Endalaus hringlandaháttur

Ef það er eitthvað öðru fremur, sem einkennir sitjandi ríkisstjórnarnefnu, þá er það hringlandaháttur með aðgerðir í ríkisfjármálum og illa hugsuð og unnin lagafrumvörp.  Sama á við nánast allt sem frá henni kemur, hvort sem það varðar ríkisfjármál eða önnur verkefni sem ríkisstjórnir eiga að sinna.

Allir muna hringlið með fæðingarorlofið, hroðvirknina og óþjóðhollustuna í Icesave samningunum, sykurskattinn sem varð að vörugjaldi á ósykraðar vörur, en ekki allar sykraðar vörur, virðisaukaskattsfrumvarpið, sem nú er verið að breyta og svona mætti lengi telja.

Nýjasta hringlið er vegna tekjuskattsins, en búið var að leggja fram arfavitlausar tillögur um svokallaðann þrepaskiptan staðgreiðsluskatt, þó núverandi kerfi væri mjög þrepaskipt, en nú boðar fjármálajarðfræðingurinn, að gerðar verði lagfæringar á eyðileggingarhugmyndunum, vegna athugasemda utan úr bæ, væntanlega af blogginu, þar á meðal þessu.

Upphaf fréttarinnar segir afar mikið um hroðvirknina, sem einkennir öll verk þessarar getulausu stjórnarnefnu:  „Við munum reyna að gera vissar breytingar til að koma til móts við vel rökstudd sjónarmið sem sett hafa verið fram. Ég geri ráð fyrir því að þegar upp er staðið verði breytingarnar aðeins einfaldari,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um fyrirhugaðar skattabreytingar."

Hvernig í ósöpunum ætli að standi á því, að nánast hvert einasta mál, sem lagt er fram, skuli þurfa að endurskoða og lagfæra eftir að þau koma fram?  Er allt kerfið og starfsfólkið í kringum þessar ráðherranefnur algerlega vanhæft til að hugsa aðgerðirnar til enda?

Mottóið hjá þessu liði hlýtur að vera, að betra sé að hafa allt svo flókið, að það sé nánast óskiljanlegt.

Þá  halda þessir "snillingar" að fólki finnist þeir svo gáfaðir og miklir menn, sem lýðurinn skilji ekki.

Dæmisagan um Nýju fötin keisarans fjallaði einmitt um þetta.


mbl.is Breytingar á skattatillögunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Óskarsson

"Steingrímur segir ekki tímabært að greina frá hvaða breytingar er fyrirhugað að gera á skattafrumvarpinu"

Það er nefnilega það.  Hvenær hefur hann hugsað sér að greina frá þeim ?

Algjörlega er ég sammála þér Axel að það er ekki eitt einasta frumvarp sem kemur gallalaust frá þessari ríkisstjórn.  Yfirleitt eru frumvörpin afar illar unnin og í sumum tilfellum stórskaðleg (ekki síst ríkinu sjálfu) þar sem svo miklir meinbugir eru á þeim.  Nefndir sem fá málin til umfjöllunar reyna að gera sitt besta í því að laga það sem lagfæra þarf og umsagnaraðilar hafa bent á.  En flóðið af miklum kerfisbreytingum og skipulagi sem verið er að kollvarpa rétt fyrir áramót er svo mikið að sumt fer alla leið í gegn, samanber arfavitlaus og vanhugsuð lög um fækkun skattumdæma. (sjá nokkur blogg hjá mér um þau mál).

Breytingin sem er búið að gera á virðisaukaskattinum er afar slæm, þó sem betur fer eigi að hætta við 14% milliþrepið þar sem það átti að skipta máli hvar maður borðaði matinn sinn.  En að hækka hærra vsk þrep í 25,5% í stað þess að stoppa í þeirri frábæru tölu 25% veldur bara vandræðum.   Í Svíþjóð er "matarskatturinn" 12% og efra vsk þrepið 25%.  Það myndi einfalda allan verðsamanburð og annað að þetta væri ekki með mjög ólíku sniði á milli landa, en við þurftum auðvitað að setja heimsmet í hæsta vsk þrepi en það mátti ekki hrófla við neðra þrepinu.

Nú á að gera "einhverjar" breytingar á tekjuskattsfrumvarpinu og er nú ekki vanþörf á.  En að svona frumvarp um algjöra kerfisbreytingu skuli ekki hafa verið unnið og lagt fram fyrir mörgum mánuðum, allavega í síðasta lagi við upphaf haustþings 1.október er með öllu óafsakanlegt.  Nú á síðustu dögum ársins, þegar þeir sem borga út laun fyrirfram (sbr. sveitarfélög ofl.) eru þegar byrjaðir að reikna út laun, sem og þeir sem þurfa að vinna að kerfisbreytingum launakerfa eru farnir að undirbúa breytingar, þá skal enn þá ný kollvarpa fyrri hugmyndum.

Svona hringlandaháttur er með öllu óþolandi.

Jón Óskarsson, 20.12.2009 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband