Staðgreiðsluskattkerfið eyðilagt á svipstundu

Áratugum saman var hér við lýði skattkerfi, þar sem skattar voru greiddir eftirá og gátu komið sér vægast sagt illa, sérstaklega fyrir þá sem höfðu breytilegar tekjur milli ára, t.d. sjómenn.

Kerfið var líka orðið svo flókið, að ekki var orðið fyrir nema endurskoðendur og aðra skattasérfræðinga að skilja það.  Á árinu 1988 var tekið upp staðgreiðslukerfi skatta, sem var einfalt og auðskilið, með stighækkandi sköttum eftir því sem tekjur fólks urðu hærri.

Á næsta ári, tuttuguogtveim árum síðar, verður þessu kerfi rústað, með flóknu ógagnsæju skattkerfi, sem strax í upphafi verður svo flókið, að ekki verður nema fyrir sérfræðinga að skilja það.  Mikið mun verða um eftirálagða skatta, vegna svokallaðrar þrepaskiptingar skattsins, þannig að á árinu 2011 mun fjöldi fólks bæði þurfa að greiða staðgreiðsluskatta og eftirágreiddann skatt.

Fljótlega munu svo koma fram breytingar og "lagfæringar" á kerfinu, sem, eins og var fyrir árið 1988, mun gera skattkerfið svo vitlaust og flókið, að innan fárra ára mun þurfa að umbylta því á nýjan leik.

Betra hefði verið að hækka persónuafsláttinn og skattprósentuna í núverandi kerfi og halda einfaldleikanum sem í því er.

Núverandi kerfi er einfalt, skilvirkt og skiljanlegt.  Væntanlegt kerfi er flókið, óskilvirkt og óskiljanlegt.

Ruglið er kynnt sem réttlátt og tekjujafnandi kerfi í anda "norrænna velferðarstjórna".

Skyldi íslenska "velferðarstjórnin" vita hve mikið er um svarta vinnu á hinum norðurlöndunum?


mbl.is „Ömurlegt skattkerfi sem enginn skilur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Óskarsson

Það er sorglegt að það skuli vera búið að gjöreyðileggja staðgreiðslukerfið.    Ef þessi breyting væri að skila umtalsverðum tekjum í ríkissjóð eða vinna að jöfnun lífskjara þá væri hægt að réttlæta þetta að hluta, en það er ekki því að heilsa.  Breytingunni er ætlað að skila um 10 milljarða auknum tekjum og þær tekjur eru dýru verði keyptar.

Þessar breytingar sem verið er að gera á lögum um tekjuskatt flækja allt skattkerfið þannig að hinn almenni skattgreiðandi getur engan veginn haft almennilega yfirsýn yfir eða áttað sig með almennilegum hætti á sínum eigin sköttum.  Samt sem áður eiga skattgreiðendur að bera ábyrgð á því að greiða staðgreiðsluskatt í réttu skattþrepi og greiða af fullum þunga 2,5% álagið á það sem vantar upp á að rétt sé greitt.

Breytingin ein og sér kostar gríðarlega fjármuni fyrir þjóðfélagið.  Gera þarf grundvallarbreytingar á öllum launakerfum sem í notkun eru, sem og á tölvukerfum skattstofanna.   Það eitt og sér að menn geti átt að vera í efri þrepum staðgreiðslunnar ef þeir vinna hjá fleiri en einum aðila verður nánast óviðráðanlegt í framkvæmd.  Eftirlit verður einnig allt mikið þyngra í vöfum sem veldur auknum kostnaði hjá skattyfirvöldum.

Óþægindin og vesenið í kringum eftiráskatta sem hefst 1.ágúst 2011 mun minna á tímana fyrir 1988 og það voru ekki góðir tímar.  Á þeim tíma lentu margir í vítahring skatta og gríðarlegs vinnuálags og hætt er við að slík saga endurtaki sig.

Rétt er að minna á að það var vinstri stjórn sem fyrst byrjaði á því að draga úr hækkun persónuafsláttar árið 1989 og afnám tenginu hans við vísitölu.  Eftir að loksins var að nýju búið að vísitölutengja afsláttinn þá tekur núverandi vinstri stjórn sig til og afnemur þessa tengingu með öllu og gengur lengra en nokkur stjórn hingað til og hækkar persónuafsláttinn ekki neitt sem þýðir fyrst og fremst þyngri skattbyrði fyrir þá lægst launuðu.   "Þetta er norræna velferðarstjórnin sem slær skjaldborg um heimilin," ef einhver er búinn að gleyma því.

Jón Óskarsson, 21.12.2009 kl. 19:18

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þetta er allt með ólíkindum.  Að samþykkja svona flókið og ruglað skattkerfi nokkrum dögum áður en það á að taka gildi, er nánast glæpsamlegt, því almenningur hefur yfirleitt ekki vilja til að setja sig almennilega inn í skattkerfin, þó skilningurinn hafi verið nokkuð góður síðan staðgreiðslukerfið var tekið upp.

Steininn tekur úr, við það að fólk skuli sjálft eiga að tilkynna í hvaða skattþrep það skuli sett, ef það vinnur á fleiri en einum stað, að viðlögðum þungum viðurlögum.  Fyrir utan hvað launakerfin þurfa að gera ráð fyrir miklu flóknari útreikningum en áður, þ.e. fastir starfsmenn greiða jafnvel skatt í öllum þrepum, en skatta hlutastarfsmanna þarf jafnvel að reikna í miðþrepinu eða efsta þrepinu og þegar líður á árið gætu menn þurft að flytja sig á milli þrepa.

Síðan bætist við að hjón þurfa að reikna út hvort þau geti flutt hluta launa þess hærra launaða yfir á hitt og þá er það auðvitað gert svo flókið, að fáir munu geta reiknað það út á miðju skattári.

Þetta skattkerfi er alger bastarður og eina skýringin á því, að þessu skuli ekki vera mótmælt hástöfum af skattgreiðendum, getur ekki stafað af öðru en því, að fólk er ekkert farið að gera sér grein fyrir þeim ósköpum, sem þessu mun fylgja.

Jón, þú er sá aðili hér á blogginu, sem skrifar af einna mestri þekkingu á skattamálum og allt gott og hárrétt, sem frá þér hefur komið.  Hve fáir tjá sig um skattamálin, með almennilegum rökum, skýrist auðvitað af því, að fólk hefur ekkert sett sig inn í málin, eins og áður sagði.

Í þessu, eins og flestu öðru, veldur ei sá, sem varar.

Axel Jóhann Axelsson, 21.12.2009 kl. 20:19

3 Smámynd: Jón Óskarsson

Takk fyrir þetta Axel.  Já það er þannig að almennt séð þá kærir hinn almenni skattborgari sig ekki um að þurfa að vera að setja sig mikið inn í lög og reglur um skattamál.  Eðli málsins samkvæmt þá eru slík lög gjarna mjög flókin sem eðlilegt er því málefni þarf að spanna svo vítt svið og taka á helst öllum tilfellum sem upp geta komið.   En að vera að flækja skattkerfið að óþörfu og eyðileggja það eina sem flestir gátu skilið vel og ætlast síðan til þess á sama tíma að ábyrgð og þekkingu sé varpað yfir á skattborgarann sjálfan er náttúrulega ekkert annað en pólitískt skemmdarverk.

Það á án efa eftir að heyrast meira í fólki þegar kemur inn á árið 2010, að ég tali nú ekki um í kringum 1.ágúst 2011 þegar fólk fær fyrstu álagningarseðlana í hendur, byggða á nýju kerfi.  Hætt er við að mörgum eigi eftir að bregða í brún þegar að því kemur og það muni kollvarpa ýmsum fjárhagsáætlunum fólks.  Flestir sem vinna við launaútreikninga kvíða þessu nýja fyrirkomulagi og sérstaklega þeim hringlandahætti sem á eftir að verða í kringum tilfærslur á milli skattþrepa innan hvers árs.  Það er fátt sem launþegum er verr við en að fá ranga launaseðla í hendur, en hræddur er ég um að mistökum eigi eftir að fjölga.  Auk þess hætt er við að fólk hreinlega skilji ekki hvernig fjárhæðir skatta eru fundnar út og hefur það nógu oft vafist fyrir mörgum, þrátt fyrir til þess að gera einfalt staðgreiðslukerfi sem við höfum búið við síðustu 22 árin.

Skattamál eru á mínu áhugasviði og ég er áhugamaður um að skattkerfi sé einfaldað sem mest og gert skilvirkara, en nú er verið að fara í þveröfuga átt og flækja skattkerfi og eyðileggja það sem var jákvætt og gott.

Jón Óskarsson, 28.12.2009 kl. 20:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband