Færsluflokkur: Bloggar
10.6.2015 | 15:03
Steingrímur J. þolir ekki gagnrýni á sjálfan sig
Steingrímur J. fór mikinn í ræðustóli Alþingis í dag vegna þess að Jón Gunnarsson, þingmaður, hafði leyft sér að gagnrýna hann fyrir tvískinnung í stóriðjumálum.
Steingrímur J. gerði samninga um skattaafslætti og aðra aðkomu ríkisins að uppbyggingu kísilvers við Húsavík, sem reyndar virðast hafa verið illa undirbúnir þar sem kostnaður sem falla mun á ríkið mun hafa verið vanreiknaður um tæpa tvo milljarða króna.
Hins vegar gera Steingrímur J. og félagar allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir stóriðjuuppbyggingu á Grundartanga og í Helguvík og það var einmitt það sem Jón Gunnarsson dirfðist að gagnrýna Steingrím fyrir.
Eins og áður sagði brást Steingrímur J. ókvæða við gagnrýninni og hótar að hefna sín á Jóni þó síðar verði. Þessi viðkvæmni er ótrúleg í ljósi þess að Steingrímur J. er einmitt einn stóryrtasti þingmaðurinn sem nú situr á Alþingi og hefur ekki vílað fyrir sér að ausa aðra þingmenn óbótaskömmum og svívirðingum þegar honum hefur svo boðið við að horfa.
Enginn þingmaður hefur gengið eins langt í ofstækinu og einmitt Steingrímur J. og fólki er enn í fersku minni þegar hann sló Geir Haarde, forsætisráðherra, þegar Steingrímur gekk úr ræðustóli og fram hjá ráðherranum eftir eina skapofsadembuna sem hann jós yfir þingheim.
Greinilega þola illyrtir skapofsamenn ekki mikla gagnrýni á sjálfa sig.
![]() |
Steingrímur: Ekki boðlegt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.6.2015 | 19:45
Allir vildu Lilju kveðið hafa
Ríkisstjórnin kynnti í dag stórkostlega áætlun um afnám gjaldeyrishafta, sem leiða munu til 800-900 milljarða króna lækkun skulda ríkissjóðs en þessi fjárhæð mun fást frá slitabúum gömlu bankanna annaðhvort með samþykki búanna eða skattlagningu.
Slík lækkun skulda mun spara ríkissjóði a.m.k. 45 milljarða í vaxtagreiðslur á ári hverju og sjá allir hvílíkur happafengur slík lækkun er, en í samanburði má geta þess að áætlaður byggingakostnaður nýs landspítala verði 50 - 60 milljarðar króna.
Viðbrögð stjórnarandstöðunnar eru athyglisverð, en fulltrúar allra flokka hennar þykjast nú hafa fundið upp og lagt til þessa aðferð við frágang slitabúa bankanna, þó ekkert hafi gerst í þessum málum á fjögurra ára ríkisstjórnartíma Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.
Lilja Mósesdóttir hefur marg oft skýrt frá því að hún hafi lagt til að slitabúin yrðu skattlögð í þessa veru strax á árinu 2008 en vinstri stjórnin hafi hafnað öllum hennar tillögum um þetta eins og reyndar öllu öðru sem hún lagði til málanna varðandi efnahagsráðstafanir.
Gangi tillögur og áætlanir ríkisstjórnarinnar eftir verður um að ræða mesta snilldarverk íslenskra efnahagsmála frá lýðveldisstofnun.
![]() |
Lækkar skuldir ríkissjóðs um 30% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
5.6.2015 | 21:46
Bringan beruð á Austurvelli í þágu hugarfarsbreytingar
Þann 13. júní n.k. verður framin óvenjuleg bylting á Austurvelli, en þá munu konur frelsa geirvörtur sínar í eitt skipti fyrir öll og munu væntanlega í framhaldi af því ganga um götur og torg berar að ofan þegar þeim sýnist.
Uppákoman kemur þeim nokkuð á óvart, sem undanfarna áratugi hafa stundað sólarlandaferðir og jafnvel bara sundlaugarnar í Reykjavík að sumarlagi, en á þeim stöðum hefur kvenfólk verið ófeimið við að liggja í sólbaði bert að ofan og sumstaðar jafnvel allsnaktar.
Brjóstabyltingin á Austurvelli hefur þó þann æðri tilgang að útrýma hefndarklámi, sem oft hefur falist í því að birta myndir af fyrrverandi kærustum eða vinkonum mismunandi mikið nöktum á Internetinu í einhverjum hefndartilgangi og til að lítillækka stúlkurnar.
Auðvitað á það að vera sjálfsagt mál að konur geti í góðu veðri gengið um eins klæðalitlar og karlmenn gera án þess að mál sé úr því gert og ef þessar aðgerðir verða til þess að ungar stúlkur hætti að vera feimnar vegna líkama síns og ekki síður ef tilgangi hefndarklámsins verði útrýmt, þá er svona bylting eingöngu af hinu góða.
Vonandi hefur karlpeningurinn vit til að styðja kvenfólkið í þessari byltingu og þeir eldri reyni að kenna þeim yngri almenna mannasiði í umgengni við konur.
![]() |
Geirvörturnar frelsaðar á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.6.2015 | 22:47
Hvað ef þetta hefði verið voðaskot?
Sérsveit lögreglunnar var með mikinn viðbúnað við fjölbýlishús í Hlíðarhjalla í Kópavogi í gær eftir að þrjár tilkynningar bárust um að heyrst hefði skothvellur frá íbúð í húsinu.
Stutt er síðan sérsveitin átti í höggi við sjúkan byssumann sem endaði með þeim skelfilegu afleiðingum að hann varð fyrir skoti sérsveitarmanns og lést.
Í því ljósi er skiljanlegt að sérsveitin hafi farið að öllu með gát í gær, en umsátur var um húsið í sex klukkustundir án þess að nokkurs umgangs hafi orðið í íbúðinni og hvað þá að byssa hafi sést og enginn svaraði í síma eða hringingum á dyrabjöllu allan þann tíma.
Að þessu langa umsátri loknu komst lögreglan að því að íbúinn var alls ekki heima og hafði ekki verið talsverðan tíma og alls ekki þegar meintur skothvellur átti að hafa hrellt íbúa hússins. Enginn veit ennþá hvaða hvellur olli þessu uppnámi og gæti líklega eins hafa verið hurðarskellur vegna trekks í einhverri íbúð hússins, eða jafnvel nálærga húsa.
Ef þarna hefði verið um raunverulegan skothvell að ræða og engrar hreyfingar hefði orðið vart í íbúðinni á eftir hvort engum hefði dottið í hug að þarna hefði getað verið um voðaskot að ræða og einhver lægi stórslasaður og bjargarlaus inni í íbúðinni og gæti alls ekki svarað síma og hvað þá opnað útidyrnar.
Í slíku tilfelli hefði það getað skilið milli lífs og dauða að bíða með þungvopnað lið í sex klukkustundir fyrir utan húsið.
![]() |
Var þetta skothvellur? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.6.2015 | 15:38
Kvennaþing í tvö ár og karlaþing í önnur tvö
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, varpaði fram þeirri hugmynd á Alþingi, að því er virðist í fullri alvöru, að í næstu kosningum yrði einungis kosnar konur til þingsetu og ættu þær að sitja í tvö ár, þ.e. frá 2017 - 2019.
Með þessari tilraun vill hún komast að því hvort það sé satt að konur stjórni öðruvísi en karlar. Til þess að fá endanlega úr því skorið hlýtur hún að vilja taka skrefið til fulls og láta einungis kjósa karla til að sitja á Alþingi næstu tvö ár eftir kvennaþingið. Öðruvísi yrði aldrei hægt að fullyrða neitt um hvort stjórnarhættirnir væru mismunandi, því í tillögunni hlýtur að felast að það sé blöndun kynjanna á Alþingi sem skapi eintóma upplausn og óstjórn bæði á þinginu og í landinu í heild.
Án þess að nenna að fletta því upp gerir stjórnarskráin líklega ráð fyrir að kosið sé til fjögurra ára í senn til Alþingis, þannig að Ragnheiður verður að byrja á að berjast fyrir stjórnarskrárbreytingu til að koma þessari stórkostlega skemmtilegu hugmynd sinni í verk.
Annars er miklu líklegra að Ragnheiður sé einfaldlega húmoristi, þó svona húmor gæti misskilist af mörgum, enda hefur baráttan undanfarin ár snúist um jafnrétti kynjanna og samvinnu þeirra á öllum hugsanlegum sviðum mannlífsins.
Óneitanlega er alltaf gaman að góðu gríni, ekki síst frá þingmönnum sem yfirleitt eru þekktir fyrir flest annað en að skemmta þjóðinni.
![]() |
Sérstakt kvennaþing árið 2017 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.5.2015 | 19:16
Ríkið á ekki að niðurgreiða launakostnað einkafyrirtækja
Það eru orð í tíma töluð að tímabært sé að fyrirtækin á almenna markaðinum sjái sjálf um að standa undir launakostnaði fyrirtækja sinna.
Forstjórar og aðrir yfirmenn, ásamt stjórnarmönnum einkafyrirtækja hika ekkert við að hækka sín eigin laun, en væla síðan um aðkomu ríkissjóðs þegar lægst launaða fólkið krefst mannsæmandi launa.
Ríkissjóður á ekki að niðurgreiða launagreiðslur á almennum vinnumarkaði og er full ástæða til að halda eftirfarandi orðum Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, til haga og hljóta allir að geta verið sammála honum í þessu efni:
Ég tel að atvinnurekendum í landinu hafi tekist um of að velta ábyrgðinni á því að gera betur við þá sem eru í lægstu launaflokkunum í fangið á ríkinu. Það er ekkert eðlilegt við það að með þau bótakerfi sem við erum með og tekjuskattskerfið eins og það er í dag, þar sem að ríkið sér ekki eina krónu af launum upp í 240.000, að það sé áfram þannig að það sé vandamál ríkisins að bæta betur hlut þessa fólks, sagði Bjarni og bætti við að sá tími hlyti að koma að atvinnurekendur taki að sér að greiða mannsæmandi laun til þeirra tekjuminnstu. Það getur ekki bara verið vandamál ríkisins.
![]() |
Ekki bara vandamál ríkisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.5.2015 | 19:27
Mannslíf fyrir kauphækkun?
Það er mat sérfræðinga okkar að raunveruleg hætta sé á að einhver hafi skaðast vegna afleiðinga verkfallsins, muni gera það eða jafnvel láta lífið, sagði Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, meðal annars í föstudagspistli sem birtur var á heimasíðu sjúkrahússins.
Þegar svona er komið, eins og fram kemur í pistli forstjóra Landspítalans, er mál að linni. Hvað er hægt að réttlæta að mörgum mannslífum verði fórnað fyrir hvern tíuþúsundkall sem hægt verður að kreista í kauphækkanir með þessum þjösnalegu verkfallsaðgerðum?
Auðvitað er ekki réttlætanlegt að fórna einu einasta mannslífi í kjarabaráttu og þar sem engar líkur virðast vera á því að samningar náist um kjör opinberra starfsmanna fyrr en búið verður að semja á almenna vinnumarkaðinum verður hreinlega að stöðva verkfall heilbrigðisstarfsmanna með lagasetningu.
Auðvitað þaf að fylgja slíkri aðgerð trygging fyrir því að heilbrigðisstéttirnar fái sambærilega kjarabót og aðrir eftir að vinnudeilum lýkur.
Óbreytt ástand með þeirri lífshættu sem fylgir er algerlega óásættanlegt.
![]() |
Kom verulega á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
5.5.2015 | 18:58
Auðlindasjóðshugmyndin er stórgóð, þó hún sé ekki alveg ný
Hugmyndin um auðlegðarsjóð er bæði góð og nauðsynleg, enda ætti reynslan að hafa kennt Íslendingum að dýfur og skellir í efnahagslífinu hafa frekar verið regla en undantekning allan lýðveldistímann og ríflegur varasjóður hefði oft bjargað þjóðinni frá efnahagslegum hörmungum.
Þetta er þó ekki alveg ný hugmynd, því eins og sjá má hér að neðan var einmitt bloggað hérna um slíkan sjóð í janúar 2012:
24.1.2012 | 16:06
Auðlindagjald fari ekki beint í eyðsluhítina
Nefnd um stefnumörkun í auðlindamálum leggur til að innheimt verði svokölluð auðlindarenta af öllum afnotum auðlinda landsins og er það að sjálfsögðu ekkert annað en sjálfsagt mál.
Sjálfsagt verða menn svo aldrei sammála um hversu hár slíkur skattur á að vera á hverjum tíma. Nefndin leggur hins vegar til að auðlindarentan renni beint í ríkishítina og verði að mestu leyti til ráðstöfunar í eyðslugleði þeirrar ríkisstjórnar sem að völdum situr hverju sinni.
Samkvæmt fréttinni gerir nefndin þó þessa undantekningu á því: "Um eiginlega sjóðssöfnun geti hins vegar verið að ræða þegar tekjur stafa af auðlindum sem augljóslega eru ekki endurnýjanlegar. Þannig yrði búið í haginn fyrir komandi kynslóðir sem ekki nytu góðs af sömu auðlindum."
Heillavænlegra væri að leggja allt auðlindagjaldið í sérstakan auðlindasjóð sem eingöngu yrði gripið til við sérstakar aðstæður, t.d. efnahagserfiðleika í kjölfar aflabrests, náttúruhamfara o.s.frv., eða bara ef til álíka hruns kæmi og gerðist á árinu 2008.
Engar auðlindir eru í raun endurnýjanlegar, því vatnsföll geta breyst eða þornað upp vegna náttúruhamfara, aflabrestur getur orðið nánast hvenær sem er eins og dæmin sanna í gegn um tíðina og enginn veit fyrir víst hvort eða hvenær heitavatnsæðar geta breyst eða kólnað.
Íslendingar þyrftu að læra af fortíðinni og safna varasjóðum til framtíðarinnar í stað þess að eyða öllum tekjum jafnóðum og þeirra er aflað, ásamt því að skuldsetja sig upp fyrir haus í eintómu neysluæði.
![]() |
Bjarni vill stofna varasjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.5.2015 | 09:35
Sjúklingar fara ekki í verkfall, frekar en sjúkdómarnir
Heilbrigðisstarfsfólk er upp til hópa ákaflega hjálpsamt, innilegt í allri framkomu og stendur sig á allan hátt með stórkostlegri prýði í öllum sínum störfum. Allir geta því verið sammála um að slík störf ber að launa að verðleikum og heilbrigðisstéttirnar ættu ekki að þurfa að standa í verkfallsaðgerðum sem verst bitna á veikustu skjólstæðingunum.
"Hjarta- og æðasjúkdómar fara ekki í verkfall, þeir halda áfram fram í rauðan dauðann", segir Sveinn Guðmundsson, varaformaður Hjartaheilla í viðhangandi frétt. Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, segir í sömu frétt að verri þjónusta bitni á lífsgæðum fólksins sem þurfi að búa við kvíða og hugarangur þar sem það fái ekki þær meðferðir og rannsóknir sem nauðsynlegar eru.
Í fréttaviðtölum viðurkenna læknar að ekki sé hægt að útiloka að ótímabærum dauðsföllum fjölgi vegna þess að viðkomandi sjúklingar fái ekki þá þjónustu sem þeir nauðsynlega þarfnast. Fyrir langveika og aðra sem þjást af alvarlegum sjúkdómum er andlega kvölin oft verst og í svona verkfallsátökum líður fjöldi slíkra sjúklinga gríðarlegar sálarkvalir vegna óvissunnsr sem þeir búa við vegna þessara víðtæku og langvarandi verkfallsaðgerða heilbrigðisstéttanna.
Þessi þungbæra reynsla af verkfallöllum heilbrigðisstarfsmannna hlýtur að kalla á þær breytingar að í framtíðinni verði þessar stéttir felldar undir Kjaradóm, Kjararáð eða aðra til þess bæra stofnun að ákvarða laun þessara stétta eins og ýmissa annarra, t.d. lögreglumanna.
![]() |
Fleiri ótímabær andlát |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2015 | 13:19
Velferð sjúklinga og dýravelferð
Allir geta verið sammála um að laun þurfi að hækka og ekki síst þeir sem lægst hafa launin, því framlegð atvinnulífs landsins er næg til að allir eigi að geta haft mannsæmandi framfærslu.
Einn er þó sá hópur sem algerlega ætti að vera undanþegin áhrifum verkfalla og það eru sjúklingar og þá ekki síst langveikir og aðrir sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómum. Heilbrigðisstéttir ættu að fá sínar kjarabætur dæmdar af Kjaradómi, eða öðrum þar til bærum aðilum, sem þá tæku að sjálfsögðu mið af öðrum launahækkunum í þjóðfélaginu.
Þrátt fyrir að vera mikill dýravinur og vilja að dýravernd sé í hávegum höfð eru áhyggjur af velferð sjúklinga þó meiri og sárari vegna þeirra frétta sem berast af frestun ýmissa læknisaðgerða og annars sem frestað er í meðferð krabbameinssjúklinga og annarra sem við hina ýmsu sjúkdóma eru að glíma.
Það getur ekki liðist að sjúklingar séu teknir í gíslingu vegna deilna um kaup og kjör á vinnumarkaði.
![]() |
Verkföllin bíta marga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)