Þrælapískurinn á lofti

Talsmaður hollensku þrælapískaranna segir að hann viti til þess að fjölmiðlar hafi talað um að ríkisábyrgðin vegna Icesave skulda Landsbankans, eigi að vara til 2024, en þrælahöfðingjarnir ætli ekki taka neitt mark á því.  Þetta hefur ekki bara komið fram í fjölmiðlum, þetta eru lög frá Alþingi og þau lög taka ekki gildi fyrr en Bretar og Hollendingar hafa samþykkt fyrirvarana sem Alþingi setti við þrælasamninginn.

Talsmaður þrælapískaranna er svo forstokkaður, að hann segir:  "Hollensk stjórnvöld hafa ekki sett tímamörk fyrir svör íslenskra stjórnvalda en vænta þess að fá svör eins fljótt og auðið er."

Íslensk stjórnvöld skulda þessum þrælahöldurum engin svör.  Alþingi er búið að senda þeim lokasvar í þessu máli.  Sætti þeir sig ekki við þau svör, eiga þeir að segja það hreinskilningslega og þá fer málið sína leið og endar væntanlega fyrir íslenskum dómstólum.

Ríkisstjórn Íslands er orðin svo blóðrisa á bakinu, eftir þessa pískara, að ætli hún að láta þá berja sig með svipunum áfram, verður hún að girða niður um sig og bjóða einu húðina, sem ekki er ennþá flögnuð af henni.

Það verður hápunktur niðurlægingar hennar og ætti að senda Svavar Gestsson með beran bossann til húsbænda sinna til flengingar, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

 

 

 


mbl.is Hollendingar bjartsýnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar kennir öðrum þjóðum

Klappstýra útrásarvíkinganna, Ólafur Ragnar (á Bessastöðum, ekki sá á Fangavaktinni) er lagstur í víking vestur um haf, til að kenna öðrum þjóðum viðskiptafræði og fleiri námsgreinar, sem hann er sjálfskipaður sérfræðingur í.

Sérstaka athygli vekur þessi klausa úr fréttinni:  "Einnig hefur Ólafur Ragnar þegið boð Louise Blouin stofnunarinnar um að flytja lokaræðuna á alþjóðlegu málþingi um lærdómana sem draga má af fjármálakreppunni og hvernig hægt er að byggja upp hagsæld að nýju á traustan og öruggan hátt."

Hérlendis hefur hvergi sést eða heyrst eitt einasta orð frá Ólafi Ragnari, um það hvaða lærdóma hann hefur dregið af fjármálakreppunni, né hvernig best sé að byggja upp aftur eða efla traust eftir kreppuna, hvað þá hvernig hann ætlar að endurvinna traust á sjálfum sér hjá meira en 1% þjóðarinnar.

Ólafur Ragnar mun væntanlega koma sér í fjölmiðla hérlendis með boðskapinn, þegar hann kemur úr vesturvíkingi. 

Og ekki mun vanta orðskrúðið og mærðina.

 


mbl.is Forsetahjónin í Bandaríkjaheimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðruvísi tekið á málum hjá Svíum

Öll lönd á vesturlöndum stríða nú við afleiðingar heimskreppunnar og í flestum löndum, öðrum en Íslandi, er lögð mest áhersla á, að efla atvinnulífið og minnka atvinnuleysi.  Íslenska ríkisstjórnin sker niður allar verklegar framkvæmdir til þess að þurfa ekki að spara eins mikið í rekstrinum og gerir heldur ekkert til að koma á eðlilegu ástandi á almennum vinnumarkaði.

Vinstri stjórnin á Íslandi kann engin önnur úrræði, en að hækka alla skatta í drep og finna upp nýja tekjustofna fyrir ríkið, en kafar auðvitað dýpra og dýpra ofan í vasa almennings, sem varla gengur lengur með nokkurn vasa órifinn.

Í Svíþjóð er brugðist þveröfugt við ástandinu, eða eins og segir í lok fréttarinnar:  "Fyrirhugað er samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að verja 32 milljörðum sænskra króna, jafnvirði um 575 milljörðum íslenskra króna, á árinu 2010 í aðgerðir til að auka atvinnu og til að örva efnahagslífið. Þar í eru 10 milljarða sænskra króna lækkun á tekjusköttum, sem fjármálaráðherrann segir að eigi að stuðla að því að fólk vilji frekar vinna meira. Árið eftir er gert ráð fyrir 24 milljörðum sænskra króna til að skapa atvinnu og örva efnahagslífið."

Mikið væri nú gott, ef örlaði á þessari hugsun hjá hinni skattaóðu íslensku ríkisstjórn.


mbl.is Fjárlagafrumvarp gegn atvinnuleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattahækkanir koma ekki á óvart

Nú eru boðaðar miklar skattahækkanir á næsta ári, þegar hæfilegur tími er liðinn frá síðustu hækkunum, sem skiluðu ríkissjóði tuttugu milljörðum á þessu ári og tvöfaldri þeirri upphæð á næsta ári.  Næsta ár verður enn bætt í og allir skattar, sem mögulegt verður að hækka verða stórhækkaðir.

Það undarlega er, að þessar skattahækkanir skuli koma nokkrum einasta manni á óvart, því alltaf hefur verið vitað, að vinstri stjórnir eru ekki bara skattaglaðar, heldur hreinlega skattaóðar.

Strax í vor, eða þann 21. apríl s.l. var þetta blogg skrifað og þar sett fram ákveðin spá, um þá skatta, sem vinstri stjórnin myndi hækka, kæmist hún til áframhaldandi valda eftir kosningar.

Allt sem þar var spáð, hefur þegar komið fram, eða er að koma í ljós þessa dagana.  Meira að segja hefur Steingrímur J. upplýst, að nú sé verið að leita leiða til að finna nýja skattstofna.  Í blogginu frá 21/04 var sagt:  "Fyrir utan það sem hér hefur verið talið hafa vinstri flokkar endalaust hugmyndaflug við að finna nýja "skattstofna" og munu þeir leita logandi ljósi að nýjum sköttum til að leggja á "breiðu bökin" í nafni jöfnuðar og réttlætis."

Því miður ætlar þetta allt að ganga eftir og það fyrr en menn ætla.


mbl.is Miklar skattahækkanir í farvatninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll segir aðeins hálfa söguna - eins og vanalega

Árni Páll, félagsmálaráðherra, sem á það eina markmið í stjórnmálum, að koma Íslandi inn í ESB, með góðu eða illu, hefur á sínum ráðherraferli ekki komið með eina einustu tillögu, hvorki til úrbóta, eða annars, á vandamálum þjóðfélagsins, heldur hefur hann komið með alls kyns yfirlýsingar, sem hann hefur svo dregið til baka og verið að hörfa úr einu víginu í annað, undan kröfum skuldsettra heimila um einhverskonar aðgerðir til aðstoðar.

Nú kemur hann með þessa yfirlýsingu:  "Það kemur ekki til greina að skerða atvinnuleysisbætur og álögur á atvinnurekendur verða ekki auknar, þar sem atvinnulífið ber það ekki sagði Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra í fréttum RÚV í dag en allt útlit er fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður tæmist um mitt næsta ár. Ríkissjóður verði að koma til móts við sjóðinn með framlögum og þá vonast Árni Páll til að hægt verði að draga úr atvinnuleysi á næsta ári."

Árni Páll ætti að vita, þar sem hann er ráðherra, að ríkissjóður er galtómur og væntanlega er Árni Páll, eins og aðrir ráðherrar, á fullri ferð að móta niðurskurðartillögur uppá tugi milljarða króna ásamt því að móta hækkanir á öllum sköttum sem fyrir eru og að finna upp alls kyns nýja skatta, til þess að klóra saman fjárlög fyrir næsta ár.

Það sem er rétt hjá Árna Páli er, að atvinnulífið ber ekki auknar álögur, en hvaðan ætlar Árni Páll að fá fjármagn í ríkissjóð til þess að standa undir framlögum í Atvinnuleysistryggingasjóð?

Auðvitað svarar hann því ekki, en peningar í ríkissjóð koma ekki frá neinum öðrum en skattgreiðendum.  Hann er því að boða aukaskattahækkanir í þessum tilgangi á almenning í landinu.

Árni Páll er ekki betri sögumaður en svo, að hann segir fólki einungis hálfa söguna.


mbl.is Ríkið komi til móts við sjóðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baktjaldamakk Ögmundar

Allir hljóta að muna eftir látunum, þegar fyrrverandi heilbrigðisráðherra vildi loka skurðdeildum á St. Jósefsspítala og flytja starfsemina í Reykjanesbæ, en þar eru nýlegar, en ónýttar skurðstofur.  St. Jósefsspítala átti síðan að nota sem öldrunardeild, en þær skortir tilfinnanlega nú um stundir.

Gífurleg mótmæli voru uppskrúfuð af þessu tilefni og manna harðast gekk fram í gagnrýninni þáverandi óbreyttur þingmaðu og formaður BSRB, en núverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson og sagði þetta kolranga stefnu og að í allar breytingar yrði að fara með samráði við starfsfólk.  Eftir að hann settist í ráðherrastól, var hans fyrsta verk, að afturkalla þessar ráðstafanir forvera síns í starfi og boðaði nýja tíma í heilbrigðisþjónustunni.

Nú stendur Ögmundur blóðugur upp fyrir axlir í niðurskurði heilbrigðiskerfisins og kemur tvískinnungur hans best fram í lokaorðum fréttarinnar:  "„Síðast þegar leggja átti niður starfsemi St. Jósefsspítala lofaði heilbrigðisráðherra víðtæku samráði og óskertri þjónustu. Nú virðist hins vegar vera ætlunin að leggja starfsemina niður hægt og hljótt,“ segir Sigurjón Vilbergsson, sérfræðingur í lyflæknisfræði og meltingarsjúkdómum við St. Jósefsspítala."

Ráðherrarnir, sem boðuðu opna og gegnsæja stjórnsýslu, skilja þennan frasa alls ekki sjálfir, enda hefur aldrei viðgengist annað eins pukur í stjórnsýslunni og hefur verið á valdatíma þessarar ríkisstjórnar.


mbl.is St. Jósefsspítala lokað hægt og hljótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlit fyrir skertar bætur

Nýlega var tryggingagjald, sem er í raun launaskattur, sem lagður er á atvinnureksturinn í landinu, nánast tvöfaldað, en það mun eftir sem áður ekki geta staðið undir nema rúmlega helmingi áætlaðra atvinnuleysisbóta á næsta ári.

Ótrúlegt er að ríkisstjórnin láti sér detta í hug, að hækka gjaldið meira, þó skattaóð sé, og ef ekki tekst að útvega lán fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð, stefnir í mikið óefni, þar sem ríkissjóður mun ekki verða aflögufær til þess að leggja sjóðnum til fjármuni.

Eina raunverulega ráðið til að vinna bug á þessum vanda, er að koma atvinnulífinu í fullan gang og minnka þar með atvinnuleysið.  Ríkisstjórnin hefur ekkert gert í þessa veru, þvert á móti hefur hún dregið lappirnar og þvælst fyrir, eins og hún er megnug till, öllum aðgerðum til þess að koma af stað virkjanaframkvæmdum og stóriðjuuppbyggingu, sem þó væri fljótlegasta aðgerðin til að koma skriði á atvinnulífið.

Sennilega mun þessi ráðalausa ríkisstjórn grípa til fljótlegustu og auðveldustu leiðarinnar til að leysa vanda Atvinnuleysistryggingasjóðs og það er að stórlækka atvinnuleysisbætur.


mbl.is Atvinnuleysistryggingasjóður að tæmast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppan er ekki stjórnmálamönnum að kenna

Geir Haarde segir í sænskum viðtalsþætti að breyta hefði evrópskum reglum um bankana og sér eftir því að hafa ekki beitt sér fyrir því, ásamt því að efla hefði þurft Fjármálaeftirlitið.  Þetta er alveg rétt hjá Geir, en hinsvegar sogðai bankakerfið til sín allt besta og reyndasta fólkið frá Fjármálaeftirlitinu, með launayfirboðum og einnig hefur komið fram frá starfsmönnum eftirlitsins, að þegar þeir komu í bankana til að gera athugasemdir, þá tók á móti þeim her lögmanna, endurskoðenda og hagfræðinga, sem "jörðuðu" allar athugasemdir.

Enginn stjórnmálamaður gat séð hrunið fyrir, hvað þá alla þá spillingu, sem þreifst innan bankakerfisins og milli bankanna og útrásarmógúlanna.  Sá svikavefur varð auðvitað bankakerfinu að falli, þegar lokaðist fyrir þau erlendu lán, sem bankamennirnir notuðu til að keyra svikamylluna.

Mikill áróður hefur verið rekinn um allt þjóðfélagið, ekki síst á blogginu, að allt hrunið sé stjórnmálamönnum, sérstaklega Sjálfstæðismönnum,  að kenna, en upp á síðkastið er fólk farið að sjá og skilja, að svo er auðvitað alls ekki, heldur er um að kenna heimskreppunni og henni til viðbótar bætist svo hið ótrúlega Matadorspil, sem spilað var af banka- og útrásarmógúlum.

Eftir því sem menn gera sér betri grein fyrir þessu, eykst fylgi Sjálfstæðisflokksins, eins og sést nú í hverri skoðanakönnunninni á eftir annarri.


mbl.is Hefðu átt að minnka umsvifin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jibbí jei og jibbí jei, það er kominn September

Þjóðinni hlýtur að hafa létt ótrúlega mikið, við þá yfirlýsingu Steingríms J., að það væri kominn September.  Það bendir til þess, að hann sé þá búinn að átta sig á því, að þjóðin er búin að bíða frá því í Febrúar, eftir því að ríkisstjórnin kæmi með efnahagsaðgerðir, sem dygðu til að koma efnahagslífinu í gang, að ekki sé talað um raunhæfar aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.

Annað sem er athyglisvert, er að Steingrímur segir að stjórnarandstaðan hefði átt að sofa á höfnun Breta og Hollendinga á fyirivörnunum við ríkisábyrgð á Icesaveskuldum Landsbankans, en sjálfur sagði hann og Jóhanna reyndar líka, í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi, að vonandi yrði hægt að ganga frá málinu á morgun, sem sagt í dag.  Nú segir sami Steingrímur, að málið muni þurfa að fara aftur til afgreiðslu á Alþingi, sem ekki kemur saman fyrr en í Október.

Vonandi er Steingrímur með það á hreinu, að Október kemur næstur á eftir September.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær, að ríkisstjórnin virðist vera að vakna af Þyrnirósarsvefninum.


mbl.is Það er kominn september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi fella Írar

Bundesrat, efri deild þýska þingsins hefur nú samþykkt lög, sem heimila staðfestingu Lissabonsáttmálans.  Tímasetningin er engin tilviljun, því hún er hugsuð til að setja pressu á almenning í Írlandi fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna þar í landi þann 2. október.

Írar hafa áður hafnað sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu og nú eru úrslit tvísýn, samkvæmt skoðanakönnunum og því er öllu til tjaldað, til þess að reyna að tryggja samþykki sáttmálans í þjóðaratkvæðagreiðslunni nú.

Írum hefur verið lofað nokkrum undanþágum frá sáttmálanum, t.d. varðandi fóstureyðingar og nú hefur öll ESB maskínan verið virkjuð í áróðrinum á Írlandi, en vonandi láta Írar ekki snúa sér í þessu máli.

Það yrði tímamótasigur í baráttunni gegn sambandsríki ESB, ef Írar felldu sáttmálann.


mbl.is Staðfestu Lissabon-sáttmálann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband