Asnaeyrnatog

Þegar náttúruhamfarir dynja á landinu, svo sem eldgos eða jarðskjálftar fer allt björgunarkerfi þjóðarinnar af stað til að bjarga og aðstoða þá sem fyrir hamförunum verða, en ekki er hugsað um hina, sem enga hjálp þurfa, enda falla þeir að sjálfsögðu ekki í flokk þeirra sem neyðaraðstoð nær yfir.  Sama gildir um þá sem lenda í bifreiðaslysum, björgunarlið er sent á vettvang og jafnvel þó sá sem slysinu olli hafi verið í órétti fær hann neyðaraðstoð og flutning á sjúkrahús, þar sem honum er hjúkrað á sama hátt og hinum, sem fyrir slysinu varð og var í fullum rétti í umferðinni.

Annað virðist vera uppi á teningnum ef fólk lendir í fjárhagslegum slysum, hvort sem þau eru vegna sjálfskaparvítis eða annars, því t.d. Hagsmunasamtök heimilanna berjast harkalega fyrir því, að aðaláhersla verði lögð á að koma þeim til aðstoðar, sem hugsanlega gætu lent í ógöngum með sín skuldamál á næsta ári, eða því þarnæsta, en segjast hins vegar ekki vera að berjast fyrir því "að bjarga öllum", eins og þau orða það svo snyrtilega.

Hefði ekki þótt undarlegt þegar gosið varð í Eyjafjallajökli, ef þeir sem urðu þar fyrir skaða, hefðu verið látnir bíða, en áhersla lögð á að "bjarga" þeim sem hugsanlega gætu orðið fyrir tjóni ef Katla tæki upp á því að gjósa á næsta ári, eða því þarnæsta?  Slíkt hefði örugglega þótt fáránlegur hugsunarháttur, en þó í ætt við hugsun HH, sem ekki berst fyrir því að bjarga þeim, sem eru í raunverulegri neyð nú þegar. 

Hagsmunasamtök Heimilanna og ríkisstjórnin eru í einhverskonar asnaeyrnatogi fram og til baka, sem engan tilgang hefur og ekkert skilur eftir sig, annað en verk í eyrunum.

Á meðan að á asnaeyrnatoginu stendur bíða þeir sem fyrir skakkaföllum hafa orðið ennþá á slysstað og þrátt fyrir tveggja ára bið bólar ekkert á björgunarliðinu, hvort sem þeir sem um sárt eiga að binda voru í rétti eða órétti.


mbl.is Engar ákvarðanir enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leynilegar björgunaraðgerðir

Hagsmunasamtök heimilanna sendu frá sér yfirlýsingu í gær með harðorðum svívirðingum um ríkisstjórnina fyrir að hafa valdið sér sárum eyrnaverk og ekki voru sendingarnar til verkalýðhreyfingarinnar og fleiri mjúkmálli og jafnvel líktu samtökin umboðsmanni skuldara við mús, en töldu sjálf sig hins vegar einskonar asna, sem dregnir væru áfram á eyrunum.

Eins og venjulega, þegar ríkisstjórnin fær það óþvegið, þá lítur hún upp af koddanum og segist ætla að gera eitthvað í áríðandi málum, en auðvitað verður aldrei neitt úr verki, áður en höfuðið dettur niður á koddann aftur og svefninn sígur að á ný. 

Þó virðist stjórnin hafa rifið sig framúr í dag, en enginn má vita hvar hún heldur sig og hagsmunasamtökin samþykkja að taka þátt í feluleiknum, enda líta þau stórt á sig og telja sig vera björgunarlið þeirra, sem hugsanlega gætu lent í fjárhagsvandræðum í framtíðinni, en er miklu minna umhugað um þá, sem komnir eru í vandræði nú þegar.

Hvort gefin verði út leynileg tilkynning um leynilegar björgunaraðgerðir skuldara eftir leynifundinn verður að koma í ljós, en a.m.k. tekst ríkisstjórninni að forðast mótmæli almennings fyrir utan fundarstaðinn, en til þess hefur leynileikurinn líklegast verið gerður.

Hagsmunasamtök heimilanna láta hins vegar draga sig á asnaeyrunum bæði leynt og ljóst.


mbl.is Engar upplýsingar veittar um fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íhuga að samþykkja sekt og kaupa sig frá rannsóknum

Sunday Telegraph segir frá því, að Sigurður Einarsson og Sigurður Már, fyrrverandi stjórnendur Kaupþings, séu allra vinsamlegast að hugleiða hvort þeir eigi að samþykkja og greiða sekt, sem breska fjármálaeftirlitið lagði á þá vegna brota á tilkynningaskyldu til eftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið breska hefur ekki viljað staðfesta að rannsókn standi yfir á Singer & Friedlander bankanum, sem Kaupþing átti og rak í Bretlandi, en Sunday Telegraph segir einnig frá öðru stórundarlegu máli, fyrir utan að beðið sé eftir samþykki þeirra kumpána á sektinni, en það er eftirfarandi:  "En stofnunin muni hafa átt í viðræðum við þá Sigurð og Hreiðar Má um að þeir greiði sektina án þess að viðurkenna neina sök og þar með fái þeir friðhelgi gagnvart frekari rannsókn."  Ef minnsti fótur er fyrir þessari fullyrðingu blaðsins er greinilegt að breska eftirlitið ætlar að taka á þeim félögum með silkihönskum og gefa þeim kost á að kaupa sig frá frekari rannsóknum á "viðskiptum" þeirra í Bretlandi.

Það verður að teljast með ólíkindum að hægt sé að kaupa sig frá svika- og glæparannsóknum með þessum hætti í Bretlandi og fréttin ein og sér verður til þess að eyðileggja álit fólks á efnahagsbrotarannsóknum í því landi, a.m.k. rannsóknum fjármálaeftirlitsins.

Ekki verður því trúað, að Sigurður Einarsson hafi náðasamlegast komið til landsins fyrir nokkrum vikum til að reyna að kaupa sig frá frekari rannsóknum hér á landi.


mbl.is Sagðir íhuga tilboð breska fjármálaeftirlitsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Asnar dregnir á eyrunum

Hagsmunasamtök heimilanna segjast hafa verið dregin á eyrunum, sem þau lýsa sjálf að séu eins og eyru á ákveðnu dýri, af "getuleysi stjórnkerfi" og hljóta þar að vera aðallega að vísa til Jóhönnu Sigurðardóttur, sem lofaði flatri niðurfærslu allra húsnæðisskulda í hræðslukasti vegna tunnusláttar mestu mótmæla í Íslandssögunni gegn nokkru stjórnvaldi.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sá strax í gegn um blekkingarvefinn og lýsti því strax yfir, að boðaðir fundir um málið væru sýndarmennska og ekki stæði til af hálfu stjórnvalda að gera meira í málefnum skuldugra heimila, en þegar hefði verið gert.  Líklega munu Jóhanna og ríkisstjórnin þó koma fram með lítilvægar breytingar á þegar samþykktum úrræðum, sérstaklega vegna þess hve flókin og seinvirk þau eru.  Einnig mun líklega verða gerð breyting á lögum um innheimtu opinberra gjalda, svo lausn skuldaúrræðanna strandi ekki á innheimtumönnum ríkissjóðs og sveitarfélaga, eins og verið hefur fram að þessu.

Um leið og þær breytingar verða kynntar, mun Jóhanna fara mikinn í ásökunum sínum á alla aðra en ríkisstjórnina og kenna þeim um, að ekki hafi verið farið í flata skuldaniðurfellingu.  Þar mun Sjálfstæðisflokkurinn fá sína gusu, sem og lífeyrissjóðirnir, verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og jafnvel almenningur fyrir skilnings- og samstöðuleysi í erfiðum málum.

Sá reiðilestur gegn öllum nema ríkisstjórninni verður fluttur til að reyna að forða því að tunnurnar verði bornar inn á Austurvöll á ný. 

Spurningin er hins vegar sú, hvort öll þjóðin ætlar að láta draga sig á eyrunum mikið lengur.


mbl.is Hagsmunasamtökin dregin á asnaeyrunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öllum orðið sama um stjórnarskrána?

Ein háværasta krafan í "Búsáhaldabyltingunni" var um nýja stjórnarskrá og létu þá ýmsir eins og bankahrunið væri tilkomið vegna einhverra galla á stjórnarskránni og eins átti það að vera bráðnauðsynlegt að breyta henni, ekki síst vegna þess að hún væri orðin svo gömul.

Mikið var rætt og ritað um nauðsynina á nýrri stjórnarskrá og alls kyns athugasemdir við hana settar fram, sem komu stjórnarskránni í sjálfu sér ekkert við og fjöldi tillagna kynntar til breytinga, sem margar hverjar komu stjórnarskránni heldur ekkert við.  Áhugi á stjórnarskrármálefnum virtist vera mjög almennur og "allir" höfðu skoðanir á henni, jafnvel þó þeir hefðu aldrei lesið hana, eða kynnt sér að öðru leyti.

Ríkisstjórnin hljóp eftir kröfum um stjórnlagaþing og nú er komið að því og þá bregður svo við, að enginn áhugi virðist vera lengur á breytingum á stjórnarskránni, lítið sem ekkert er fjallað um málið, fulltrúa á þjóðfund um málið þurfti að dekstra til að mæta og framboð til stjórnlagaþingsins virðast ekki ætla að ná tvö hundruð, þannig að varla koma til með að sitja þar bestu og hæfustu menn þjóðarinnar í stjórnarskrárfræðum.

Tillaga að nýrri stjórnarskrá, sem stjórnlagaþingið mun senda frá sér verður ekki bindandi fyrir Alþingi, þannig að engin ástæða er til að reikna með því, að nokkuð verði gert með niðurstöðuna og þrefið um stjórnarskrána muni halda áfram inni á þingi einhver ár ennþá.

Ef að líkum lætur mun enginn þrýsta á Alþingi að flýta málinu, enda verður almenningsálitið sjálfsagt upptekið af öðrum málum, þegar þar að kemur.


mbl.is Hálfur milljarður í stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. enn í Bretavinnunni

Steingrímur J. hefur nú staðfest að hann og félagar hans hafi stundað Bretavinnuna samviskusamlega undanfarið og nú "beri lítið á milli" varðandi frágang á fjárkúgunarkröfu Breta og Hollendinga á hendur íslenskum skattgreiðendum vegna fjárglæfra Landsbankans erlendis fyrir hrun, en þeir fjárglæfrar og aðrir slíkir, framdir af banka- og útrásargegnjum orsökuðu einmitt hrunið og voru ekki á ábyrgð íslensks launafólks.

Þrátt fyrir að þjóðin hafi sýnt Steingrími J., Jóhönnu Sig. og erlendum samverkamönnum þeirra að hún sé ekki tilbúin til að selja sig í skattalegan þrældóm fyrir erlendar kúgunarþjóðir næstu áratugina, með ótrúlega glæsilegri útkomu úr þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór 6. Mars s.l., virðist einbeittur kúgunarvilji íslensku ríkisstjórnarinnar í samvinnu við þær erlendu vera óbreyttur.

Ríkisstjórnin annaðhvort skilur ekki þjóðarviljann, hvort sem hann birtist í kosningum eða tunnuslætti á Austurvelli, eða er nákvæmlega sama um hann, enda virðist ekki eiga að taka nokkurt mark á honum, hvorki varðandi þrælasöluna eða skuldavanda heimilanna í landinu.

Verði gengið að nýjum fjárkúgunarkröfum Breta og Hollendinga, hlýtur það að verða síðasta verk þessarar ríkisstjórnar, því varla mun þjóðin láta bjóða sér meira af svo góðu.


mbl.is Skriður kominn á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta sami Stefán Ólafsson?

Aðalfundur BSRB stendur nú yfir og meðal ræðumanna þar er Stefán Ólafsson, prófessor, sem nýtt hefur menntun sína til pólitískra útreikninga á velferðarkerfinu, eftir því hvaða flokkar eru í ríkisstjórn hverju sinni.

Fréttin af aðalfundinum hefst svona:  "Stefán Ólafsson prófessor segir að öflugt velferðarkerfi hafi valdið því að kreppan hitti Íslendinga ekki eins illa fyrir og margar aðrar þjóðir. Velferðarkerfið muni þannig nýtast til að milda höggið sem efnahagshrunið hafði í för með sér. Stefán hélt erindi á aðalfundi BSRB sem stendur nú yfir."

Er þetta ekki alveg örugglega sami Stefán Ólafsson, prófessor, og nýtti hvert tækifæri á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn, til að birta útreikninga sína og skýrslur um hve illa væri farið með elli- og örorkulífeyrisþega og að heilbrigðis- mennta- og velferðarkerfið væri algerlega í rúst og auðvitað væri það allt Sjálfstæðisflokknum að kenna? 

Nú segir þessi Stefán Ólafsson, prófessor, að velferðarkerfi Sjálfstæðisflokksins hafi verið svo öflugt, að það bjargi því að kreppan hitti Íslendinga ekki eins illa fyrir og aðrar þjóðir, sem ekki hafi verið svo lánsamar að búa við öflugt velferðarkerfi Sjálfstæðisflokksins.

Það er ekki oft, sem hægt hefur verið að taka mark á Stefáni Ólafssyni, prófessor, en í þetta sinn hefur hann algerlega rétt fyrir sér í því, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið öflugasti velferðarflokkur landsins og líklega á norðulöndunum öllum.


mbl.is Segir stjórnvöld hafa hlíft þeim lægst launuðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarr sprunginn á limminu

Jón Gnarr rak kosningabaráttu sína á því að svo létt verk og löðurmannlegt væri að gegna starfi borgarstjóra að hann ætlaði sér ekkert að aðhafast í því starfi annað en að þiggja góðu launin og láta einkabílstjórann um að sjá um að koma sér í gegnum öngþveitið í umferðinni í Reykjavík.

Nú er að koma í ljós það sem allir áttu að geta séð fyrir, að starf borgarstjóra er miklu yfirgripsmeira en Jón Gnarr vildi vera láta fyrir kosningar, enda er svo komið aðeins rúmum þrem mánuðum eftir að hann tók við starfinu, að hann er búinn að gefast upp á að gegna því og er þegar byrjaður að koma ábyrgð á erfiðustu verkunum yfir á ráðna starfsmenn borgarinnar og Gnarrinn ætlar sér eingöngu að sinna opinberum móttökum og öðrum skemmtilegheitum.

Niðurlag fréttarinnar er athyglisvert, en það er svona:  "Það er sérstakt að velta upp hugmynd sem þessari þegar alvarleg tíðindi berast í sömu viku um að til standi að segja upp tugum starfsmanna hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Það er eiginlega óhjákvæmilegt að velta fyrir sér hvort einhverjir samningar í þessa veru hafi verið gerðir þegar samstarf Besta flokksins og Samfylkingar komst á. Ef það kemur annar borgarstjóri í Reykjavík þá gef ég mér að það verði Dagur B. Eggertsson."

Jón Gnarr segir það úreltan hugsunarhátt að hafa einn borgarstjóra í Reykjavík, enda séu aðrar álíka stórborgir eins og t.d. New York, London, Tokyo og Kuala Lumpur með fleiri en einn borgarstjóra. 

Dettur einhverjum lengur í hug, að svona fíflagangur gangi lengi við stjórn Reykjavíkurborgar?


mbl.is Snýst um stól fyrir Dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarr fordæmir og Gnarr fagnar fordæmingunni

Í gær var bloggað HÉRNA um þá ótrúlegu samþykkt meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur að skipta embætti borgarstjórans niður á aðra embættismenn, að því er virðist til þess að gefa Jóni Gnarr rýmri tíma til að semja handrit fyrir uppistand sitt og sjónvarpsþætti, en hann sagði nýlega í sjónvarpsþætti að hann notaði tímann í embættinu til að safna að sér efni í nýja gamanþætti og sagðist reikna með að hafa nóg efni eftir kjörtímabilið í heila sjónvarpsseríu.

Í dag berst hver drephlægilega fréttin af annarri úr herbúðum Besta flokksins og er af nægu að taka:  Hugmynd um að hætta áfengissölu í vínveitingahúsum, hugmynd Jóns Grarr um að fjölga borgarstjórum í Reykjavík, eins og gert sé í öðrum sambærilegum stórborgum, t.d. London, New York, Tokyo og Sao Paulo, fordæming Gnarrs júniors og félaga í ungliðahreyfingu Besta flokksins á miðaldra félögum Besta flokksins og fögnuður Gnarrs eldra vegna fordæmingar sonarins.

Allt er þetta væntanlega gert í anda gamanseminnar og eingöngu til að skemmta landsmönnum í skammdeginu, en til eru þeir sem hafa engan húmor fyrir þessari vitleysu í stjórnmálum borgarinnar á tímum þar sem alvarleg verkefni bíða úrlausnar, ekki síst fjárlagagerð borgarinnar og uppsagnir starfsmanna í stofnunum hennar.

Ungliðahreyfing Besta flokksins segir að svo sé komið, að gerðir og ályktanir borgarfulltrúa flokksins séu farnar að fæla stuðningsmenn frá flokknum og ekki er nokkur minnsta ástæða til að draga það í efa.

Miklu merkilegra væri, ef nokkur einasti stuðningsmaður fyrirfinnst ennþá í borginni.


mbl.is Jón Gnarr fagnar fordæmingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrisþegar greiði fyrir skuldaniðurfellingar

Vegna þeirrar skelfingar sem tunnubarsmíðarnar fyrir framan Alþingishúsið á meðan Jóhanna Sigurðardóttir flutti stefnuræðu sína þann 1. Október s.l., ollu meðal ráðherranna og stuðningsmanna þeirra á þinginu, hefur tímanum síðan verið varið til umfjöllunar um hvernig og hvort fara eigi út í flatar skuldaniðurfellingar allra húsnæðislána, en á meðan er ekkert gert til að útkljá mál þeirra, sem virikilega þurfa á aðstoð að halda vegna skuldamála sinna.

Íbúðalánasjóður er að mestu leyti fjármagnaður af lífeyrissjóðunum og á sáralítið eigið fé og getur því ekki afskrifað eitt eða neitt, nema til komi fjárframlag frá ríkissjóði, eða lífeyrissjóðirnir afskrifi lán sín til sjóðsins, svo hann geti afskrifað hjá lántakendum sínum.  Síðan þyrftu lífeyrissjóðirnir að afskrifa hluta beinna útlána sinna til sjóðfélaga og minnstur hluti niðurfærslanna myndi svo lenda á bönkunum, sem trúlega gætu tekið á sig tapið af slíkum ráðstöfunum, þó vafasamast sé það með Landsbankann, sem er ríkisbanki og myndi, ef að líkum lætur, þurfa aukið fjárframlag úr ríkissjóði.

Hvernig svo sem þessi flati niðurskurður húsnæðislána yrði framkvæmdur, myndi hann óhjákvæmilega lenda á elli- og örorkulífeyrisþegum lífeyrissjóðanna og framlög sem frá ríkissjóði kæmu, yrðu væntanlega ekki fjármögnuð öðruvísi en með auknum niðurskurði í mennta- heilbrigðis- og velferðarkerfinu.

Á meðan þráttað er um hvernig niðurfellingunni verði með minnst áberandi hætti komið yfir á elli- og örorkulífeyrisþega, halda innheimtuaðgerðir og nauðungarsölur íbúða þeirra verst stöddu áfram af fullum þunga, m.a. vegna uppboðsbeiðna frá innheimtumönnum ríkissjóðs og sveitarfélaga, sem ekkert gefa eftir, ekki einu sinni þó skuldararnir reyni að komast í skuldaaðlögun, en þá stranda uppgjörin oftast á skuldunum við ríkið og sveitarfélögin, sem engin leið er að fá lækkaðar eða felldar niður.

All snýst um þessar mundir um að aðstoða þá sem minnstrar aðstoðar þurfa.  Þetta kemst ríkisstjórnin upp með, vegna þess að hinn breiði fjöldi leyfir henni það og svo þegar kemur að því að tilkynnt verður, að ekkert verði af þessari almennu niðurfellingu, þá verður stjórnarandstöðunni og lífeyrissjóðunum kennt um og ríkisstjórnin mun standa eftir og slá sér á lær af hneykslun yfir "framferði" þeirra.

Nauðungaruppboðin fara fyrst fram á skrifstofu sýslumanna og síðar á eignunum sjálfum að fjölskyldunum viðstöddum, þar á meðal börnum.  Það eru ekki uppboð á eignum þeirra, sem geta borgað af skuldum sínum.  Þau eru vegna þeirra skuldara, sem gjarnan myndu vilja greiða skuldir sínar, en geta það ekki.

Hinir skipa miklu stærri og sterkari þrýstihóp.


mbl.is Flatur niðurskurður hjálpar ekki þeim verst stöddu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband