Ljótt að hæðast að Íslendingum

Einhverjir óuppdregnir dónar í Þýskalandi, sem gefa út grínblað undir nafninu Titanic, ætla að bjóða upp á dagskrá í lok bókamessunnar í Frankfurt, þar sem gert verður grín að Íslendingum og meira að segja veita verðlaun fyrir besta háðið um land og þjóð.

Þeir, sem að þessu standa, vita greinilega ekki að Íslendingar þola alls ekki grín og háð um sjálfa sig og ætlast til að allur heimurinn viti, eins og þeir vita sjálfir, að Ísland er merkasta og besta land í heimi og Íslendignar almerkilegasta þjóð sem hnöttinn byggir og engin önnur þjóð getur státað af öðrum eins uppruna og íslenska þjóðin, fyrir utan að saga annarra þjóða er bara húmbúkk og kemst ekki í hálfkvisti við stórmerkilega arfleifð íbúa sögueyjarinnar.

Þó landsmenn hafi étið stóran hluta handrita sinna á öldum áður, frekar en að láta sér detta í hug að láta eftir sér þau matvæli sem náttúran bauð upp á, þá varðveittist nóg af hasarkenndum bókfellum til að sanna víkingafortíð þeirra og að hver einasti maður væri af konungakyni og væri einhver ættaður frá þrælum, þá voru hinir ánauðugur hvort eð var komnir af kóngafólki ýmissa nágrannalanda.

Við munum á endanum ná okkur niðri á Þjóðverjum fyrir grínið, því við erum miklu merkilegri og þar að auki fyndnari en þýskarar.


mbl.is Úthúða Íslandi á bókamessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

"Við munum á endanum ná okkur niðri á Þjóðverjum fyrir grínið, því við erum miklu merkilegri og þar að auki fyndnari en þýskarar."

Það er ekkert erfitt að vera fyndnari en Þjóðverjar. Það er tvennt sem Þjóðverjum er gjörsamlega meinað í þessum heimi: Segja góða brandara og framleiða góðar kvikmyndir. Íslendingar geta a.m.k. gert hið fyrrnefnda. Þetta síðara er ég ekki svo viss um.

Vendetta, 8.10.2011 kl. 20:57

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Vendetta.: Þú hittir naglann tvisvar á höfuðið! Hvar fær maður svona nagla?

Axel.; Þýsk fjármálafyrirtæki og vogunarsjóðir kosta að sjálfsögðu þetta grín. Nema hvað..........þeir borguðu sukkið! Vilja nú láta vorkenna sér gegnum sjónvarpsstöðvar og útvarpsfyrirtæki í sinni eigu. Er nema von að manni sé óglatt flesta daga. Kann bara ekki við að gubba hvar sem er og segi því....megi veturinn 2011 verða þér góður.

Halldór Egill Guðnason, 8.10.2011 kl. 23:19

3 identicon

Mér þykir menn hafa fylgst illa með kvikmyndageiranum í Þýskalandi hin síðustu ár. Þaðan hefur komið urmull frábærra mynda undanfarið og 3 óskarsverðlaunamyndir. En menn geta sosum hossað Sódómu og sagt hafnarfjarðarbrandara

Eiki S. (IP-tala skráð) 9.10.2011 kl. 10:34

4 Smámynd: Vendetta

Oscars-verðlaun eru ekki endilega neinn gæðastimpill, sbr. sumar arfalélegar bandarískar myndir sem hafa fengið þau verðlaun. Heldur ekki Gullpálmarnir miðað við að Lars Trier fékk þá út á eintóma frekju. Sumar íslenzkar myndir, eins og t.d. Reykjavík-Rotterdam og 101 Reykjavík eru hins vegar ágætar (að mínu mati og miðað við budget).

Mér hefur aldrei geðjazt að þýzkum kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum, en kannski verður maður að búa mjög lengi í Þýzkalandi og hafa aðlagað sig þýzkum siðum til að gera það. Þótt það sé staðreynd, að sjónvarpsþættir séu öðruvísi en kvikmyndir, þá er visst samband þar á milli. Vandamálið með svokallaða þýzka "spennuþætti" í sjónvarpinu er að það er engin spenna og leikurinn er stirður.

Smekkur manna er líka misjafn. Ég álít að sumir leikstjórar/framleiðendur sem var hampað af kvikmyndasnobburum árum áður eins og Bergman, Troufeau og Fassbinder hafi gert drepleiðinlegustu myndir evrópskrar kvikmyndasögu. Þegar söguþráður kvikmyndar er líflaus, þá þarf myndin að hafa eitthvað annað til að teljast góð, t.d. frumleika (eins og var í sumum myndum Fellinis). Hins vegar komu fram síðar mikið betri sænskar, franskar og danskar kvikmyndir þegar þjóðirnar losnuðu undan oki menningarsnobbsins. En ég á enn eftir að sjá góða þýzka kvikmynd. Kannski eru þær til, en þá eru þær vel faldar. 

Mér sjálfum geðjazt bezt að brezkum kvikmyndum, brezku sjónvarpsefni og brezkum húmor. Brezkur húmor er sá fremsti í heimi að mínu áliti. En hvað sem þýzkum kvikmyndum líður, þá stend ég áfram fast á því að þýzkir brandarar eru þeir verstu í Evrópu. Hins vegar eru til ágætir nazistabrandarar sem aðrar þjóðir hafa samið, enda myndu Þjóðverjar aldrei gera það sjálfir. Þjóðarstoltið kemur í veg fyrir það.

Vendetta, 9.10.2011 kl. 14:10

5 Smámynd: Vendetta

En svona til að enda þessa langloku, þá er ekkert við það að athuga, að aðrir segi brandara um Íslendinga eða segi eitthvað neikvætt um okkur. Réttmæt gagnrýni er alltaf góð, og það er heilbrigt að geta hlegið að sjálfum sér, ekki sízt að útrásarvitleysunni, sem getur í bezta falli orðið víti til varnaðar.

Smáþjóð eins og Ísland á að sætta sig við það sem hún er og einbeita sér að því að halda sjálfstæði sínu og halda uppi einhvers konar velferð frekar en að fyllast einhverri minnimáttarkennd sem brýzt út sem mikilmennskubrjálæði.

Vendetta, 9.10.2011 kl. 14:17

6 Smámynd: Vendetta

Og hvers vegna er ekki mynd frá bókamessunni með fréttinni í staðinn fyrir einhver óskyld mynd úr Eymundsson? Þá væri alveg eins hægt að hafa enga mynd.

Vendetta, 9.10.2011 kl. 22:13

7 identicon

ég hef verið áskrifandi af Titanic í fjöldamörg ár. Þeim er akkúrat ekkert heilagt. Blaðamenn tímaritsins eru a.m.m. djúpir, vel skrifandi og mjög vel að sér í þeim málum sem þeir fjalla um (aulahúmor nær kannski 5% af blaðinu). Og þeirra óháða sýn á okkar veruleika getur oft verið sorglega fyndin. Ekki er þó hægt að tala um þetta rótgróna tímarit sem boðberi þýsks húmors.

Valgeir (IP-tala skráð) 10.10.2011 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband