13.10.2010 | 15:50
Nennir Jón Gnarr ekki að sinna borgarstjórastarfinu?
Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hyggst breyta stjórnkerfi borgarinnar á næstunni og stofna ný og breytt embætti, sem eiga að taka mest alla vinnu af borgarstjóranum og gefa honum þannig tíma til að sinna sínum eigin áhugamálum, sem eins og allir vita snúa aðallega að leiklist og fíflagangi.
Nú vill Jón Gnarr losna við allt stúss í kringum sviðsstjóra og aðra sem að verklegum þáttum koma hjá borginni og þar með þarf borgarstjórinn ekki lengur að vera að setja sig inn í þau mál, eða sitja á leiðinlegum fundum um verkefni borgarinnar. Hann hefur marg sagt að hann sé hundleiður á allri þeirri fundarsetu, sem starfinu fylgir og fái þar að auki höfuðverk af því að þurfa að hlutsta á umræður mjög lengi og þar að auki detti hann bara út og umfjöllunarefnið festist honum ekki í minni.
Í sjónvarpsþætti nýlega sagði Jón Gnarr að hann væri alltaf að skrifa handrit að uppistandi og sjónvarpsþáttum og nú þegar væri hann búinn að safna að sér talsverðu efni í nýja gamanseríu í borgarstjórastarfinu og vonaðist eftir að fá tækifæri að kjörtímabilinu loknu til að vinna það efni fyrir sjónvarp, enda yrði hann að þeim tíma liðnum kominn með ógrynni af efni til að moða úr.
Þar sem Jón Gnarr hyggst hætta að skipta sér að mestu af daglegum rekstri borgarinnar og ætlar þá væntanlega að snúa sér af meiri krafti að handritsskrifum fyrir væntanlega sjónvarpsseríu, ætti líklega að hætta að titla hann sem borgarstjóra og nefna hann frekar borgarlistamann.
Þá yrðu borgarstjóralaunin væntanlega kölluð sínu rétta nafni eftir það, eða listamannalaun.
![]() |
Ný staða eða aukin verkefni? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
13.10.2010 | 11:37
5-10 flokka ríkisstjórnir?
Rúmlega 70% þjóðarinnar telja mikla, eða frekar mikla, þörf fyrir nýja stjórnmálaflokka á Alþingi til viðbótar við núverandi flokka, eða í staðinn fyrir þá, ef marka má nýja skoðanakönnun MMR. Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt í lýðræðisríki að fólk með líkar skoðanir á málefnum stofni með sér samtök eða flokka til að vinna skoðunum sínum fylgis og koma sínu fólki í valdastöður til þess að þessar skoðanir og lífsviðhorf fái að njóta sín við lagasetningar á Alþingi og í stjórn landsins.
Það sem er þó heldur kvíðavænlegt við að flokkar á Alþingi skipti jafnvel tugum er, að erfitt gæti orðið að mynda starfhæfa meirihluta á þinginu, því fram að þessu hafa þriggja flokka meirihlutar aldrei náð að starfa saman heilt kjörtímabil og eins og allir vita, hangir núverandi tveggja flokka stjórnarsamstarf varla saman, nema á valdafíkninni og gerir meira ógagn en gagn, t.d. í atvinnumálum.
Því fleiri flokkar sem bjóða fram til Alþingis, því líklegra er að margir þeirra verði myndaðir um fá, eða jafnvel einstök hagsmunamál, að líklegt verður að telja að afar erfitt gæti orðið að mynda starfhæfa meirihluta á þinginu, enda er það reynsla þeirra þjóða þar sem fjöldi stjórnmálaflokka er mikill.
Þyki fólki vera losarabragur á Alþingi núna, hvernig halda menn að ástandið verði þegar t.d. tuttugu flokkar eiga þar fulltrúa? Hvað sem því líður er það sjálfsagður lýðræðislegur réttur að stofna sem flesta stjórnmálaflokka og bjóða þá fram í þingkosningum.
![]() |
70% vilja ný framboð til Alþingis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.10.2010 | 09:29
Engar almennar niðurfellingar skulda
Eftir tunnubarsmíðarnar á Austurvelli, þar sem áttaþúsund manns, komu saman til að mótmæla getuleysi lélegustu ríkisstjórnar lýðveldissögunnar í öllum málum, ekki síst atvinnumálum og vanda heimilanna, hefur ríkisstjórnin reynt að kaupa sér frið og framhaldslíf með síendurteknum loforðum um að nú skuli vandamál heimilanna "sett í forgang" og þykir mörgum það síst vera ofrausn, í tilefni tveggja ára afmælis efnahagshrunsins.
Jóhanna Sigurðardóttir hefur látið í veðri vaka, að til greina komi að farið verði út í almennar skuldaniðurfærslur, jafnvel um 18% í anda tillagna Hagsmunasamtaka heimilanna, en Steingrímur J. hefur passað sig á að taka ekki undir það, enda mun ekki verða farið út í slíkar aðgerðir, enda myndi kostnaðurinn af því lenda af mestum þunga á elli- og ororkulífeyrisþegum lífeyrissjóðanna og afgangurinn á skattgreiðendum.
Til að reyna að fela aðgerðarleysið og ekki síður til að geta reynt að kenna öðrum um, þegar kemur að því að tilkynna að ekki verði unnt að fara í almennar skuldaniðurfellingar, hefur ríkisstjórnin verið að boða stjórnarandstöðuna og hinar ýmsu nefndir Alþingis á fundi til að láta líta út fyrir að verið sé að kynna og ræða tillögur um skuldamálin og "nánari útfærslur" þeirra, sem kynntar yrðu "í næstu viku", eins og vinsælasti frasi ríkisstjórnarinnar hefur hljómað í eitt og hálft ár.
Um þessa fundi má vitna til þriggja aðila, sem þá hafa setið og hafa þetta um málið að segja í viðtendri frétt: ""Skemmst er frá því að segja að ekkert nýtt kom fram á þessum fundi, segir Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segir andrúmsloftið á fundinum hafa verið gott, og samstarfsvilja hjá viðstöddum. En ekkert nýtt var kynnt og hvað þá almennar aðgerðir. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tekur í sama streng. Það virðist greinilega vera þannig að stjórnvöld eru komin mjög skammt á veg með þessa svokölluðu verkáætlun um lausnir í skuldamálum heimilanna."
Velkist einhver í vafa lengur um tilgang "fundanna"? Auðvitað eru þeir haldnir til að reyna svo að kenna öllum öðrum en ríkisstjórninni um að niðurstaða þeirra verður engin og framkvæmdir í framhaldinu minni en engar.
![]() |
Engin verkáætlun kynnt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2010 | 18:38
Eva Joly gengur of langt
Eva Joly hefur starfað sem ráðgjafi Sérstaks saksóknara við rannsóknir á meintum glæpum banka- og útrásargengja og hefur hún notið mikils meðbyrs í því starfi af hálfu þjóðarinnar, þó flestum sé nú farið að þykja að djúpt sé á niðurstöðum, en ekki einu einasta máli, sem einhverju skiptir, hefur ennþá verið lokið af þeim skötuhjúunum og vísað til dómstóla.
Nú er Eva Joly, sem komin er í forsetaframboð í Frakklandi, hins vegar farin að leggja Íslendingum lífsreglurnar í alls óskyldum málum og ætlar að halda blaðamannafund með Björk Guðmundsdóttur og fleirum til að skora á stjórnvöld að brjóta lög á Magma Energy með því að ógilda kaup þess á HS-Orku, sem nefnd forsætisráðherra (að vísu ólögleg og umboðslaus nefnd) úrskurðaði algerlega lögleg, eins og nefnd um erlenda fjárfestingu hafði áður gert.
Eva Joly ætti að láta Íslendinga sjálfa ráða sínum innanríkismálum, en halda sig við glæparannsóknirnar, því greinilega veitir ekki af öllum þeim tíma, sem hún hefur til þess starfs, a.m.k. miðað við árangurinn fram að þessu.
Björk er einnig miklu betri tónlistarmaður heldur en áróðursmaður, en þó hún kæri sig ekki um að búa á landinu og greiða sín gjöld til samfélagsins, er hún þó íslensk og ekkert við það að athuga, að hún skuli koma í heimsókn af og til í þeim tilgangi að siða til þá landa sína, sem hér vilja starfa og lifa af landsins gæðum.
![]() |
Joly tekur undir áskorun Bjarkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
12.10.2010 | 11:43
Skemmdarverk á velferðarkerfi Sjálfstæðisflokksins
Á árunum fyrir hrun var ríkisstjórnum undir forystu Sjálfstæðisflokksins oft legið á hálsi fyrir að "þenja út ríkisbáknið" þrátt fyrir að tekjuafgangur hafi verið af rekstri ríkisins ár eftir ár og ríkissjóður verið að heita má skuldlaus, sem aldeilis kom sér vel þegar alþjóðlega efnahagskreppan skall á af fullum þunga.
Hefði ríkisbáknið verið þanið út á þessum árum með eintómum "óþarfa" og nýrri starfsemi, væri auðvelt að skera niður í rekstri ríkissjóðs núna, þegar á bjátar og spara allt það ónauðsynlega, sem fullyrt hefur verið að bætt hafi verið í ríkiskerfið á valdatíma Sjálfstæðisflokksins. Núna þegar kemur að því að spara þarf í kerfinu, er ekki hægt að benda á "óþarfann" og allur niðurskurðurinn er á sviði heilbrigðið- mennta- og velferðarmála, en það voru einmitt þau svið sem góðærisins nutu og fjárveitingar til allra þessara málaflokka voru stórhækkaðar og bætur auknar til elli- og örorkulífeyrisþega, fæðingarorlof var lengt og barna- og vaxtabætur hækkaðar.
Svo illa eru niðurskurðartillögurnar unnar og undirbúnar, að allir telja að á sínu sviði sé nánast um hermdarverk að ræða, lífeyrisþegar segja sínar skerðingar setja sig niður fyrir sultarmörk, skólayfirvöld telja rekstrargrundvöll skólanna varla vera lengur fyrir hendi, sjúkrahúsarekstur utan Reykjavíkur á að leggja í rúst og fæðingarorlof á að skerða og lækka barna- og vaxtabæturnar.
Ekki þarf að bera sérstaka stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir þessum skoðunum, því mótmælin sem á ríkisstjórninni dynja alls staðar af landinu eru ekkert sérstaklega frá þeim komin, heldur grasrótinni í þjóðfélaginu, lífeyrisþegunum sjálfum og starfsmönnum ríkisins, en þetta fólk hefur hinar ýmsu stjórnmálaskoðanir og kemur úr öllum stéttum þjóðfélagsins.
Nægir að benda á eftirfarandi, sem fram kemur í yfirlýsingu frá starfsmönnun ríkis og sveitarfélaga inna starfsgreinasambandsins, en þar segir m.a: "Félagsmenn SGS eru vel meðvitaðir um að niðurskurðar er þörf í ríkisrekstrinum, sumar tillögurnar verða þó ekki túlkaðar öðru vísi en að um hrein skemmdarverk sé að ræða. Engu er líkara en ákveðið hafi verið að leggja niður rekstur einstakra stofanna um alla framtíð. Nauðsynlegt er að því sé svarað af fullri hreinskilni hvort svo sé og heimamenn geti þá brugðist við í samræmi við það."
Við þetta er í sjálfu sér engu að bæta.
![]() |
Niðurskurðartillögur hrein skemmdarverk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.10.2010 | 09:08
Hver skuldar hverjum hvað?
Í umræðunni um skuldamál heimilanna hefur komið fram að aðeins 37% húsnæðislána séu í skilum, en 63% séu í "frystingu" eða í vanskilum. Þá hefur einnig komið fram að 10% þeirra, sem eru að missa íbúðir sínar á uppboð vita ekki hver uppboðsbeiðandinn er og fæstir hafa nýtt sér þau úrræði, sem þó eru í boði fyrir illa setta skuldara og margir vilja ekki forða íbúð sinni frá gjaldþroti af ókunnum ástæðum.
Eins hefur komið fram að þegar greiða á götu þeirra sem leita í skuldaaðlögun í bankakerfinu, stranda lausnir ekki á bönkunum, eða öðrum íbúðalánveitendum, heldur á ýmsum öðrum kröfuhöfum vegna neyslulána og ekki síst opinberum aðilum, t.d. vegna skattskulda. Allt vekur þetta upp spurningar um hvernig "skuldapakki" þeirra skuldugustu lýtur út, þ.e. hve stór hluti er vegna íbúðakaupa, hvað vegna bílalána, hve mikið vegna hjólhýsa og annars lúxusvarnings og hve mikið eru hrein neyslulán. Skattaskuldir ættu ekki að vera miklar hjá venjulegu launafólki, sem greiðir skatta jafnóðum af tekjum sínum, heldur frekar hjá þeim sem hafa verulegar aðrar tekjur en launatekjur, sem þá eru skattlagðar ári eftir að þeirra er aflað, en ekki jafnóðum eins og launatekjurnar.
Einnig hafa komið í ljós vankantar vegna lánsveða, þ.e. þegar skuldari hefur fengið lánað veð hjá foreldrum eða öðrum fyrir skuldsetningu sinni, en þá hljóta slíkar lántökur að vera til kaupa á einhverju öðru en húsnæði, því bankar og Íbúðalánasjóður lána aðeins út á veð í þeirri fasteign sem verið er að kaupa hverju sinni. Þannig hlýtur verulegur hluti þeirra skulda, sem eru að keyra fólk í þrot að vera aðrar skuldir, en húsnæðisskuldir og þá vaknar spurning um réttmæti almennrar lækkunar húsnæðisskulda, ef það verður ekki til að leysa endanlega úr skuldavanda þeirra, sem mest eru skuldsettir.
Það sem hlýtur að þurfa að gera er að fara að tillögu Sjálfstæðismanna um að fresta helmingi allra greiðslna af húsnæðislánum í a.m.k. þrjú ár, og færa hinn helming afborgananna afturfyrir lánstímann og nota þessi þrjú ár til að kryfja vanda hvers og eins og leysa úr honum einstaklingsbundið, en ekki með almennum aðgerðum, sem nýtast best þeim sem síst þurfa á þeim að halda.
Það hlýtur að þurfa að greina skuldir heimilanna betur niður í skuldaflokka, áður en hægt er að leysa úr vanda þeirra sem eiga í vandræðum vegna íbúðalána sinna.
Flest bendir a.m.k. til þess að skuldavandinn sé ekki mestur vegna íbúðalánanna.
![]() |
Afskrifa þyrfti 220 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.10.2010 | 16:32
Mestu mótmæli í sögu þjóðarinnar
Aldrei í Íslandssögunni hefur önnur eins mótmælabylgja riðið yfir landið, eins og gerst hefur á síðustu tíu dögum, en frá mánaðarmótum hefur allt landið logað stafna á milli vegna óánægju þjóðarinnar með þá aumu ríkisstjórn, sem nú situr við völd og gerðir hennar og ekki síst aðgerðarleysi.
Ríkisstjórnin hefur ekki komið með eitt einasta trúverðugt útspil vegna skuldavanda heimilanna, barist með hörku gegn hvers konar uppbyggingu atvinnulífsins og þar með aukið atvinnuleysið og landflóttann, hækkað skatta og álögur á millitekjufólkið upp úr öllu valdi, hótar sama fólkinu skerðingu á fæðingarorlofi, barnabótum og vaxtabótum ofan á aðrar kjaraskerðingar, hótar að leggja niður sjúkrahússþjónustu á landsbyggðinni og rústa þar með öryggi íbúanna og svona mætti lengi telja upp "afrekalista" ráðherranna.
Átta þúsund manns mættu til að mótmæla ríkisstjórninni á Austurvelli við setningu Alþingis þann 1. október s.l. og síðan hefur ríflega sá fjöldi samtals, mótmælt stjórninni hringinn í kringum landið og ekkert lát er á slíkum aðgerðum næstu daga. Slík óánægju- og mótmælabylgja hefur aldrei farið um landið og aldrei í sögunni hefur verið eins almenn óánægja með nokkra ríkisstjórn.
Ríkisstjórn, sem getur ekki lagt fram neinar tillögur til úrbóta á þeim vandamálum sem við er að glíma í þjóðfélaginu verður að fara frá völdum strax og fela stjórnina fólki sem treystir sér til að leysa úr málunum.
Þar er auðvitað Bjarni Benediktsson líklegastur til að geta leitt þjóðina út úr þessum vanda.
![]() |
Ofboðsleg skerðing á lífsgæðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
11.10.2010 | 13:42
Tilvera lands og þjóðar er í húfi
Eva Joly hefur verið ötul við að leggja málstað Íslands lið í baráttunni við fjárkúgarana bresku og hollensku vegna Icesave og því betur sem liðsinni hennar er þegið, er hroðalegra að horfa og hlusta á íslenska ráðherra reyna að sannfæra þjóðina um að ganga að kröfum kúgaranna.
Nú síðast var Össur Skarphéðinsson á ferð í Eystrasaltslöndunum og notaði tækifærið til að lýsa yfir uppgjöf sinni gagnvart fjárkúgurunum og allir þekkja baráttu Steingríms J. fyrir málstað hinna erlendu kúgara, sem hann hefur kosið að selja þjóð sína í skattalega ánauð næstu áratugina.
Eva Joly segir, sem rétt er, að sjálf tilvera Íslands sé í húfi vegna þessa glæpsamlega efnahagsstríð gegn íslenskum skattgreiðendum og ábyrgð á þessum Icesavereikningum sé ekki Íslendinga, heldur þeirra lánastofnana, sem gerðu bankakerfinu að blása út, eins og raunin varð, með endalausum austri erlendra lána til þeirra og gistiríkja Icesavereikninganna, sem sjálf áttu að annast eftirlit með þeim.
Eva nefnir að 8.000 manns hafi þegar flutt úr landi vegna ástandsins hér á landi og er sú tala hennar talsvert vanmetin og nokkrar fjölskyldur flytja erlendis í hverjum mánuði, enda virðist það vera skýr vilji Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar að búa svo um hnútana, að engin atvinnuuppbygging verði á landinu á næstu árum og með fjárlagafrumvarpinu er engu líkara en sú stefna hafi verið mótuð að koma sem mestu af heilbrigðisstéttunum úr landi, á sem skemmstum tíma.
Tilvera lands og þjóðar er undir því komin að ríkisstjórnin fari frá strax og ný ríkisstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar taki til starfa og komi þjóðinni upp úr kreppunni með kröftugri uppbyggingu atvinnutækifæra, minnkun atvinnuleysinsins og aðstoð við þá sem eru að missa heimili sín vegna skulda.
Kreppan leysist ekki fyrr en verðmætasköpun eykst og meðfylgjandi verður tekjuaukning einstaklinga, sem með því einu verða færir til að greiða neyslu sína og skuldir.
Icesave er hins vegar ekki skuld þjóðarinnar og fjárkúgun Breta og Hollendinga verður hrundið, þrátt fyrir samvinnu íslenskra ráðherra við erlend kúgunarríki.
![]() |
Joly: Tilvera Íslands í húfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.10.2010 | 10:43
Vandinn er ræddur og ræddur og ræddur og niðurstaðan engin
Ríkisstjórnin hefur boðað forystumenn stjórnarandstöðunnar á sinn fund í dag til að RÆÐA hugmyndir um almenna niðurfærslu skulda, sem stjórnin hefur fram að þessu sagt að sé gjörsamlega óframkvæmanleg, enda yrði hún geysilega kostnaðarsöm og sá kostnaður myndi að lokum lenda á skattgreiðendum.
Nú vill ríkisstjórnin ræða hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna um almenna niðurfærslu skulda, en í þeim felst að bankar, Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir færi niður allar útistandandi skuldir heimilanna a.m.k. um 18%, en kostnaður vegna þess yrði um 220 milljarðar króna og þá eru lán til fyrirtækjanna eftir, en heildarkostnaður við niðurfærslu allra lána er áætlaður um 1000 milljarðar króna.
Þór Saari hefur trú á því, að fundurinn í dag eigi að snúast um að ekki sé hægt að fara í almennar skuldaniðurfærslur og er það ekki ólíklegt. Ríkisstjórnin er svo ósamstíga og hrædd við gagnrýni almennings, að hún þorir ekki að ítreka fyrri yfirlýsingar sínar um þessi mál og reynir því að fá stjórnarandstöðuna til liðs við sig, þannig að hægt verði að segja að sátt sé innan Alþingis um leið ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna, en sú leið hefur reynst vandrötuð og þung fyrir fæti.
Þrátt fyrir tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um að elli- og örorkulífeyrisþegar lífeyrissjóðanna taki á sig hluta af skuldum yngri kynslóða, verður því varla trúað að skuldarar þiggi slíka niðurgreiðslu á lánum sínum og hljóti að vilja frekar berjast til þrautar sjálfir vegna afborgana af þeim.
Hér skrifar a.m.k. skuldari, sem ekki kærir sig um að elli- og örorkulífeyrisþegar, frekar en skattgreiðendur taki að sér að greiða af hans lánum.
![]() |
Skuldavandi heimilanna ræddur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.10.2010 | 09:09
Þingræði, ráðherraræði eða embættismannaræði?
Hér á landi hefur þróunin verið á þann veg að ríkisstjórnin stjórni Alþingi, en ekki öfugt eins og stjórnarskráin segir fyrir um. Samkvæmt stjórnarskránni skal Alþingi setja landinu lög og skipa ríkisstjórn til að sjá um verklegu hliðina á lögunum, þ.e. að sjá til þess að embættismennirnir og kerfið í heild framfylgi þeim lögum, sem þingið setur.
Þingmennirnir hafa látið það yfir sig og Alþingi ganga, að verða lítið annað en stimpilpúði á lagafrumvörp sem frá embættismönnum koma í gegn um ráðherrana og sárafá, ef nokkur, þingmannafrumvörp eru samþykkt á Alþingi og alls ekki ef þau koma frá stjórnarandstöðuþingmönnum.
Nú hafa þingmenn allra flokka, annarra en VG, tekið sig saman um að flytja frumvarp til laga um þátttöku ríkissins í kosntanði við hafnargerð í Helguvík, en nokkuð er víst að ríkisstjórnin mun fyrirskipa forseta Alþingis og formönnum nefnda, að tefja frumvarpið og þvæla, svo það muni daga uppi í þinglok og enga afgreiðslu hljóta. Það yrði mikil niðurlæging fyrir Alþingi og endanleg sönnun þess að hér ríki ráðherraræði en ekki þingræði.
Ef frumvarp, sem flutt er af meirihluta þingmanna, verður kæft og tafið svo lengi að það fáist ekki afgreitt, væri nánast hægt að leggja Alþingi niður og taka hér upp algert embættismannaræði.
![]() |
Ríkið borgi 700 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)