Færsluflokkur: Bloggar

Sá yðar sem syndlaus er......

Kirkjuþing hefur í dag fjallað um skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem yfirfór viðbrögð kirkjunnar manna við ásökunum á hendur Ólafi Skúlasyni, fyrrv. biskupi, um kynferðislegt ofbeldi sem hann framdi gagnvart nokkrum konum um það bil þrjátíu árum áður en ásakanirnar voru bornar fram.

Þeir glæpir Ólafs Skúlasonar eru algerlega óafsakanlegir, en hins vegar er hik og vandræðagangur þeirra presta sem að kærumálunum komu skiljanleg í því ljósi að atburðirnir gerðust áratugum áður og beindust gegn æðsta manni kirkjunnar.

Enn er hamast á prestunum, sem að málinu komu og höndluðu það vissulega klaufalega, en í skrifum margra á blogginu er nánast látið eins og þessir prestar hafi verið samsekir um nauðganir, en ekki verið að fjalla um löngu liðna atburði. Margur ómerkingurinn krefst þess að núverandi biskup og jafnvel fleiri, segi af sér embættum vegna aðkomu sinnar að málunum og meira að segja tekur sóknarpresturinn í Grafarholti, Sigríður Guðmarsdóttir, þátt í þessum ljóta leik.

Nú er meira en mál að linni og þó ekki sé í raun hægt að fyrirgefa Ólafi Skúlasyni hans gjörðir, er auðvelt að fyrirgefa þeim sem að málinu komu og reyndu að finna botn í það, þó klaufalega hafi verið að því staðið.

"Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum" sagði upphafsmaður kristninnar forðum.

Margur mætti hugsa til þeirra orða núna.


mbl.is Nefnd bregðist við skýrslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðaleysi stjórnarinnar festir atvinnuleysið í sessi

Greinilegt er á tölum um skráð atvinnuleysi að stjórnvöld gera ekkert af því sem í þeirra valdi stæði til að liðka fyrir atvinnuuppbyggingu, því samkvæmt áætlun Vinnumálastofnunar mun sáralítið fækka á atvinnuleysisskránni í júní, þó atvinnuástandið sé alltaf best yfir sumarmánuðina.

Í fréttinni segir um spá Vinnumálastofnunar: "Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysið í júní 2011 minnki m.a. vegna árstíðasveiflu og verði á bilinu 6,7 % ‐ 7,1 %."  Atvinnuleysið í aprílmánuði mældist 8,1%, þannig að ekki mun fækka á atvinnuleysisskránni á þessu tímabili nema um c.a. eitt þúsund manns, eða rúmlega það, og verður það að teljast afar lítil árstíðasveifla.  Þess ber þó að geta að stofnað hefur verið til atvinnubótavinnu fyrir talsverðan hóp námsmanna, en á móti kemur að yngsti árgangurinn hefur verið strikaður út úr Vinnuskóla borgarinnar og reyndar fleiri sveitarfélaga.

Ríkisstjórnin hefur marg lofað að hætta að flækjast fyrir eðlilegri atvinnuþróun í landinu, en því miður hefur verið lítið um efndir þeirra loforða, eins og annarra frá þessari lánlausu stjórn.  Jafnvel þó hún hysjaði upp um sig brækurnar og hætti andstöðu við einhver þeirra fyrirtækja sem áhugi er á að koma á fót í landinu, er nú svo langt liðið á árið að lítið myndi gerast í þeim málum fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2012, þannig að atvinnuleysi mun a.m.k. verða mikið út þetta ár og líklegast af öllu mun atvinnuástandið lítið batna fyrr en ríkisstjórn kemst til valda í landinu, sem ekki er staurblinduð af kommúnisma og annarri vinstri villu.

Vonandi rennur sá tími upp áður en allt of langt um líður. 


mbl.is Atvinnuleysi mælist 7,4%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slúðurberi á Alþingi

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, er búinn að festa sig í sessi sem mesti slúðurberi sem nú situr á Alþingi og spurning hvort nokkurn tíma hafi setið þar þingmaður, sem stundað hefur jafn lágkúrulegan og ómerkilegan málflutning og Björn Valur.

Málflutningur Björn Vals gengur iðulega út á að gefa í skyn að þingmenn annarra flokka séu nánast glæpamenn og mútuþegar og nú þegar rök þrýtur hjá honum varðandi breytingar á kvótakerfinu grípur hann til þeirra vopna sinna að ásaka bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk um að vera nánast á launum frá útgerðarmönnum og jafnvel ekki annað en senditíkur "útgerðarauðvaldsins".

Svona málflutningur þykir aumkunnarverður hjá nafnlausum bloggurum og þingmaður kemst varla á lægra plan, en að taka þátt í slúðri og mannorðmorðum, sem ekki fáir ef nokkrir vilja tengja sig við á blogginu.

Allur þessi málatilbúnaður er Birni Vali til háborinnar skammar og verður honum síst til framdráttar, ætli hann að halda áfram í stjórnmálum eftir næstu kosningar, sem vonandi verða fljótlega.


mbl.is „Sagan samofin kvótakerfinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, strákar

Karlalandslið Íslands tryggði sér rétt ti þátttöku í Evrópumeistaramótinu í handbolta, sem fer fram í Serbíu á árinu 2012. Íslenska liðið sigrðai það austurríska með fimmtán marka mun, 44-29, í einum besta leik sem liðið hefur sýnt í langan tíma.

Liðinu er óskað til hamingju með þennan glæsilega árangur og ekki er það til að minnka ánægjuna að kvennaliðið tryggði sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu í handbolta, sem fram fer í Brasilíu í desember n.k.

Dagurinn í dag er stór dagur í íslenskri handboltasögu og þjóðinni er hér með óskað til hamingju með "stelpurnar okkar" og "strákana okkar".


mbl.is Ísland á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, stelpur

Landslið kvenna í handbolta náði í dag þeim frábæra árangri, að vinna sér rétt til þátttöku á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Brasilíu í desember n.k.

Þetta verður í fyrsta sinn sem landsliðið tekur þátt í heimsmeistarakeppni og miðað við árangur liðsins undanfarin misseri, er ekki ástæða til að ætla annað en að þeim munu ganga vel á mótinu.

Liðinu er hér með óskað til hamingju með þennan stórkostlega árangur og reyndar má óska þjóðinni til hamingju með "stelpurnar okkar".


mbl.is Ísland komið á HM í Brasilíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstakur saksóknari malar áfram, hægt og bítandi

Rannsóknir Sérstaks saksóknara á misgjörðum banka- og útrásargengjanna á árunum fyrir bankahrunið, sem þeir ollu með því að sjúga margfalda landsframleiðslu ´tu úr þeim í eigin þágu, mallar áfram hægt og rólega.

Nýjustu tíðindin úr þeim herbúðum eru, að tekist hafi að fá yfirvöld í Luxemburg til að frysta allar eignir nokkurra þeirra sem tengjast rannsóknunum á Kaupþingi og hvað varð um allt það fé, sem þaðan sogaðist og hvert það fór.

Ennþá hefur nánast ekkert af þeim málum sem til rannsóknar eru hjá "sérstökum" ratað fyrir dómstólana, en þar sem rúm tvö ár eru frá því að rannsóknirnar hófust hljóta að fara að sjást kærur í einhverjum málum fljótlega.

Fréttin sýnir a.m.k. að kvörn réttvísinnar malar stöðugt, afar hægt og rólega, en þó bítandi.


mbl.is Eignir frystar í Lúxemborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RíkisÓstjórn í fiskveiðimálunum

Annað eins rugl hefur varla sést á dapurlegum líftíma núverandi ríkisstjórnar og frumvörpin um stjórn fiskveiða, sem þó voru misserum saman í undirbúningi, ef undirbúning skyldi kalla. Það eina sem kemst nálægt þessum skandal á Alþingi, er samþykktin um að stefna Geir H. Haarde, einum manna, fyrir Landsdóm og svo þríendurteknar samþykktir þingsins á þrælalögunum um Icesave.

Við umfjöllun Sjávarútvegsnefndar Alþingis gerðurst þau einstæðu tíðindi, að hver einasti aðili, sem álit lét í ljós á frumvörpunum, mótmælti þeim harðlega og fann þeim allt til foráttu. Aldrei áður hefur myndast önnur eins samstaða gegn nokkru frumvarpi sem lagt hefur verið fyrir Alþingi og er þó nóg af óvönduðum lagafrumvörpum að taka.

Upphaf viðhangandi fréttar segir nánast allt sem segja þarf um þennan einstaka fáránleika á þingi: "Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og liðsmaður Vinstri grænna, var eini nefndarmaðurinn af alls níu sem studdi skilyrðislaust minna kvótafrumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar það var afgreitt úr nefnd á Alþingi í kvöld."

Upplausnin í stjórnarliðinu vegna þessa máls er algjör.  Þetta er í raun allt of mikið alvörumál til að hlægjandi sé að því, né að hægt sé að hafa það í flimtingum.  

Þetta mál verður líklega til þess að Jóhönnu Sigurðardóttur verður að þeirri ósk sinni, að losna við Jón Bjarnason úr ríkisstjórninni. 


mbl.is Stjórnarþingmenn ósammála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki meira, ekki meira, Sigrún

Nokkrar konur, með Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur í fararbroddi, sem ásökuðu Ólaf Skúlason, fyrrverandi biskup, um kynferðislegt áreiti fyrir allt að þrjátíu árum og fengu þær ekki viðurkenndar sem sannar fyrr en fyrir nokkrum árum síðan, hafa nú fengið enn eina viðurkenningu á málstað sínum með niðurstöðu sérstakrar rannsóknarnefndar sem þjóðkirkjan skipaði til að fara yfir alla meðhöndlun kirkunnar manna á erindum kvennanna.

Flestir myndu nú telja að með þessari niðurstöðu væru málin komin á endastöð, enda hafa konurnar í raun fengið allar sínar kröfur uppfylltar varðandi viðurkenningu á réttmæti ásakana sinna, Ólafur látinn fyrir nokkrum árum og í raun ekkert fleira sem hægt er að gera í málunum.

Ein kvennanna, þ.e. Sigrún Pálína, virðist hins vegar vera komin í einhverskonar stríð við þjóðkirkjuna sem stofnun og henni duga engar viðurkenningar eða rannsóknarniðurstöður. Næst á dagskrá hjá henni er að krefja biskupinn og sóknarprestinn í dómkirkjunni um tugmilljóna skaðabætur fyrir að viðurkenna ekki hvað var sagt og ekki sagt á fundir þeirra og Sigrúnar fyrir mörgum árum síðan.

Líklegt er að stuðningur almennings við málstað þessara kvenna fjari út, ef halda á áfram ásökunum á nýja og nýja presta, fyrir nýjar og nýjar sakir, ásamt tugmilljóna peningakröfum.

Nú er mál að linni.


mbl.is Biskup segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða Íslendinga er ESA að tala um?

ESA segir í áliti sínu um Icesaveskuldina, að "Íslendingar" hafi þrjá mánuði til að greiða Bretum og Hollendingum innistæðutrygginguna og geri "þeir" það ekki verði "þeim" stefnt fyrir Eftadómstólinn.

Samkvæmt tilskipunum ESB var engin ríkisábyrgð á tryggingasjóðum innistæðueigenda og fjárfesta og því ekki annað að sjá en embættismenn ESA séu stirðlæsari og hafi jafnvel minni lesskilning en flestir aðrir úr því að þeir virðast blanda ríkissjóði inn í málið.

Ekki kemur fram í áliti embættismannanna hvað Íslendinga þeir eiga nákvæmlega við, sem þeir ætlast til að greiði innistæðutrygginguna, t.d. hvort þeir meina mína kennitölu eða kennitölu gamla Landsbankans, sem stofnaði til þessara innlánsreikninga, sem málið snýst um, en ég persónulega kom ekki nálægt.

Þetta álit embættismanna ESA er auðvitað að engu hafandi og fari svo að þeir álpist til að stefna málinu fyrir EFTAdómstólinn, þá er enginn vafi að mín kennitala og annarra Íslendinga mun verða sýknuð af allri kröfugerð, en afar líklegt er að dómur falli gamla Landsbankanum í óhag.

Þegar að því kemur mun slitastjórn bankans væntanlega taka upp samninga við Breta og Hollendinga um hvernig og á hve löngum tíma dóminum verður fullnægt.


mbl.is Þriggja mánaða Icesave-frestur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein Steingrímslygin afhjúpuð

Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesaveþrælalögin hélt ríkisstjórnin, með Steingrím J. í broddi fylkingar, gífurlegum ógnar- og hræðsluáróðri að þjóðinni um þær hörmungar sem yfir hana myndu dynja, ef hún samþykkti ekki að gangast undir skattalegan þrældóm í þágu Breta og Hollendinga til næstu ára, eða áratuga.

Í dag hælist þessi sami Steingrímur J. af því að tekist hafi að selja íslensk skuldabréf á erlendum markaði, en fyrir kosningarnar sagði hann að slíkt yrði gjörsamlega ómögulegt í nánustu framtíð og að sama skapi myndu innlend fyrirtæki alls ekki hafa nokkra möguleika til að taka erlend lán og engir erlendir fjárfestar myndu heldur líta við nokkrum fjárfestingakostum hér á landi um ófyrirséða framtíð.

Steingrími J. finnst það mikil tíðindi, að Ísland skuli vera orðið fullgildur aðili á erlendum skuldabréfamarkaði "aðeins tveim og hálfu ári eftir hrun", þó ýmsum öðrum en honum þyki það ekki sérlega stuttur tími og að endurreisn efnahagslífsins hafi tekið allt of langan tíma og sé í raun ekkert komin í gang að ráði ennþá.

Steingrími hefði verið nær að taka aðra tímaviðmiðun í þessu efni, en hann hefði átt að láta það koma fram að lántökudaginn í dag ber nákvæmlega upp á tveggja mánaða afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave, þar sem þjóðin sýndi svart á hvítu að hún tryði ekki einu einasta orði af því sem Steingrímur og ríkisstjórnin reyndu að ljúga um afleiðingar þess að neita að selja sjálfa sig í þrældóm í þágu inngöngu í ESB.

Undanfarnar vikur hefur hver lygaþvæla Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar verið afsönnuð og skuldabréfasalan í dag er enn ein fjöður í hatt þeirra sem lýstu lygasögur ríkisstjórnarinnar ósannar, jafnóðum og þær voru bornar fram.

Ríkisstjórnin stendur eftir með skömmina, en reyndar hefur komið í ljós fyrir löngu að ráðherrar hennar kunna ekki að skammast sín.


mbl.is Ríkið lauk við skuldabréfaútboð erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband