23.9.2009 | 14:56
Fjármála(ó)læsi
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, kvartar undan því að ekkert bóli á ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar til aðstoðar atvinnulífinu og heimilunum í landinu. Fram kemur í fréttinni, að: "Andrés segist hafa þær upplýsingar frá bankakerfinu að á milli 70-80% fyrirtækja hérlendis séu með erlend lán, sem séu bundin við svissneska franka og japönsk jen. Hann segir að staðan sé góð hjá um þriðjungi fyrirtækjanna, sem hafi ekki tekið slík lán. Þriðjungur fyrirtækjanna sé hins vegar á leiðinni í þrot. Þarna mitt á milli sé síðasti þriðjungurinn, og nú reyni bankarnir að koma þeim til aðstoðar."
Undanfarið hefur talsvert verið rætt um nauðsyn þess að taka upp kennslu í fjármálalæsi í skólum landsins og er örugglega ekki vanþörf á því, miðað við fréttirnar af því hve mörg heimili eru með erlend húsnæðis- og bílalán. Ekki minni athygli vekur að aðeins þriðjungur fyrirtækja hafi ekki tekið erlend lán, því reikna hefði mátt með, að fjármálum fyrirtækjanna, a.m.k. stærri fyrirtækja, væru menn við stjórnvölinn, sem væru sæmilega fjármálalæsir.
Fyrst staðan er slík, að fjöldi einstaklinga og atvinnurekenda tekur þá áhættu að taka sín lán í erlendum gjaldeyri, þrátt fyrir að tekjurnar séu í íslenskum krónum, þá er auðvitað ekki von á góðu.
Það er hins vegar eintómur pilsfatakapítalismi, að grenja á ríkið til að bjarga sér út úr vitleysunni. Ástandið er greinilega svo slæmt, að ríkið ræður ekkert við það, og allt útlit er orðið fyrir nýja efnahagskollsteypu á næsta ári.
Frá þeim botni, getur leiðin aðeins legið upp á við.
![]() |
Uppgjöf meðal atvinnurekenda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2009 | 11:24
Olíumálaráðherrann verkefnalaus
Össur Skarphéðinsson, grínisti, lét í fyrravetur eins og olía af Drekasvæðinu myndi koma Íslandi út úr kreppunni á undraskömmum tíma, enda var hann farinn að skreyta sig með titlinum "olíumálaráðherra" á sinn venjulega digurbarkalega hátt.
Eingöngu þjónusta við leitarfyrirtækin átti að skapa gífurlega vinnu á norðausturhorni landsins, en þar hefur atvinnulífið verið að drabbast niður á undanförnum árum og því var yfirlýsingum Össurar fagnað á þeim slóðum, a.m.k. hjá þeim sem trúðu grínistanum, eða vildu trúa honum.
Nú kemur í ljós, að eini aðilinn sem sótti um rannsóknarleyfi á Drekasvæinu hefur hætt við og engum leyfum verður því úthlutað á næstunni.
Strauss-Khan, æðstiprestur AGS, hefur áreiðanlega haft gaman að bröndurum Össurar, en þeir munu hafa skipst á gamansögum í New York á dögunum, en víst er að austfirðingum er ekki skemmt núna, þegar þeir sjá efndir á atvinnuloforðum olíumálaráðherrans.
Ríkisstjórnin talar sífellt um að finna eitthvað "annað" en álver og aðra stóriðju. Nú hlýtur olíumálaráðherrann að benda á "annað" til uppbyggingar á norð-austurhorni landsins.
![]() |
Engin sérleyfi á Drekasvæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2009 | 09:24
Ótrúleg skuldaflækja
Jón Ásgeir Jóhannesson, raðskuldari, hefur sagt að fyrirtækið 1998 ehf. hafi keypt Haga út úr Baugi, rétt fyrir gjaldþrot Baugs, á 45 milljarða króna, yfirtekið 15 milljarða skuldir og 30 milljarðar hafi verið greiddir í beinhörðum peningum. Í ljósi þess að fyrirtæki Jóns Ásgeirs voru komin í greiðsluvandræði strax um áramótin 2007/2008, er óútskýrt af hvaða bankareikningi þessir 30 milljarðar eiga að hafa komið.
Allt um það, en sama dag og 1998 ehf. keypti Haga, var það félag veðsett upp í topp og tekni nýjir 30 milljarðar að láni hjá Kaupþingi, eingöngu með veði í hlutabréfum Haga, og án nokkurra persónulegra ábyrgða Jóns Ásgeirs, enda hefur hann marglýst því fyrir þjóðinni, að hún þurfi ekki að hafa áhyggjur af sér, þar sem hann flæki sig aldrei persónulega í neinar skuldir.
Hvað skyldi svo einkahlutafélagið 1998 ehf. hafa gert við þettaa splunkunýja 30 milljarða króna lán? Jú, aurarnir voru notaðir til þess að greiða skuldir Gaums við Kaupþing og Glitni og 15 milljarðar endurlánaðir til Baugs, til að kaupa hlutabréf í sjálfum sér, af aðilum tengdum Jóni Ásgeiri.
Þetta er sama leikfléttan og leikin hefur verið undanfarin ár, þ.e. eitt félag tekur lán, kaupir í öðru eða endurlánar, þangað til köngulóarvefurinn er orðin svo stór og flæktur víða um heim og allar þær skattaparadísir sem finnast, að mörg ár mun taka að rekja upp allan vefinn.
Þessir kappar eru ekki stóreignamenn, heldur raðskuldarar.
![]() |
Salan á Högum dró úr tjóni Kaupþings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.9.2009 | 08:29
Ósýnilegi maðurinn
Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, virðist telja að það sé hluti af forsætisráðherrastarfinu að vera í feluleik við almenning í landinu og fjölmiðla, ekki síst erlenda fjölmiðla. Hún telur sjálfa sig ámóta sýnilega og aðra forsætisráðherra, en virðist ekki skilja, að nú eru aðrir tímar í þjóðfélaginu og hlutverk forsætisráðherra á að vera að tala upp atvinnulífið og telja kjark í þjóðina og efla trú hennar á framtíðina.
Það er afar lýsandi fyrir afstöðu hennar, það sem fram kemur í fréttinni; "Það vakti athygli blaðamanns þegar hann bjó sig undir að taka viðtal við leiðtoga þjóðarinnar að starfsfólk hótelsins, Hilton Reykjavík Nordica, hafði ekki hugmynd um hvað stæði til. Óvissa ríkti um viðtalsstaðinn og gerðu blaðamenn um hríð ráð fyrir að ná tali af forsætis- og fjármálaráðherra í anddyri hótelsins. Þegar Jóhanna gekk inn í hótelið kom það henni í opna skjöldu að til stæði að efna til blaðamannafundar. Að fundinum loknum var heldur ekki gert ráð fyrir að blaðamenn þyrftu næði eða stað til að skrifa á netið."
Undirbúningurinn var ekki betri en þetta og hinn meinti forsætisráðherra ekki betur undirbúinn, þrátt fyrir að um morguninn hefði verið tilkynnt um blaðamannafund á Hilton síðdegis.
Það er ekki ofsagt, að kauðshátturinn er fastur fylgifiskur meints forsætisráðherra og vinnuflokks hennar.
![]() |
Ekkert síður sýnileg en forverar hennar í forsætisráðuneytinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2009 | 17:01
Án lausnar, en biðst ekki lausnar.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa boðað í langan tíma, að lausnir vegna vanda heimilanna í landinu séu innan seilingar og nú síðast boðaði Árni Páll, félagsmálaráðherra, að tillögur yrðu lagðar fram þann 24. september, eða eftir tvo daga.
Nú segir Jóhanna, meintur forsætisráðherra, að ýmsar aðgerðir séu til athugunar, en ekkert sé fast í hendi ennþá, en segir: "Hins vegar væri alveg ljóst að gripið yrði til aðgerða til handa heimilunum fyrir áramót. Á því væri enginn vafi."
Önnur og einfaldari mál vefjast hins vegar ekki fyrir ríkisstjórninni, eða eins og fram kemur í fréttinni: "Forsætisráðherra boðar jafnframt frekari skattahækkanir og hvers kyns álögur til að stoppa í það mikla gat sem hrunið hefur skilið eftir í fjárlögunum." Um skattaæði ríkisstjórnarinnar hefur oftar en einu sinni verið fjallað á þessu bloggi, og til að forðast endurtekningar, skal t.d. bent á þetta blogg hérna
Þau orð Jóhönnu, að hún hyggist halda áfram störfum út allt kjörtímabilið, verður að taka sem mjög alvarlega hótun.
![]() |
Lausn í Icesave í sjónmáli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2009 | 14:20
Þrælahöfðingjar forsmá Alþingi
Þjóðinni til áratuga þrælkunar og sjálfum sér til árhundraða smánar, gengu Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson í umboði ríkisstjórnarinnar frá "samningi" við Breta og Hollendinga um að skattgreiðendur á Íslandi skyldu taka að sér að greiða Icesave skuldir Landsbankans, og lofuðu ríkisábyrgð, sem alls ekki var gert ráð fyrir í tilskipun ESB um innistæðutryggingasjóði.
Alþingi reyndi að sníða þennan þrælasamning að hugsanlegri greiðslugetu þjóðarbúsins á næstu fimmtán árum, með fyrirvörum við samninginn og skyldi ríkisábyrgðin ekki taka gildi, fyrr en Bretar og Hollendignar hefðu samþykkt þá, með undirskriftum sínum.
Eins og yfirgangsmanna er siður, hafa þrælapískararnir farið algerlega sínu fram í þessu máli og taka ekkert mark á vilja Alþingis. Ríkisstjórnin er svo mikil undirlægja, að hún reynir nú allt sem hún getur til þess að fara fram hjá samþykkt Alþingis og ganga að skilmálum húsbænda sinna í Bretlandi og Hollandi, sem beita ESB og AGS, sem stórskotaliði fyrir sig í þessari þjóðaránauð.
Það er ömurlegt að horfa upp á ríkisstjórnina skríðandi á hnjánum, með beran og blóðrisa bossann, undan svipuhöggunum.
![]() |
Sér ekki flöt á bráðabirgðalögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.9.2009 | 11:34
Rétt hjá Þorsteini Má
Íslenskar útgerðir hafa verið reknar á erlendum lánum, áratugum saman, bæði hafa þær tekið erlend lán til kaupa og smíði fiskiskipa, sem og afurða- og rekstrarlán. Þetta er afar eðlilegt hjá fyrirtækjum, sem afla tekna sinna að stórum hluta í erlendum gjaldeyri.
Það verður að teljast til stórtíðinda, að sjávarútvegsráðherra skuli ekki vera kunnugt um þetta, hvað þá ef hann veit ekki, að erlendir aðilar mega ekki eiga íslenskar útgerðir. Lán til útgerða og eignarhlutur í útgerð eru alls óskildir hlutir.
Þetta eru svo einfaldar staðreyndir, að málið væri ekki fréttnæmt, nema fyrir þvaðrið og vitleysuna í Jóni Bjarnasyni.
Lágmarkskrafa er, að ráðherrar hafi lágmarksþekkinu á sínum málaflokki og hlaupi ekki með eintóma þvælu í fjölmiðla.
![]() |
Segir um misskilning sé að ræða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.9.2009 | 08:26
Jóni Ásgeiri haldið til Haga
Það verður ekki á bankana logið í aðdraganda hrunsins í fyrrahaust. Alltaf er að koma betur og betur í ljós, hvers konar skollaleikur var leikinn milli banka- og útrásarmógúlanna. Nýjustu fréttir eru þær að við sölu Haga út úr Baugi, var andvirðinu, með smá hringekju, varið til að láta Baug kaupa hlutabréf í sjálfum sér til þess að losa Jón Ásgeir og frú við að tapa þeim í gjaldþroti Baugs.
Í fréttinni segir: "Kaupin á Högum voru fjármögnuð með láni frá Kaupþingi. Voru 15 milljarðar af söluverðinu síðan nýttir til þess að kaupa hlutabréf í Baugi Group af eigendum félagsins, þ.e. Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og tengdum aðilum eins og Gaumi, Gaumi Holding og félögum í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, sem greiddu síðan eigin skuldir við Kaupþing í staðinn." Hugmyndaflugið hefur verið frjótt hjá þessum görpum, enda allt gert til þess að bjarga þeirra eigin skinni, auðvitað á kostnað kröfuhafa.
Við þennan gjörning eignaðist Baugur 20% í sjálfum sér, sem er algerlega ólöglegt, en svoleiðis smámunir stóðu að sjálfsögðu ekki í vegi fyrir þessum tilfæringum. Allt til að reyna að bjarga andliti og einkabuddu Jóns Ásgeirs.
Ekki er að undra að eins klókur náungi og Jón Ásgeir, skuli skipaður í stjórnir fyrrum Baugsfyrirtækja í Bretlandi, sem nú eru í greiðslustöðvun og undir handarjaðri skilanefnda gömlu bankanna.
Jón Ásgeir er vonandi á góðum launum þar, svo hann geti "endurfjármagnað" heimilisbókhald sitt.
![]() |
Söluverð til kaupa bréfa af eigendum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2009 | 22:49
Betra en vænta mátti
Niðurstaða könnunar Capacent Gallup er betri en vænta hefði mátt, rétt tæpu eftir hrunið, sem varð meira hérlendis en víða erlendis, vegna bankahrunsins, sem önnur lönd urðu ekki fyrir. Mesta furða er að ekki þó meira en 18% aðspurðra skuli svara því til að endar nái ekki saman og annað sem athyglisvert er, er það að 45% svarenda skuli safna sparnaði.
Miðað við þessi svör, er ástandið hérlendis ekkert í líkingu við það, sem það er t.d. í Lettlandi, samkvæmt sjónvarpsfrétt um helgina, en þar er ástandið vægast sagt skelfilegt. Vonandi mun kreppan ekki leika íslendinga svo grátt, sem þar er orðið, m.a. búið að loka mörgum sjúkrahúsum og skólum og atvinnuleysistryggingasjóður þeirra að tæmast og munu atvinnulausir þar með hætta að fá bætur.
Niðurstaða í þá veru, að 75% séu hlynntir niðurfærslu lána er varla marktæk, því hver vill ekki losna við að greiða skuldirnar sínar og að 80% vilji afnema verðtryggingu er líka skiljanleg, þegar ekki er sagt hvaða vextir kæmu þá á lánin.
Samkvæmt þessari könnun er ástandið talsvert skárra, en umræðan hefur gefið til kynna undanfarið.
Því miður er hætta á að ástandið versni til muna, hætti ríkisstjórnin ekki að flækjast fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu, eða knýji fleiri í þrot með skattaæði.
![]() |
Ná ekki endum saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2009 | 17:32
Sýnishorn af því sem koma skal
Þrír sakbornignar í rannsókn Sérstaks saksóknara á "kaupum" emírsbróðurins frá Katar á 5% hlut í Kaupþingi eru byrjaðir að tefja rannsóknina, með málsskotum og athugasemdum til undir- og hæstaréttar á ýmsum þáttum rannsóknarinnar.
Þetta er velþekkt úr Bausmálinu fyrsta, þar sem lögmenn ákærðu í því máli teygðu og toguðu allar ákærur fyrir dómstólum árum saman og þvældu málin svo, að hvorki sækjendur eða dómarar skildu lengur upp eða niður í málinu, enda endaði það með frávísunum á flestum ákæruliðum, en sakfellingu í minniháttar tilfellum.
Nú er sama sagan að endurtaka sig í þessu máli, sem er aðeins einn smáangi af öllum banka- og útrásarmálum, sem í rannsókn eru og munu örugglega leiða til sakfellinga og fangelsisdóma, þegar upp verður staðið.
Enginn þarf hinsvegar að láta sér detta í hug, að dómar muni falla á næstunni. Miðað við fyrri framgang verjenda þessara skúrka, munu rannsóknir og málarekstur taka mörg ár, en vonandi mun samúð almennings ekki snúast á sveif með sakborningunum, eins og gerðist í Baugsmálinu fyrsta.
Vonandi verður þó einhverjum málum stefnt fyrir dómstólana á næstu vikum. Ekki veitir af að fara að byrja og ekki má hætta á að einhver mál fyrnist.
![]() |
Skýrslur vegna rannsóknar á Q Iceland Finance ekki afhentar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)