Enn ein Steingrímslygin afhjúpuð

Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesaveþrælalögin hélt ríkisstjórnin, með Steingrím J. í broddi fylkingar, gífurlegum ógnar- og hræðsluáróðri að þjóðinni um þær hörmungar sem yfir hana myndu dynja, ef hún samþykkti ekki að gangast undir skattalegan þrældóm í þágu Breta og Hollendinga til næstu ára, eða áratuga.

Í dag hælist þessi sami Steingrímur J. af því að tekist hafi að selja íslensk skuldabréf á erlendum markaði, en fyrir kosningarnar sagði hann að slíkt yrði gjörsamlega ómögulegt í nánustu framtíð og að sama skapi myndu innlend fyrirtæki alls ekki hafa nokkra möguleika til að taka erlend lán og engir erlendir fjárfestar myndu heldur líta við nokkrum fjárfestingakostum hér á landi um ófyrirséða framtíð.

Steingrími J. finnst það mikil tíðindi, að Ísland skuli vera orðið fullgildur aðili á erlendum skuldabréfamarkaði "aðeins tveim og hálfu ári eftir hrun", þó ýmsum öðrum en honum þyki það ekki sérlega stuttur tími og að endurreisn efnahagslífsins hafi tekið allt of langan tíma og sé í raun ekkert komin í gang að ráði ennþá.

Steingrími hefði verið nær að taka aðra tímaviðmiðun í þessu efni, en hann hefði átt að láta það koma fram að lántökudaginn í dag ber nákvæmlega upp á tveggja mánaða afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave, þar sem þjóðin sýndi svart á hvítu að hún tryði ekki einu einasta orði af því sem Steingrímur og ríkisstjórnin reyndu að ljúga um afleiðingar þess að neita að selja sjálfa sig í þrældóm í þágu inngöngu í ESB.

Undanfarnar vikur hefur hver lygaþvæla Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar verið afsönnuð og skuldabréfasalan í dag er enn ein fjöður í hatt þeirra sem lýstu lygasögur ríkisstjórnarinnar ósannar, jafnóðum og þær voru bornar fram.

Ríkisstjórnin stendur eftir með skömmina, en reyndar hefur komið í ljós fyrir löngu að ráðherrar hennar kunna ekki að skammast sín.


mbl.is Ríkið lauk við skuldabréfaútboð erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Laukrétt hjá þér Axel!

Og hugsaðu þér... ekkert af þessum árangri getur hann eignað sér. Það er líka skondið að heyra manninn skammast út í að "niðurrifsöfl" séu að vinna á móti framförum og bata hérna. En hver ætli sé nú mesta niðurrifsaflið hér á landi í dag? 

Anna Kristín Pétursdóttir (IP-tala skráð) 9.6.2011 kl. 19:29

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er rétt að Steingrímur J. er þekktur fyrir annað en mikinn húmor, en samt er þetta með "niðurrifsöflin" bráðfyndið úr munni VG-liða.

Axel Jóhann Axelsson, 9.6.2011 kl. 19:39

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er einmitt það sem ég var að hugsa.  Hann er að þakka sér það sem þjóðin gerði á móti hans hræðsluáróðri.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.6.2011 kl. 20:51

4 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Það sem nú er að koma í ljós varðandi lántökumöguleika er að gerast ÞRÁTT FYRIR þá endemis ríkisstjórn sem við búum við.

Magnús Óskar Ingvarsson, 9.6.2011 kl. 21:03

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já nákvæmlega.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.6.2011 kl. 21:17

6 identicon

Ég er bara stolt af því að hafa tekið þátt í að minnka afleiðingarnar af gjörðum þessarar ríkisstjórnar - það verður bara að hafa það þó að þau kalli okkur sem erum tilbúin til að verja hagsmuni þjóðarinnar "niðurrifsöfl".

Anna Kristín Pétursdóttir (IP-tala skráð) 9.6.2011 kl. 21:35

7 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Sammála ykkur.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 9.6.2011 kl. 21:44

8 Smámynd: Elís Már Kjartansson

Það er öllum mjög ljóst í dag að hann Steingrímur J gengur ekki heill til skógar i þessu máli sem og skuldavanda heimilina. Það lýsir furðu að maðurinn hafi ekki beðið opinberlega afsökunar á heilalausum upphrópunum sem og gengdarlausri aðför að fólki þar sem hann leyfði bönkum að ganga að heimilum og fyrirtækjum. Steingrímur j er án efa einn mesti barráttu maður kapitalisma fyrr og síðar á Íslandi því það fer nefnilega ekki saman hvað þessi maður segir og svo hinsvegar gerir!!. Það er svo sannarlega rétt hjá þér að hann kann ekki að skammast sín. Kjörorð Græns Framboðs Vinstri Grænna hlýtur að vera orðið " einkavæðum hagnað, látum skuldir falla á almúgan". Er nema von að maður fær hroll og viðbjóðslegar hugsanir koma upp þegar maður sér þessa mannleysu koma fram því allt sem hann segir og gerir svo er drulla frá a til ö. Þó er ekki svo með öllu illt að ekki sé eitthvað gott að gerast og þá á ég við sjávarútvegsráðherrann vonandi kemur hann kvótanum í þjóðareign sem fyrst áður en þessi stjórn springur það er það eina góða sem ég sé að þessi ríkisstjórn er að gera og vonandi fáum við þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótafrumvarp fljótlega þar sem þar sem kvótinn verður festur í þjóðareign með lögum. Og hann gangi ekki kaupum og sölum eða framsölum eins og tíðkast hefur því það hefur veitt þjóðinni hálfgerðum uppsölum við að horfa upp á það. En í ljósi þessi sem á undan er gengið tel ég að þessi ríkisstjórn eigi eftir að klúðra þessu kvótafrumvarpi líka því miður.

Elís Már Kjartansson, 9.6.2011 kl. 22:00

9 identicon

Svo hefði hann mátt þakka okkur niðurrifs-öflunum fyrir hvað við stóðum okkur vel í að verja hagsmuni þjóðarinnar.  

Anna Kristín Pétursdóttir (IP-tala skráð) 9.6.2011 kl. 22:11

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ég vona að líka, þó ég telji að hægt sé að gera betur en þetta sem Jón er að gera, en ofsi sjálfstæðismanna sýnir okkur að L.Í.Ú. er að fara á hjörunum út af þessu ásamt restinni af flokknum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.6.2011 kl. 22:12

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þó að það sé nú allt önnur umræða en Steingrímslygarnar, þá verður nú að láta það koma fram, að varla nokkur einasti aðili hefur fundist í þjóðfélaginu, sem hefur mælt með þessum frumvörpum Jóns Bjarnasonar.

Hagsmunafélög útgerðarmanna, sjómannafélögin, ASÍ, sveitastjórnir hringinn í kringum landið, smábátasjómenn o.fl., o.fl. hafa mótmælt þeim hástöfum. Þeir einu sem eru tiltölulega sáttir eru þeir bátaeigendur sem hafa selt frá sér allan kvóta, jafnvel tvisvar, og vilja nú ólmir fá kvóta aftur á kostnað þeirra sem áður borguðu þeim fyrir kvótann, sem þeir seldu.

Axel Jóhann Axelsson, 9.6.2011 kl. 22:24

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þori varla að segja það hér Axel en þessi aðilar sem þú telur upp, eru allir hallir undir L.Í.Ú.  Nema sjómenn, auðvitað er hægt að finna nokkra sem eru á móti þessu, en flestir sem vinna í sjávarútvegi fyrir utan kvótagreifana eru nokkurnveginn sáttir, og þá bara vegna þess að eitthvað er loksins að gerast, en ekki af því að frumvörpin séu svo góð í sjálfu sér. Það var komin tími til að rippa upp þessu kerfi.  Og það verður gert eitt skref í einu.........

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.6.2011 kl. 22:36

13 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekki trúi ég því að LÍÚ hafi eitthvert kverkatak á flestum sveitarstjórnum landsins og það er meira en "nokkrir" sem eru á móti þessum frumvörpum, því það eru nánast allir, sem yfirleitt hafa tjáð sig um þau. Ekki einn einasti aðili sem skilaði áliti, eða mætti, til Sjávarútvegsnefndar Alþingis mælti með þessum frumvörpum, heldur þvert á móti taldi þeim allt til foráttu.

Auðvitað þarf að gera breytingar á fiskveiðistjórnuninni, en það er algert glapræði að gera það með þeim flumbrugangi og óvönduðu vinnubrögðum sem Jón Bjarnason og ríkisstjórnin hafa viðhaft í málinu og enda með þessum mislukkuðu frumvörpum.

Axel Jóhann Axelsson, 9.6.2011 kl. 22:52

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Axel  Málið er nefnilega þannig vaxið. Þegar bæjarstjórn vogaði sér hér fyrir nokkru að styðja ekki  við bakið á útgerðarrisum hér, þá hættu skipin (tímabundið) að landa hér fyrir vestan.  Þetta var bein hótum um að ef þeir ætluðu sér að gera eitthvað annað en að styðja útgerðina fengju þeir að kenna á því.  Þú hefur ekki grænan grun um hve víðtækt þetta er og hvaða meðulum er beitt.  Það væri bara besta mál ef það yrði gerð úttekt á þessum málum.  Ég skyldi glöð biðjast afsökunar ef það kæmi í ljós að þessir menn hefðu hagað sér samkvæmt stjórnarskránni og almennum siðareglum.

Þeir eru nefnilega ekkert slæmir menn inn við beinið, og sumir hreint ágætir, en þeir hafa svo sannarlega komið sér upp systemi í kerfinu sem gerir þeim kleyft að ráða því sem þeir vilja ráða.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.6.2011 kl. 23:10

15 identicon

Finnst þér þá eðlilegt að um 40% þeirra sem eru á strandveiðum séu einstaklingar sem hafa selt kvótann sinn áður og eru þarna að komast aftur inn í kerfið á kostnað þeirra sem keyptu sig inn í kerfið. Finnst þér eðlilegt að með þessum breytingum á kvótakerfinu þá er markmiðið að styrkja jaðarbyggðirnar. Á Þórshöfn hefur ekki einn einasti fiskur verið unnin á Þórshöfn sem veiddur hefur verið í strandveiðum en það er búið að skerða af þeim bátum sem fyrir eru þannig að það er minni vinna í landi.

http://www.ruv.is/frett/margir-smabatasjomenn-ohressir

Ég held að þú sért að misskilja aðeins hvað LÍU hafi mikil áhrif úti á landi, fólkið vill bara vinna vinnuna sína í friði og ef þú skoðar það sem verið er að segja hringinn í kringum landið í sveitarstjórnum þar sem jafnvel samfylkingin er með völd þá hlýtur eitthvað að vera að breytingunum eða hvað...???

Auðbjörg (IP-tala skráð) 10.6.2011 kl. 08:45

16 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ásthildur, samsæriskenningar eru oft mjög skemmtilegar en eiga það þó flestar sameiginlegt að ekki nokkur einasti fótur er fyrir þeim.

Það er ákaflega einkennilegur málflutningur margra, að halda því stöðugt fram að allir atvinnurekendur séu glæpamenn og allra verstir séu útgerðarmenn og samtök þeirra ekkert annað en glæpafélög.

Það er eins málefnalegt og að halda því fram, að við launþegar séum tómur óþjóðalýður og glæpahyski og ASÍ sé ekkert annað en regnhlífarsamtök launþegaglæpagegnja landsins.

Þó ég fylgist tiltölulega vel með fréttum, þá hafa stuðningsyfirlýsingar með kvótafrumvörpunum farið fram hjá mér og væru ábendingar um hvar hægt væri að sjá þær vel þegnar. Þá er auðvitað átt við yfirlýsingar annarra en einstakra flokkfélaga innan VG og Samfylkingarinnar.

Axel Jóhann Axelsson, 10.6.2011 kl. 10:09

17 identicon

Ég er sjómaður til 15 ára, reyndar fór ég til náms 2005 og er enn hokinn yfir skruddunum,ég er á móti þessu nýja frumvarpi ef ég skil það rétt.

Aldrei hélt ég að ég mundi mæla fyrir núverandi kvótafyrirkomulagi, en lífið er fullt af óvæntum uppákomum, svo mikið er víst.

Í fyrsta lagi tel ég tel að það alversta sem gæti komið fyrir Ísl. sjávarútveg væri að pólitíkurnar fari að sýsla með aflaheimildir !!

Telur einhver að það yrði framkvæmt af heilindum og réttlæti ?

Í öðru lagi þá get ég hreinlega ekki séð hvernig taka á kvóta frá mönnum sem hafa jafnvel skuldsett sig upp í rjáfur með kaupunum.

Ég tel líklegt að margir sem vissulega fengu kvótann gefins á sínum tíma hafi selt hann frá sér.

Hvernig á að tækla þessa eignarupptöku ? Ríkið þyrfti líklega að taka yfir áhvílandi lán, ríkið þyrfti einnig væntanlega að bæta þeim sem borgað hafa upp sína kvótaeign.

Núverandi vandi og "óréttlæti" þessa málaflokks eru syndir feðranna, tíminn fyrir gæfulega leiðréttingu sem flestir hefðu verið sáttir við er bæði kominn og farinn.

Einu er ég þó hjartanlega sammála, ég er hjartanlega sammála pistli þínum Axel, verkstjórn vinstri flokkanna er svo afbrigðilega menguð að líklegt þykir að við taki tveggja áratuga stjórnarseta sjálfstæðismanna,líkt og sú sem nýafstaðin er.

Þá verður kominn upp ný kynslóð kjósenda sem, líkt og mín kynslóð upplifði, læknast af vinstraheilkenninu á mettíma, það tók vinsti gimpin einungis tvö ár að fara aftur í stjórnmálalega útlegð, geri aðrir betur..

runar (IP-tala skráð) 10.6.2011 kl. 12:11

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er ekki að tala um að allir útgerðarmenn séu glæpamenn, ég er að benda á að þeir stjórna í raun og veru landinu bak við tjöldin. 

En hér eru til dæmis greinar frá tveimur mönnum sem gjörþekkja sjávarútveginn, og a.m.k. annar þeirra er sjálfstæðismaður og þess vegna ættu þið að taka mark á því sem hann segir.

Hér er Jón Kristjánsson fiskifræðingur.

http://fiski.blog.is/blog/fiski/entry/1155818/

Hér er svo Kristinn Pétursson fyrrverandi útgerðarmaður og austfirðingur, og veit alveg hvað hann er að tala um.

http://kristinnp.blog.is/blog/kristinnp/entry/1172037/

Þetta fiskveiðikerfi er nú ekki betra en þetta. Og þess vegna má spyrja sig af hverju hefur ekki verið hróflað við því í tæp 30 ár?  Spyrjið ykkur sjálf hvort það sé eitthvað vit í þessu og hvað valdi því að ekki sé hróflað við neinu.  Peningar?????

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.6.2011 kl. 12:47

19 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ásthildur, peningar eru akkúrat skýringin á þessu öllu saman. Fram að þessu hafa stjórnmálamenn og aðrir verið sammála um að kerfið væri það hagkvæmasta, sem völ væri á og skilaði þjóðarbúinum mestum hagnaði.

Almenningur hefur nú síðustu ár orðið æ mótfallnari kvótasölunni og að einstakir menn geti jafnvel lifað góðu lífi, án þess að gera út nokkurt skip, en leigja einungis frá sér kvótann.

Það þarf að lagfæra kerfið og banna varanlegu kvótasöluna alfarið, en breytingarnar þarf að gera með sem mestri sátt, en ekki þvílíkum handarbakavinnubrögðum og Jón Bjarnason og ríkisstjórnin hafa viðhaft með frumvarpsbastörðunum, sem nú hafa verið lögð fram í ósátt við alla. Ekki er einu sinni sátt um málið innan og milli stjórnarflokkanna og þar með enginn þingmeirihluti fyrir þessari dellu óbreyttri.

Axel Jóhann Axelsson, 10.6.2011 kl. 18:25

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það þarf að lagfæra kerfið og banna varanlegu kvótasöluna alfarið, en breytingarnar þarf að gera með sem mestri sátt

Já um þetta erum við sammála.  Það sem er málið er að loksins er eitthvað að gerast, ég get verið sammála um að það gengur of stutt og of lítið, en það má segja að litlu verður Vöggur feginn. 

Og ég er hrædd um að ef þessi reyndar ömurlega ríkisstjórn fellur og ef sjálfstæðismenn komast að, þá verða engar breytingar á þessu framsali og öllu krappinu.  Þú sérð hvernig þeir berja sér í brjóst alþingismennirnir og tryllast bara af tilhugsuninni um að einhverju verði breytt þarna.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.6.2011 kl. 18:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband