Úr sér gengið fjármálakerfi

Víða um heim er fólk farið að mótmæla því úr sér gengna fjármálakerfi sem byggt hefur verið upp í veröldinni undanfarna áratugi og byggist upp af falskri seðlaútgáfu í mynd lánavöndla, sem engin verðmæti eru á bak við í raun og veru.

Bankar og fjármálafyrirtæki hafa margfaldað peningaveltuna með því að búa til skuldavafninga sem samansettir hafa verið úr lánum einstaklinga, fyrirtækja og ríkissjóða og um leið og einhversstaðar verða erfiðleikar með endurgreiðslur hikstar allt kerfið, enda byggt upp eins og nokkurs konar keðjubréf.

Um leið og keðjubréfaveltan stöðvast einhversstaðar kemur í ljós að ekkert stendur í raun á bak við hana annnað en loftbólur og sápukúlur, en alvöru peningakerfi byggist á þeim raunverulegu verðmætum sem þjóðarbúin búa yfir en ekki ímyndunarafli spákaupmanna og braskara.

Nú er æ betur að koma í ljós að þetta sápukúluhagkerfi gegnur ekki upp lengur og alger uppstokkun verður að eiga sér stað og snúa þarf aftur til peningakerfis sem byggir á verðmætum og verðmætasköpun og hagvöxtur getur aldrei byggst á öðru til lengdar en þeirri verðmætaaukningu sem skapast með aukinni framleiðslu verðmætaskapandi framleiðsluvara og hugvits.

Á meðan ríkissjóðir aðlaga sig að raunveruleikanum mun víða hrikta í og þeir braskarar, fjármálafyrirtæki og aðrir sem rakað hafa að sér fölskum auðæfum á þessu falska peningakerfi munu neyðast til að standa reikningsskil gerða sinna og "afskrifa" auðæfi sín, sem reyndar hafa aldrei verið nein.

Þetta falska peningakerfi hefur bitnað illilega á svkallaðri millistétt og friður mun ekki skapast aftur fyrr en hún hefur náð að lifa eðlilegu lífi á ný án þess að vera föst í klóm þeirrar tölvuleikjaveraldar sem fjármálafyrirtæki og fjárglæframenn hafa skapað og leikið sér í undanfarna áratugi.

Peningar verða ekki til með "copy", "paste" og "run" á tölvulyklaborðum.


mbl.is Mismunun víða mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er dagljóst að stutt er í hrun kapítalismans. Þegar hann hrynur í rúst verða gífulega mikil átök, svo mikil að hrun kommúnismans verður eins og kirkjuferð í samanburði við hrun kapítalismans. Seinna sjáum við nýja framtíð án kommúnisma og kapítalisma, sem betur fer, bæði kerfin eru jafn galin.

óli (IP-tala skráð) 15.10.2011 kl. 12:43

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekki hef ég nú trú á því að kapítalisminn sem slíkur sé að hruni kominn, því þær hundakúnstir sem fjármálaheimurinn hefur verið að leika undanfarna áratugi á ekkert sameiginlegt með eiginlegum kapítalisma. Græðgi, glæframennska og hreinar sjónhverfingar sem ráðið hafa ferðinni í fjármálaheiminum á ekkert skylt við heiðarleg viðskipti, sem byggjast á rétti fólks til sjálfsákvörðunar, freslis og til athafna.

Athafnafrelsinu verður að sjálfsögðu að fylgja gott lagaumhverfi og virkar eftirlitsstofnanir. Frelsinu og kapítalismanum á ekki að fylgja neinn réttur til að raka að sér ofsagróða sem byggður er á svindli og kúgun á almenningi. Kúgun og einokun er ekkert betri í nafni einkafyrirtækja en í krafti opinberra aðila og fyrirtækja.

Kapítalismi er skásta kerfi sem fram hefur komið ennþá á sviði efnahagsstjórnunar, en því miður þrífst glæpamennska innan þess kerfis, eins og annarra. Lög, reglugerðir og eftirlit verður að vera nógu skilvirkt til að hafa hemil á græðginni og glæpaverkunum.

Axel Jóhann Axelsson, 15.10.2011 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband