6.10.2010 | 11:25
Veruleikafirrtir þingmenn
Hvernig í ósköpunum ætli að standi á því, að á meðan tunnur eru barðar á stærsta útifundi sögunnar á Austurvelli, vegna vanda heimilanna í landinu og ræfildómi ríkisstjórnarninnar til að koma til móts við þann vanda og getu- og viljaleysinu til að koma hjólum atvinnulífsins til að snúast, þá dettur þingmönnum ekki í hug að leggja einhverjar hugmyndir til málanna til lausnar vandans og hugsa ekki einu sinni um hann.
Fimmtán þingmenn leggja nú fram í tíunda sinn, frumvarp um að banna kjarnorkuvopn á landinu og í nágrenni þess, eins og mesta vandamálið sem nú sé við að glíma hérlendis séu haugar af kjarorkuvopnum, kjarnaknúnum skipum eða kjarnorkuúrgangi.
Á meðan þingmenn eru svona gjörsamlega veruleikafirrtir og skilja ekki ennþá, að almenningur er að kalla eftir því að öll svona gæluverkefni verði sett í salt á meða fjallað er um alvöru mál og þau leyst, verður ekkert lát á mótmælafundum á Austurvelli.
Þessir fimmtán þingmenn eru sjálfum sér og Alþingi til stórskammar.
![]() |
Frumvarp flutt í tíunda sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
6.10.2010 | 09:40
Þrek til að taka á vandanum
Í dag eru tvö ár frá því að banka- og efnahagshrunið skall á þjóðinni af fullum þunga og neyðarlögin voru sett, til að bjarga því sem bjargað varð í peningamálum þjóðarinnar, þ.e. að stofna nýja banka í stað þeirra gömlu og flytja innistæður á milli þeirra og útistandandi kröfur bankanna á móti og síðan lagði ríkissjóður bönkunum til hlutafé.
Við fall bankanna urðu margir fjármagnseigendur fyrir gríðarlegu tapi, bæði þar sem hlutabréfaeign tapaðist nánast öll á einu bretti og skuldabréf urðu mörg verðlaus og eignir í peningamarkaðssjóðum rýrnuðu verulega. Gengi erlendra gjaldmiðla, sem hafði byrjað að hækka í mars 2008, fór upp úr öllu valdi í kjölfar hrunsins, sem leiddi til gífulegrar hækkunar á erlendum skuldum og verðbólgan í kjölfarið hækkaði vísitölubundnar skuldir verulega.
Ríkisstjórn Geirs H. Haarde hrökklaðist frá völdum í kjölfar "búsáhaldabyltingarinnar" og við völdum tók ríkisstjórn, sem síðan hefur sannað sig sem einhverja þá alverstu, sem um stjórnartaumana hefur haldið frá lýðveldisstofnun og hefur ekki haft getu, vilja né hugmyndir til þess að glíma við þann vanda, sem hrunið olli heimilunum í landinu og þjóðfélaginu öllu.
Í stað þess að leggja áherslu á atvinnuuppbyggingu og minnkun atvinnuleysis, hefur ríkisstjórnin þvert á móti barist með öllum sínum ráðum gegn öllum hugmyndum og undirbúningi að nýjum atvinnutækifærum og hefur reynst algerlega ráðalaus gagnvart vanda heimilanna og reyndar aukið hann umtalsvert með skattahækkunarbrjálæði sínu og bótaskerðingum til barnafjölskyldna og íbúðakaupenda, að ekki sé nú minnst á elli- og örorkulífeyrisþega.
Á mánudag reis almenningur upp gegn þessari vesælu ríkisstjórn með stærsta útifundi Íslandssögunnar, sem fram fór á Austurvelli við þingsetningu og í kjölfarið á honum virtust ráðherrar loksins byrja að átta sig á alvöru mála, en vegna skorts á úrræðum og hugmyndum ákölluðu þeir stjórnarandstöðuna sér til bjargar, en eins og flest annað sem stjórnin hefur gert, sýndi sú fundarboðun sig vera tóm sýndarmennska og stjórnin gat ekkert nýtt lagt þar fram, en ætlaðist til þess að stjórnarandstaðan legði blessun sína yfir að ekkert yrði gert frekar í skuldavanda fjölskyldnanna í landinu.
Orð Ólafar Nordal, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem hún lét falla að fundi loknum, segja allt sem segja þarf um ríkisstjórnina og ráðherra hennar, en Ólöf sagði m.a: "Menn verða bara að hafa þrek til að taka á þeim vanda sem framundan er. Ef ríkisstjórnin getur það ekki verður hún bara að fara frá."
![]() |
Fela sig á bak við AGS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.10.2010 | 21:47
Ofsóknir og hefndaræði
Dálkahöfundurinn Christopher Caldwell sem skrifar í The Financial Times hittir naglann algerlega á höfuðið, þegar hann segir að það, að stefna Geir H. Haarde fyrir Landsdóm einkennist af hefndarþorsta og eftiráspeki pólitískra ofstopamanna.
Hann bendir á það, sem ætti að vera hverjum manni auðskilið, að það allra síðasta sem nokkur ráðherra eða ríkisstjórn má gera, er að gefa í skin að bankakerfi landsins, eða einstakir bankar, standi ekki traustum fótum. Slík yfirlýsing frá ráðamanni þjóðarinnar myndi umsvifalaust leiða til áhlaups á bankann, eða bankana og valda því að þeir yrðu gjaldþrota samdægurs.
Þar sem pólitískir loddarar á Alþingi og stuðningsmenn þeirra hafa þegar ákveðið að Geir H. Haarde sé sekur um allt sem honum er stefnt fyrir og miklu fleira, þá mun sýkna hans fyrir Landsdómi aldrei verða viðurkennd af þessu blóðþyrsta hatursgengi og hjörðin mun halda áfram að jarma um sekt og útmála dómarana sem ónytjunga og sýnir síðasti dómur Hæstaréttar að ekki þarf nema tvo mánuði til að snúa lofi yfir í bölvun.
Íslendingar hafa alltaf tekið meira mark á útlendingum en löndum sínum. Vonandi gera þeir það líka í þessu tilfelli.
![]() |
,,Hefndarþorsti og eftiráspeki" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.10.2010 | 13:32
Jóhanna viðurkennir getuleysið
Á blaðamannafundi eftir ríkisstjórnarfund í dag viðurkenndi Jóhanna Sigurðardóttir algert getuleysi ríkisstjórnarinnar og uppgjöf hennar við að fást við þau verkefni sem við er að glíma í þjóðfélaginu. Hún sagði þar m.a: "En ég er sannfærð um það ef við náum samstöðu með stjórnarandstöðunni, náum góðum samráði með hagsmunasamtökunum og aðilum vinnumarkaðarins þá ættum við að geta unnið okkur út úr þessu."
Hvers vegna nefnir hún ekki góða samstöðu innan og milli stjórnarflokkanna sjálfra, sem hafa haft meirihluta á þingi síðan í febrúar 2009, en reyndar aldrei sýnt neinar hugmyndir eða getu til að leysa úr þeim vanda, sem heimilin í landinu lentu í vegna stökkbreyttra bíla- og húsnæðislána.
Það sýnir einnig sambands- og skilningsleysið á vandamálunum, að stjórnin skuli ekki skilja ákall almennings um aðgerðir fyrr en stæsti og háværasti mótmælafundur Íslandssögunnar nánast barði kröfur um úrbætur inn í höfuð ráðherranna og stuðningsmanna þeirra. Engin ríkisstjórn hefur nokkru sinni sýnt jafn lítinn skilning á þörfum þeirrar þjóðar, sem hún hefur tekið að sér að vinna fyrir.
Að vísu sást á sjónvarpsútsendingunni frá þingfundinum að ekki tókst að vekja alla ráðherrana almennilega, þar sem Steingrímur J. virtist sofa vært undir ræðum samþingmanna og hávaðanum sem barst inn í þinghúsið frá Austurvelli. Ráðherrarnir urðu hins vegar áþreifanlega varir við reiðina, sem að ríkisstjórninni beinist, þegar þeir óku heim á leið frá fundinum, því þá hafði skríllinn sem alltaf laðast að svona útifundum sig gróflega í frammi og sýndi eðli sitt með ofbeldisfullum árásum á þingmenn og ráðherra.
Ríkisstjórnin ætlar nú að biðja stjórnarandstöðuna að koma sér til hjálpar, enda algerlega bjargarlaus vegna vanmáttar og ráðaleysis gagnvart vandanum. Stjórnarandstaðan ætti að taka þennan beiska kaleik frá ríkisstjórninni og gefa henni algert frí frá störfum.
![]() |
Mikilvægt að ná samstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.10.2010 | 11:40
Ríkisstjórnin ræður ekkert við bankana
Stór hluti ræðutíma Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri talsmanna Samfylkingarinnar á Alþingi í gærkvöldi fór í það að skammast út í bankana, sem ekki hefðu staðið sig nógu vel í skuldaaðlögun einstaklinga og fyrirtækja, þrátt fyrir tilmæli ríkisstjórnarinnar til þeirra um þau mál. Var ekki síst bent á Landsbankann, sem væri í eigu ríkisins, þó ríkisstjórnin hefði ekki vald til að gefa honum beinar fyrirskipanir og alls ekki hinum bönkunum, sem væru í einkaeigu.
Núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa fram að þessu gagnrýnt ríkisstjórn Geirs H. Haarde harðlega fyrir það, að hafa ekki nánast tekið stjórn einkabankanna í sínar hendur á árinu 2008 og á þriðjudaginn var stefndu fulltrúar þessara flokka Geir fyrir Landsdóm fyrir að hafa ekki tekið sér fyrir hendur að minnka bankakerfið, koma höfuðstöðvum einkabankanna úr landi og að hafa ekki snarað 300 milljörðum króna úr ríkissjóði til að koma Icesave í lögsögu útibús Landsbankans í London.
Hvernig dettur fólki í hug að gamla ríkisstjórnin hafi getað tekið sér slíkt vald gagnvart einkabönkunum, þegar núverandi ríkisstjórn getur ekki einu sinni haft þau áhrif á stjórnendur ríkisbankans, að þeir fari að vilja og tilmælum Jóhönnu og Steingríms J.
Tvískinnungurinn í þessum málum getur varla verið meiri.
![]() |
Lögin skiluðu ekki árangri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2010 | 08:57
Almenningur setti ríkisstjórnina af
Fólk á öllum aldri, fjölskyldurnar í landinu, setti ríkisstjórnina af í gærkvöldi þegar Jóhanna Sigurðardóttir flutti innihaldslitla stefnuræðu sína á Alþingi í gærkvöldi. Á Austurvöll safnaðist algerlega nýr hópur mótmælenda, sem ekki hefur verið áberandi á slíkum hópsamkomum fyrr, þ.e. hinn breiði fljöldi millistéttarinnar í landinu, sem nú er búinn að fá algerlega nóg af stjórn-, getu- og hugmyndaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim vandamálum, sem heimilin hafa verið að glíma við undanfarin tvö ár.
Greinilegt var á ráðherrum ríkisstjórnarinnar að þeir eru algerlega sambandslausir við grasrótina í þjóðfélaginu og virtust vera að uppgötva í fyrsta skipti í gærkvöldi þá reiði og óþolinmæði eftir raunhæfum aðgerðum stjórnarinnar, sem kraumar meðal almennings og er nú búinn að fá algerlega nóg og með þeirri gífurlegu þátttöku sem var í mótmælumum, var ríkisstjórnin í raun sett af og nú er það hennar að ákveða hvernig stjórnarskipti munu bera að.
Mótmælin í gærkvöldi fóru að mestu leyti vel fram, en fámennur hópur ofbeldisseggja sækir í svona samkomur til að vinna sín spellvirki og hann var mættur í gærkvöldi í sín hefðbundnu skrílslæti, sem hámarki náðu með svívirðilegum og fólskulegum árásum á þingmenn og ekki síst ráðherrana, þegar þeir óku frá þinghúsinu og mun bíll Steingríms J. hafa orðið verst úti í þeim lífshættulegu árásum þessara ofbeldismanna, sem setja sinn ömurlega svip á hver heiðarlegu mótmælin á fætur öðrum.
Það sem upp úr stendur eftir gærkvöldið er, að ríkisstjórnin er umboðslaus, enda tilkynnti Jóhanna í gærkvöldi að hennar fyrsta verk í dag yrði að leita á náðir stjórnarandstöðunnar eftir hugmyndum til að koma til móts við kröfur fólksins og vegna annarra brýnna verkefna, sem ríkisstjórnin stendur ráðþrota gegn.
Vonandi verður sá fundur til að koma hjólunum til að snúast á ný.
![]() |
Ófriðarbál á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
4.10.2010 | 19:49
Gnarr-áhrif í Brasilíu
Jón Gnarr gortaði sig af því á netdagbók sinni fyrir stuttu, að hann væri orðinn hugtak í stjórnmálafræðinni og héti það á ensku "The Gnarr Effect". Skömmu síðar bárust fréttir af því að ýmsir kollegar hans úr skemmtanabransanum væru komnir í framboð sitt hvorum megin við Atlantshafið, þ.e. í Evróðu og Suður-Ameríku. Voru þar á meðal boxari, trúður og vændiskona.
Í kosnignabaráttunni sagðist Jón Gnarr ekkert vita um borgarmál og sagðist halda að það væri létt verk og löðurmannlegt að gegna starfi borgarstjórna, enda gæti hann látið borgarstarfsmennina vinna öll verkin, en ætlaði ekkert að gera sjálfur nema þiggja háu launin og einkabílstjórann.
Jón Gnarr er ekki lengur eini trúðurinn sem kosinn hefur verið í almennum kosningum, því brasilíski trúðurinn Tiririca vann mikinn sigur í þingkosningum og mun taka sæti á brasilíska þinginu fyrir höfuðborgina Sao Paulo. Sá brasilíski aðlagaði kosningabaráttu Jóns Gnarrs að aðstæðum heima fyrir og helsta kosningaloforð hans hljóðai svona: "Hvað gerir þingmaður? Það veit ég sannarlega ekki. En ef þú kýst mig þá skal ég komast að því fyrir þig."
Nú á bara eftir að koma í ljós hvort Gnarr-áhrifin séu búin að ná svo góðri fótfestu í Evrópu, að það dugi vændiskonunni og boxaranum til kosningasigurs.
![]() |
Trúður kosinn á brasilíska þingið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 5.10.2010 kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.10.2010 | 15:42
Úrræðalaus ríkisstjórn og ömurlegar jólagjafir
Það er með ólíkindum að lesa frétt um að ríkisstjórnin hafi lofað AGS því, í tengslum við þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og stjórnarinnar, að ekki muni verða boðið upp á frekari úrræði fyrir skuldug heimili, sem á næstunni munu lenda á uppboðum, þúsundum saman. Fyrr í dag var bloggað HÉRNA um að til neyðarráðstafana þyrfti að grípa til að útvega þessum fjölskyldum húsaskjól, því varla ætlast ríkisstjórnin til þess að fólk sem missir íbúðir sínar, búi á götunni eða á stofugólfi ættingja sinna til frambúðar.
Í fréttinni má lesa þessi ótrúlegu skilaboð frá AGS: "Í orðsendingu frá starfsmönnum sjóðsins er því fagnað að frestun nauðungaruppboða verði nú felld úr gildi. Hins vegar koma einnig fram áhyggjur vegna þess að stjórnvöld hafa ekki haft hemil á væntingum almennings um frekari skuldaúrræði.
Stjórnvöld eigi þannig að senda út sterk skilaboð þess efnis að ekki verði frekar komið til móts við skuldara með lagasetningum eða öðru."
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa þá verið að segja ósatt undanfarna daga, þegar þeir hafa boðað nýjar og róttækar aðgerðir til að koma til móts við fjölskyldur, sem eru að missa húsnæðið um þessar mundir og ekki síður á næstu mánuðum.
Bæði lygar og úrræðaleysi hinnar hreinu og tæru vinstri stjórnar, sem kennir sig við norræna velferð, eru ömurlegar jólagjafir til þeirra barna og foreldra, sem lenda á götunni fyrir hátíðarnar.
![]() |
Engin fleiri úrræði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.10.2010 | 14:01
Björgunarsveit fyrir heimilin
Steingrímur J. talar tungum tveim, eftir því hvort hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu og það er neyðarlegt að hlutst á orð hans og fleiri þingmanna, sem þeir létu falla á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu, miðað við hvernig talað er þegar stjórnarseta tekur við og má t.d. benda á hvernig Steingrímur talaði um AGS og Icesave á meðan hann var í minnihluta og svo hvernig hann talar um sömu hlutina núna.
Ríkisstjórnin virðist hafa þurft tæp tvö ár til að skilja, að gífurlegur fjöldi heimila í landinu er í verulegum kröggum og íbúðir þeirra munu verða seld á uppboðum á næstu mánuðum og fólk á öllum aldri mun lenda á götunni, eða upp á náð og miskunn ættingja, sem hugsanlega gætu hýst einhverja í svefnpokum á dýnum á stofugólfunum hjá sér um einhvern tíma. Slíkt er þó auðvitað algerlega óásættanlegt og engin lausn fyrir fólk, sem lendir í þeirri ógæfu að missa heimili sitt ofan á aðra erfiðleika, t.d. atvinnuleysi.
Þegar fólk villist í óbyggðum, skip lenda í sjávarháska eða önnur óhöpp verða, er alltaf kallað á björgunarsveitir til aðstoðar og hafa þær unnið mikið og óeigingjarnt starf í gegnum tíðina og bjargað ótal mannslífum. Nú þegar fjöldi manns lendir í ógæfu vegna skuldsetninga, sem engu máli skiptir í raun hvernig til eru komnar, og er að missa heimili sín, er ekki hægt að ætlast til að björgunarsveitir sjálfboðaliða geti komið þar til bjargar, heldur verður að ætlast til þess að ríkisvaldið og sveitarfélögin hafi frumkvæði að slíku, enda ber þeim lagaleg skylda til þess.
Íbúðalánasjóður hefur eignast mörg hundruð íbúðir á undanförnum mánuðum, en hefur ekki lagaheimild til að leigja þær út, enda lánastofnun og einbeitir sér að fjármögnun íbúðarkaupa. Hins vegar gæti ríkið og ætti, að stofan leigufélag um þessar íbúðir, þannig að nýtt félag keypti þessar íbúðir af Íbúðalánasjóði og leigði þær síðan út til fólks, sem hefur misst eignir sínar og er á vergangi með börn sín. Leigan yrði að vera í takt við leigu á almennum markaði, sem reiknast út frá þeim kosnaði, sem húseigandinn leggur út vegna hins leigða og nýtt ríkisfélag ætti að vera hrein viðbót við leigumarkaðinn, en ekki sett til höfuðs einkaaðilum á þeim markaði.
Þegar neyð ríður yfir, verður að grípa til neyðarráðstafana og ekki hika í mörg ár, eins og því miður er staðreyndin með núverandi ríkisstjórn.
![]() |
Líta mótmælin öðrum augum nú |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.10.2010 | 09:02
Skríllinn haldi sig fjarri
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, heldur stefnuleysisræðu sína á Alþingi í kvöld og verður útvarpað og sjónvarpað frá þinginu á meðan umræður um getuleysi ríkisstjórnarinnar fer fram. Ekki er búist við miklum eða stórum tíðindum frá Jóhönnu að þessu sinni, frekar en áður, enda hefur hún margsýnt vangetu sína til að stýra ríkisstjórninni og aðrir ráðherrar því verið eins og höfuðlaus og hugmyndasnauður her, sem ekki hefur haft nokkra getu til að takast á við ástandið í þjóðfélaginu eftir banka- og efnahagshrunið.
Landinu er reyndar stjórnað af AGS og ráðherrarnir virðast eingöngu vera sendisveinar starfsmanna sjóðsins, án þess þó að vilja viðurkenna það opinberlega, nema þegar þeir lenda í alvarlegum vandræðum með að svara fyrir sig, þá er gjarnan gripið til þess að segja, að svona vilji AGS hafa hlutina.
Boðað hefur verið til mótmæla við Alþingishúsið á meðan að umræður um stefnuleysisræðuna standa yfir og er fólk hvatt til að mæta með "áhöld sem heyrist vel í" og skapa þannig nógu mikinn hávaða til að trufla störf þingsins. Mótmæli gegn því ástandi sem ríkir í þjóðfélaginu og getuleysi ríkisstjórnarinnar til að takast á við það, eru sjálfsögð en mega ekki ganga svo langt að þau eyðileggi starfsfrið þingsins og hvað þá að skríll notfæri sér ástandið til að grýta fólk og fasteignir með alls kyns óþverra, sem bæði valda hættu á líkamsmeiðingum og kostnaðarsömu tjóni á eignum.
Vonandi heldur skríllinn sig fjarri Austurvelli í kvöld og ekki síst grímuklæddur uppvöðslulýður, sem sækir sér fyrirmyndir að klæðnaði til glæpakvikmynda og erlendra hryðjuverkamanna. Svoleiðis skríll, sem eingöngu mætir til mótmælaaðgerða til að fremja skemmdarverk í þeim tilgangi að hleypa ástandinu upp í átök við lögregluna, setur ljótan blett á annars eðlileg og réttmæt mótmæli.
Vonandi fara mótmælin í kvöld friðsamlega fram og án þátttöku skrílsins, sem mætir á vettvang í þeim eina tilgangi að hleypa málum í bál og brand.
![]() |
Tunnumótmæli við stefnuræðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)