Bretar og Hollendingar sveifla þrælapískinum

Nú er komið í ljós, að Bretar og Hollendingar hafna fyrirvörum Alþingis um ríkisábyrgð á Icesaveskuldum Landsbankans og það er eins og við manninn mælt, að hin þreytuhokna Jóhanna og umskiptingurinn Steingrímur snúa strax svipubörðum afturenda sínum að þrælahöfðingjunum og nánast grátbiðja um að fá að ganga svipugöngin aftur.

Undirlægjuháttur Steingríms í málinu er nánast óskiljanlegur, en ræfildómur Jóhönnu kemur ekki á óvart, enda lítur hún á Icesavesamninginn sem aðgöngumiða að ESB og til þess að komast þangað inn, er Jóhanna og Samfylkingin tilbúin að fórna hvaða hagsmunum þjóðarinnar sem er.

Ríkisábyrgðin með þeim fyrirvörum, sem Alþingi setti fyrir henni, var afgreidd, illu heilli fyrir þjóðina, sem lög frá Alþingi og því ber ríkisstjórninni að fara eftir þeim lögum, en ekki í kringum þau.  Því er ályktun þingflokks Sjálfstæðisflokksins afgerandi, en hún er svona: 

„Höfnun Breta og Hollendinga á þeim fyrirvörum sem Alþingi samþykkti í lok ágúst við Icesavesamningana, felur í sér að ríkisábyrgð vegna skuldbindinganna tekur ekki gildi.

 

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins telur að ekki komi til greina að hverfa frá þeim fyrirvörum sem Alþingi samþykkti vegna ríkisábyrgðarinnar.

 

Ríkisstjórn Íslands hefur ekki heimild til að víkja frá þeim skýru fyrirvörum sem gildandi lög kveða á um.”

Málið er í raun einfalt, annaðhvort samþykkja þrælahöfðingjarnir fyrirvarana eða ekki.  Geri þeir það ekki, tekur ríkisábyrgðin ekki gildi og samningurinn þar með ónýtur. 

Þá þarf að setja saman alvörunefnd til að koma Bretum og Hollendingum í skilning um að þessar skuldir séu ekki á ábyrgð íslensku þjóðarinnar, samkvæmt tilskipun ESB.


mbl.is Ríkisábyrgð tekur ekki gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirvarar við fyrirvarana?

Í anda opinnar og gagnsærrar stjórnsýslu, hefur Indriði H. Þorláksson, Icesavesamningasnillingur, kynnt í trúnaði, að hann hafi átt trúnaðarsamtöl við Breta og Hollendinga um fyrirvarana sem Alþingi gerði við snilldarsamning Indriða og Svavars um Icesave.  Í framhaldi af því ætlar Indriði að kynna forystumönnum flokkanna og þingnefndum afstöðu þrælapískaranna, auðvitað í algerum trúnaði.

„Í þessum samtölum hafa komið fram af hálfu Breta og Hollendinga, óformlega og í trúnaði, hugmyndir um hvernig þeir hugsa sér að þeir geti staðið að því að samþykkja fyrirvarana. Það er verið að kynna það fyrir stjórnvöldum hér,“ segir Indriði.

Í samningi Indriða við þrælahöfðingjana kemur fram, að breytingar, sem gerðar verði á samningnum skuli vera skriflegar og undirritaðar af beggja hálfu.  Þannig hljóta Bretar og Hollendingar að eiga að samþykkja fyrirvarana, sem sagt einfaldlega með undirskrift sinni.  Því er einkennilegt að Indriði skuli þurfa að eiga marga leynifundi með þeim um það, hvernig þeir geti staðið að því að samþykkja fyrirvarana.

Varla getur Indriði verið að semja, leynilega, um það, að Bretar og Hollendingar geri leynilega fyrirvara við fyrirvarana.  Auðvitað má eiga von á hverju sem er frá samningasnillingnum.

Einhver hefði getað látið sér detta í hug, að senda annan snilling en Indriða til þessara leynilegu viðræðna, enda vandséð hvernig hann, sem höfundur Icesave þrælasamningsins, gæti verið góður kostur til þess að útskýra fyrir þrælahöfðingjunum, af hverju Alþingi féllst ekki skilyrðislaust á snilldarsamninginn, sem Indriði var óþreytandi að dásama fyrir íslensku þjóðinni.

Án þess að nokkru leyndarmáli sé uppljóstrað, er óhætt að segja að það sé margt skrýtið í kýrhausnum.


mbl.is Hugmyndir Breta og Hollendinga kynntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungverjar kaupa hitaveitur á Íslandi.

Ef fyrirsögnin hér að ofan myndi einhvern tíma birtast í íslenskum fjölmiðlum, yrði allt brjálað á Íslandi, bloggheimar færu á hvolf, útifundir yrðu haldnir á Austurvelli og borgarfulltrúar, jafnt sem Alþingismenn væntanlega gerðir útlægir úr landinu.

Þegar Íslendingar fjárfesta í orkuiðnaði erlendis og gengur svo vel, að þeir græða á verkefninu, jafnvel milljarða, þá eru Íslendingar stoltir af sínum mönnum og finnst ekkert sjálfsagðara en þeir eigi og reki hitaveitur um allar heimsins jarðir.  Þegar útlendingar fjárfesta í íslenskum orkuiðnaði, verður allt vitlaust, af því að hætta er á því að helv....... útlendingarnir séu að því til þess að græða á sauðsvörtum almúganum hérlendis.

Sama gildir í raun um allan annan atvinnurekstur, öllum finnst sjálfsagt að Íslendingar geti keypt hvaða atvinnurekstur sem þeim sýnist erlendis og því meira sem þeir græða, því betra.  Jafn sjálfsagt finnst mörgum að berjast með kjafti og klóm, gegn hvers konar erlendri fjárfestingu á Íslandi.

Er þetta ekki einhver brenglun í þjóðarsálinni?


mbl.is Mannvit í milljarða útrás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldbreytingar

Einstaklingum á vanskilaskrá fjölgar hratt, en ekki kemur fram, vegna hvaða skulda fólk er að lenda á skránni.  Í allri umfjöllun um skuldavandann þyrfti að greina vanskilin betur, þ.e, eru vanskilin vegna húsnæðisskulda, hve mikið vegna verðtryggðra lána og hvað mikið gengistryggt, eða eru vanskilin vegna bílalána, hjólhýsakaupa, húsgagnakaupa o.s.frv.  Ef á að fara út í einhverjar skuldaniðurfellingar verða þessar upplýsingar að liggja fyrir, því varla verður ætlast til að fólki verði bjargað út af vanskilaskrá vegna annars en íbúðaskulda.

Ein aðferð, sem kemur upp í hugann, gæti verið að breyta gengistryggðum lánum yfir í verðtryggð lán í íslenskum krónum frá útgáfudegi, uppreikna þau og gjalddaga þeirra, eins og um verðtryggð lán hefði verið að ræða og leiðrétta áfallnar afborganir.  Eftir svona lánabreytingu stæðu allir húsnæðiskaupendur jafnir og því yrði mun auðveldara að móta almennar tillögur til lánabreytinga.

Með því að gera öll lán að verðtryggðum íslenskum lánum, væri hægt að breyta afborgunaraðferð þannig að mismunur á vísitölubreyting frá t.d. 1. júlí 2008 til 1. júlí 2009 yrði fryst þannig, að hún yrði færð aftur fyrir upphaflegan lánstíma og lengt í lánum sem því næmi.  Þetta yrði almenn aðgerð og engum mismunað.  Með þessu móti þyrftu lánveitendur ekki að afskrifa skuldirnar, en lengja lánstímann í staðinn og skuldabyrði lántakanda yrði léttari en nú er.

Hvað svo sem gert verður í þessum lánamálum, hlýtur jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar að gilda og fólki verði ekki mismunað með fyrirhuguðum aðgerðum.


mbl.is Vanskil aukast hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnusöm en án trausts

Í öllum könnunum um traust á stjórnmálamönnum hefur forsætisráðherra á hverjum tíma nánast undantekningalaust verið efstur og oftast verið einnig efstur á óvinsældalistanum.  Aðrir ráðherrar hafa  svo komið í næstu sætum, á báðum listum og stjórnarandstæðingar þar fyrir neðan, en ofarlega í vantraustsmælingunni.

Jóhanna, meintur forsætisráðherra, nýtur lítils trausts og hefur hrapað niður vinsældalistann um tugi prósenta frá síðustu könnun.  Það er nokkuð merkilegt, ekki síst vegna þess að hún er óþreytandi að lýsa því fyrir þjóðinni að hún vinni daga og nætur, aldrei unnið að erfiðari verkefnum og sé alltaf dauðþreytt,  svo þreytt, að hún getur varla talað og alls ekki rætt við fréttamenn og þá alls ekki erlenda fréttamenn, jafnvel þó þeir tali íslensku.

Það er varla von, að þjóðin beri mikið traust til svona aðframkomins forsætisráðherra, sem vinnur og vinnur, að eigin sögn, en afkastar litlu, sem engu.

Það er greinilega ekki nóg að vera vinnusamur, að eigin áliti, ef afraksturinn er lítill sem enginn.

 


mbl.is Steingrímur nýtur mest trausts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn jákvæðar fréttir úr Reykjanesbæ

Í gær var gengið frá sölu á hlutabréfum OR til Magma Energy, þannig að líkur eru á því að friður skapist um það fyrirtæki og orkuvinnsla getur vonandi farið á fullt skrið fyrir nýtt álver Norðuáls í Helguvík.

Nú birtist frétt að því að Þróunarfélag Keflavíkurflugvalla og Iceland Health ehf. hafi undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu heilsutendrar starfsemi á Ásbrú í Reykjanesbæ, auk samnings um nýtingu íbúða á svæðinu. 

Gangi þessar áætlanir eftir, mun þetta skapa fjölda starfa fyrir lækna, hjúkrunarlið og annað starfsfólk, sem sjúkrahúsarekstri tilheyrir, því hér er um að ræða stofnun sjúkrahúss, sem myndi annast sérhæfðar skurðaðgerðir og aðgerðir vegna offitu.

Sjúkrahúsið og ferðaþjónusta tengd því, mun því, ef af verður, verða mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum, ekki síður en álverið í Helguvík.

Vonandi bregður heilbrigðisráðherra ekki fæti fyrir þessar áætlanir um sjúkrahúsið, og vonandi flækist ríkisstjórnin ekki fyrir uppbyggingunni í Helguvík.

 

 


mbl.is Uppbygging á heilsusjúkrahúsi í Reykjanesbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesaveglýja í augum Guernseyinga

Nú hefur eitthvert æði gripið viðskiptavini Landsbankans á Guernsey, því nú hóta þeir að fara í mál við Íslenska ríkið og krefjast sömu afgreiðslu af hálfu Íslendinga og Bretar og Hollendingar fengu.

Guernsey er undir stjórn Breta og því óskiljanlegt, að þeir skuli ekki snúa sér beint til höfðingjanna í London, sem sjálfsgt væru meira en tilbúnir til þess að aðstoða þá, við að leggja frekara helsi á þræla sína á Íslandi, en að vísu yrðu Guernseyingar að bíða í svona 15 ár á meðan þrælkunarvinnunni stendur fyrir Hollendinga og Breta, enda urðu þeir fyrri til, með efnahagsstyrjöld sína gegn Íslandi.

Líklegt verður þó, að telja, að Guernseyingar hafi lítið upp úr herför gegn Íslendingum, því eftir því sem best er vitað, var Landsbankinn á Guernsey ekki útibú frá Reykjavík, heldur sjálfstæður banki og því alls ekki íslenskur banki.

Dálítið furðulegt er að skiptastjórar bankans, virt endurskoðunarfyrirtæki, Deloitte, skuli ekki gera greinarmun á íslensku útibúi og sjálfstæðum banka á Guernsey. 

Líklega er skýringin sú, að því lengur, sem þeir þvæla málin, því hærri greiðslur munu þeir fá fyrir ómak sitt.


mbl.is Hóta að höfða mál gegn íslenska ríkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rugl að afnema vísitölutengingu lána

Ef ríkisstjórnin nær einhverntíma tökum á efnahagsmálunum mun verðbólgan hjaðna og svo gæti farið að verðhjöðnun yrði einhverja mánuði.  Ef það gerðist myndi höfuðstóll verðtryggðra lána lækka, en óverðtryggð lán yrðu áfram með sína föstu vexti, sem í öllum tilfellum eru hærri en verðbólgustigið.

Alltaf koma upp einhverjar sveiflur í efnahagslífinu, þannig að tímabundnar sveiflur koma milli launahækkana og neysluverðsvísitölunnar, en til lengri tíma litið og með eðlilegum stjórnarháttum hækka laun meira en vísitalan.

Ef skoðuð eru síðustu tuttugu ár, lítur dæmið svona út:

                                                         Launavísitala:                      Vísitala neysluverðs:

Júní 1989                                                      106,3                                             125,9

Júní 2009                                                      356,7                                             344,5

Hækkun í prósentum                                   235,56%                                      173,63%

Á þessum tuttugu árum hefur launavísitalan hækkað rúmlega 60% meira en vísitala neysluverðs, sem notuð er til verðtryggingar á lánum.  Þannig hefur greiðslubyrði þess, sem tók húsnæðislán árið 1989 minnkað, miðað við laun, á þessum tuttugu árum, fyrir utan að húsnæðisverð hefur einnig hækkað meira en vísitala neysluverðs.  Því hafa íbúðaeigendur "grætt" stórkostlega á þessu tímabili  og það vitlausasta, sem hægt er að gera, er að berjast gegn verðtryggingunni.

Greiðlubyrði af lánum með föstum vöxtum, sem auðvitað hefðu alltaf verið hærri en verðbólga, hefði orðið meiri en af verðtryggðu láni og eignamyndun minni.

Lýðskrum óprúttinna pólitíkusa og annarra, um skaðsemi vísitölutengingar lána eiga menn að láta sem vind um eyru þjóta.  Annað hvort segja þeir viljandi ósatt, eða hafa ekki kynnt sér málið.

 

 


mbl.is Ræða minnkað vægi verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins alvöru skiptastjóri

Nú lítur út fyrir, flestum að óvörum, að skiptastjóri í einu þrotabúa útrásarvíkinganna, ætli að standa í stykkinu og taka hlutverk sitt alvarlega. Þetta er bústjóri í þrotabúi Baugs, en hann virðist ætla að rifta helstu falsgerningum Jóns Ásgeirs í aðdraganda hrunsins í fyrrahaust.

Hann ætlar að fá rift ýmsum eigntilfærslum úr þrotabúinu, svo sem "sölu" á skíðahöll  í Frakklandi, lúxusíbúðum í New York og London og ekki síst gerfisölunni á Högum, sem rekur Hagkaup, Bónus 10-11, Debenhams og fleiri og fleiri verslanir.  

Þetta eru stórtíðindi og ef þetta gengur eftir, er þetta fyrsta vísbendingin um að réttlætið nái fram að ganga í uppgjörum við útrásarmógúlana.

Vonandi koma einhverjar jákvæðar fréttir fljótlega frá Sérstökum saksóknara.

 


mbl.is Samningi um sölu Haga rift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farsæl og góð niðurstaða

Borgarstjórn Reykjavíkur hefur nú staðfest samninginn um sölu hlutabréfa OR í HS orku til Magma Energy og verður sú farsæla og góða niðurstaða væntanlega til þess, að HS orka fær nú frið til uppbyggingar og frekari virkjanaframkvæmda á Reykjanesi.  Til þess þarf tugmilljarða erlent lánsfé, sem Magma Energy hefur skuldbundið sig til þess að útvega til framkvæmdanna og vonandi veður hafist handa sem allra fyrst.

Fyrir nokkrum dögum var kynnt sú gleðifrétt, að Norðuál hefði náð samningum við þrjá erlenda banka um fjármögnun álvers í Helguvík og þegar nú bætist við, að útlit sé fyrir að tryggt sé að fjármagn fáist til frekari rafmagnsframleiðslu í nágrenninu, verður vonandi ekki langt þangað til framkvæmdir komist í fullan gang og skapi hundruð starfa á byggingartíma virkjananna og álversins.

Alltaf er ákveðinn hópur fólks, sem sér drauga í hverju horni, þegar rætt er um atvinnuuppbyggingu, ekki síst ef erlendir aðilar tengjast henni á einhvern hátt, en það er einmitt erlent áhættufé, sem mest þörf er fyrir í landinu um þessar mundir.

Þeir sem öskruðu, æptu og gerðu sig að fíflum á áheyrendapöllum borgarstjórnar, þurfa sjálfir að taka til sín, flest af þeim svívirðingum, sem þeir frussuðu framan í borgarfulltrúana, t.d. þetta:  „Djöfull megiði vera stolt af því sem þið hafið gert í dag."


mbl.is Sala í HS Orku samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband