Færsluflokkur: Bloggar

Ef ekki Landsbanka á lóðina, þá hvað?

Heilmikið fjaðrafok hefur orðið á samfélagsmiðlunum vegna fyrirhugaðrar byggingar Landsbankans á húsi undir starfsemi sína á lóð við höfnina í nágrenni Hörpu.  

Sumir bera því við að það sé bruðl af hálfu bankans að byggja nýjar höfuðstöðvar á einni af dýrustu lóðum landsins og réttara væri að hagnaði bankans væri varið til annarra þarfa, t.d. til að byggja nýjan Landspítala.

Aðrir, t.d. hínn ágæti þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson,segja að lóðina ætti að nota undir einhverja starfsemi sem veitti meira lífi í miðbæinn, sérstaklega á kvöldin enda loki bankinn klukkan sextán á daginn. 

Ef hugsað er um hvaða starfsemi það gæti verið sem héldi uppi lífi og fjöri fyrir utan Hörpu á kvöldin, þá koma aðallega upp í hugann barir, danshús, bíó og aðrir slíkir staðir sem aðallega hafa opið á kvöldin og fram á nóttina.  Lúxushótel á að byggja á næstu lóð við hliðina á bankalóðinni og verslunar- og íbúðahús eru einnig fyrirhuguð á reitnum.

Þarna mun sem sagt verða um að ræða dýrasta íbúðar- og verslunarsvæði landsins og megi ekki reisa höfuðstöðvar eina ríkisbankans á þessum slóðum verða menn að svara því hvaða starfsemi væri æskilegri á þennan stað, því algerlega útilokað er að nokkurt bíó, bjórstofa, ballhús og hvað þá kaffihús muni opna á öllum þrem eða fjórum hæðum fyrirhugað húss á þessum stað.

Bankinn er nú með starfsemi á a.m.k. tuttugu stöðum í miðbænum og hlýtur að geta selt margt af því húsnæði fyrir milljarða og annarsstaðar sparast húsaleiga, enda áætlar bankinn að spara sjöhundruð milljónir króna árlega með sameiningu starfseminnar á einn stað.  Slíkur sparnaður ætti að þykja eftirsóknarverður í hvaða rekstri sem er.

Sá sem þetta skrifar er ekki móðgunargjarn og tekur þessar ágætu hugmyndir Landsbankamanna ekkert illa upp sem viðskiptavinur hans til áratuga, þó sumt viðkvæmara fólk virðist taka hugmyndinni sem persónulega móðgun.

 


mbl.is Móðgun við viðskiptavini bankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein rök ESBsinna jörðuð

Eitt helsta áróðursbragð innlimunarsinna Íslands í væntanlegt stórríki ESB hefur verið að með því yrði landið skyldugt til að fella niður tolla á innfluttum vörum frá öðrum sýslum stórríkisins væntanlega.

Þrátt fyrir að stöðugt hafi verið bent á að Íslendingar gætu fellt niður tolla hvenær sem þeim sjálfum sýndist, hafa ESBsinnarnir ávallt gert lítið úr slíkum rökum og haldið sig við áróðurinn um að slíkt væri ógerningur nema með fyrirskipunum frá kommisörum ESB.

Nú hefur Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, boðað að tollar skuli felldir niður af fatnaði og skóm um næstu áramót og árið eftir verði allir aðrir tollar aflagðir, aðrir en tollar af matvælum.  Tollar á matvæli eru háðir gagnkvæmum samningum við önnur ríki heimsins og ekki klókt af Íslendingum að fella þá tolla niður einhliða.

Undanfarið hefur lítið farið fyrir innlimunarsinnum í ESB, enda allt í óvissu þar innan dyra vegna ástandsins í Grikklandi, Spáni, Portúgal, Ítalíu og Írlandi svo nokkur lönd séu nefnd, en alvarlegast er auðvitað hörmungarástandið í Grikklandi og óvissan um framtíð evrunnar, bæði hvort Grikkir geti haldið áfram að nota hana sem gjaldmiðil og ef ekki hvaða áhrif þetta ástand mun hafa á framtíð evrunnar sem slíkrar.

Það er líklega engin tilviljun að fylgi Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar skuli vera í frjálsu falli, enda nánast eina stefnumál þeirra, þ.e. ESBruglið, brunnið til ösku sem fokin er út í veður og vind.


mbl.is Boðar afnám allra tolla 2017
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forystumenn ESB taka eigin hag umfram hörmungar Grikkja

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og harðsvíraður baráttumaður fyrir innlimun Íslands í ESB, skrifar á Fésbók um hrossakaupin innan ESB, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og evrópska seðlabankans vegna hörmunganna í Grikklandi.

Ekki síður fjallar Össur um valdabaráttu pólitíkusa ESBlandanna, ekki síst Angelu Merkel kanslara Þýskalands og Wolfgangs Schäu­ble, fjár­málaráðherra í stjórn hennar.  Össur, sem ætti manna best að þekkja hrossakaupin og spillinguna innan ESB, viðurkennir að allir innan sem utan ESB hafi vitað að Grikkland uppfyllti ekki skilyrðin fyrir upptöku evru, en forysta ESB hafi tekið þátt í blekkingaleiknum til að troða evrunni uppá Grikki.

Össur segir að ESB hafi aldrei, allt frá árinu 2009, tekið á raunverulegum vanda Grikkja, heldur ávallt verið með smáskammtalækningar sem í raun hafa verið til að friða almenning í ESBlöndunum, ekki síst Þýskalandi, og ekki síður verið hluti af pólitískum skilmingum milli pólitíkusa á svæðinu.

Í pistli Össurar segir m.a:  „Þessi staða skýr­ir vax­andi stríðleika síðustu sól­ar­hringa í yf­ir­lýs­ing­um Merkels. Hún þarf að finna ein­stigi á milli eig­in póli­tískra þarfa sem fel­ast í að halda Grikkj­um inn­an evr­unn­ar og her­skárra skoðana síns eig­in fjár­málaráðherra sem vill þá út. Milli þeirra eru vax­andi fá­leik­ar og í þýsk­um stjórn­mál­um velta menn því fyr­ir sér hvort Wolfgang Schauble hygg­ist láta til skar­ar skríða gegn Merkel í mál­inu – og jafn­vel fella hana af stalli.“

Að þýskir stjórnmálamenn hafi meiri áhyggjur af eigin hag en af hörmungum grísks almennings er skýring eins helsta ESBsinna landsins.  Varla fer hann með fleipur um þann skollaleik.


mbl.is Pólitíkusar sekir en ekki almenningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn eitt umhverfisslysið í uppsiglingu í Reykjavík

Kynnt hefur verið vinningstillaga um hönnun enn eins hótelsins í miðborg Reykjavíkur og í þetta sinn er um að ræða 120-135 herbergja steinkumbalda við Lækjargötu 12.

Vinningstillagan tekur ekkert tillit til húsanna í nágrenninu, en báðum megin við götuna standa gömul, falleg, virðuleg og í sumum tilfellum sögufræg hús og verði byggður steinkassi í stíl við þessa tillögu verður um enn eitt umhverfisslysið að ræða í Reykjavík.

Það verður að teljast stórundarlegt ef íslenskir arkitektar eru raunverulega algerlega ófærir um að teikna hús sem falla að þeirri götumynd og því umhverfi sem þeim er ætlað standa við til langrar framtíðar.  Reyndar er ánægjuleg undantekning til frá þessari að því er virðist föstu reglu, en það er bygging hins nýja Hótels Sigló á Siglufirði, en það hús er bæði fallegt og byggt í sátt við umhverfi sitt og fellur vel að öðrum húsum á svæðinu.

Vonandi samþykkja skipulagsyfirvöld í Reykjvavík ekki fleiri umhverfisslys í tengslum við hótelbyggingaæðið í Reykjavík.  Reyndar ekki heldur í tengslum við aðrar framkvæmdir í boginni.


mbl.is Nýtt hótel í Lækjargötu árið 2018
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldir fylgja tekjum skuldarans

Fjármálaráðherra lagði í dag fram skýrslu um framkvæmd lækkunar höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána, sem framkvæmd var samkvæmt stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.

Skuldaleiðréttingin var hlutfallsleg miðað við húsnæðisskuldir og komu tekjur og eignir skuldarans á engan hátt inn í þá útreikninga.

Þrátt fyrir það virðist úttekt fjármálaráðuneytisins skipta skuldurunum niður í tekjuhópa, enda slá fréttamiðlar því upp eins og einhverju aðalatriði að eignamikið fólk hafi fengið skuldalækkun eins og aðrir skuldarar.  Tekjurnar komu málinu alls ekkert við og þó segja megi að tekjuháa fólkið hefði haft efni á því að sleppa því að taka við þessari c.a. einu og hálfu milljón í skuldalækkun, þá hefur þetta fólk margt hvert einmitt orðið ríkt á því að passa vel upp á að fá allt sem það hefur átt rétt á og sumir jafnvel krækt í eitthvað umfram það.

Burtséð frá því er orðalagið á skýrslunni sem greinilega er samin af grónum og gegnum embættismönnum ráðuneytisins stórfyndin vegna orðskrúðs og málalenginga sem engu bæta við fyrir lesandann öðru en því að vera lengur að kemba í gegn um torfið.  Eftirfarandi málsgrein er gott dæmi um þetta:

 „Tvær meg­in­skýr­ing­ar eru á mis­mun á upp­hæð lækk­un­ar höfuðstóls eft­ir þjóðfé­lags­hóp­um, fjöl­skyldu­stærð, bú­setu, aldri og tekj­um. Ann­ars veg­ar er íbúðaskuld mis­mun­andi eft­ir þess­um þátt­um, hinir tekju­hærri skulda að jafnaði meira en fjöl­skyld­ur með lægri tekj­ur, hinir eldri minna en þeir sem yngri eru, stór­ar fjöl­skyld­ur skulda meira en hinar minni og íbú­ar lands­byggðar­inn­ar skulda lægri upp­hæðir en þeir sem búa á höfuðborg­ar­svæðinu vegna lægra íbúðaverðs. Hins veg­ar er lækk­un höfuðstóls mis­mun­andi eft­ir því hvaða fyrri úrræði íbúðar­eig­end­ur höfðu nýtt sér. Að þessu slepptu er eðli höfuðstóls­lækk­un­ar­inn­ar það að sama upp­hæð skuld­ar fékk sömu lækk­un höfuðstóls.“

Af allri þessari langloku segir síðasta setningin það sem segja þarf og allt hitt málskrúðið algerlega óþarft.


mbl.is Tekjuhæstu fengu 1,5 milljarðs lækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundur sem þolir ekki Útsvar í sjónvarpinu

Síðast liðinn vetur var spurningaþátturinn Útsvar vikulega á dagskrá sjónvarpsins og þar áttust fulltrúar sveitarfélaganna í landinu við og lauk vetrinum með sigri liðs Reykjavíkur.  Þetta er auðvitað alkunnugt, enda höfðu landsmenn gaman af keppninni og áhorf á þættina var mikið, gott ef þetta var ekki eitt vinsælasta sjónvarpsefni vetrarins.

Á heimili þess sem hér bloggar er hundur, blanda af Border Collie og einhverri annarri tegund, og að sjálfsögðu er farið með hann í gönguferðir daglega og hann sinnir þörfum náttúrunnar í þeim ferðum og að sjálfsögðu er það sem hann lætur frá sér í föstu formi alltaf hirt upp eftir hann samviskusamlega.  Border Collie eru taldir skynsamastir allra hunda og er það ekki dregið í efa eftir sambúð með þessum í rúm sjö ár.

Einstaka sinnum krafðist hundurinn þess í vetur að draga bloggarann út að kvöldi til og þegar á leið uppgötvaðist að slíkt gerðist eingöngu á föstudagskvöldum og þá nánast um leið og Útsvarið byrjaði í sjónvarpinu.  Þegar betur var farið að fylgjast með þessu, kom í ljós að það brást aldrei að hundurinn heimtaði að fara út þegar þátturinn byrjaði, en þetta er hundur sem kann að tjá sig á ýmsan hátt og ekki hægt að misskilja neitt þegar hann heimtar að komast út.

Aldrei kom fyrir að hundurinn brygðist eins við þegar annað efni var í sjónvarpinu, hvorki íslenskir né erlendir þættir.  Í tvær vikur gistum við með hundinn norður í landi og þá gátum við sannað þessi viðbrögð hundsins með því að tilkynna húsráðendum fyrirfram hvernig hann myndi bregðast við og auðvitað gekk það allt eftir eins og sagt hafði verið.

Eftir að Útsvari lauk í vor hafði ekkert verið um að hundurinn gæfi til kynna að hann vildi komast út að kvöldi til þangað til í gærkvöldi að aukaþáttur af Útsvari/Gettu betur var sýndur.  Þá brást hundurinn hinn versti við og lét öllum illum látum, bæði með hreyfingum og hljóðum og "heimtaði" umsvifalaust að komast út.  Þar sem nýbúið var að fara með hann í gönguferð og hann þar með nýbúinn að gera stykkin sín, var algerlega útilokað að náttúran væri að kalla á slíkt.

Hvað sem veldur, er alveg öruggt að eitthvað er við Útsvar í RÚV sem fer afar illa í þennan hund:

2015-06-27 20.52.08


Afleikur ríkisins vegna laganna á hjúrkrunarfræðingana?

Alþingi setti nýlega lög sem stöðvuðu verkfall hjúkrunarfræðinga og skyldi gerðardómur ákveða laun þeirra ef ekki heði verið búið að skrifa undir nýjan kjarasamning fyrir 1. júlí 2015.

Samninganefnd hjúkrunarfræðinga rak strax augun í orðalagið að gerðadómur yrði skipaður ef ekki hefði verið búið að SKRIFA undir kjarasamninginn, en ekkert ákvæði var um það í lögunum að skilyrði væri að hjúkrunarfræðingar myndu samþykkja það sem undirritað væri.

Þetta kemur fram hjá Ólafi G. Skúlasyni, formanni Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í viðhangandi frétt, t.d. í eftirfarandi orðum:  "Ólaf­ur tel­ur að skil­yrði fyr­ir skip­un gerðadóms hafi því brostið þegar FÍH og ríkið hafi skrifað und­ir kjara­samn­ing. Í lög­un­um er ekki gerð krafa um að samn­ing­ur­inn sé samþykkt­ur af fé­lags­mönn­um FÍH."

Líklega geta hjúkrunarfræðingar ekki boðað verkfall á ný, en ef samningurinn verður felldur í atkvæðagreiðslu mun allt málið lenda í stórum hnút, þar sem aðilar munu verða að setjast að samningaborði á ný án þess að staðan gefi nokkrar væntingar um að nokkuð meira munu nást út úr nýjum viðræðum aðilanna.

Furðuleg er sú vanhæfni þeirra embættismanna sem lagafrumvarpið sömdu að skila frá sér svo illa orðuðu skjali og ekki síður þingmannanna að lesa plaggið ekki betur eða skilja ekki það sem þeir voru að samþykkja.

Hvernig sem á allt er litið verður ekki annað séð en að hjúkrunarfræðingar geti komið viðsemjanda sínum í töluverðan bobba, verði kjarasamningurinn felldur í atkvæðagreiðslunni sem framundan er.


mbl.is Skilyrði skipunar gerðardóms brostin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er evran að syngja sitt síðasta?

Norman Lamont, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, segist hafa orðið þeirra forréttinda aðnjótandi að semja um undanþágu Bretlands frá evrunni árið 1991.  

Segist hann hafa, ásamt mörgum öðrum, séð það fyrir að upptaka evru væru stórkostleg mistök, enda byggð á pólitík en ekki hagfræði.

Undarlega lítið hefur heyrst í íslenskum ESBsinnum undanfarna mánuði, enda sífellt betur að koma í ljós hvílík mistök væru fyrir landið að innlimast í bandalagið, að ekki sé minnst á skelfinguna sem myndi fylgja upptöku evrunnar.

Efnahagshörmungarnar sem evran hefur valdið mörgum fátækari ríkjum Evrópu eru augljósastar í Grikklandi, en jafnvel þó ekki sé líklega hægt að kenna evrunni alfarið um efnahagnsvanda Grikkja þá eykur hún a.m.k. vandann við að leysa úr efnahagskrísunni.

Þessi umræða um evruna og vandræðin vegna hennar hefur farið fram í mörg ár án þess að pótintátar ESB hafi viljað viðurkenna þau, en á meðan hefur vandinn einungis vaxið og stefnir í hreina upplausn með tilheyrandi vandræðum.

Í apríl árið 2010 urðu fjörugar umræður á þessari bloggsíðu um þetta efni og má sjá þær hérna:  http://axelaxelsson.blog.is/blog/axelaxelsson/entry/1046381/

(sverta þarf netaðgangslínuna, hægri smella á músina og smella síðan á síðuaðganginn)


mbl.is „Evran var dauðadæmd frá upphafi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið og lýðveldisafmælið fótum troðið

Einhver hópur hefur rottað sig saman á Facebook og sammælst um að fjölmenna á Austurvöll í fyrramálið, 17. júní, og eyðileggja þá virðulegu hefð að leggja blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar, í tilefni af lýðveldisstofnuninni þann dag árið 1944.

Annað markmið hópsins er að öskra og veifa spjöldum með kröfum um að ríkisstjórnin segi af sér, eða verði sett af ella.  Ekki er vitað hverja þessir æsingaseggir ætla að setja í ríkisstjórnarstólana ef áætlanir þeirra ganga eftir.

Einkennilegt er að fólk sem aðhyllist skoðanir sem taldar eru til vinstri í stjórnmálum skilja ekki eðli lýðræðisins, en í öllum siðmenntuðum þjóðfélögum ræður vilji meirihluta þjóðarinnar sem fram kemur í kosningum hverju sinni. Núverandi stjórnarflokkar fengu góðan meirihluta í Alþingiskosningum fyrir rúmum tveim árum og hafa fullt umboð kjósenda til að stjórna í tvö ár til viðbótar.

Það er nánast ótrúlegt að óeirðaseggir skuli ætla að fótum troða bæði lýðræðið sjálft og hefðbundin hátíðahöld í minningu þeirra sem börðust fyrir lýðveldinu á Íslandi, sem endaði síðan með stofnun þess á Þingvöllum árið 1944.

Allir siðaðir Íslendingar hljóta að fordæma svona óhæfu á þessum degi.


mbl.is „Samfélagsmiðlar hafa breytt mótmælum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óboðleg forysta

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, viðurkennir að forystu bandalagsins hafi verið fullljóst að ekki myndu nást kjarasamningar fyrir opinbera starfsmenn fyrr en eftir að samið hefði verið á almennum vinnumarkaði.

Samt stefndi BHM sínum félagsmönnum í verkfall fyrir tíu vikum og lamaði þar með nánast allt samfélagið og verður því ekki annað séð en að tilgangur verkfallsins hafi eingöngu verið sá að reyna að klekkja á ríkisstjórninni en ekki til að ná fram kjarasamningi.

Nú þykist Þórunn vera yfir sig hneyksluð á lagasetningu ríkisstjórnarinnar um Kjaradóm vegna deilunnar við opinberu starfsmennina, sem alls ekki hafa verið til viðræðna um sambærilega saminga og aðrir hafa gert, en í þeim samningum var höfuðáhersla lögð á hækkun lægstu launa en þeir betur launuðu fengu minna.

Einnig fer Þórunn mikinn vegna lagasetningarinnar þó hún hafi sjálf samþykkt svipuð lög þegar hún var þingmaður, en afsakar það með því að þá hafi aðstæður verið þannig að flug myndi leggjast niður og landið þar með lokast.

Nú hefur hún minni áhyggjur af því að sjúkrahús landsins séu nánast lokuð eins og margar aðrar opinberar stofnanir.


mbl.is Studdi lagasetningu fyrir 5 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband