta greiðslubyrði lána, en smátt og smátt hefur hann komist að þeirri niðurstöðu, sem var í raun lögleidd af fyrri ríkisstjórn á fyrra ári, að lausnin væri að færa afborganir í sama horf og þær voru í fyrravor og miða síðan við greiðslujöfnunarvísitölu, sem tekur mið af launa- og atvinnustigi í landinu á hverjum tíma.
Þetta er sanngjörn leið, því hún dreifir afborgununum í takt við launa- og atvinnuþróun, sem líklega mun leiða til þess, að allir geti greitt skuldir sínar á lánstímanum, a.m.k. húsnæðislánin, en ólíklegt er að allir jeppar, húsvagnar, húsbílar og vélsleðar greiðist að fullu á lánstímanum, að viðbættum þeim þrem árum, sem lánstíminn mun lengjast.
Þeir, sem "endurfjármögnuðu" íbúðalánasjóðslánin sín með nýjum og miklu hærri erlendum lánum, munu líklega þurfa að borga leikföngin með íbúðalánunum á lánstímanum og munu ekki fá hluta kaupverðs þeirra eftirgefin, eins og hinir, sem tóku sérstök erlend lán til kaupanna.
Að sjálfsögðu munu þeir skuldsettustu ekki sætta sig við þessa leið, þar sem "greiðsluvilji" þeirra er ekki lengur fyrir hendi og þeim finnst sjálfsagt að almennir skattgreiðendur taki á sig hluta af skuldunum.
Þessi leið er hinsvegar sanngjörn í ljósi þeirra gömlu og góðu gilda, að þeir sem taka lánin, endurgreiði þau sjálfir, en láti þau ekki falla á aðra.
Gott til skamms tíma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2009 | 09:50
Skattaæðið í hnotskurn
Í meðfylgjandi frétt, er fjárlagafrumvarpið sett fram á nokkuð skýran og skiljanlegan hátt, þótt samandregið sé. Athyglisvert er það sem kemur vel fram á myndinni, sem fylgir fréttinni, hver lausatök á ríkisfjármálunum hafa verið mikil á þessu ári, en halli á ríkisreikningi er þar áætlaður að verði 35 milljarðar króna umfram fjárlög, en þegar upp verður staðið er miklu líklegra að hann verði 50-60 milljarðar króna.
Þessi lausung í fjármálum ríkisins kallar á miklu snarpari aðgerðir á árinu 2010, til að rétta af fjárhag ríkisins og þá er gripið til mestu skattpíningar, sem sögur farra af, í stað þess að skera hraustlega niður í ríkisútgjöldum. Í fréttinni segir: "Gert er ráð fyrir að gjöld ríkisins verði tæplega 556 milljarðar króna á næsta ári og tekjur 468 milljarðar. Fjárlagahallinn er því rúmlega 87 milljarðar. Tekjuskattar einstaklinga eru áætlaðir 143,5 milljarðar sem er aukning um 38,9% miðað við áætlaðar tekjur ríkisins í ár. Þá eru skattar á vöru og þjónustu áætlaðir rúmlega 76 milljarðar sem er 44,6% aukning. Gert er ráð fyrir að virðisaukaskattur verði 125,2 milljarðar sem er 2,3% samdráttur."
Áætlað er að einstaklingar sem greiða tekjuskatt séu um 160 þúsund, þannig að meðalhækkun á hvern skattgreiðanda, 16 ára og eldri, verður þá um 20 þúsund krónur á mánuði, sem auðvitað kemur misjafnt niður, sumir munu greiða minna og aðrir miklu meira. Það breytir því ekki, að þetta er í raun árás á afkomu heimilanna í landinu.
Þegar hækkun óbeinna skatta er bætt við, sjá allir í hvað stefnir með fjárhag heimilanna á næsta ári.
Ríkisstjórnin gerir sannarlega sitt til að auka á vanda þjóðfélagsins, með því að flækjast fyrir og reyna að koma í veg fyrir alla atvinnuuppbyggingu, sem myndi fjölga skattgreiðendum og minnka byrði hvers og eins.
Hófleg skattahækkun er nauðsynleg, en aðgerðir í atvinnumálum eru í raun eina ráðið, sem mun koma þjóðinni út úr kreppunni.
Það mun ekki takast að skattleggja hana til betri lífskjara.
Fjárlagafrumvarpið í hnotskurn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.10.2009 | 15:35
Ótýndur glæpalýður
Hér á blogginu hafa margir lýst samstöðu með málningarsletturum, eða a.m.k. sýnt samúð með gerðum þeirra, sem er alveg ótrúlegt út af fyrir sig. Nú eru að koma upp á yfirborðið fréttir um að þessir glæpamenn hafa notað einhvers konar sýru, oftast til að hella yfir bíla, til að eyðileggja á þeim lakkið, en a.m.k. í einu tilfelli orðið til þess að slasa manneskju.
Það er ekki þessum fáráðlingum að þakka, að ekki hlaust stórslys af sýrunni, sem sett var í hurðarfalsinn á bíl Rannveigar Rist, því nánast heppni var að sýran fór ekki í auga hennar, sem hefði blindað hana. Nógu slæmt er fyrir konuna að fá brunasár á kinnina, sem mun skilja eftir sig ör til frambúðar.
Þessi óþjóðalýður, sem líkast til heyrir til vitleysingasamtakann Saving Iveland, eða Öskru verður að fara að koma fyrir rétt og fá verðskuldaða refsingu fyrir verk sín. Vonandi verður það fljótlega, svo þessum ófögnuði linni.
Tími er til kominn, að einhver sem hefur samvisku og veit hverjir þessir einstaklingar eru, segi til þeirra og eins er vonandi að öfgarugludallar bloggsins hætti að mæra þá.
Fékk sýru í andlitið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.10.2009 | 08:58
Áróðursskattar vinstri grænna
Margt undarlegt hefur frést af vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra, en fréttin um að iðnaðarráðherra hafi ekki heyrt minnst á umhverfis-, orku- og auðlindaskatta, sem ættu að gefa af sér 16 milljarða króna tekjur í ríkissjóð árlega, er með þeim skrítnustu og ótrúlegustu, sem fram hefur komið lengi.
Að þetta hafi ekki einu sinni verið rætt í ríkisstjórn, áður en Steingrímur J., frjármálajarðfræðingur, slengdi þessu á borð þjóðarinnar, kemur fram í máli iðnaðarráðherra, t.d: "Þetta staðfestir Katrín í samtali við Morgunblaðið. Ljóst er að ákvæðið var sett inn á síðustu stundu, án kynningar. Litið er á málið sem klúður í stjórnkerfinu, ekki síst að nefna einnar krónu skatt á hverja kílóvattsstund í greinargerðinni, sem gæfi sextán milljarða."
Síða bætir ráðherrann við: "Katrín segir það hafa verið mjög óheppilegt dæmi, en það sé búið og gert. Raunhæfara væri að tala um tíu aura og sólarlagsákvæði á alla slíka skatta, t.d. eftir þrjú ár, en það verði útfært nánar." Ef þessi upphæð yrði lögð á, yrðu tekjurnar af skattinum 1,6 milljarður en ekki 16 milljarðar. Þetta sýnir best ruglið í Steingrími J. og endurspeglar enn eitt ósættið innan ríkisstjórnarinnar, en hún virðist ekki geta afgreitt nokkurt einasta mál, án illinda milli stjórnarflokkanna.
Skýringin á þessu upphlaupi Steingríms J. er auðvitað ótti hans um að ríkisstjórnin springi á næstu dögum og þá verður hægt að nota þetta sem áróður til að sýna fram á hvað Vinstri grænir hafi verið trúir sinni stefnu og meira að segja verið búnir að leggja fram tillögur um "græna skatta", en því miður hafi stjórnin sprungið, án þess að þetta hefði fengist samþykkt.
Þetta er semsagt áróðursbragð, sem ekki er sett fram í alvöru. Ef svo ólíklega skyldi fara, að stjórnin spryngi ekki, er alltaf hægt að kenna samstarfsflokknum um, að Vinstri grænir hafi þurft að bakka út úr málinu.
Svona eru nú stjórnmálin ómerkileg þessa dagana.
Ráðherra ókunnugt um skatta á þungaiðnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)