Færsluflokkur: Bloggar
17.10.2011 | 22:50
Illa farið með Jón Ásgeir
Jón Ásgeir hefur greinilega ennþá á sínum snærum sömu "ímyndarsmiði" og unnu fyrir hann þegar Bónusmálið fyrsta var fyrir dómstólum á árunum fyrir hrun, en þá tókst með þeirra hjálp og fjölmiðlaveldis Bónusgengisins að snúa almenningsálitinu gegn saksókninni og með hinum ákærðu. Lítið kom út úr þeim dómsmálum annað en ást þjóðarinnar á "útrásarsnillingum" sínum, sem að vísu breyttist í hatur og fyrirlitningu fáum misserum síðar.
Nú munu vera til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara miklu yfirgripsmeiri og flóknari mál en þau sem áður voru til skoðunar varðandi Baugsgengið og vegna reynslunnar af niðurstöðu fyrsta málsins liður sjálfsagt nokkur tími áður en nýju málunum verður stefnt fyrir dómara og alls óvíst hvernig þau munu enda.
Málið, sem núna er fyrir dómi, snýst um meintan skattaundandrátt fyrir tíu árum síðan og auðvitað er ekki boðlegt að taka svona langan tíma í rannsókn nokkurs máls og láta ákærðu þurfa að þola bið í áratug eftir niðurstöðu.
Jón Ásgeir getur þó líklega kennt sjálfum sér um að miklu leyti, þar sem það var hann sjálfur sem byggði upp slíkan kóngulóarvef viðskiptaklækja með anga víða um heim, að rannsakendum er vorkunn þó langan tíma taki að rekja alla þá þræði.
Vonandi verður búið að hreinsa upp allan óþverrann sem tengist Bónusgenginu áður en núverandi áratugur verður allur.
![]() |
Jón Ásgeir kom með bónuspoka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.10.2011 | 19:41
"Atvinnuverkefni" sem heppnast hjá ríkisstjórninni
Eins og allir vita hefur ríkisstjórnin barist af öllum sínum kröftum gegn hvers kyns atvinnuuppbyggingu í landinu, enda svikið öll loforð sem hún hefur gefið í tengslum við kjarasamninga, um þátttöku sína til minnkunar atvinnuleysis og efnahagsuppbyggingar í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.
Sérstaklega hefur ríkisstjórninni verið uppsigað við erlenda fjárfesta og gert allt til að fæla þá frá landinu með því að vera eins óliðleg við þá og mögulegt er, senda þeim skilaboð um að skattaumhverfi muni verða síbreytilegt og að óvissa muni ávallt ríkja um raforkuverð, þar sem enginn fái að vita hvernig það verði skattlagt frá degi til dags.
Strax og ríkisstjórn Samfylkingar og VG komst til valda á vordögum 2009 var línan gefin um að allt yrði gert til að koma í veg fyrir að Alcoa gæti reist stóriðju á Bakka við Húsavík og nú hefur fyrirtækið skýrt frá því að svikin séu fullkomnuð og nú verði leitað til annarra landa með framtíðarstarfsemi félagsins.
Þetta "atvinnuverkefni" ríkisstjórnarinnar hefur þar með heppnast fullkomlega.
![]() |
Erum miður okkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2011 | 16:02
ESBinnlimunin kosningamál 2013?
Snatar Samfylkingarinnar í viðræðunum um innlimunarskilmálana fyrir því að Ísland verði gert að útnárahreppi í væntanlegu stórríki ESB segja í viðtali við Evrópsku fréttastofuna að eftirgjöfin í landbúnaðar- og fiskveiðimálum verði sett á dagskrá á miðju næsta ári.
Það er afar athyglisvert að flestar, eða allar, fréttir af gangi þessara mála skuli koma frá erlendum aðilum, annaðhvort kommisörum í Brussel eða fréttamiðlum, því ekki hafa samningasnatarnir og hvað þá húsbændur þeirra í Samfylkingunni látið svo lítið að upplýsa almenning á Íslandi um þær kröfur, ef einhverjar eru, sem settar eru fram af Íslands háflu í þessu innlimunarferli.
Ekki er ósennilegt að þetta upplýsingaleysi stafi af því að engar slíkar kröfur hafi verið mótaðar, enda er það ESB sem setur skilmálana en ekki þau ríki sem óska eftir beinni stjórnun Þýskalands og Frakklands á málefnum sínum og framtíð.
Veturinn 2012-2013 verður "kosningavetur" og þá er viðbúið að flest mál verði í "frosti", en tíminn innan og utan Alþingis fari í karp og málalengingar um alls kyns pólitísk efni, að ekki sé talað um atvinnumál og erfiðleika heimilanna, sem allt bendir til að verði þá ennþá óleyst, enda sýnir ríkisstjórnin hvorki vilja né getu til að leysa úr þeim málum.
Því miður er stórhætta á, að nauðsynjamálin verði látin sitja á hakanum fyrir tilgangslausu orðaskaki um innlimun í ESB eða áframhaldandi fullveldi Íslands.
![]() |
Allir kaflar opnaðir um mitt ár 2012 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.10.2011 | 20:30
Átta milljarða skattakrafa
Samkvæmt sjónvarpsfrétt í kvöld hefur skattrannsóknarstjóri kært a.m.k. tuttugu manns til Sérstaks saksóknara vegna skattsvika sem stunduð voru í gegn um skúffufyrirtæki í Lúxemburg.
Af fréttinni að dæma hefur þarna verið um ótrúlega glæpastarfsemi að ræða, þar sem kröfurnar um skattgreiðslur sem viðkomandi glæpamenn hafa skotið undan nema frá nokkrum tugum milljóna upp í mörg hundruð milljónir og hæsta kæran hljóðar upp á ÁTTAMILLJARÐA króna skattaþjófnað.
Upphæðir skattastuldarins sýnir að viðkomandi fjárglæpamenn hafa skotið undan gjörsamlega óskiljanlegum upphæðum í flestum tilfellum og með ólíkindum að hægt hafi verið að stela svo háum fjárhæðum út úr hagkerfinu án þess að upp hafi komist fyrr.
Ef til vill er þarna um að ræða "hagnað" sem færður var út úr bönkunum með klækjum fyrir hrun, enda hafa ekki fengist trúverðugar skýringar á því, hvað um allt það fé varð sem sogað var út úr þeim af eigendum og stjórnendum bankanna á "útrásartímanum".
Vonandi verður fljótlega upplýst hverjir þarna hafa verið verki, því heiðarlegir skattgreiðendur hljóta að eiga rétt á að vita hverjir það eru sem reyndu að féfletta þá með þessum hætti.
Skattrannsóknarstjóri og hans fólk á þakkir skildar fyrir vel unnin störf við þessa glæparannsókn.
![]() |
Skattsvik í skúffufyrirtækjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.10.2011 | 12:30
Úr sér gengið fjármálakerfi
Víða um heim er fólk farið að mótmæla því úr sér gengna fjármálakerfi sem byggt hefur verið upp í veröldinni undanfarna áratugi og byggist upp af falskri seðlaútgáfu í mynd lánavöndla, sem engin verðmæti eru á bak við í raun og veru.
Bankar og fjármálafyrirtæki hafa margfaldað peningaveltuna með því að búa til skuldavafninga sem samansettir hafa verið úr lánum einstaklinga, fyrirtækja og ríkissjóða og um leið og einhversstaðar verða erfiðleikar með endurgreiðslur hikstar allt kerfið, enda byggt upp eins og nokkurs konar keðjubréf.
Um leið og keðjubréfaveltan stöðvast einhversstaðar kemur í ljós að ekkert stendur í raun á bak við hana annnað en loftbólur og sápukúlur, en alvöru peningakerfi byggist á þeim raunverulegu verðmætum sem þjóðarbúin búa yfir en ekki ímyndunarafli spákaupmanna og braskara.
Nú er æ betur að koma í ljós að þetta sápukúluhagkerfi gegnur ekki upp lengur og alger uppstokkun verður að eiga sér stað og snúa þarf aftur til peningakerfis sem byggir á verðmætum og verðmætasköpun og hagvöxtur getur aldrei byggst á öðru til lengdar en þeirri verðmætaaukningu sem skapast með aukinni framleiðslu verðmætaskapandi framleiðsluvara og hugvits.
Á meðan ríkissjóðir aðlaga sig að raunveruleikanum mun víða hrikta í og þeir braskarar, fjármálafyrirtæki og aðrir sem rakað hafa að sér fölskum auðæfum á þessu falska peningakerfi munu neyðast til að standa reikningsskil gerða sinna og "afskrifa" auðæfi sín, sem reyndar hafa aldrei verið nein.
Þetta falska peningakerfi hefur bitnað illilega á svkallaðri millistétt og friður mun ekki skapast aftur fyrr en hún hefur náð að lifa eðlilegu lífi á ný án þess að vera föst í klóm þeirrar tölvuleikjaveraldar sem fjármálafyrirtæki og fjárglæframenn hafa skapað og leikið sér í undanfarna áratugi.
Peningar verða ekki til með "copy", "paste" og "run" á tölvulyklaborðum.
![]() |
Mismunun víða mótmælt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.10.2011 | 13:18
Afar fordæmisgefandi dómur Hæstaréttar
Hæstiréttur hefur staðfest dóm undirréttar um að Sundi hf. (sem nú heitir reyndar Icecapital) geti ekki komið sér undan því að greiða þriggja milljarða króna lán sem félagið tók árið 2006 til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi.
Á árunum fyrir hrun léku mörg fyrirtæki og einstaklingar þann leik að taka milljarða króna kúlulán til kaupa á hlutabréfum í bönkunum, hirtu af þeim háar arðgreiðslur en reyna síðan að komast hjá því að greiða lánin og bera fyrir sig ýmsar afsakanir til að reyna að sleppa undan skuldbindingum sínum.
Þessi dómur Hæstaréttar er því geysilega mikilvægur og hlýtur að verða fordæmisgefandi fyrir önnur slík mál, sem eru fjölmörg, enda margir sem högnuðust gífurlega á arðgreiðslum af slíkum skuldsettum hlutafjárkaupum.
Vonandi verður ekkert gefið eftir í innheimtumálum af þessu tagi gagnvart eigendum og stjórnendum bankanna sjálfra, ásamt því að gengið verði að þeim vildarvinum þeirra sem hygla átti með þessum lánveitingum.
![]() |
Verða að standa við skuldbindingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.10.2011 | 20:45
ESB er besti vinur barnanna
ESB hefur enn og aftur sýnt og sannað að stórríkið fyrirhugaða er besti vinur barnanna og lætur ekkert sem þeim viðkemur fram hjá sér fara af umhyggjusemi einni saman og með það í huga að auðvitað geta börn og unglingar ekki haft vit fyrir sér sjálf og engum dettur í hug að foreldrar þeirra séu í raun hæfir til að ala börn sín upp af nokkru viti.
Umhyggjusemi ESBkommisaranna brýst fram í misæðisgegnum forsjárhyggjuköstum, en nýjasta tilskipunin hlóðar upp á að barnaafmælisblöðrur skuli bannaðar innan átta ára, partíflautur bannaðar innan fjórtán ára, ásamt því að banna fljótlega allar flautur sem hægt er að anda í gegn um, að ekki sé minnst á að blessað ungviðið stundi fiskveiðar með hverju því agni sem þeim dytti í hug að beita.
Börn hafa farið sér að voða með því að leika sér á ólíklegustu stöðum, jafnvel inni á dagheimilum, skólum, á leið frá heimili til skóla og jafnvel inni á sínum eigin heimilum. Þá eru óupptaldar allar aðrar hættur sem að geta steðjað, t.d. að villast á leið heim til ömmu sinnar eða taka rangan strætisvagn á leið um bæinn.
Verkefnaskortur á sviði barnaverndarmála og reglugerðarsetninga þeim tengdum, mun ekki há ESB á næstunni.
ESB sé lof og dýrð fyrir umhyggjuna.
![]() |
Blöðrubann sett á börnin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.10.2011 | 07:44
Hanna Birna vinsæl, þvert á flokkslínur
Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var fyrir Viðskiptablaðið treysta 70,3 kjósenda Sjálfstæðisflokksins Hönnu Birnu Kristjánsdóttur betur en Bjarna Benediktssyni til að vera leiðtogi flokksins.
Þetta eru auðvitað stórtíðindi, þar sem landsfundur verður haldinn í næsta mánuði og þar mun fara fram formannskjör, þó enginn hafi ennþá lýst yfir framboði til formanns, annar en Bjarni Benediktsson.
Annað, sem vekur mikla athygli er, að Hanna Birna nýtur trausts yfir 80% kjósenda annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins, á meðan aðeins 18% þeirra telja Bjarna betur hæfan til að leiða Sjálfstæðisflokkinn á þeim erfiðu tímum sem nú eru í þjóðfélaginu.
Þessi niðurstaða skoðanakönnunarinnar hlýtur að setja mikla pressu á Hönnu Birnu og gefi hún kost á sér í formannskjörinu á fundinum verður ekki annað séð en að hún muni fá yfirburðakosningu.
![]() |
Um 70% vilja Hönnu Birnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.10.2011 | 19:01
"Nú get ég" - segir Hörður Torfason
Frá því að Hörður Torfason leikstýrði "Búsáhaldabyltingunni" í kringum áramótin 2008/2009 og tókst með því að koma Vinstri grænum í ríkisstjórn, hefur ekki til hans heyrst eða spurst í sambandi við þau mótmæli sem beinst hafa að svikum þess flokks í ríkisstjórn.
Sjálfur lýsti Hörður því í fjölmiðlaviðtölum að "Búsáhaldabyltingunni" hefði verið stýrt eins og hverju öðru leikriti, enda hefði hann haft áratugareynslu af leikstjórastörfum sem hann hefði nýtt sér til hins ítrasta við leikstjórn "Búsáhaldabyltingarinnar".
Nú eru mótmæli gegn því að óreiðuskuldum banka og fjármálafyrirtækja sé endalaust velt yfir á skattgreiðendur vítt og breitt um heiminn og næsta laugardag hefur verið boðað til mótmæla víða um heim samtímis til að sýna fram á að skattgreiðendur viðkomandi landa sætta sig ekki lengur við slíka meðferð.
Almenningur á Íslandi setti gott fordæmi í þessum efnum þegar þjóðin reis upp gegn ríkisstjórninni og þeirri skattaáþján sem hún ætlaði að leiða þjóðina í, í þágu Breta og Hollendinga vegna skulda Landsbankans hf., sem var gjaldþrota einkabanki.
Í Icesaveátökunum bar ekkert á Herði Torfasyni eða einkasamtökum hans, Radda fólksins, en nú þegar von er til að vekja á sér athygli í tengslum við mótmælin sem fyrirhuguð eru vestan hafs og austan, þá finnst Herði ástæða til að boða til útifundar á ný.
"Nú get ég" segir Hörður af því tilefni og þykist væntanlega vilja sýna með því hver það er, sem er "aðal".
![]() |
Efna til fundar á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
12.10.2011 | 12:02
Lagalegegum kröfum ESB verður að mæta skilyrðislaust
ESB birti í dag svokallaða "Framvinduskýrslu" vegna innlimunar Íslands í væntalegt stórríki Evrópu og er ekki annað að sjá en að kommisararnir í Brussel telji að nokkuð langt sé í land varðandi aðlögun landsins.
Vert er að vekja sérstaka athygli á eftirfarandi úr viðhangandi frétt: "Í skýrslunni er hinsvegar einnig tekið fram að enn sé Icesave deilan óleyst. Þá megi búast við erfiðum samningaviðræðum í ýmsum lykilmálaflokkum, s.s. hvað varðar frjálsa för fjármagns, sjávarútveg, landbúnað og byggðaþróun, umhverfismál þ.á.m. hvalveiðar, skatta- og tollamál, svæðisstjórnun og fæðuöryggi."
ESB er sem sagt ennþá að vinna fyrir Breta og Hollendinga í því að koma skuldum Landsbankans yfir á íslenska skattgreiðendur, eins og verið er að gera með útlánarugl evrópskra banka, en látið er heita að verið sé að bjarga ríkissjóðum, t.d. Grikklands, þegar í raun er verið að velta vandamálum evrópskra banka, sérstaklega franskra og þýskra, yfir á skattgreiðendur ESBlandanna.
Einnig er athyglisvert að ESB ætlar að knýja Íslendinga til að hætta hvalveiðum, enda verða allar ákvarðanir varðandi veiðar og vinnslu, jafnt hvala sem annarra sjávardýra, teknar í Brussel ef tekst að innlima Ísland sem útkjálkahrepp í stórríkið væntanlega.
Athygilsveðust í fréttinni er þó eftirfarandi setning: "Á heildina litið sé Ísland vel í stakk búið að mæta lagalegum kröfum ESB."
Hér segir skýrt og skorinort að Ísland eigi að mæta lagalegum kröfum ESB, enda vita allir sem vilja vita að undanþágur frá þeim verða engar, a.m.k. ekki nema til mjög skamms tíma, láti þjóðin blekkja sig til innlimunarinnar.
Íslenska ríkisstjórnin birtir hins vegar engar "Framvinduskýrslur" af sinni hálfu og hefur ekki einu sinni mótað eða gefið út nokkur einustu samningsmarkmið, enda tilgangslaust þar sem annaðhvort verða "lagalegalegum kröfum ESB" mætt eða ekkert verður af innlimuninni.
![]() |
Erfiðar viðræður framundan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)