10.10.2010 | 18:17
Fjárlagakák Steingríms J.
Fjárlög ríkisins fyrir árið 2011 virðist vera svo illa unnin að meira að segja hörðustu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og þar af fyrrverandi ráðherrar, a.m.k. Kristján Möller, segjast ekki styðja þau, enda séu þau arfavitlaus og gangi af allri velferðarþjónustu á landsbyggðinni dauðri. Ekki er annað að sjá, en frumvarpið sé unnið eingöngu af embættismönnum ráðuneytanna og hvorki ráðherrar eða þingmenn hafi verið hafðir með í ráðum, enda reyna þeir, hver sem betur getur, að sverja fjárlögin af sér.
Vegna nauðsynlegs sparnaðar í rekstri ríkisins, er tækifærið notað til að koma í framkvæmd gömlum draumi ýmissa kerfiskarla um að leggja meira og minna af alla sjúkrahússþjónustu á landsbyggðinni og flytja nánast allt sem heitir læknisverk til Reykjavíkur, enda sé landsbyggðarfólk ekkert of gott til að sækja alla sína þjónustu til höfuðborgarinnar.
Fullkomin fæðingardeild er á Akranesi, Keflavík og Selfossi, en þær á allar að leggja niður og skikka verðandi mæður um allt Suðurland, Suðurnes og Vesturland til að fæða börn sín í Reykjavík og mun þetta fyrirkomulag kosta tugþúsundir ferða þessara mæðra til borgarinnar vegna mæðraskoðana og fæðinga. Sama er að segja um skurðdeildir nánast allra sjúkrahúsa, annarra en Landspítalns í Reykjavík.
Engum virðist hafa dottið í hug, að ef nýta þarf betur landsbyggðarsjúkrahúsin, þá sé nákvæmlega jafn dýrt að flytja reykvíska sjúklinga út á land til læknishjálpar eða verðandi mæður til fæðinga, eins og kostar að flytja landsbyggðarfólk til Reykjavíkur. Meira að segja eru vegalengdirnar þær sömu í báðar áttir, þó Reykvíkingum þyki það reyndar meiriháttar ferðalag að fara upp fyrir Ártúnsbrekkuna.
Ef meira viti og jafnvægi verður ekki komið í fjárlögin, mun ríkisstjórnin ekki lifa afgreiðslu þeirra af.
![]() |
Munu fjárlögin njóta þingmeirihluta? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2010 | 20:44
Níðingslegar árásir á útrásarvíkinga
Það er óhætt að taka undir með Pálma í Iceland Express, að endalausar árásir óvandaðra manna á fyrrverandi útrásarvíkinga eru algerlega óþolandi og ósanngjarnar, enda útrásarvíkingar eins og aðrir víkingar vanir að að sölsa undir sig eignir, gersemar og jafnvel lönd, án þess að mikil mótspyrna sé veitt.
Eftir að Pálma, í félagi við vin sinn Jón Ásgeir og fleiri, mistókst að eyðileggja Icelandair í eitt skipti fyrir öll, tókst Pálma að "bjarga" Iceland Express undan þrotabúi Fons og reynir nú sem best hann má, að knésetja Icelandair með því að setja upp áætlunarflug á alla viðkomustaði félagsins og ekki annað að sjá, en íslenskir ferðalangar styðji hann dyggilega í þeirri herferð.
Útrásarvíkingarnir hafa líklega þurft að þola nóg, með því að missa bankana sína, þó ekki sé verið að eltast við þá vítt og breitt um heiminn til þess að reyna að reita af þeim þá aura, sem þeim tókst að hafa út úr þjóðinni á útrásarvíkingatímanum.
Þjóðin hefur lengi þakkað Bónusgenginu allt það góða sem fyrir þjóðina hefur komið í gegn um tíðina og nú væri sanngjarnt að bæta Pálma í Iceland Express í þann hóp. Jafnvel fleiri útrásarvíkingum, þó þeir hafi ekki verið hálfdrættingar í góðverkum sínum á við Bónusgengið.
![]() |
Slitastjórn í veiðiferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.10.2010 | 17:53
Flöt skuldalækkun verður ekki samþykkt
Ríkisstjórnin, með Jóhönnu Sig. og Steingrím J. í broddi fylkingar, hefur margsagt að flöt skuldalækkun komi ekki til greina, enda eigi þeir að borga skuldir sínar, sem það geti, en hjálpa skuli hinum, sem komnir eru í þrot og geta ekki staðið undir skuldabyrði sinni.
Eftir stærsta mótmælafund sögunnar, sem haldinn var á Austurvelli á meðan á þingsetningarræðu Jóhönnu stóð á mánudagskvöldið var, var ráðherrunum svo brugðið að þeir byrjuðu umsvifalaust að lofa öllum skuldurum öllu fögru og gengu svo langt að gefa í skyn, að farið yrði út í almenna skuldalækkun, sem ná myndi til allra, hvort sem þeir þyrftu á því að halda eða ekki.
Í gær, þegar Jóhanna var aðeins farin að ná sér eftir mótmælasjokkið, byrjaði hún að draga í land aftur og sagði að almenn skuldalækkun yrði "skoðuð" eins og annað, en skuldamál heimilanna myndu hafa algjöran forgang á næstunni, en útskýrði ekki hvers vegna ríkisstjórninni hefði ekki dottið í hug að gera allt sem mögulegt var í þeim efnum fyrr. Hún tók jafnframt fram, að til þess að hægt væri að fara í almenna lækkun skulda, þyrfti að ná samningum við bankana, Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóðina, ásamt heildarsátt við aðila vinnumarkaðarins.
Vitað er að Íbúðalánasjóður hefur ekkert svigrúm til að fella niður skuldir, bankarnir hafa engan vilja til að fara í almennar skuldaniðurfellingar, hvort sem þeir geta það eða ekki, án aðkomu skattgreiðenda og lífeyrissjóðirnir vilja alls ekki fara í slíkar aðgerðir, enda þyrfti að láta elli- og örorkulifeyrisþega sjóðanna greiða fyrir það. Um hvað á að ræða við aðila vinnumarkaðarins í þessu sambandi er óútskýrt og ekki auðséð.
Ríkisstjórnin hrökklast úr einu víginu í annað og nú er varla nema dagaspursmál, þangað til hún lýsir yfir algerum ósigri og játar að hafa aldrei meint neitt með loforðinu um almennu skuldalækkunina.
![]() |
Þingmenn vilja leysa skuldavandann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.10.2010 | 20:47
Gráðugir heimskingjar í fjárfestingum
Þúsund Íslendingar töpuðu um einum milljarði króna samtals á viðskiptum við alþjóðlega svikamyllu, sem lofaði þátttakendum í "fjárfestingum" á hennar vegum allt að 700% ávöxtun.
Ekkert nema græðgi og heimska fær fólk til að trúa því, að hægt sé að ávaxta peninga um 20% á mánuði, eða 700% á ársgrundvelli.
Svona gráðugir heimskingjar eiga ekkert annað skilið en að tapa peningunum sínum, þó ljótt sé að spila svona með einfaldar sálir.
![]() |
Fórnarlömb alþjóðlegrar svikamyllu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.10.2010 | 16:33
Ráðherrar tala út og suður - eins og venjulega
Í heilt ár kom Árni Páll, þáverandi félagsmálaráðherra, reglulega fram í fjölmiðlum og tilkynnti að "í næstu viku" myndi koma fram frumvarp til bjargar bíla- og íbúðaskuldurum, sem komnir væru í þrot vegna skulda sinna, en áður en frumvarpið yrði lagt fram, þyrftu tillögurnar "nánari útfærslu". Tillögurnar virðast aldrei hafa náð þessari "nánari útfærslu", a.m.k. er enn verið að boða ný frumvörp, sem leysa eigi vandann.´
Nú segir Jóhanna Sigurðardóttir að unnið sé að "nánari útfærslu" á nýjum tillögum, væntanlega endanlegum, til bjargar skuldugum heimilum í landinu og verði þær væntanlega tilbúnar "í næstu viku", eins og venjan er að kynna það sem ríkisstjórnin segist ætla að gera, en gerir aldrei. Þetta kynnti Jóhanna með mikilli áherslu og sagði ríkisstjórnina ráða málum í landinu, en ekki AGS, en í síðustu viku sagði hún að AGS vildi ekki að meira yrði gert í þessum skuldamálum og því væri ekkert hægt að gera. AGS réði, en ekki ríkisstjórnin.
Steingrímur J. segir að algerlega útilokað sé að fara í almenna skuldaniðurfærslu, enda kosti slíkt 220 milljarða króna, sem myndi lenda á ríkissjóði og engum öðrum, og því kæmi slíkt ekki til greina. Ögmundur Jónasson, samráðherra hans og flokksfélagi í VG rís þá upp og segist einmitt ekkert vilja frekar en almenna skuldaniðurfellingu og hann trúi Steingrími alls ekki um kostnaðinn. Alltaf sami kærleikurinn á þeim bænum.
Skyldu skuldarar bíða í ofvæni eftir "nánai útfærslu" þeirra tillagna sem eiga að sjá dagsins ljós "í næstu viku", eða hrista bara höfuðið yfir loforði Jóhönnu, eins og allir gerðu vegna loforða Árna Páls?
![]() |
Vill almenna lækkun skulda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.10.2010 | 21:47
Ríkisstjórnin rústar landsbyggðinni
Þrátt fyrir að spara þurfi stórar upphæðir í rekstri ríkisins, er forgangsröðunin vægast sagt undarleg og ekki verður annað séð, en að skipulega eigi að vinna að því að rústa allri þjónustu á landsbyggðinni og þar með því mannlífi sem ennþá tórir utan höfuðborgarsvæðisins.
Eitt af því sem fólki finnst nauðsynlegast í sínu byggðalagi, eða a.m.k. í næsta nágrenni, er góð heilbrigðisþjónusta, enda þurfa allir á henni að halda frá fæðingu til dauðadags, mismikið en allir vilja njóta þess öryggis, sem góð nærþjónusta lækna, hjúkrunarfólks, ljósmæðra og hjúkrunarheimila skapa.
Alls staðar, þar sem sjúkrahús er staðsett á landsbyggðinni er það hornsteinn þjónustunnar í héraði og stór atvinnuveitandi og oft eini vinnustaðurinn þar sem háskólamenntað fólk er við störf og starfsfólkið því mikil og góð lyftistöng mannlífsins í sinni heimabyggð. Það er algerlega ótrúlegt og í raun óskiljanlegt, að ríkisstjórnin skuli skipulega vinna að því að leggja heilbrigðisþjónustuna í rúst á landsbyggðinni, með litlum sem engum fyrirvara og án allrar viðvörunar.
Ótrúlegast af öllu er, að fjármálaráðherra af norð-austurlandi skuli leggja fram frumvarp um slíkt.
![]() |
85% niðurskurður á sjúkrasviði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
7.10.2010 | 15:52
Bjarna tókst það sem Jóhönnu hefur aldrei tekist
Mönnum er í fersku minni, að fyrir ári síðan, eða svo, skrifaði Jóhanna Sigurðardóttir bréf til Brown´s, forsætisráðherra Bretlands og annað til Darling´s, fjármálaráðherra, og óskaði eftir að fundi með þeim félögum, til þess að ræða um Icesavedeiluna. Báðir sýndu álit sitt á Jóhönnu með því að svara viðtalsbeiðninni aldrei, en sendu henni smámiða mörgum mánuðum síðar, þar sem einungis var sagt að viðræður um málið væru í gangi, en svöruðu bréfi Jóhönnu engu í raun.
Nú hafa orðið stjórnarskipti í Bretlandi og ekki vitað hvort Jóhanna hefur fengið einhvern til að skrifa fyrir sig annað bréf á ensku, og sent nýjum valdhöfum þar, en a.m.k. hefur hún ekki átt með þeim neina fundi, en einstaka sinnum er sagt frá því, að formlegar eða óformlegar viðræður séu ennþá í gangi, en ekkert hefur spurst til "miklu betra tilboðsins" sem "lá á borðinu" þegar þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave fór fram 6. mars s.l. og þjóðin sýndi stjórnvöldum hug sinn í verki á eftirminnilegan hátt.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, virðist ekki hafa átt í neinum vandræðum með að ná fundi Cameron´s, hins nýja forsætisráðherra Bretlands, og getað rætt við hann um Icesave og önnur mál, sem efst eru á baugi á Íslandi og í Bretlandi, þó formlegar niðurstöður séu auðvitað engar, enda fundurinn ekki til þess ætlaður, heldur til að kynna málstað Íslendinga og koma á framfæri þeim afgerandi sjónarmiðum, að Icesave sé íslenskum skattgreiðendum óviðkomandi.
Það hlýtur að styttast í það, að Bjarni Ben. taki formlega við forsætisráðherrastólnum af Jóhönnu. Hún hefur sýnt svo oft að hún ræður ekkert við þau vandamál sem við er að etja og tekst ekki einu sinni að halda ríkisstjórninni almennilega saman og segir það á við kattasmölun, sem allir vita að er ógerlegt verk.
Þjóðin getur ekki beðið lengur eftir raunverulegri forystu, sem ræður við að koma þjóðfélagninu í gang á ný.
![]() |
Íslendingar taki ekki á sig byrðarnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.10.2010 | 21:48
Bjarni Ben. er framtíðarleiðtogi þjóðarinnar
Það hefur komið æ betur í ljós undanfarnar vikur, að tilfinnanlega skortir leiðtogaefni fyir þjóðina úr röðum Alþingismanna og aðeins einn maður hefur sýnt að hann búi yfir þeim eiginleikum, sem góður forystumaður ríkisstjórnar þarf að vera gæddur.
Jóhanna Sigurðardóttir er búin að fá sinn tíma og hefur notað hann til að sýna og sanna vanhæfni sína í leiðtogahlutverki og Steingrímur J. hefur einnig glutrað niður allri tiltrú, sem sumir höfðu á honum og nú er svo komið að ekki einu sinni hans hörðustu fyrrum stuðningsmenn innan VG treysta honum lengur, vegna svika hans við öll helstu stefnumál flokksins frá stofnun hans.
Um Þór Saari þarf ekki að hafa mörg orð og þó Sigmundur Davíð hafi sýnt ýmsa góða spretti á þinginu, hefur hann ekki sýnt af sér þá leiðtogahæfileika sem þarf til að leiða ríkisstjórn. Bjarni Benediktsson er sá eini sem nú situr á þingi, sem hefur sýnt af sér virkilega hæfileika til að stjórna og leiða fólk til góðra verka og hefur farið sívaxandi í starfi sínu undanfarna mánuði og sýnt og sannað að hann er framtíðarleiðtogaefni þjóðarinnar.
Bjarni er skarpur, ákveðinn, fylginn sér en sanngjarn og hefur sýnt að hann er úrræða- og tillögugóður í erfiðum málum, enda leitar ríkisstjórnin nú til hans með beiðni um að leiða stjórnina inn á vænlegar brautir við úrlausn þeirra verkefna, sem hún hefur ekki getað leyst úr á undanförnum átján mánuðum.
Hitt er svo annað mál, að vænlegra til árangurs í erfiðleikum þjóðarbúsins er, að ríkisstjórnin fari strax frá og Bjarna verði falið að mynda nýja ríkisstjórn strax.
![]() |
Boða formenn flokka á fund í fyrramálið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
6.10.2010 | 16:08
Lausn sem gæti lagað ástandið strax
Ríkisstjórnin talar mikið um hve flókið sé og dýrt að taka á skuldavanda heimilanna eins og þarf og hefur því ekki getað bent á neinar lausnir og er orðin gjörsamlega ráða- og getulaus til þess að gera nokkuð raunhæft í málunum. Í upphafi þings var sagt að ekkert yrði gert meira í skuldavanda heimilanna og AGS gefið loforð um að ekki yrði gefinn frekari frestur á uppboðum fasteigna þeirra, sem í mestum greiðsluvanda eru. Stjórnin hefur líka sagt að vinna að lausnum á þessum málum sé svo tímafrek, að ekki hafi ennþá gefist tími til að finna viðundadi lausnir, en nú verði þessi mál sett í forgang.
Allir hljóta að sjá, að það er engin lausn á vandamáli að selja íbúðarhúsnæði ofan af fólki, jafnvel þó fylgi því heimild til að leigja húsnæðið í eitt ár eftir sölu. Með þessu er skapað nýtt vandamál, án þess að leysa það fyrra, því væntanlega er viðkomandi fjölskylda í vanskilum með fleira en íbúðarlánið og aðrir skuldheimtumenn munu því halda áfram að eltast við fólkið, allt fram að því að það yrði lýst gjaldþrota og jafnvel árum saman eftir það.
Besta tillaga sem komið hefur fram ennþá í þessu efni, er tillaga Sjálfstæðismanna um að einungis verði innheimtur helmingur íbúðalána næstu þrjú ár og hinn helmingurinn færður aftur fyrir lánstímann og þessi þrjú ár verði notuð til að finna endanlega lausn á þeim vanda, sem stökkbreytt lán hafa valdið og fólk fengi þessi þrjú ár til að greiða og semja um aðrar skuldir en íbúðalánin. Í þessari vinnu yrðu mál þeirra allra verst settu tekin fyrir fyrst og leyst úr þeim, því ekki fer hjá því að alltaf verða einhverjir sem þurfa á sérlausnum að halda.
Þessi tillaga náði ekki fram að ganga á þingi vegna þess að hún kom frá stjórnarandstöðuflokki og nú verður að krefjast þess að slíkur gamaldags skotgrafarhernaður verði aflagður og þingmenn sameinist um þær fáu nýtilegu tillögur sem litið hafa dagsins ljós fram að þessu og nýti tímann, sem slík frestunartillaga gæfi, til að finna varanlegar lausnir.
Tunnuslátturinn í dag verður áminning um ný vinnubrögð í þinginu og samstöðu um að leysa málin, jafnvel þó tillögurnar komi frá stjórnarandstöðunni.
![]() |
Þingið er óstarfhæft |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.10.2010 | 14:31
Reynt að spila með stjórnarandstöðuna og almenning
Hreyfingin sér ástæðu til að senda frá sér sérstaka yfirlýsingu um að hún sé tilbúin til þátttöku í mótun tillagna til lausnar á vanda heimilanna og er hún send út í tilefni af ósannindum Jóhönnu Sigurðardóttur um að stjórnarandstaðan hefði engan áhuga á samvinnu við ríkisstjórnina um málið.
Fulltrúar stjórnarandstöðunnar voru kallaðir á fund ríkisstjórnarinnar í gær og voru allir sammála um það, eftir fundinn, að ríkisstjórnin hefði engar tillögur um nýjar lausnir lagt fram og einungis ætlast til að stjórnarandstaðan lýsti yfir samstöðu sinni við þær aðgerðir, sem þegar hefði verið ráðist í, en hafa sýnt sig vera bæði lélegar og alls ófullnægjandi.
Stjórnarandstaðan var ekki boðuð til nýs fundar í dag, eins og Jóhanna hafði gefið fyrirheit um, enda var aldrei ætlunin að samþykkja nokkrar einustu tillögur frá stjórnarandstöðunni, heldur var tilgangurinn allan tímann að blekkja almenning með því, að láta líta út fyrir að samstaða væri á þinginu um að ekkert frekar yrði gert varðandi þessi vandamál.
Þegar ljóst var að stjórnarandstaðan ætlaði ekki að láta spila með sig, greip ríkisstjórnin til þess ráðs að boða Hagsmunasamtök heimilanna til fundar og lætur eftir hann eins og hún sé áhugasöm um að skoða hugmyndir samtakanna frekar, en fram að þessu hafa ráðherrarnir sagt að þær séu algerlega óframkvæmanlegar. Eini tilgangur þessa fundar var að reyna að slá á reiði almennings og vonast til, að með honum væri hægt að koma í veg fyrir, eða takmarka verulega, frekari mótmæli á Austurvelli.
Skuldamál heimilanna munu hafa algeran forgang á næstunni, segir Jóhanna núna. Það er mikið að hún skilur loksins alvöru málsins, en þó er skilningurinn ekki nógu mikill til að hætta sýndarmennskunni og reyna ekki að spila með stjórnarandstöðuna á þingi og almenning í landinu.
![]() |
Hafa áhuga á samstarfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)