Færsluflokkur: Bloggar

Tæknitröll fallið frá

Steve Jobs, stofnandi Apple sem á undraskömmum tíma varð alger risi á tölvumarkaði og leiðandi í þeirri tæknibyltingu sem staðið hefur yfir undanfarna áratugi og ekki sér fyrir endann á ennþá.

Ef einhver hefur átt tililinn "tæknitröll" algerlega skuldlausan, þá er það Steve Jobs og hugvit hans og snilligáfa hefur haft áhrif á líf hvers einasta manns á jarðríki og ekki hægt að reikna með að slík ofurmenni líti dagsins ljós, nema í mesta lagi einu sinni á öld.

Missir heimsbyggðarinnar er mikill við fráfall þessa ofursnillings.


mbl.is Steve Jobs látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samningsmarkmið í viðræðum við ESB, núna?

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, taldi í stefnuræðu sinni að tími væri til kominn að móta samningsmarkmið vegna viðræðnanna um innlimun Íslands sem útnárahrepps í væntanlegt stórríki Evrópu, eða eins og hún orðaði það sjálf: "Það er beinlínis lýðræðisleg skylda okkar að vinna nú með þessum hætti, í ljósi forsögunnar og afstöðu þjóðarinnar til málsins".

Þetta hefði líklega þótt nokkuð skarplega athugað af Jóhönnu, ef henni hefði dottið þetta í hug áður en innlimunarviðræðurnar hófust, að ekki sé sagt að hún hefði lagt þetta niður fyrir sér áður en metið var hvort ástæða væri til að sækjast eftir að fá að gera landið að áhrifalausum útkjálka Brusselvaldsins.

Samkvæmt orðum Jóhönnu virðist hún vita um afstöðu þjóðarinnar til málsins og fyrst svo er, er óskiljanlegt að hún skuli ekki leggja til að innlimunarviðræðunum skuli hætt nú þegar, þar sem stór meirihluti þjóðarinnar er algerlega andvígur því að selja sig undir kommisaravald ESB.

Í þessu efni, eins og flestum öðrum, eru vegir ríkisstjórnarinnar órannsakanlegir, eins og fleiri vegir, og raunar eru vegir stjórnarinnar þar að auki algerlega ófærir. 


mbl.is Liggja samningsmarkmiðin ekki fyrir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskur útrásarbrandari

Michael Lewis, bandarískur metsöluhöfundur, sem er vel kunnugur fjármálamörkuðum heimsins, gerði stólpagrín að íslenskum útrásarvíkingum í viðtalsþættinum Gharlie Rose á Bloomberg sjónvarpsstöðinni, sem sérhæfð er í fjármálafréttum og -skýringum.

Eitt dæmið um útrásarvíkingabrandara sem hann tiltók voru kaup Hannesar Smárasonar og félaga hans í Baugsgenginu á bandaríska flugfélaginu American Airlines, en enginn úr þeim hópi hafði nokkurt vit á rekstri flugfélaga, eins og eftirminnilega sást á "viðskiptagerningum" klíkunnar á FL-Group, Sterling og fleiri félaga í þeim geira. Allur fór sá rekstur lóðbeint á hausinn og það eina sem enn tengist einum félaga úr þeirri klíku er Iceland Express, sem Pálma Haraldssyni tókst að ná út úr Fons rétt fyrir gjaldþrot þess félags.

Nánat hvert einasta félag sem útrásarvíkingarnir komu nálægt á sínum tíma er nú gjaldþrota, eða komið í eigu banka og lífeyrissjóða, en áður hafði þeim tekist að raka til sín háum launum og milljarðaarði. Að lokum olli þessi "viðskiptasnilld" hruni alls bankakerfis landsins með tilheyrandi kreppu og erfiðleikum fyrir alla landsmenn.

Þó útlendingar geti leyft sér að hljæja að þessum "útrásarbrandara", þá er íslendingum enginn hlátur í hug, enda sagan öll afar ófyndin í þeirra huga.

Hitt er svo annað mál að "efnahagssnillingar" austan hafs og vestan hafa ekki gefið þeim íslensku svo mikið eftir í "skemmtilegheitunum", enda kreppir nú víða að vegna gerða þeirra og afleiðingunum í flestum tilfellum velt yfir á skattgreiðendur viðkomandi landa.

Almenningur á Íslandi hafnaði algerlega Icesave-"brandaranum", jafnvel þótt stjórnvöldum landsins hafi þótt hann bráðskemmtilegur og viljað borga stórfé fyrir "skemmtunina".


mbl.is Hlegið að Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meingölluð tillaga um "sannleiksnefnd"

Nokkrir þingmenn, undir foystu Björgvins G. Sigurðssonar, flutt tillögu á Alþingi um að skipuð verði "sannleiksnefnd" til þess að rannsaka svokölluð Guðmundar- og Geirfinnsmál, sem síendurtekið koma til umræðu í þjóðfélaginu, þar sem skiptst er á skoðunum um réttmæti dómanna í málunum og oft á tíðum eru stóru orðin ekki spöruð á báða bóga.

Hæstiréttur hefur í tvígang hafnað endurupptöku málanna, þar sem rétturinn hefur ekki talið að nein ný gögn hafi komið fram, sem kollvarpi upphaflegri rannsókn og dómum. Um þetta er deilt endalaust og einhvern veginn þyrfti að koma þessum málum út úr umræðunni í eitt skipti fyrir öll.

Tillaga Björgvins og félaga er þó meingölluð, þar sem aðeins er lagt til að reynslumikill fjölmiðlamaður, lögfræðingur og sagnfræðingur (ekki er tekið fram að þeir þurfi að hafa neina reynslu) rannsaki öll gögn málsins og skili skýrsu til Alþingis innan eins árs. Ekki er tekið fram í tillögunni hvað Alþingi eigi svo að gera við skýrsluna, eða niðurstöðuna á hvorn veginn sem hún yrði.

Greinargerðin með tillögunni er algerlega afdráttarlaus um sakleysi allra sem dóma fengu vegna málanna og þar með vaknar spurning um til hvers Björgvin og félagar ætlast af "sannleiknsnefndinni".

Hver sem niðurstaða Björgvins og félaga er, eða "sannleiksnefndarinnar" verður er staðreyndin sú, að enginn getur fellt endanlegan dóm nema Hæstiréttur og til að hann endurskoði fyrri dóma, þarf væntanlega að leggja fram ný og skotheld gögn, sem sanni sakleysi hinna dæmdu.


mbl.is Vilja sannleiksnefnd um Geirfinnsmálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykingar samkvæmt læknisráði?

Enn á ný hefur verið flutt tillaga á Alþingi um að gera tóbak lyfseðilsskylt og að það verði eingöngu selt í lyfjaverslunum.

Sífelldur niðurskurður hefur verið í heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum og álag á lækna og hjúkrunarfólk aukist ár frá ári og skortur er orðinn á heilsugæslulæknum, enda þarf fólk að bíða árum saman eftir föstum heimilslækni, ef það fær hann þá nokkurn tímann.

Að ætlast til þess að reykingafólk framtíðarinnar fari reglulega á heilsugæslustöðvarnar til að fá "lyfseðil" fyrir kartoni af sígarettum er svo geggjuð hugmynd, að ótrúlegt er að nokkrum manni, sem vill láta taka sig alvarlega, skuli detta annað eins í hug. Þeir sem ekki hafa aðgang að heimilislæknum gætu þá þurft að leita á bráðadeildir sjúkrahúsanna til að ná í "lyfseðil" fyrir tóbakinu sínu og hljóta allir að sjá að slíkar deildir hafa í nógu öðru að snúast en að útvega fólki tóbak.

Til að aðrir þingmenn þurfi ekki að liggja undir grun um að taka þátt í þessum ótrúlega tillöguflutningi, er rétt að láta fljóta með hverjir flutningsmennirnir eru, en það eru Siv Friðleifsdóttir, Þuríður Backman, Ásta R. Jóhannesdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Álfheiður Ingadóttir og Eygló Harðardóttir.


mbl.is Tóbak verði bara selt í apótekum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líflátshótanir?

Skothlkin sem fundust fyrir framan Alþingishúsis við þrif eftir mótmælin í gærkvöldi, hljýtur að hafa verið hent að húsinu þann dag, þar sem áður var búið að þrífa upp eftir ofbeldis- og óþjóðalýðinn sem lét til sín taka í skjóli mótmælanna við þingsetninguna tveim dögum áður.

Varla er hægt að líta á fund þessara skothylkja öðruvísi en sem hótun einhvers glæpamanns, eða hóps slíkra, um beitingu vopna gegn þingmönnum og/eða lögreglumönnum sem sinna skyldum sínum við að halda uppi röð og reglu á mótmælafundum og öðrum stórum samkomum.

Þessi skot sýna enn og aftur að héðan í frá verður lögreglan að taka mun harðar á þeim óþjóðalýð sem nýtir sér slíka mótmælafundi til að fullnægja skrílseðli sínu, siðleysi og virðingarleysi fyrir eignum og lífi samborgara sinna.

Heiðarlegir mótmælendur þurfa einnig að fylgjast með þeim sem lauma sér í raðir þeirra í því eina skini að sinna óeðli sínu og jafnvel beita borgaralegum handtökum í því skyni að uppræta glæpi þessara siðblindingja.


mbl.is Fundu skothylki við þinghúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gungur á ríkisráðsfundi

Ruddaleg framkoma Ólafs Ragnars Grímssonar í garð Alþingis og þingmanna að undanförnu, gaf Jóhönnu Sigurðardóttur og Svandísi Svavarsdóttur og einhverra fleiri þingmanna, tilefni til að svara fyrir sig við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra og harmaði t.d. Álfheiður Ingadóttir að hafa ekki mátt svara óhróðri forsetans úr ræðustóli Alþingis við þingsetninguna þann 1. október.

Ríkisráðsfundur var haldinn á Bessastöðum í gær og hefði þá mátt ætla að ráðherrarnir nýttu tækifærið til þess að láta skoðanir sínar í ljós á framgöngu forsetans undanfarið, en eins og við var að búast af ráðherraliðleskjunum, þá þögðu þeir þunnu hljóði við þetta tækifæri og létu bara mynda sig brosandi með forsetanum, eins og ekkert hefði í skorist.

Eins tímbært og það var orðið að þingmenn létu forsetann heyra hve ómálefnalegur og ósannsögull hann hefur verið um "frumkvæði" sitt að því að vísa Icesavelögunum í þjóðaratkvæði og önnur "afrek" sín á forsetastóli ásamt því að breiða yfir klappstýruhlutverk sitt í útrásinni, þá létu þessir sömu ráðherrar og stóryrtastir voru í þingræðum sínum um forsetann tækifærið algerlega ónotað til að láta skoðun sína í ljós á framferði hans.

Því miður benda nýjustu uppákomur Ólafs Ragnars til þess að hann hyggi á framboð enn á ný næsta vor og það sem verra er, er að líklega myndi hann ná kosningu enn og aftur.


mbl.is Forseta lagðar línur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skríl og ofbeldisseggi verður að stöðva

Svokölluð "tunnumótmæli" eru fyrirhuguð við Alþingishúsið á meðan forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína og við umræður þingmanna um hana. Mótmæli voru einnig höfð í frammi við þingsetningu þann 1. október s.l. og því miður settu skríll og ofbeldisseggir ljótan svip á þann mótmælafund.

Í ljós hefur komið að einhverjir glæpamenn hafa mætt á staðinn með þann ásetning að slasa þingmenn á leið þeirra milli Alþingishúss og Dómkirkju og búið sig að heiman vopnaðir harðsoðnum eggjum, kartöflum og grjóti, en sá sem fyrir slíku verður, þegar kastað er af afli af stuttu færi, á á hættu að stórslasast og jafnvel láta lífið.

Athæfi slíkra skrílsmanna flokkast ekki undir neitt annað en skipulagðan ofbeldisglæp og hljóta yfirvöld að geta notað eftirlitsmyndavélar til þess að hafa uppi á þessum glæpalýð.

Vonandi heldur þessi lýður sig fjarri Austurvelli í kvöld og eyðileggur ekki réttmæt mótmæli gegn getuleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum heimila og atvinnulífs í landinu.

Heiðarlegir mótmælendur ættu að aðstoða lögregluna við að halda uppi röð og reglu á staðnum og jafnvel beita borgaralegum handtökum, verði þeir varir við að ofstopaskríll reyni að nýta tækifærið til glæpaverka sinna.


mbl.is Stilla upp tunnum á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattgreiðendur taki ekki á sig skell vegna bankanna

Mótmælaalda er nú að rísa í Bandaríkjunum vegna þess að þar, eins og víðast annars staðar, hefur almenningur verið látinn taka á sig byrðar vegna fáránlegs reksturs bankanna undanfana áratugi, sem leitt hefur til þess að stór hluti þeirra er í raun gjaldþrota, en hefur verið bjargað frá falli með skattpeningum.

Sem betur fór datt íslensku ríkisstjórninni ekki í hug að reyna að bjarga íslensku bönkunum við hrun þeirra í október 2008, en láta mesta skellinn lenda á erlendum lánadrottnum þeirra, sem ausið höfðu fjármunum í þá án viðunandi trygginga, en líklega í þeirri trú að skattgreiðendur yrðu látnir taka á sig skellinn ef illa færi.

Kreppan og erfiðleikarnir í kjölfar bankahrunsins hefur orðið almenningi á Íslandi þungbær, en þó eru þeir erfiðleikar eins og hver annar barnaleikur, miðað við það sem orðið hefði, ef allur skellurinn hefði verið látinn falla á skattgreiðendur, eins og AGS og ESB eru nú að gera í Grikklandi og áður á Írlandi og munu gera í fleiri ESBríkjum, ekki síst evruríkjum.

Undarlegt er að almenningur í Evrópu skuli ekki vera risinn upp til varna gegn þessari bankavernd ríkisstjórnanna og því fagnaðarefni að bandarískur almenningur skuli vera að vakna og byrja að verjast sífelldum skattahækkunum í þágu einkabankanna.

Æ betur kemur í ljós hvílíkt gæfuspor setning neyðarlaganna var á sínum tíma.


mbl.is Ætla að halda áfram að mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilmennskuþrá Ólafs Ragnars er þingræðinu stórhættuleg

Ólafur Ragnar Grímsson hefur sýnt það margoft í sinni forsetatíð, að hann túlkar stjórnarskrána eftir sínu eigin höfði og þá nánast undantekningalaust sjálfum sér í hag og ekki síður til að fullnægja óstjórnlegri hégómagirnd sjálfs sín og ekki síður þorsta í athygli og að vera miðpunktur umræðunnar hverju sinni.

Við þingsetningu í gær túlkaði hann tillögur svokallaðs stjórnlagaráðs um forsetaembættið á þá vegu að ráðið væri að leggja til að forsetaembættinu yrðu færð gífurlega aukin völd og það yrði forseta nánast í sjálfsvald sett hver yrði forsætisráðherra að loknum kosningum hverju sinni.

Eiríkur Bergmann, sem sat fundi svokallaðs stjórnlagaráðs, mótmælir þessari túlkun Ólafs Ragnars harðlega og aðspurður um þennan "viljandi misskilning" og hvort tillögurnar séu svo óskýrar, að hver geti túlkað þær eftir eigin höfði, segir hann í viðtali við mbl.is m.a: "Nei, tillögurnar eru mjög skýrar og ég veit ekki af hverju hann túlkar þetta svona. En almennt get ég sagt, og ekki endilega vegna ummæla forseta Íslands, að það eru örugglega ýmis öfl í stjórnmálunum sem vilja teygja og toga tillögur eins og þessar sér í hag, en ég er ekki viss um að það sé til hagsbóta fyrir íslenska þjóð á þessum tímapunkti að menn gangi langt í því. Tillögurnar eru mjög skýrar og óþarfi að afbaka þær í pólitískum hráskinnaleik í íslenskum stjórnmálaum. Íslensk þjóð á betra skilið en það."

Getur nokkur verið í vafa um það lengur, að nauðsynlegt sé að yfirfara og lagfæra allar tillögur um breytingar á stjórnarskránni og orða þær svo skýrt, að enginn hætta sé á því að menn með eins óstjórnlega mikilmennskuþrá og Ólafur Ragnar geti ekki mistúlkað þær að sínum vilja og í eigin þágu.

Íslensk þjóð á betra skilið en það að Ólafur Ragnar ráði túlkun stjórnarskrárinnar. 


mbl.is Alþingi kýs forsætisráðherra án atbeina forseta Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband