Enginn tryggingasjóður nema fyrir Breta og Hollendinga?

Breska lögmannsstofan Mishcon de Reya segir í áliti sínu vegna Icesave þrælasamningsins, að samningurinn banni íslenska ríkinu, að stofna nýjan innistæðutryggingasjóð innistæðueigenda í innlendum bönkum, svo lengi sem íslenskir skattgreiðendur verði ánauðugir Bretum og Hollendingum.

Það er með miklum ólíkindum, að stjórnvöld á Íslandi virðast ekki botna upp eða niður í þeim samningi, sem þau sjálf gerðu, um að selja þjóðina í þrældóm til áratuga, enda samningurinn skrifaður af húsbændunum sjálfum og á flóknu ensku lagamáli, sem ekki er auðskilið hverjum sem er, frekar en nýja íslenska skattalöggjöfin.

Ekki er hægt að líta öðruvísi á, en að niðurstaða Mishcon de Reya sé sú, að varla hefði verið hægt að skrifa undir samning, sem hefði orðið öllu óhagstæðari fyrir Íslendinga.

Það er erfitt að viðurkenna mistök og þess vegan þrjóskast stjórnarliðar enn við að falla frá stuðningi sínum við svikasamninginn, í örvæntingu sinni við að þóknast herraþjóðunum.

Svipusmellirnir hræða ennþá.

 


mbl.is Nýr sjóður samningsbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskýrt og óréttlátt

Breska lögfmannsstofan Mishcon de Reya hefur skilað áliti á Icesave málinu og við fyrstu skoðun á því sýnist stofan fara afar varlega í umsögn sinni, enda ekki haft langan tíma til að yfirfara málið.

Eftirfarandi kemur fram í álitinu, samkvæmt fréttinni:  "Mishcon de Reya segist ekki geta lagt mat á það hvað sé pólitískt viðunandi fyrir Alþingi. Hins vegar séu færð rök fyrir því í lögfræðiálitinu, að núverandi samkomulag, sem Alþingi er að fjalla um, sé hvorki skýrt né réttlátt. Þá sé það einnig skilningur lögfræðistofunnar, þótt hún hafi ekki gert sérstaka útreikninga, að samkomulagið kunni einnig að verða Íslendingum ofviða en leggja þurfi mat á greiðslugetu og áhrif afborgana á aðrar skuldbindingar Íslendinga og þarfir þjóðarinnar."

Síðan segir í álitinu, að ekki sé ólíklegt, að Bretar og Hollendingar hafi lagt mat á greiðslugetu Íslendinga, en það getur engan veginn staðist, a.m.k. hefur það mat þá verið byggt á gömlum og úteltum upplýsingum, því í vor talaði AGS um að skuldir þjóðarbúsins næmu um 140% af landsframleiðslu, en síðan hefur sú tala farið síhækkandi og er nú talin vera um 350%.

Bretar og Hollendingar geta alls ekki hafa lagt rétt mat á greiðslugetu Íslendinga, fyrst sérfræðingar Seðlabanka Íslands og AGS gátu það ekki og ekki einu sinni víst að öll kurl séu komin til grafar ennþá.

Michcon de Reya segir að lausn málsins verði að vera pólitísk, því annars væri hætta á að Bretar, Hollendingar, AGS og ESB segi Íslandi stríð á hendur, efnahagslega, og það gæti jafnvel haft verri afleiðingar en að samþykkja þrælaklafann strax.

Ekki skal það efað, að þessum aðilum væri trúandi til slíks, enda er þeim sama um álit umheimsins á slíkum hefndaraðgerðum gagnvart smáþjóð, sem ekki vildi standa og sitja eins og þeir vildu.

Samþykkt ríkisábyrgðar á skuldum Landsbankans setur drápsklyfjar á íslenska skattgreiðendur, þannig að spyrja má hvort nokkrar efnahagsþvinganir geti orðið verri.


mbl.is Icesave-samningur hvorki skýr né réttláttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðgreiðsluskattkerfið eyðilagt á svipstundu

Áratugum saman var hér við lýði skattkerfi, þar sem skattar voru greiddir eftirá og gátu komið sér vægast sagt illa, sérstaklega fyrir þá sem höfðu breytilegar tekjur milli ára, t.d. sjómenn.

Kerfið var líka orðið svo flókið, að ekki var orðið fyrir nema endurskoðendur og aðra skattasérfræðinga að skilja það.  Á árinu 1988 var tekið upp staðgreiðslukerfi skatta, sem var einfalt og auðskilið, með stighækkandi sköttum eftir því sem tekjur fólks urðu hærri.

Á næsta ári, tuttuguogtveim árum síðar, verður þessu kerfi rústað, með flóknu ógagnsæju skattkerfi, sem strax í upphafi verður svo flókið, að ekki verður nema fyrir sérfræðinga að skilja það.  Mikið mun verða um eftirálagða skatta, vegna svokallaðrar þrepaskiptingar skattsins, þannig að á árinu 2011 mun fjöldi fólks bæði þurfa að greiða staðgreiðsluskatta og eftirágreiddann skatt.

Fljótlega munu svo koma fram breytingar og "lagfæringar" á kerfinu, sem, eins og var fyrir árið 1988, mun gera skattkerfið svo vitlaust og flókið, að innan fárra ára mun þurfa að umbylta því á nýjan leik.

Betra hefði verið að hækka persónuafsláttinn og skattprósentuna í núverandi kerfi og halda einfaldleikanum sem í því er.

Núverandi kerfi er einfalt, skilvirkt og skiljanlegt.  Væntanlegt kerfi er flókið, óskilvirkt og óskiljanlegt.

Ruglið er kynnt sem réttlátt og tekjujafnandi kerfi í anda "norrænna velferðarstjórna".

Skyldi íslenska "velferðarstjórnin" vita hve mikið er um svarta vinnu á hinum norðurlöndunum?


mbl.is „Ömurlegt skattkerfi sem enginn skilur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugulsemi ríkisstjórnarnefnunnar

Fyrsta verk Alþingis í morgun var að samþykkja hækkun virðisaukaskatts úr 24,5% í 25,5% og eins og alsiða er orðið meið ríkisstjórnarnefnufrumvörp, sem undantekningarlaust eru illa undirbúin og vanhugsuð, var hætt við upphaflegar áætlanir um að bæta við þriðja þrepinu í skattinn, þ.e. 14% á ýmsar vörur, sem hefði gert það að verkum, að mismunandi skattur hefði verið á mörgum vörum, eftir því hvar þær hefðu verið keyptar.

Þessi hækkun virðisaukaskatts, eins og aðrar hækkanir stjórnarnefnunnar á óbeinum sköttum, fer beint til hækkunar á neysluverðsvísitölunni og þar með til hækkunar allra verðtryggðra lána heimila og fyrirtækja.  Þannig er enn aukið á skuldavandann og erfiðleika fólks með að standa í skilum með sín lán.

Helgi Hjörvar, Samfylkingarþingmaður, benti þó á lausn ríkisstjórnarnefnunnar á þessum vanda fólks, en fréttin segir svo frá þessari snilldarlausn:  "Hann vakti athygli á því, að með frumvarpinu væri einnig verið að framlengja heimildir til að greiða út séreignasparnað, sem hefði hjálpað mörgum á þessu ári við að takast á við erfiðleika í fjármálum."

Stjórnarþingmenn hafa haldið því fram, að ekki mætti skattleggja séreignarsparnaðinn við inngreiðslu, vegna þess að með því væri verið að ganga á framtíðartekjur ríkissjóðs, þ.e. þegar velferðarkerfinu ætti að vera haldið uppi af ellilífeyrisþegum, eins og þeir virðast láta sig dreyma um.

Hins vegar sjá þeir ekkert athugavert við það, að fólk á besta aldri taki út lífeyrissparnaðinn sinn til þess að greiða þær skattahækkanir, sem verið er að skella á þjóðina núna, með brjálæðislegum hætti.

Ef fólk á vinnualdri, þarf að taka út ellilaunin sín fyrirfram, til þess að greiða skatta núna, þá verður sami lífeyrir ekki notaður til að fjármagna ríkissjóð í framtíðinni.

Hefði ekki verið betra að ganga hreint til verks og samþykkja að innheimta skattinn af séreignarsparnaðinum strax við innborgun í sjóðina?

Ekki verður bæði sleppt og haldið.


mbl.is Virðisaukaskattur 25,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar þola ekki að þjóðum sé haldið í gíslingu

Ed Miliband, loftlagsráðherra Bretlands, ásakar þróunarríki um yfirgang gagnvart Bretum, Bandaríkjunum og öðrum stórþjóðum vegna þess að þau sættu sig ekki við tillögur stórþjóðanna á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. 

Sá breski sakar þróunarríkin um að hafa reynt að „halda heiminum í gíslingu“ á ráðstefnunni og er auðvitað sár og reiður yfir þessum yfirgangi, enda frá ríki sem vant er að níðast á minnimáttar og halda smáþjóðum í gíslingu.

Í grein, sem Miliband fékk birta í The Guardian, í dag, segir hann Bretland ekki sætta sig við slíkar þvinganir, að ákveðin ríki reyni að þvinga önnur með þeim hætti sem þessi ríki hafi gert.

Sá, sem þetta skrifar í Guardian er fulltrúi þess ríkis, sem ásamt Hollendingum og ESB, hefur haldið íslensku þjóðinni í gíslingu í heilt ár, vegna skulda einkabanka og ætla að hneppa íslenska skattgreiðendur í þrældóm til áratuga, með efnahagslegum þvingunum og hótunum um eitthvað ennþá verra, verði ekki látið að þeirra vilja skilyrðislaust.

Hroki og drottnunargirni Breta lætur ekki að sér hæða.

 

 


mbl.is Heiminum haldið í gíslingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímaeyðsla

Efnahags- og skattanefnd Alþingis hefur verið að veltast með frumvarp, sem átti að banna Kjararáði að hækka laun þeirra, sem undir það heyra, á næsta ári.

Eins og með önnur illa unnin frumvörp meirihlutans, þarf nú að draga í land með þessa lagasetningu, vegna athugasemda úr öllum áttum, um að þetta stæðist ekki, a.m.k. ekki gagnvart dómurum.

Kjararáð tekur mið af almennum launahækkunum og því litlar líkur til að laun þeirra, sem undir Kjararáð heyra myndu hækka mikið á næst ári, og því breytir nefndin frumvarpinu í þá veru, að aðeins sé Kjararáði bannað að hækka laun þingmanna og ráðherra á næsta ári.

Formaður nefndarinnar, lætur hafa þetta eftir sér:  "Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, á þó ekki von á að laun annarra hópa verði hækkuð á næsta ári."

Ef nefndin reiknar ekki með að Kjararáð hækki laun neinna hópa á næsta ári, til hvers er þá verið að eyða dýrmætum tíma þingsins í svona vitleysu?

Svarið er einungis eitt orð:  "Lýðskrum".


mbl.is Banna launahækkun þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endanlega gengnir af göflunum

Í síðasta bloggi var fjallað um hringlandahátt ríkisstjórnarnefnunnar í nánast öllum málum, sem hún er að fást við og sannast hroðvirknin og vanhugsunin í frumvörpum hennar enn og aftur vegna svonefnds auðlegðarskatts, en samkvæmt upphaflegu frumvarpi var ógerningur að leggja hann á, svo lagfæringar þarf að gera á málinu, til þess að það verði framkvæmanlegt, eins og sést á Þessari frétt.

Nú er verið að hringla með staðgreiðsluskattafrumvarpið í þinginu og nýjasta ruglið sem þessu ólánsfólki í stjórnarmeirihlutanum hefur dottið í hug, er að tengja skattþrepin við launavísitölu.  Allir hljóta að sjá hvílíku skattabrjálæði þetta mun valda innan fárra ára, en nóg var skattahækkanabrjálæðið orðið fyrir.

Kaupmáttur launa hefur hrapað niður úr öllu valdi undanfarið ár og þegar eitthvað fer að sjá til sólar í efnahagsmálunum, mun öll áhersla verða á, að auka hann á ný, ekki síst hjá þeim, sem lægst hafa launin.  Þá mun skattbyrðin þyngjast svo óskaplega, að þyki fólki skattabrjálæðið nú vera mikið, þá er erfitt að segja, hvað kalla á þessa væntanlegu skattaklyfjar.

Ef til vill er þetta hugsað til þess, að halda kaupmættinum niðri til langs tíma, því enginn akkur verður af launahækkunum, ef þessi geðveikislega tillaga nær fram að ganga.

Eina bjargráð skattgreiðenda er að mótmæla þessu rugli kröftuglega og láti stjórnarmeirihlutinn sér ekki segjast, verður að taka fram potta og pönnur og láta glymja hátt og kröftuglega.

Ýmsu var hægt að eiga von frá þessum stjórnarmeirihluta, en nú virðist hann vera endanlega genginn af göflunum.


mbl.is Þrepin tengd við launavísitölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalaus hringlandaháttur

Ef það er eitthvað öðru fremur, sem einkennir sitjandi ríkisstjórnarnefnu, þá er það hringlandaháttur með aðgerðir í ríkisfjármálum og illa hugsuð og unnin lagafrumvörp.  Sama á við nánast allt sem frá henni kemur, hvort sem það varðar ríkisfjármál eða önnur verkefni sem ríkisstjórnir eiga að sinna.

Allir muna hringlið með fæðingarorlofið, hroðvirknina og óþjóðhollustuna í Icesave samningunum, sykurskattinn sem varð að vörugjaldi á ósykraðar vörur, en ekki allar sykraðar vörur, virðisaukaskattsfrumvarpið, sem nú er verið að breyta og svona mætti lengi telja.

Nýjasta hringlið er vegna tekjuskattsins, en búið var að leggja fram arfavitlausar tillögur um svokallaðann þrepaskiptan staðgreiðsluskatt, þó núverandi kerfi væri mjög þrepaskipt, en nú boðar fjármálajarðfræðingurinn, að gerðar verði lagfæringar á eyðileggingarhugmyndunum, vegna athugasemda utan úr bæ, væntanlega af blogginu, þar á meðal þessu.

Upphaf fréttarinnar segir afar mikið um hroðvirknina, sem einkennir öll verk þessarar getulausu stjórnarnefnu:  „Við munum reyna að gera vissar breytingar til að koma til móts við vel rökstudd sjónarmið sem sett hafa verið fram. Ég geri ráð fyrir því að þegar upp er staðið verði breytingarnar aðeins einfaldari,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um fyrirhugaðar skattabreytingar."

Hvernig í ósöpunum ætli að standi á því, að nánast hvert einasta mál, sem lagt er fram, skuli þurfa að endurskoða og lagfæra eftir að þau koma fram?  Er allt kerfið og starfsfólkið í kringum þessar ráðherranefnur algerlega vanhæft til að hugsa aðgerðirnar til enda?

Mottóið hjá þessu liði hlýtur að vera, að betra sé að hafa allt svo flókið, að það sé nánast óskiljanlegt.

Þá  halda þessir "snillingar" að fólki finnist þeir svo gáfaðir og miklir menn, sem lýðurinn skilji ekki.

Dæmisagan um Nýju fötin keisarans fjallaði einmitt um þetta.


mbl.is Breytingar á skattatillögunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einn skuldasnúningurinn

Ef það er eitthvað sem Jón Ásgeir Jóhannesson er virkilega góður í, þá er það að slá lán án þess að vera nokkursstaðar í ábyrgðum fyrir þeim og að komast undan því að greiða nokkurntíma af lánunum.

Nú um áramótin mun Rauðsól renna saman við 365 hf. og skuldir Rauðsólar yfirteknar af 365 hf., en til þessarra skulda var einmitt stofnað við kaup á 365 miðlum.

Ekki kæmi á óvart, þó fljótlega yrði stofnað nýtt fyrirtæki, sem yrði látið kaupa 365 miðla af 365 hf. og skuldirnar síðan skildar eftir í "gamla" félaginu og það síðan lýst gjaldþrota og lánadrottnarnir látnir taka skellinn.

Þetta yrði þá með sama sniði og þegar Rauðsól keypti, því þá voru fimm milljarða króna skuldir skildar eftir í "gamla félaginu" og það sett í gjaldþrot.

Nú er nýjasta félagið með um fimm milljarða skuldir, svo væntanlega er tími kominn til að taka einn sprett enn á skuldaflóttanum.

Þessir kappar eru langhlauparar en ekki spretthlauparar og hafa ótrúlegt úthald og endalaust traust stuðningsaðila, sem og dyggan aðdáendahóp áhorfenda. 

 

 


mbl.is Hlutabréf í 365 einskis virði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr einum vasa í annan

Viðskiptaráðherra boðar að Icesave skuld Landsbankans gæti lækkað um tugi milljarða króna og ríkissjóður þyrfti því að greiða minni upphæð til Breta og Hollendinga, en annars væri útlit fyrir.

Snilldarbragðið á bak við þessa lækkun um nokkra tugi milljarða er, að Seðlabankinn kaupi veð af Seðlabanka Luxemburgar fyrir 185 milljarða króna.  Þetta er enn eitt dæmið um þá snilld, sem felst í því að samþykkja ríkisábyrgðina, því skuldbindingin sem henni fylgir, lækkar í hvert sinn sem reiknimeisturnum ríkisstjórnarnefnunnar tekst að millifæra peninga bakdyramegin úr ríkissjóði til að lækka Icesave reikninginn.

Ekki verður annað séð, en að verið sé að færa úr einum vasa í annan. 

Báðir vasarnir eru reyndar götóttir, þannig að ekkert situr eftir í þeim.


mbl.is Icesave-skuldbindingar gætu lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband