Færsluflokkur: Bloggar
11.10.2011 | 19:48
Ójöfn samkeppni um Vaðlaheiðargöng?
ÍAV hf. og Marti Contractors Lts. frá Sviss voru með lægsta tilboð í gerð Vaðlaheiðargangna að upphæð 8,8 milljarða króna, sem er um 95% af kostnaðaráætlun Vegagerðar ríkisins.
Norðurverk átti næst lægsta tilboðið, sem var um 9,5 milljarðar króna og Ístak og Suðurverk voru einnig í hópi tilboðsgjafa, en þeirra tilboð voru nokkru hærri.
Sú spurning vaknar hvort ekki sé um ójafna samkeppni um verkið að ræða, þar sem eigengdur ÍAV beittu vægast sagt einkennilegum snúningi til þess að eignast fyrirtækið eftir skuldaniðurfellingar og sölu fyrirtækisins, einmitt til samstarfsfélagsins, Marti, sem seldi svo fyrri eigendum það aftur skömmu síðar.
Ef taka á tilboði ÍAV og Marti í verkið hlýtur að verða gerð sú krafa að upplýst verði hvort hin fyrirtækin sem buðu í verkið hafi notið sambærilegra skuldaniðurfellinga og ÍAV og hafi svo ekki verið er óboðlegt að leyfa ÍAV að taka þátt í útboðum í samkeppni við þau, þar sem staða fyrirtækjanna er þá afar ójöfn, ef samkeppnisfyrirtækin sitja uppi með allar sínar eldri skuldir, en eigendur ÍAV hafi sloppið við sínar með sannkölluðum "útrásarvíkingaaðferðum".
Steingrímur J., sem reyndar ætlar að fjármagna verkið með vafasömum hætti, verður að upplýsa hvort leikurinn um Vaðlaheiðargöngin sé á jafnréttisgrundvelli.
![]() |
ÍAV og Marti áttu lægsta tilboðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2011 | 16:24
Harðasta stjórnarandstaðan úr óvæntri átt
Andstæðingum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur fjölgar stöðugt og er nú svo komið að hörðustu stjórnarandstæðingarnir eru margir af fyrrum fylgendum ríkisstjórnarinnar og má í því sambandi benda á Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, og ýmsa aðra verkalýðsforingja, sem fam undir það síðasta hafa verið dyggir fylgismenn stjórnarflokkanna.
Gylfi hefur gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega undanfarið vegna svika hennar í öllum málum sem snúa að atvinnumálum og ekki síður vegna svika við lífeyrisþega, en stjórnin hefur boðað að nokkurra mánaða loforð um að lífeyrir skyldi fylgja vísitölu verði svikið, ásamt því að lauma inn skattahækkunum með því að skattþrep verði ekki látin fylja launavísitölu, þrátt fyrir fögur fyrirheit.
Sambandsþing Alýðusambands Norðurlands hefur einnig sent frá sér harðorðaða ályktun vegna sömu svika og Gylfi hefur rætt um, ásamt áskorun um að fiskveiðifrumvarpið verði afturkallað og ný lög byggð á sátt sem ríkisstjórnin hafði sjálf staðið að, en auðvitað svikið.
Í ályktuninni segir m.a: "Nú eru blikur á lofti. Stutt er í endurskoðun kjarasamninga og samkvæmt nýútkomnu fjárlagafrumvarpi er ekki gert ráð fyrir að ellilífeyrir, örorkubætur og atvinnuleysisbætur hækki í samræmi við lægstu laun, eins og lofað var í tengslum við gerð kjarasamninganna."
Skyldi nokkur ríkisstjón, sem kennir sig við "velferð", hafa svikið jafn mörg velferðarloforð á jafn skömmum tíma?
![]() |
Vilja að stjórnvöld standi við gefin loforð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.10.2011 | 09:20
Skattgreiðendur eiga ekki að borga skuldir óreiðumanna
Mótmæli breiðast út í Bandaríkjunum gegn þeirri áráttu ráðamanna að velta óreiðu einkabankanna yfir á skattgreiðendur með sífellt meiri fjáraustri úr opinberum sjóðum til björgunar einkabanka sem tapað hafa stjarnfræðilegum fjárhæðum á eigin loftbóluviðskiptum.
Segja má að Íslendingar hafi verið fyrstir til að hafna því að velta skuldum heils loftbólubankakerfis yfir á skattgreiðendur með Neyðarlögunum haustið 2008 og síðar risu skattgreiðendur upp og höfnuðu algerlega í tveim þjóðaratkvæðagreiðslum að taka á sig aukna skattbyrði vegna vafasamra viðskipta Landsbankans í Bretlandi og Hollandi.
Í Evrópu er nú unnið hörðum höndum að því að finna leiðir til að velta vanda evrópskra banka vegna ótæpilegra lána þeirra til ýmissa ríkissjóða, sérstaklega á evrusvæðinu, yfir á skattgreiðendur og mestur þungi slíkra aðgerða myndi þá lenda á þýskum skattgreiðendum, enda Þýskaland stöndugasta ESBríkið.
Almenningur í ESBlöndunum er þegar farinn að setja sig upp á móti því að taka bankasukkið á sínar herðar og væntanlega mun aukinn þungi og kraftur færast í þau mótmæli eftir því sem Merkel og Sarkozy halda fleiri einkafundi um leiðir til að koma óreiðunni yrir á skattgreiðendur.
Uppstokkun fjármálakerfisins er framundan, þar sem verðmæti verða aftur undirstaðan í stað loftbóla.
![]() |
Mótmælt víða um Bandaríkin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2011 | 21:29
Óhugnanlegt viðtal
Viðtalið við Guðrúnu Ebbu, dóttur Ólafs Skúlasonar fyrrum biskups, var í senn óhugnanlegt, heiðarlegt og opinskátt um þær ótrúlegu hörmungar sem hún þurfti að þola af hendi föður síns öll sín æskuár og aftur síðar á sem orðin kona.
Það þarf mikinn kjark til að koma fram fyrir alþjóð og ræða svo sára og ömurlega reynslu, sem þó á ekki að vera einkamál, því barnaníð kemur öllu samfélaginu við og á að vera samvinnuverkefni allrar þjóðarinnar að útrýma og koma lögum yfir svíðingana.
Guðrún Ebba er sannkölluð hetja og vonandi verður viðtalið vopn í baráttunni gegn þessum viðbjóði.
![]() |
Beitti hana ofbeldi árum saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2011 | 18:43
Einræði eða "tvíræði" í ESB
Merkel, kanslari Þýskalands, og Sarkozy forseti Frakklands, sátu saman á fundi í dag og tóku mikilvægar ákvarðanir um hvort og hvernig bankar á evrusvæðinu skuli endurfjármagnaðir vegna banka- og skuldakrísunnar sem skekur evrulöndin.
Það eru góð tíðindi að reynt verði að bjarga bæði evrunni sjálfri sem og þeim illa stöddu ríkjum, sem hana nota sem gjaldmiðil og geta vart annað héðan af, því Ísland, eins og önnur lönd, á mikið undir að Evrópuríkjum gangi vel, enda helsti markaðurinn fyrir íslenskar útflutningsvörur. Það verður æ meira áberandi að stórar og afdrifaríkar ákvarðanir í ESB eru ekki teknar af neinum stofnunum sambandsins, þingi þess, eða kommisarakerfinu, heldur af þeim Merkel og Sarkozy og þau ráða ráðum sínum á einkafundum sem öðrum er ekki hleypt að og síðan er stofnunum, embættismönnum og Evrópuþinginu einfaldlega tilkynnt um ákvarðanir þeirra og aðrir verða bara að hlýða.
Þetta kemur t.d. vel fram í eftirfarandi klausu úr fréttinni: "Þau Merkel og Sarkozy eru sammála um að gera þurfi mikilvægar breytingar á milliríkjasamkomulagi ESB ríkjanna. Sarkozy sagði á blaðamannafundinum að hann teldi að auka ætti samþættingu evru-svæðisins. Merkel segir að markmiðið sé að koma á nánara- og meira skuldbindandi samstarfi meðal ríkja á evru-svæðinu svo hægt sé að komast hjá umframeyðslu."
Til eru hugtökin lýðræði og einræði um stjórnarfar einstakra ríkja. Líklega verður að taka upp nýyrðið "tvíræði" um stjórnun væntanlegs stórríkis Evrópu.
![]() |
Styðja endurfjármögnun banka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2011 | 12:27
Ljótt að hæðast að Íslendingum
Einhverjir óuppdregnir dónar í Þýskalandi, sem gefa út grínblað undir nafninu Titanic, ætla að bjóða upp á dagskrá í lok bókamessunnar í Frankfurt, þar sem gert verður grín að Íslendingum og meira að segja veita verðlaun fyrir besta háðið um land og þjóð.
Þeir, sem að þessu standa, vita greinilega ekki að Íslendingar þola alls ekki grín og háð um sjálfa sig og ætlast til að allur heimurinn viti, eins og þeir vita sjálfir, að Ísland er merkasta og besta land í heimi og Íslendignar almerkilegasta þjóð sem hnöttinn byggir og engin önnur þjóð getur státað af öðrum eins uppruna og íslenska þjóðin, fyrir utan að saga annarra þjóða er bara húmbúkk og kemst ekki í hálfkvisti við stórmerkilega arfleifð íbúa sögueyjarinnar.
Þó landsmenn hafi étið stóran hluta handrita sinna á öldum áður, frekar en að láta sér detta í hug að láta eftir sér þau matvæli sem náttúran bauð upp á, þá varðveittist nóg af hasarkenndum bókfellum til að sanna víkingafortíð þeirra og að hver einasti maður væri af konungakyni og væri einhver ættaður frá þrælum, þá voru hinir ánauðugur hvort eð var komnir af kóngafólki ýmissa nágrannalanda.
Við munum á endanum ná okkur niðri á Þjóðverjum fyrir grínið, því við erum miklu merkilegri og þar að auki fyndnari en þýskarar.
![]() |
Úthúða Íslandi á bókamessu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.10.2011 | 19:11
Vonandi fæst lokaniðurstaða
Ögmundur Jónasson, Innanríkisráðherra, hefur skipað starfshóp til að rannsaka hvernig staðið var að rannsókn Geirfinns- og Guðmundarmála, en engin sátt hefur verið í þjóðfélaginu um niðurstöður rannsóknanna sem dómar í málunum voru byggðar á.
Margt hefur komið mönnum einkennilega fyrir sjónir varðandi þessi mál og rannsókn þeirra og víst er að ekki uppfyllir hún neinar nútímakröfur um rannsókn glæpamála og nægir þar að nefna til gæsluvarðhaldið sem sakborningarnir þurftu að sæta, allt upp í tvö ár, og meðferð þeirra í varðhaldinu.
Vonandi verður þessi rannsókn starfshópsins til þess að endanleg niðurstaða fáist í þetta ömurlega mál og gefi hún tilefni til, fái hinir dæmdu uppreisn æru og sannist sakleysi þeirra fái þeir sanngjarnar bætur, þó peningar bæti ekki þann skaða sem dómsmorði fylgir.
Tími er til kominn að reyna að fá endanlegan botn í þetta mál, sakborninganna vegna og þjóðarinnar vegna.
![]() |
Yfirfara rannsókn málanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2011 | 22:48
Ætli Jóhanna, Steingrímur og Már séu sammála þessu?
Mervyn King, seðlabankastjóri Bretlands, segir að Bretland og reyndar veröldin öll, standi frammi fyrir gífurlegum efnahagserfiðleikum, jafnvel þeim mestu frá kreppunni miklu á fyrri hluta tuttugustu aldar.
Í fréttinni kemur m.a. fram eftirfarandi um álit Kings á ástandinu: "Hann sagði að staðan gæti jafnvel verið verri en í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Mikilvægt væri að teknar væru réttar ákvarðanir sem i tilfelli Bretlands væri að dæla meiri peningum í umferð."
Með því að dæla meiri peningum í umferð á seðlabankastjórinn auðvitað við, að með því móti verði hægt að auka eftirspurn eftir vörum og þjónustu, sem fyrirtæki þurfa þá að framleiða og bjóða fram. Með því móti eykst atvinna og þar með fækkar atvinnulausum og þeir sem vinnu hafa fá meiri peninga að spila úr.
Þetta er svo sem ekki flókin hagfræði, en samt hefur verið unnið á þveröfugan hátt hér á landi undanfarin tvö og hálft ár, þ.e. í valdatíð núverandi ríkisstjórnar sem barist hefur með kjafti og klóm gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu og þar með stuðlað að dýpkun og lengingu kreppunnar hér á landi. Nýjasta hugmynd ríkisstjórnarinnar varðandi atvinnuleysið er að sekta þá sem án vinnu hafa verið í þrjú ár um hálfa milljón króna, með sviptingu atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði.
Allir seðlabankar annarra landa hafa lækkað stýrivexti sína undanfarin misseri, jafnvel niður undir núll, en sá íslenski heldur sínum stýrivöxtum uppi og hótar enn frekari hækkunum á næstu mánuðum. Enginn nema Már Guðmundsson og peningastefnunefnd seðlabankans skilur þá stefnu, enda er enginn að taka lán og engin fyrirtæki að fjárfesta eða framkvæma nokkurn hlut, enda berst ríkisstjórnin gegn hvers kyns framkvæmdum af þeirra hálfu.
Allir hlytu að fagna því ef Jóhanna, Steingrímur og Már færu að kynna sér hvað ráðamenn annarra þjóða telja heillavænlegast í baráttunni við efnahagskreppur.
![]() |
Heimurinn hefur breyst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.10.2011 | 19:07
Andans "stórmenni" á breska þinginu
Barry nokkur Sheerman, sem ku vera þingmaður Verkamannaflokksins á breska þinginu, mun hafa sótt Ísland heim nýlega og þó hann segi Íslendinga vera hið vænst fólk, þá þurfi alþjóðasamfélagið að taka sig saman um að svelta þá til að hætta hvalveiðum og borga Icesave.
Þetta andans "stórmenni" afhjúpar hins vegar að annaðhvort viti hann ekkert um hvað hann er að tala, eða hann lýgur bara vísvitandi og þá væntanlega til að sýna kjósendum sínum og öðrum sem nenna að hlutsta á hann, að hann sé stór kall, sem láti aðra eins rudda og Íslendinar séu, þrátt fyrir fleðulæti, ekki komast upp með neinn moðreik.
Í fréttinni kemur m.a. fram að "snillingurinn" hafi m.a. látið hfa eftir sér um Icesave: "Hann segir að sér hafi verið vel tekið af þeim Íslendingum sem hann hafi hitt en fer síðan hörðum orðum um íslensku elítuna sem hafi kostað Breta háar fjárhæðir. Í stað þess að greiða þær til baka skýli þessir aðilar sér á bak við þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem Íslendingar hafi verið spurðir að því hvort þeir vildu greiða skuldir sínar."
Þarna virðist þessi kjörni fulltrúi bresku þjóðarinnar halda að Landsbankinn, annaðhvort sjálfur eða í umboði útrásargengjanna, hafi vísað því í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort "þeir vildu greiða skuldir sínar". Þarna var alls ekki um skuldir Íslendinga að ræða og þeir neituðu í umræddum þjóðaratkvæðagreiðslum að taka að sér að greiða óreiðuskuldir einkaaðila sem átt hefðu í viðskiptum við Breta og þeir gengu til algerlega sjálfviljugir og tóku með því ákveðna áhættu sem aldrei var áhætta íslensku þjóðarinnar.
Því verður illa trúað að Barry Sheerman gefi rétta mynd af því fólki sem valist hefur á breska þingið.
![]() |
Vill viðskiptaþvinganir gegn Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.10.2011 | 13:55
ASÍ hefur gefist upp á ríkisstjórninni - eins og aðrir
Það verða að teljast stórtíðindi að Miðstjórn Alýðusambands Íslands, undir forystu Samfylkingarmannsins Gylfa Arnbjörnssonar, skuli senda frá sér eins harðorða vantraustsyfirlýsingu á ríkisstjórnina og raun ber vitni.
Fokið er í flest skjól ríkisstjórnarinnar, þegar eins dyggur flokksmaður og Gylfi er og hefur lengi verið, lýsir yfir algerum vonbrigðum með ríkisstjórnina og lýsir því skorinort yfir að ekki sé að marka eitt einasta loforð sem hún hefur gefið í tengslum við kjarasamninga á öllum sínum líftíma.
Ekki gefur Gyldi fjárlagafrumvarpinu háa einkunn, en um það segir hann m.a: "Það eru engin svör að sjá í þessu frumvarpi. Og engin svör að finna í stefnuræðum hvorki forsætisráðherra né fjármálaráðherra. Og þetta eru grundvallaratriði sem við gengum frá í maí að ættu að liggja fyrir í júní, en liggja ekki fyrir enn." Varla þarf að minna á, að stjórnin sveik öll loforð í tengslum við Stöðugleikasáttmálann sen hún skrifaði undir í Júní 2009 og allt hefur verið svikið sem að atvinnumálum hefur snúið síðan, eins og reyndar flest önnur fyrirheit, t.d. um "skjaldborg heimilanna".
Ekki síður gagnrýna Gylfi og miðstjórnin þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að refsa þeim sem enga vinnu hafa fengið í þrjú ár, með því að svipta þá atvinnuleysisbótum í þrjá mánuði, sem jafngildir a.m.k. hálfrar milljónar króna sektargreiðslu, sem ríkisstjórnin virðist telja að langtímaatvinnulausir hafi efni á að reiða fram, eins og ekkert sé.
Að þessi ríkisstjórn skuli kalla sig "norræna velferðarstjórn" er ekki eingöngu hreint öfugmæli, heldur hrein móðgun við almenning í landinu.
![]() |
Vantar svör um stefnumörkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)