18.12.2009 | 16:46
Enginn smáaurabusiness
Dómstólar hafa nú, nánast samfellt í tíu ár, verið að fjalla um hin ýmsu mál, sem tengjast Gaumi, Baugi, Jóhannesi í Bónus, syni hans, dóttur, tengdadóttur og alls kyns félögum þeim tengdum, viðskiptum innbyrðis og í ótal hringi.
Öll eiga þessi mál það sammerkt að þau eru flókin, fjalla um gífurlegar upphæðir og verjendum málanna tekst ávallt að velta þeim og snúa í dómskerfinu árum saman, með þeim árangri að yfirleitt er aðeins dæmt í minni háttar öngum málanna, enda virðast dómarar hérlendis ekki botna upp eða niður í útrásarfjárglæfraviðskiptum.
Mál, sem nú er til meðferðar fyrir dómsstólum snýst um hvort eigendum Gaums takist að koma söluhagnaði af hlutabréfafærslum milli eigin félaga undan skattlagningu, en flækjan fólst í því, að reyna að lauma bréfunum inn í félag sem skráð er í einni skattaparadísinni.
Niðurlag fréttarinnar segir allt sem segja þarf, um hvernig útrásargarkarnir komu sér undan skattlagningu söluhagnaðar, eða eins og þar segir: "Gaumur hélt því fram að dótturfélag þess, Gaumur Holding AS, hefði í raun verið eigandi hlutabréfanna í Arcadia þegar þau voru lögð inn í A Holding. Héraðsdómur segir hins vegar, að gögn málsins sýni með fullnægjandi hætti að Gaumur hafi verið kaupandi hlutabréfanna í Arcadia en að hugmyndir hafi komið fram þegar liðið var á árið 2001 að það yrði skattalega hagstæðara að Gaumur Holding væri talinn eiga hlutabréfin þannig að ekki kæmi til skattgreiðslna á Íslandi þegar þau yrðu lögð inn í A Holding. Staðfesti dómurinn því, að forsendur ákvörðunar ríkisskattstjóra hefðu verið réttmætar."
Þessar tilfæringar eru örugglega aðeins smá sýnishorn af tiltölulega einföldum brellum, sem notaðar voru á gullaldarárum útrásarinnar, enda fer ekki miklum sögum af skattgreiðslum þessara mógúla hérlendis.
Þessir braskarar stunduðu heldur engann smáaurabusiness, enda hafa þeir tapað hátt í eittþúsund milljörðum króna, án þess að það virðist hafa raskað ró þeirra mikið.
![]() |
Fallist á kröfu Gaums að hluta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2009 | 10:44
Svandís í bulllosun
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherranefna, fer mikinn í Kaupmannahöfn og bullar þar algerlega kvótalaust, að því er virðist, og mengar umhverfi sitt þar með ótrúlega merkinarlausu þvaðri um forystuhlutverk sitt, ættjarðarinnar og kvenna við björgun andrúmsloftsins.
Margar misgáfulegar perlurnar hrukku þar af hennar vörum, samkvæmt fréttinni, t.d. "Hún sagði að í samvinnu við ESB myndi Ísland vinna að markmiði um að minnka losun um allt að 30% til 2020, miðað við 1990, að því gefnu að metnaðarfullt alþjóðlegt samkomulag í loftslagsmálum náist."
Annað gullkorn var þetta: "Umhverfisráðherra sagði að Ísland stefndi að því að verða loftslagsvænt ríki. Nú þegar sæju endurnýjanlegir orkugjafar Íslendingum að fullu fyrir rafmagni og hita og stefnt væri að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis fyrir bíla og skip."
Af mörgum gullmolunum var þessi kannski verðmætastur: " Virkja þyrfti konur á öllum sviðum ákvarðanatöku og aðgerða. Jafnrétti kynjanna í þessu samhengi væri ekki aðeins spurning um réttlæti og sanngirni, heldur væri það nauðsynlegt til að ná árangri."
Af mörgu fleiru væri að taka í þessu slagorða- og áróðursþvaðri ráðherranefnunnar, en framangreint látið nægja, til að sýna staglið og innistæðulaust orðagjálfur, sem ekkert er á bak við.
Ef setja þarf kvóta á eitthvað, þá er það bullið í íslenskum ráðherranefnum.
![]() |
Ísland minnki losun um 30% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.12.2009 | 13:22
Álfheiður löðrunguð af dómsmálaráðherra
Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, svaraði kurteislega fyrirspurn Ólafar Norðdal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um framgöngu Álfheiðar Ingadóttur, þáverandi þingmanns VG, við að kynda undir skrílslátum í "búsáhaldabyltingunni" og ummælum Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherranefnu, um að aðgerðir lögreglunnar á þeim tíma, hefðu byggst á hefndarhug.
Ragna vildi lítið tjá sig um framkomu og ummæli Álfheiðar og sagði að hún yrði að svara fyrir það allt saman sjálf. Hins vegar hældi hún lögreglunni á hvert reipi og sagði hana hafa staðið sig eins og best var á kosið, við erfiðar aðstæður. Án þess að Ragna léti þess getið, átti Álfheiður auðvitað sinn þátt í því að þessar hættulegu aðstæður sköðuðust.
Ragna lauk orðum sínum á þingi, með sterkri, en dulbúinni, ádrepu á Álfheiði, eða eins og hún er orðuð í fréttinni: "Hún ítrekaði þá skoðun sína að lögreglumenn hefðu átt að fá heiðursmerki fyrir sína framgöngu síðasta vetur. Vegna þess að þeir stóðu sig ákaflega vel við mjög óvenjulegar aðstæður og ég tel að það hefði ekki verið hægt að gera þetta betur."
Fastari en þetta hefði kinnhesturinn varla getað orðið og hlýtur Álfhildi að hafa sviðið sáran undan honum.
![]() |
Telur lögreglu hafa staðið sig með prýði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.12.2009 | 11:01
Rándýr glæpasaga
Saksóknari í málinu vegna sölu Baldurs Guðlaugssonar á hlutabréfum í Landsbankanum staðhæfir að Baldur segi ósatt um vitneskju sína um stöðu bankans við hlutabréfasöluna, enda segist vitni hafa setið fund með Baldri og bankastjórum Landsbankans, þann 13. ágúst 2008, þar sem erfið staða bankans hafi verið rædd.
M.a. ber vitnið að: "Baldur hefði setið fund með sér ásamt bankastjórum Landsbankans, Sigurjóni Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni, 13. ágúst í fyrra. Á fundinum lýstu þeir, í algjörum trúnaði", eins og Björn komst að orði, því yfir að Landsbankinn gæti lent í vandræðum þar sem bankinn gæti ekki orðið við kröfum breska fjármálaeftirlitsins um færslu á Icesave-reikningum Landsbankans yfir í breskt dótturfélag."
Landsbankinn var skráður í Kauphöll og bar skylda til að tilkynna til hennar um allt, sem gæti haft áhrif á verð hlutabréfa bankans, en ekki er vitað til þess að svo hafi verið gert, hvorki fyrir 13. ágúst 2008, eða síðar.
Þetta hlýtur að benda til þess, að nánast allar aðgerðir og aðgerðaleysi stjórnenda Landsbankans marga mánuði fyrir hrun, hafi verið ólöglegar og verði Baldur fundinn sekur, sem líkur benda til, þá hljóti fleiri að fylgja honum í tugthúsið fyrir sömu sakir og margir fyrir miklu meiri sakir.
Banka- og útrásarrugl undanfarinna ára er að verða að dýrustu glæpasögu sem um getur.
![]() |
Baldur staðinn að ósannindum" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.12.2009 | 14:28
Byltingin í VR étur börnin sín
Hallarbylting var gerð í VR síðast liðinn vetur og öllum fyrrum stjórnendum félagsins vikið til hliðar vegna setu þáverandi formanns í stjórn Kaupþings á mesta rugltíma íslenskrar fjármálasögu.
Nú rúmu hálfu ári síðar er byltingin farin að éta börnin sín innan nýrrar stjórnar VR og virðist það helst stafa af því, að fólk, reynslulítið af félagsstörfum, virðist hafa komist til valda í félaginu og sumt algerlega vanhæft til félagslegra starfa.
Varaformaður félagsis hefur látið í ljós ótrúlega ofstækisfullar og einstenginslegar skoðanir sínar, bæði í ræðu og riti, frá því hann var kjörinn í stjórn félagsins og ávallt látið eins og hann talaði í nafni stjórnar félagsins, sem oftast hafði enga hugmynd, fyrirfram, hvar og hvenær varaformanninum þóknaðist að tjá skoðanir sínar opinberlega.
Þannig vinnubrögð eru ekki sæmandi fyrir stærsta verkalýðsfélag landsins og aflar því hvorki virðingar né trausts.
![]() |
Lýsa yfir vantrausti á varaformann VR |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.12.2009 | 11:17
Engin efnahagsstjórn
Hvergi á Evrópska efnahagssvæðinu mælist önnur eins verðbólga og á Íslandi, sem er nánast óskiljanlegt þar sem eftirspurn er nánast engin, atvinnuleysi mikið og gengi krónunnar haldist tiltölulega stöðugt undanfarna mánuði.
Mörg ríki, sem eiga í svipuðum efnahagserfiðleikum og Ísland, búa nú við verðhjöðnun, en ekki verðbólgu, eða eins og segir í fréttinni: "Í nóvember mældist vísitalan 12,4% á Íslandi en var 13,8% í október. Næst mest er verðbólgan, samkvæmt samræmdi mælingu, í Ungverjalandi eða 5,2%. Verðhjöðnun er hins vegar í sex ríkum sem tekin eru með í mælingunni. Verðhjöðnunin er mest á Írlandi eða 2,8%."
Það sem aðallega hefur knúið verðbólguskrúfuna hérlendis er skattabrjálæði ríkisstjórnarnefnunnar, en hvergi þar sem kreppa ríkir, dettur nokkrum í hug að skattleggja þjóðina út úr vandræðunum, nema íslenskum vinstri mönnum.
Eftir áramótin mun skattahækkanabrjálæðið skella á af fullum þunga og þá mun verðbólgan taka nýjan kipp upp á við og um leið hækka öll lán fyrirtækja og almennings og þykir þó flestum nóg komið í þeim efnum.
Það er orðið lífsnauðsynlegt að hérlendis verði farið að stjórna efnahagsmálunum.
Það fer að verða fullreynt, að núverandi ríkisstjórnarnefna mun ekki vera fær um það.
![]() |
Langmest verðbólga á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2009 | 08:43
Hrun Landsbankans hófst í Bretlandi
Nú er að koma í ljós, að hrun Landsbankans hófst í raun í Bretlandi, þann 3. október 2008, eða nokkrum dögum áður en Fjármálaeftirlitið íslenska yfirtók bankann hér á landi.
Breska fjármálaráðuneytið setti bankanum svo ströng rekstrarskilyrði þann 3. október, fyrir starfseminni í Bretlandi, að útibúið varð raunverulega óstarfhæft, því sett var svo há bindiskylda lausafjár á útibúið, að ógerningur var að standa við hana og þar að auki voru allar eignir bankans í Bretlandi í raun kyrrsettar.
Þetta sýnir að Bretar voru löngu búnir að gera sér grein fyrir hættunni af Icesave reikningum bankans í Bretlandi og hefðu því átt að vera búnir að grípa í taumana löngu fyrr, enda höfðu þeir til þess heimild í breskum lögum, sem þeir svo beittu, en alltof seint.
Með hliðsjón af þessu, hefðu Bretar átt að sjá sóma sinn í að axla sína ábyrgð á Icesave, en ekki þvinga henni upp á íslenska skattgreiðendur, sem þurfa að þræla fyrir þessari skuld einkabankans næstu áratugina.
Þessar nýjustu upplýsingar ættu að duga, ásamt staðreyndum sem þegar lágu fyrir, til þess að Alþingi hafni þrælasamningnum um Icesace, með 63 samhljóða atkvæðum.
![]() |
Kyrrsettar fyrir hryðjuverkalög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.12.2009 | 00:11
Ótrúlegar vinagreiðslur
Í svörum við fyrirspurn á Alþingi upplýsti Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, um ótrúlegar upphæðir, sem greiddar hafa verið til vina og velunnara, fyrir ótrúlegustu hluti.
Til dæmis um greiðslur úr Fjármálaráðuneitinu kemur fram að: " Þar af fékk Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, tæpar tíu milljónir kr. greiddar fyrir ráðgjöf vegna bankamála, svo sem uppgjör milli gömlu og nýju bankanna. Þá fékk Jón Sigurðsson, formaður samninganefndar um Norðurlandalán, átta milljónir kr. fyrir ráðgjöf um gjaldeyrislán frá öðrum ríkjum."
Varðandi bankamálin, þá var og er finnskur sérfræðingur á fullum launum við að veita ráðgjöf varðandi endurreisn bankanna, en hefur að vísu kvartað yfir því, að seint hafi gengið í þeim efnum og flest verið vitlaust gert. Því er óskiljanlegt fyrir hvað var verið að borga Þorsteini.
Seðlabankinn og allar bankastofnanir landsins eru uppfull af sérfræðingum í erlendum lántökum og fram að þessu hefur ekkert vantað upp á kunnáttu landsmanna um töku gjaldeyrislána og því með ólíkindum, að greiða hafi þurft Jóni Sigurðssyni átta milljónir fyrir slíkar upplýsingar.
Ef þessar og aðrar upphæðir sem um ræðir væru ekki svona fáráðlega háar, væri þetta allt saman nokkuð fyndið.
Allavega er víst, að viðkomandi einstaklingar hafa skellihlegið alla leiðina í bankann.
![]() |
Fjármálaráðuneytið greiddi 40 milljónir króna í sérverkefni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2009 | 16:57
Vinnubrögðin þá og nú
Við bankahrunið síðasta haust þurfti þáverandi ríkisstjórn að grípa til ýmissa ráða, við afar erfiðar aðstæður, sem bar að tiltölulega snöggt. Á meðal þess sem gera þurfti bæði hratt og vel, var að halda fjármálakerfinu gangandi, með stofnun nýrra banka og annarra aðgerða til að forða algjöru öngþveiti og til að halda kerfinu gangandi. Allir eru sammála um að þar hafi kraftaverk verið unnið.
Nú rignir kvörtunum vegna þessara aðgerða til Eftirlitsstofnununar FFTA, sem nú hefur gefið út hvern bráðabirgðaúrskurðinn, eftir annan, sem allir styðja að aðgerðir þáverandi ríkisstjórnar hafi verið réttar og í raun það eina, sem í stöðunni var að gera til að halda þjóðfélaginu gangandi.
Í fréttinni segir: "ESA benti á að önnur úrræði hafi ekki verið sjáanleg en þau sem gripið var til sem hefðu getað spornað við algjöru hruni efnahagslífsins á Íslandi. Jafnframt féllst ESA á það sjónarmið stjórnvalda að neyðarlögin og ákvarðanir FME hafi verið einu aðgerðirnar sem voru trúverðugar við þær aðstæður sem uppi voru."
Þó hér sé ekki um endanlega dóma að ræða, er þetta mikil viðurkenning á viðbrögðum fyrri ríkisstjórnar við nánast óyfirstíganlegum aðstæður.
Allar aðgerðir núverandi ríkisstjórnarnefnu einkennast hins vegar af fumi og illa undirbúnum aðgerðum í nánast öllum tilvikum og fremur hafa gerðir hennar orðið til að lengja og dýpka kreppuna, frá því sem annars hefði orðið.
Viðbrögð sitjandi stjórnarnefnu stenst engan samanburð við fyrri ríkisstjórn á erfiðum tímum.
![]() |
Sjö úrskurðir Íslandi í hag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.12.2009 | 13:17
Gagnrýna með fölsuðum forsendum
Þingflokksformenn stjórnarflokkanna gráta hástöfum yfir "skattareikni" Sjálfstæðismanna, sem þeir hafa sett inn á vef flokksins og sem auglýsingu hérna inn á mbl.is. Einnig hafa þeir verið að birta blaðaauglýsingar með útreikningum sínum.
Formönnunum finnst það vera fölsun á staðreyndum að bera skattatillögur þeirra núna, að viðbættum þeim skattahækkunum sem þegar eru orðnar, við skattana, sem launegar greiddu áður en skattahækkanabrjálæðið skall á, með núverandi ríkisstjórnarnefnu.
Það er aumt yfirklór þingflokksformannanna að setja fram svo falsaðar forsendur fyrir kvörtunum sínum, því auðvitað verður að bera saman skattbyrðina fyrir og eftir ríkisstjórnarskipti.
Sjálfir segjast þeir ætla að auglýsa fljótlega sína eigin útgáfu af skattahækkanabrjálæðinu, en þá á að sleppa öllum skattahækkunum, sem komu til framkvæmda á árinu 2008. Falsari en það, getur samanburðurinn ekki orðið.
Skattgreiðendur munu sjá í gegn um blekkingar stjórnarliða strax við útborgun launa á nýju ári.
![]() |
Gagnrýna Sjálfstæðismenn fyrir vafasama framsetningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)