Færsluflokkur: Bloggar
20.6.2011 | 11:57
Skilar friðunin engu?
Jón Kristjánsson, fiskifræðingur, hefur lengi róið nánast einn á báti með þá skoðun að friðun fiskistofnanna skili engum árangri í stækkun þeirra og vill meina að fæðuframboðið og önnur skilyrði í hafinu ráði úrslitum um vöxt þeirra og viðgang.
Hafró hefur nú birt skýrslu um langtímabreytingar í fæðu þorsksins og þar virðist koma fram að þorskurinn sé langt kominn með að éta upp rækju-, loðnu- og sandsílastofnana, ásamt því að éta allt annað sem að kjafti kemur, þar á meðal smáfisk af eigin tegund, til viðbótar við annan "meðafla" svo sem síld og kolmunna.
Jón segir þetta sanna kenninguna um að það sé ekki veiðin sem hafi áhrif á þorskstofninn, heldur fæðuframboðið.
Það vekur samt upp þá spurningu hvers vegna þorskstofninn stækkar ekki, þrátt fyrir að hann sé langt kominn með að éta aðra stofna upp til agna og veiðin í hann verið eins takmörkuð og raunin hefur verið.
Greinilega verður að fara nákvæmlega ofan í saumana á öllu þessu máli og hleypa inn í umræðuna skoðunum fleiri fræðinga en þeirra sem eru á launum hjá hinu opinbera.
![]() |
Friðun skilar ekki árangri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
19.6.2011 | 22:37
Hverju lofaði Ögmundur um vegagerð?
Aðilar vinnumarkaðarins, SA og ASÍ, halda því fram að Ögmundur Jónasson, Innanríkisráðherra, hafi lofað í tengslum við undirritun kjarasamninganna 5. maí s.l, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að ráðist yrði í flýtiframkvæmdir í vegagerð til að skapa verktökum aukin verkefni og þar með minnkun atvinnuleysis í þeirri atvinnugrein.
Ögmundur hafði áður, þ.e. í fyrrahaust, boðað aukningu vegaframkvæmda í nágrenni Reykjavíkur, sem fjármagnaðar skyldu með sérstökum vegatollum, en þeim fyrirætlunum var mótmælt kröftuglega af skattgreiðendum, sem fengið hafa meira en nóg af skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar.
Vegna þessara mótmæla gegn sífellt nýjum sköttum á bifreiðaeigendur og aðra skattgreiðendur segist Ögmundur vera hættur við alla þá vegagerð, sem hann hafði áður áætlað að láta ráðast í með auknu skattaæði. Nú segir hann að málin "fái að þroskast hægar" og ekkert sé ákveðið um vegagerð á þessu ári og því næsta. Það muni bara koma í ljós með tíð og tíma.
Upplýsa verður hvort og þá hverju Ögmundur og ríkisstjórnin lofuðu varðandi atvinnumál í sambandi við kjarasamningana, bæði um vegagerð og önnur atvinnuskapandi verkefni, sem á könnu ríkisstjórnarinnar eru og eiga að vera.
Ekki geta báðir aðilar, þ.e. aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin, verið að segja þjóðinni ósatt.
Staðreyndirnar hljóta að verða lagðar á borðið áður en ákvörðun um ógildingu þriggja ára kjarasamninga verður tekin á þriðjudaginn kemur.
![]() |
Hreinskiptinn fundur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2011 | 12:18
Eru íslensk stjórnvöld að gera eitthvað í þessum málum?
Svíar hafa hrundið af stað rannsókn á þvínguðum, eða fyrirfram ákveðnum hjónaböndum í Svíþjóð og greiðslum fyrir brúðirnar, en því hærri sem heimanmundurinn er, því erfiðara fyrir konurnar að losna úr slíkum hjónaböndum síðar, hversu viljugar sem þær kynnu að vera til þess.
Í fréttinni er t.d. vitnað til orða jafnréttisráðherra Svíþjóðar: "Nyamko Sabuni segir að ríkisstjórnin hafi reynt að berjast gegn heiðursmorðum á þremur sviðum, með upplýsingagjöf, lagasetningu og vernd fyrir fórnarlömbin. 10.000 lögreglumenn hafa verið fræddir um heiðursofbeldi en einnig fólk sem sinnir félagslegri aðstoð eða kemur að skólamálum. Þá hefur ungt fólk fengið fræðslu um réttindi sín."
Erlendum ríkisborgurum og innflytjendum hefur fjölgað mikið hér á landi undanfarin ár, þar á meðal múslimum, en heiðursmorð eru einkum drýgð í nafni þeirrar trúar og því sjálfsagt einungis tímaspursmál hvenær slík mál koma upp hér, sem annarsstaðar.
Þó nú ríki sá pólitíski rétttrúnaður að helst enga trúarbragðafræðslu megi viðhafa í skólum og þá allra síst fræðslu um þá trú, sem iðkuð hefur verið í landinu nánast frá landnámi og siðir, venjur og lög landsins byggja á, verður að vera hægt að ætlast til að lögreglumönnum, kennurum og starfsfólki velferðarþjónustunnar séu kynnt þessi hætta og þá ekki síður hinum erlendu konum um hvert þær geti snúið sér, verði þær fyrir ofbeldi ættingja sinna eða hótunum og áreytni trúarleiðtoga.
Eru íslensk stórnvöld á verði fyrir þessari vá, sem vafalaust mun skjóta upp kolli sínum hér fyrr eða síðar?
![]() |
Svíar rannsaka þvinguð hjónabönd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.6.2011 | 22:00
Vill Jón Gnarr sem leiðtoga lífs síns
Samkvæmt frétt mbl.is lét Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, í ljós þá heitustu ósk sína í viðtali við Guardian, að Besti flokkurinn undir forystu Jóns Gnarrs byði fram í næstu kosningum, til að vinna bug á spillingunni sem grasserar innan núverandi stjórnarflokka, að hennar sögn.
Það verður að teljast með afbrigðum undarlegt að þingmaður skuli hafa slíka ótrú á sjálfum sér, flokksfélögum sínum og öðrum þingmönnum, að gefa í skyn að allt séu þetta eintómir glæpamenn og spillingarbófar, sem uppræta þurfi með öllum tiltækum ráðum.
Jafn furðulegt er að þingmaðurinn skuli ekki sjá neinn annan lausnara í sjónmáli en Jón Gnarr, sem sýnt hefur á borgarstjórnarferli sínum að hann ræður engan veginn við starf sitt og að ekki hafi verið jafn illa stjórnandi meirihluti í Reykjavík, síðan R-listinn var og hét.
Lágkúra íslenskra stjórnmála getur varla orðið miklu meiri en þetta.
![]() |
Vill Besta á þing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.6.2011 | 11:35
Evran að verða skattgreiðendum dýrkeypt
Hvert evruríkið af öðru stefnir nú í þrot vegna skuldamála, en æ betur sannast að upptaka evru sem gjaldmiðils ætlar að reynast skattgreiðendum í þessum löndum, flestum öðrum en Þýskalandi og ef til vill Frakklandi, afar dýrkeypt þegar öll kurl verða komin til grafar.
Forsætisráðherra Lúxemborgar, Jean-Claude Juncker, telur að evrukreppan eigi eftir að breiðast út til fleiri landa en Grikklands, Portúgal, Spánar og Írlands og nefnir að líklega muni a.m.k. Belgía og Ítalía bætast í hóp gjaldþrota ríkjanna innan ESB. Svo alvarlegt er ástandið í tveim síðastnefndu ríkjunum, að hann telur líklegt að þau muni þurfa að grípa til afdrifaríkra neyðarráðstafana jafnvel á undan Spáni, sem þó er kominn að fótum fram efnahagslega.
Eftirfarandi klausa úr fréttinni er afar athyglisverð: "Hann varar við því að einkaaðilar verði þvingaðir til þess að taka þátt í öðrum björgunarpakka Grikkja sem er verið að undirbúa. Alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækin myndu ekki líta á slíkt jákvæðum augum og það gæti haft hrikaleg áhrif á evruna."
Þessir "einkaaðilar" sem Juncer talar um eru kallaðar "lánastofnanir" og "bankar" á mannamáli og þeir eiga að sjálfsögðu að bera sjálfir ábyrgð á sínum lánveitingum og taka áhættu af þeim. Kynni þeir sér ekki skuldastöðu og greiðslugetu þeirra sem þeir lána til, eiga þeir að súpa seyðið af því sjálfir og ríkisstjórnum ESBlandanna á hreinlega ekki að líðast að velta greiðslubyrði slíkra lánaskandala yfir á skattgreiðendur.
Íslenskir skattgreiðendur börðust hetjulegri baráttu gegn því að ríkisstjórn Íslands, í samvinnu við þá bresku og hollensku, seldu sig í skattalegan þrældóm fyrir erlenda kúgara vegna Icesaveklúðurs Landsbankans, þó ekki sé útséð um að Steingrímur J. og félagar hans í ríkisstjórn séu algerlega búnir að gefast upp á þeim fyrirætlunum.
Skattgreiðendur ESBlandanna verða að taka baráttu þeirra íslensku sér til fyrirmyndar áður en það verður of seint. Takist þeim það ekki blasa erfiðir tímar við þegnum ESB ríkjanna, en nógir verða erfiðleikarnir samt þegar bankarnir fara að hrynja, einn af öðrum, og evrusamstarfið springur í loft upp.
![]() |
Vandinn breiðist út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.6.2011 | 15:37
17. júní er áminning um fullveldisbaráttuna
Jón Sigurðsson barðist fyrir fullveldi Íslands, þó hann gengi ekki svo langt að krefjast algers sjálfstæðis frá Dönum, enda trúlega gert sér grein fyrir því að fullveldið yrði fyrsti áfangi að endanlegu sjálfstæði íslensku þjóðarinnar og nýtt upphaf þrotlausrar baráttu þjóðarinnar fyrir sjálsákvörðunarrétti sínum um eigin málefni.
17. júní var valinn sem þjóðhátíðardagur vegna þess að sá dagur var fæðingardagur Jóns og með því var minning hans heiðruð um leið og dagurinn var festur í sessi sem áminning um baráttu hans fyrir fullveldinu og nauðsynjar þess að sú barátta gleymdist ekki og yrði landsmönnum hvatning til að varðveita og berjast fyrir fullveldi landsins til allrar framtíðar.
Sú hefur enda verið raunin fram undir þetta, að þjóðin hefur verið algerlega sammála um að viðhalda fullveldinu og sjálfsákvörðunarrétti sínum, en svo undarlega hefur brugðið við upp á síðkastið að farið er að bera á málflutningi sem algerlega er á skjön við hugsjónir bestu sona og dætra þjóðarinnar um fullveldi og sjálfstæði og er þetta fólk tilbúið til þess að afhenda útlendingum ákvarðanarétt um helstu hagsmunamál lands og þjóðar.
Furðulegast af öllu er, að stjórnmálaflokkur hefur tekið forystuna í baráttunni fyrir afsali fullveldisins, en sú barátta hefur reyndar ekki skilað þeim flokki öðru en fyrirlitningu meirihluta þjóðarinnar og hert hana í afstöðu sinni til viðhalds fullveldis og sjálfákvörðunarréttar.
Okkur öllum er hér með óskað til hamingju með daginn og sú von látin í ljósi að hann verði hvatning til órjúfanlegrar samstöðu þjóðarinnar um viðhald sjálfstæðis síns og fullveldis.
![]() |
Menningarsetur á Hrafnseyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2011 | 20:44
Fyrirgefanleg mistök
Karl Sigurbjörnsson, biskup, skýrði mjög vel, í Kastljósi, hvernig hann og kirkjan sem stofnun kom að málum, þegar og eftir að ásakanirnar á hendur Ólafi Skúlasyni, fyrrverandi bispupi, um kynferðisglæpi komu fram á árinu 1996.
Biskup viðurkenndi ýmis mistök og klaufaskap af sinni hálfu og stofnana kirkjunnar við meðferð málsins, en bæði vegna þess að glæpirnir voru framdir nokkrum áratugum áður en frá þeim var skýrt og biskupskjör var framundan, voru allir aðilar í vandræðum með hvernig á málinu skyldi tekið, enda engin fordæmi fyrir ásökunum af þessu tagi innan kirkjunnar, allra síst á hendur einum æðsta manni hennar.
Öll eru þessi mistök mannleg og þar af leiðandi ætti að vera auðvelt að fyrirgefa þau, ef ekkert annað en sanngirni og kærleikur réði för í afstöðu til þeirra.
Verði ekki látið af árásum á Karl Sigurbjörnsson, biskup, og aðra kirkjunnar menn vegna þessa máls, er greinilegt að annarlegar hvatir liggja að baki.
![]() |
Mistök að taka að sér sáttahlutverkið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
15.6.2011 | 21:11
Svandís bregst ekki í bannáráttunni
Íslenskur liðþjálfi í norska hernum hefur komið hingað til lands a.m.k. í tvígang til að kynna Verkfræðiháskóla norska hersins, en standist menn innökupróf í hann, er þeim boðin ókeypis skólaganga gegn því að innrita sig í herinn að námi loknu.
Einhverjir afturhaldsseggir fundu eldgamla klausu í hegningarlögum, sem bannar að hér á landi fari fram ráðningar í erlenda heri og þó erfitt sé að sjá að kynning á háskóla erlends hers falli undir þessa hegningarlagagrein, þá hafa allir bannóðir vinstriliðar gripið í þetta hálmstrá til að fordæma þessa framhaldsnámskynningu í menntaskólum landsins.
Eins og við var að búast rauk Svandís Svavarsdóttir, settur menntamálaráðherra, í fjölmiðla með þau skilaboð að hún myndi umsvifalaust skrifa hverjum einasta framhaldsskólastjóra landsins bréf og benda þeim á þessa grein hegningarlaganna og með því gefa í skyn að þeir verði kærðir, leyfi þeir íslenska liðþjálfanum í norka hernum að stíga inn fyrir dyr skóla sinna framar.
Minna bannóður ráðherra hefði gefið út yfirlýsingu um að þessi grein hegningarlaganna væri löngu úrelt og ætti alls ekki við um þetta mál, en til að taka af öll tvímæli myndi hann flytja frumvarp strax í haust til að afnema þessa tímaskekkju.
Slíkur ráðherra finnst hins vegar ekki i VG og trúlega ekki í Samfylkingunni heldur.
![]() |
Herkynningar verði bannaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 16.6.2011 kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.6.2011 | 17:21
Jóni Ásgeiri koma 15 milljarðar ekkert við
Þrotabú Baugs Group hefur stefnt Jóni Ásgeiri, eins höfuðpaurs Bónusgengisins, vegna sölu verðlausra hlutabréfa í Baugi Group þegar þau voru orðin nánast verðlaus og félagið stefndi beint í gjaldþrot.
Þessi sýndarviðskipti skáru Bónusgengið og Hrein Loftsson úr þeirri snöru að ábyrgjast þessa gríðarlegu upphæð, en furðu vekur að hvorki Ingibjörgu Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs, og Hreini skuli ekki vera stefnt eins og gengisforingjanum sjálfum, enda nutu þau góðs af gerningnum eins og hann.
Eins og venjulega, þegar mál eru höfðuð gegn Bónusgenginu, hefur Jón Ásgeir sent frá sér yfirlýsingu, þar sem hann segir kæruna vera algert "steypumál" og komi sér persónulega alls ekkert við, enda allt málið runnið undan rifjum Hreiðars Más Sigurssonar, bankastjóra Kaupþings, sem með þessu hafi verið að gera sér og sínum óumbeðinn greiða og eigi að bera ábyrgð á honum sjálfur.
Jón Ásgeir hefur marg sinnis gortað sig af því að hafa aldrei skrifað undir nokkurt einasta lán, ábyrgð eða skuldbindingu, persónulega og því sé allt fjársukk Baugs Group og hudruða annarra braskfélaga, sem hann stofnaði og setti á hausinn honum sjálfu óviðkomandi, og því verði ekki hægt að klína neinu á sig, eða aðra gengismeðlimi, vegna þess ævintýralega fjármálasukks, sem stundað var af þessum félögum.
Jón Ásgeir er háll sem áll og mun líklega sleppa undan þessum kærum, eins og mörgum öðrum.
![]() |
Krefur Jón Ásgeir um 15 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2011 | 18:59
Óstjórn og klúður á Alþingi
Þingflokksformenn Samfylkingarinnar og VG klúðruðu því að koma frumvörpum um lagabreytingar vegna olíuleitar á Drekasvæðinu inn á lista yfir þau frumvörp sem nauðsynlegt var að afgreidd yrðu fyrir þingslitin um síðustu helgi.
Samstaða hafði náðst milli allra stjórnmálaflokka um málið, þannig að ekki hefði átt að taka langa stund að afgreiða það í gegn um þingið, en vegna óstjórnar og klúðurs við skipulag vinnunnar á þinginu síðustu dagana döguðu frumvörpin uppi og verða ekki afgreidd fyrr en í september n.k., ef ekki gleymist að leggja þau fram þegar þing kemur saman að nýju í haust.
Útboðsgögn hafa þegar verið útbúin og kynnt erlendis og miðuð við að lagabreytingin væri komin til framkvæmda áður en formlegt útboðsferli hæfist, en það átti að gerast þann 1. ágúst n.k.
Vegna þessara dæmigerðu handarbakavinnubragða ríkisstjórnarflokkanna er nú allt útlit að fresta verði útboðinu um olíuleitina.
Þetta mál sker sig svo sem ekkert úr öðrum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar.
![]() |
Olíuleitarútboði frestað? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)