Færsluflokkur: Bloggar

Verður Jón Gnarr forsætisráðherraefnið?

Guðmundur Steingrímsson, flokkaflakkari, hefur nú loksins fundið sér samastað í pólitíska litrófinu, en það er í faðmi þess stjórnmálaflokks á landinu sem enga stefnu hefur og ekkert markmið haft fram að þessu annað en að koma Jóni Gnarr í borgarstjórastólinn.

Enginn hugsandi maður lét sér detta í hug að grínframboð myndi fá nokkurt fylgi sem heitið gæti í kosningum, en það gerðist nú samt og fíflagangurinn náði völdum í stjórn Reykjavíkurborgar, sem varð að athlægi um víða veröld fyrir vikið.

Nú fást fáir til að viðurkenna að þeir hafi kosið þetta flokksskrípi í síðustu borgarstjórnarkosningum, en það aftrar ekki Guðmundi Steingrímssyni frá því að gagnga sjálfviljugum í þetta bjarg forheimskunnar, enda sýnt og sannað í störfum sínum á Alþigi að hann á best heima í flokki með öðrum liðleskjum.

Kjósendur sýndu reyndar og sönnuðu í síðustu borgarstjórnarkosningum að skynsemi ræður ekkert endilega för í kjörklefanum og því skal hreint ekki útilokað að næsta ríkisstjórn verði samsett úr "Besta flokknum" og Samfylkingunni.

Í þeirri ríkisstjórn yrði Jón Gnarr auðvitað forsætisráðherra.


mbl.is Hyggja á framboð til Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur seinn að skilja, þó boðin væru skýr

 Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, ríður nú um héruð Vestfjarða til að útskýra fyrir íbúum svæðisins niðurstöðu sína um vegabætur fyrir vestan, en vegna deilna um vegastæðið hefur Ögmundur legið undir feldi undanfarna mánuði og íhugað tillögu að lausn málsins.

Í stað þess að leysa hnútinn virðist "lausn" Ögmundar hafa orðið til þess að herða hnútinn frá því sem hann hafði verið áður hnýttur og bætt rembihnúti ofan á.  Fundargestir á þeim fundum sem haldnir hafa verið hafa verið algerlega andvígir "niðurstöðu" Ögmundar og eru alveg einhuga um að vegurinn skuli lagður á láglendi, en ekki um fjöll og firnindi, þrátt fyrir andstöðu tveggja eða þriggja landeigenda.

Viðbrögð Ögmundar við því að meirihluti fundargesta skuli hafa gengið út af fundi hans á Patreksfirði í mótmælaskini og til að tjá atkvæði sitt við frávísun "sáttaleiðar" Ögmundar, voru nokkuð undarleg, en hann sagði m.a. við mbl.is:  "Ef menn kjósa að ganga af fundi þá gera menn það þótt ég hefði gjarnan viljað heyra sjónarmið fleiri."

Ögmundi gat eingan veginn orðið að þeirri ósk sinni að heyra fleiri sjónarmið, því þau voru ekki fyrir hendi.

Hefðu fleiri tjáð sig hefði hver einasti maður yfirgefið fundinn og Ögmundur orðið einn eftir með sitt fylgislausa  sjónarmið. 


mbl.is Hefði viljað heyra fleiri sjónarmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkomulag við breskan hrunverja - um hvað?

Slitastjórn Kaupþings hefur gert samkomulag við Vincent Tchenguiz, annan þeirra breskur bræðra sem stórtækastir voru í lántökum hjá bankanum á árunum fyrir hrun og líklegt er að bankinn tapi óheyrilegum fjárhæðum vegna þeirra "viðskipta".

Í fréttinni segir m.a.: "Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins frá þeim tíma rannsakar SFO fyrst og fremst að því virðist nánast takmarkalausan aðgang Roberts Tchenguiz að lánsfé hjá Kaupþingi. Þegar aðrir bankar gerðu veðköll hjá honum undir lok árs 2007 og á árinu 2008 kom Kaupþing Robert jafnan til aðstoðar með aukinni fyrirgreiðslu. Allar lánveitingar Kaupþings til Roberts Tchenguiz voru gerðar í gegnum móðurfélagið á Íslandi. En viðskiptasamband Roberts við bankann hófst hins vegar við Kaupthing Singer&Friedlander árið 2004."

Í fréttinni kemur einnig fram að samkomulagið nái einungis til Vincents en ekki bróður hans Roberts, en Robert var sá skuldugasti við bankann og Vincent lánaði honum veð í eignum sínum, þegar harðna fór á dalnum hjá bróðurnum.

Ekkert er sagt um í hverju þetta samkomulag sé fólgið, t.d. hvort bankinn sé að gefa eitthvað eftir af kröfum sínum á hendur bræðrunum, hvort Vincent sé leystur undan ábyrgðunum fyrir bróður sinn eða nokkuð annað sem að þessu samkomulagi snýr.

Íslenskir viðskiptamenn bankakerfisins eiga kröfu til þess að fá að vita nákvæmlega um innihald allra "samninga" sem gerðir eru við aðalgerendur í bankahruninu, enda þeir sem allan kostnað og erfiðleika hafa þurft að axla vegna gjörða þeirra.

Samninginn á borðið - strax. 


mbl.is Tchenguiz semur við Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyfjalaus sjúkrahús í ESB?

Lyfjaframleiðandinn risastóri, Roche, er hættur að afhenda lyf til grískra sjúkrahúsa, enda hafa þau greitt skuldir sínar seint og illa, jafnvel alls ekki, undanfarin ár.

Feti fleiri lyfjaframleiðendur í spor svissneska risans á lyfjamarkaði, verður vart hægt að tala um sjúkrahúsarekstur í Grikklandi, því augljóst er að ekkert sjúkrahús verður rekið án lyfja til langframa og reyndar ekki til skamms tíma heldur.

Einhverjum hefði getað dottið í hug að "björgunarpakkar" ESB vegna Grikklands hefðu ekki síst verið til þess ætlaðir að lágmarksöryggi grískra borgara væri tryggt, a.m.k. varðandi heilsugæslu, en líklega duga "björgunaraðgerðirnar" eingöngu til þess að halda evrópskum bönkum á lífi, en ekki almenningi.

ESB er sannkallað Paradís á jörðu, eins og íslenskar grúppíur hins væntanlega stórríkis þreytast aldrei á að telja löndum sínum trú um.


mbl.is Afhendir ekki lyf vegna skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Götustrákur" í ráðherraembætti

Árni Páll Árnason, ráðherra í "norrænu velferðarstjórninni" stóð fyrir óknyttum og strákapörum á Alþingi í dag í þeim tilgangi að trufla ræður þingmanna, þegar umræður um forsætisráðherravæðingu stjórnarráðsins stóðu yfir.

Þetta kemur vel fram í eftirfarandi setningu úr frétt m.bl.is af uppákomunni:  "Bæði Vigdís og Jón kvörtuðu ítrekað yfir hávaða í þingsal, sérstaklega frá efnahags- og viðskiptaráðherra, og reyndi forseti ítrekað að fá þögn í þingsal, en án árangurs."

Ekki tókst að fá ráðherrann til að láta af stráksskapnum fyrr en þingforseti neyddist til að fresta þingfundi um fimm mínútur til þess að gefa ráðherranum tíma til að róast og átta sig á eigin fíflaskap.

Einhvern tíma hefði þetta verið kallað að ráðherrann væri að haga sér eins og "götustrákur". 


mbl.is „Þetta er algjörlega óþolandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað skilja ESBgrúppíur ekki í þessum ummælum?

Fyrsta málsgreinin í frétt mbl.is af ummælum evrópsks framámanns í atvinnulífinu eru ákaflega athyglisverð, en hún hljóðar á þessa leið: "Philippe De Buck, framkvæmdastjóri Business Europe, sem eru samtök atvinnulífsins á evrusvæðinu, segir að með aðildarviðræðum íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins sé að myndast svigrúm fyrir ESB til að auka áhrif sín á norðurslóðum."

Hvernig skyldi standa á því að evrópskir framámenn og ekkert síður kommisararnir í Brussel skuli ávallt segja hlutina eins og þeir eru, en íslenskar ESBgrúppíur skuli hins vegar alltaf reyna að beita blekkingum um innlimunarferli Íslands í ESB og reyna að telja fólki trú um að það sé í raun Ísland sem nánast sé að leggja Evrópu undir sig með því að gerast útnárahreppur í stórríkinu fyrirhugaða.

Ætli það sé eitthvað í tilvitnuðum ummælum De Buck sem íslenskar ESBgrúppíur skilja ekki, eða gæti afneitun þeirra á staðreyndum stjórnast af einhverju öðru en skilningsleysi einu saman? 


mbl.is Tækifæri fyrir ESB í norðri með aðild Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á að bæta hverjum hvað?

Maður sem greiddi upp gengistryggt lán, sem síðar voru dæmd ólögleg, fyrir bankahrun telur sér gróflega mismunað vegna þess að bankinn sem hann átti viðskiptin við varð gjaldþrota skömmu eftir að lánið var gert upp.

Ef fréttin er rétt skilin vill maðurinn að banki sem stofnaður var siðar og kom hvergi að þessum viðskiptum bæti sér ólöglega lánastarfsemi hins gjaldþrota banka, án þess að sá nýji hafi komið að málinu á nokkurn hátt, enda voru uppggerð mál ekki seld úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju.

Örugglega eru nokkuð margir í sömu sporum og þessi maður og sjálfsagt hefur þeim ekki dottið í hug, fram að þessu, að gera kröfur um bætur á hendur öðrum aðilum en þeim sem ollu þeim tjóninu og ekki heldur á hendur skattgreiðendum í landinu.

Nærri eitthundrað prósent þeirra sem greiddu atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu höfnuðu algerlega að skattgreiðendur tækju að sér að greiða kröfur erlendra viðskiptamanna Landsbankans og væntanlega má reikna með að sama viðhorf sé gagnvart íslenskum viðskiptavinum bankanna, sem töpuðu stórfé á þeim viðskiptum.

Tugþúsundir almennra borgara töpuðu stórum upphæðum á hlutabréfum sem keypt voru á árunum fyrir hrun, sama gildir um þá sem áttu sparifé sitt í peningamarkaðssjóðum, að ógleymdu tapi lífeyrisþega vegna gríðarlegs taps lífeyrissjóðanna.

Væntanlega dettur engum í hug að ríkissjóður taki á sig að bæta tap allra þeirra sem fyrir áföllum urðu í bankahruninu og afleiðingum þess á allt efnahagslífið.

Ýmsir töpuðu öllu sínu og jafnvel meiru til við þessar efnahagshamfarir og neyðast til að sætta sig við að fá aldrei neinar bætur frá einum eða neimum.


mbl.is Fær ekki leiðréttingu mála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar telur tilveruna snúast um sína persónu

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, telur að brambolt Ólafs Ragnars undanfarið og hávaðasamar árásir hans á ríkisstjórnina fyrir ræfildóminn í Icesaemálinu séu ótvíræð merki þess að hann hyggi á áframhaldandi setu á forsetastóli og treysti þar á stuðning Sjálfstæðismanna.

Árásir forsetans á ríkisstjórnina og gagnárás hennar á Ólaf Ragnar er vægast sagt furðulegt fyrirbrigði í íslenskri stjórnmálasögu og þar Ólafur Ragnar hefur aldrei haft aðrar og dýpri hugsjónir í lífinu en að gera veg Ólafs Ragnars Grímssonar sem mestan, bendir þessi uppákoma til þess að hann sé byrjaður að undirbúa jarðveginn fyrir næstu skref sín á þeirri vegferð.

Styrmir segir m.a: "Á árunum 2012 og 2013 munu vinstri menn á Íslandi gera upp allar óuppgerðar sakir í sínum hópi, sem í sumum tilvikum eiga sér rætur upp úr miðri 20. öldinni. Og Ólafur Ragnar verður í miðpunkti þess uppgjörs - þar sem hann hefur alltaf verið og vill vera."

Ýmsir telja að kaup forsetahjónanna á húseign í Mosfellsbæ bendi til þess að Ólafur Ragnar hyggi ekki á framboð í forsetakosningunum á næsta ári, heldur ætli að láta af embætti og draga sig þar með út úr kastljósinu að mestu.  Það væri hins vegar ekki líkt Ólafi Ragnari að draga sig í hlé og sitja á friðarstóli í Mosfellsbænum og láta lítið á sér bera í ellinni.

Hyggist Ólafur Ragnar hætta sem forseti er mun líklegra að hann sé byrjaður að undirbúa stofnun nýs stjórnmálaflokks á vinstri vængnum og hyggi á framboð til Alþingis árið 2014 og ná þannig fram endanlegu uppgjöri við fyrrum félaga sína í stjórnmálunum, en eins og allir vita logaði þar alltaf allt í illdeilum og nú hyggi Ólafur Ragnar á endanlegar hefndir.

Eitt er að minnsta kosti alveg ljóst og það er að Ólafur Ragnar yfirgefur ekki sviðsljósið sjálfviljugur, átakalaust og sem boðberi friðar og kærleika. 


mbl.is Styrmir: Forsetinn hyggur á endurkjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læknaskorturinn er orðinn verulegt vandamál

Niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu er farinn að valda verulegum læknaskorti í landinu, því læknar eins og margar aðrar starfsstéttir leita nú fyrir sér um vinnu erlendis, þar sem launakjör og vinnuaðbúnaður er langtum betri en er hér á landi, sérstaklega eftir banka- og efnahagshruinið haustið 2008.

Sveinn Kjartansson, formaður samninganefndar lækna, segir að nýgerður kjarasamningur við ríkið verði ekki til þess að laða þá lækna, sem þegar starfa erlendis, heim aftur, en geti orðið til þess að fækka eitthvað í þeim hópi sem annars hefði flúið land vegna launa og aðbúnaðar á vinnustöðum, eða eins og haft er eftir honum í fréttinni:  "Þetta mun ekki breyta því að ungir læknar hraði sér út í sérnám og borin von að kjörin muni lokka unga öfluga sérfræðilækna heim, eins og við þurfum á að halda. Þetta gæti hugsanlega orðið til þess að sá hópur lækna sem starfað hefur á Íslandi dragi við sig að segja upp og fara alfarið til vinnu erlendis. Það er kannski helsti ávinningurinn."

Læknaskortur er þó ekki alveg nýr af nálinni hér á landi, því a.m.k. hefur skort heimilislækna í mörg ár og ekki verið skilningur í kerfinu á því að fjöldi fólks hefur ekki aðgang að föstum heimilislækni og þarf að fara á milli lækna með sjúkrasögu sína, nánast í hvert skipti sem eitthvað það bjátar á, sem kallar á lækisheimsókn.

Sem dæmi má nefna að fólk hefur þurft að bíða árum saman eftir föstum heimilislækni í Grafarvogi og hjá sumum a.m.k. fer biðin að slaga í áratuginn. 


mbl.is Föst yfirvinna til að halda í lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarrið í borgarstjórn

Löngu er komið í ljós að Jón Gnarr ræður engan veginn við borgarstjórastarfið, enda sáu flestir það fyrir og þeir sem þó kusu hann og flokk hans fyrir ári síðan sjá nú mikið eftir því, eins og skoðanakannanir undanfarið hafa leitt í ljós.

Í fyrra var embætti borgarritara lagt niður og stofnað nýtt embætti skrifstofustjóra borgarinnar og skyldi sá sem því embætti gengdi vera staðgengill borgarstjóra og reyndar taka að sér flest þau verk sem borgarstjóri hafði sinnt fram að því.

Nú er embætti borgarritara endurvakið og m.a. á sá sem í það starf verður ráðinn að hafa aðsetur á skrifstofu borgarstjóra og virðist eiga að vera staðgengill borgarstjóra og vinna þau verk sem borgarstjóraembættinu tilheyra. Ekki hefur ennþá komið fram hvaða breytingar eigi að gera á embætti skrifstofustjóra borgarinnar, né hvort hann og borgarritari eigi að skipta með sér störfum borgarstjóra eða annast þau í sameiningu.

Jón Gnarr, borgarstjóri, á greinilega að hafa frjálsar hendur til að gera allt sem honum dettur í hug, annað en að vinna borgarstjórastörfin.


mbl.is Óskýrt hlutverk borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband