3.10.2010 | 13:35
VG og Samfylkingarþingmenn ómerkilegastir í heimi?
Það er alvet rétt hjá Geir H. Haarde að stjórnmálamenn báru ekki ábyrgð á efnahagskreppunni sem við hefur verið að kljást í heiminum frá árinu 2008, heldur óábyrgum rekstri banka, annarra fjármálastofnana og sumsstaðar, eins og t.d. á Íslandi, hreinlega glæpsamlegum verkum eigenda og stjórnenda bankanna, sem í flestum tilfellum voru einnig eigendur allra stærstu fyrirtækja landsins, sem þeir hreinsuðu innanfrá af öllum fjármunum, alveg eins og bankana.
Vegna glæpsamlegrar hegðunar þessara banka- og fyrirtækjaeigenda varð kreppan mun dýpri hér á landi en víðast annarsstaðar, líklega að sumum Eystrasaltslandanna undanskildum, en þó eru ekki öll lönd búin að bíta úr nálinni vegna bankanna í sínum löndum, t.d. Írland, en þar þrefaldaðist fjárlagahalli ríkissjóðs í einu vetvandi vegna ábyrgðar sem írska ríkið tók á sig vegna eins af bönkum landsins.
Engum hefur neins staðar í veröldinni dottið í hug að ásaka stjórnvöld landanna um að bera ábyrgð á bankakrepppunni, með einni undantekningu þó, sem er á Íslandi, en þar hefur lýðskrumurum úr VG tekist að ljúga því að almenningi, sem trúir, að bankahrunið og afleiðingar þess séu nokkrum stjórnmála- og embættismönnum að kenna. Þessi áróður VG hefur svo verið studdur af nokkrum fleirum jafn óábyrgum aðilum og vegna kunnáttu þessara aðila í hjarðhegðunarstjórnun, hefur þeim tekist að afla þessum tilhæfulausa áróðri talsverðs fylgis meðal almennings.
Þó nýjar ríkisstjórnir hafi tekið við völdum í mörgum löndum, dettur engum í þessum nýju stjórnum í hug, að stefna fyrri stjórnvöldum fyrir dómstóla vegna bankakreppunnar og ekki er seðlabönkum þjóðanna kennt um heldur, en í einstaka landi er fjármálaeftirlitinu legið á hálsi fyrir slælegt eftirlit með bankakerfunum, án þess að eftirlitunum sé kennt um hvernig fór.
Íslendirngar skera sig auðvitað frá öðrum þjóðum í þessu efni, eins og svo mörgum öðrum. Eins og í svo mörgu öðru, er þetta hreint ekkert til að vera stoltur af, þvert á móti ætti þjóðin að skammast sín fyrir þessa afstöðu og langmest ætti hún að skammast sín fyrir þá þingmenn, sem samþykktu að færa íslenskt réttarfar niður á það stig sem tíðkaðist í Sovétríkjunum og tíðkast enn í Kína, Norður-Kóreu og nokkrum öðrum löndum.
![]() |
Ekki sekur frekar en Brown eða Bush |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
2.10.2010 | 20:14
Hvað kostaði Péturskirkjan í Róm?
Íbúum Fjallabyggðar er hér með óskað til hamingju með að í dag voru Héðinsfjarðargöngin opnuð með pompi og prakt og framvegis verða aðeins 15 kílómetrar á milli miðkjarna vestur- og austurbæjar Fjallabyggðar og styttist þar með úr um 60 kílómetrum yfir sumarmánuðina, en úr 180 kílómetrum að vetrarlagi.
Til samanburðar má nefna að þessir fimmtán kílómetrar samsvara vegalengdinni úr Grafarvogi og vestur á Granda í Reykjavík og því hægt að gera sér í hugarlund hverning Grafarvogsbúanum hefði þótt það, að þurfa að fara Þingvallahringinn í hvert sinn sem hann hefði þurft að fara frá heimili sínu og vestur á Granda að vetrarlagi. Þetta er því gríðarleg samgöngubót og í raun forsenda þess að Siglufjörður og Ólafsfjörður geti virkað sem eitt sveitarfélag, með þeirri hagræðingu sem því fylgir.
Einnig er alveg víst að þessi nýja tenging mun stórauka freðamannastraum um Tröllaskaga, þar sem nú verður hægt að fara hringferð um skagann í stað þess að Siglufjörður var endastöð vestan á skaganum og Ólafsfjörður að austanverðu. Í bónus fæst svo aðgangur að hinum mikilfenglega Héðinsfirði, sem afar fáir hafa augum litið fram að þessu.
Reykvíkingar horfa mikið á kostnaðinn við þessi göng og finnst þetta mikið bruðl í þágu fárra, en sannleikurinn er sá að þessi samgöngubót mun nýtast öllum Íslendingum, sem ferðast munu um landið í framtíðinni ásamt þeim síaukna fjölda ferðamanna sem heimsækja landið.
Göngin eiga eftir að þjóna sínu hlutverki um mörg hundruð eða þúsundir ára og enginn mun spyrja að því eftir hundrað ár og enn síður eftir fimm hundruð, hvað þessi göng hafi kostað. Spyr nokkur um það núna hver byggingakostnaður Péturskirkjunnar í Róm hafi verið á sínum tíma?
Spyr yfirleitt nokkur um kostnað vegna menningarverðmæta fortíðarinnar?
![]() |
Búið að opna Héðinsfjarðargöng |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.10.2010 | 19:21
Er Steingrímur J. loksins að kveikja?
Eitthvað örlítið virðist vera að rofa til í höfði Steingríms J., því hann sýnist loksins hafa uppgötvað það í mótmælunum í dag, að fólk væri óánægt með ástandið í þjóðfélaginu og vildi aðgerðir til aðstoðar skuldugum heimilum. Að vísu hefur þessum kröfum verið haldið á lofti í meira en eitt og hálft ár, en ríkisstjórnin hefur fram að þessu haldið að fólk væri bara að grínast með þessi mál.
Steingrímur segir að líklega sé fólkið ekki að mótmæla ríkisstjórninni, þó það sé að krefjast afsagnar stjórnarinnar og nýrra þingkosninga. Það heldur Steingrímur að sé alls ekki í raun vantraust á ríkisstjórnina, enda sé fólkið bara óánægt með skuldastöðuna, en ekki ráðherrana.
Nú þegar styttist í tveggja ára afmæli hrunsins er Steingrímur J. þó að byrja að kveikja á þeim vandamálum, sem almenningur er að glíma við í landinu og batnandi manni er best að lifa. Eftir því sem skilningur Steingríms eykst, fer hann kannski að sjá að atvinnuleysi er eitt mesta böl, sem vinnufús maður lendir í og atvinnuleysið er undirrót vanda fjölda heimila og hefur rekið þau út í vanskil og gjaldþrot.
Vonandi tekur ekki tvö ár í viðbót fyrir Steingrím að öðlast fullan skilning á þessum vandamálum.
![]() |
Óánægja vegna skuldavanda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.10.2010 | 16:16
Bankarnir verði rannsakaðir
Starfsemi bankanna eftir endurreisn þeirra hefur verið þoku hulin og í raun veit enginn eftir hvaða reglum, ef nokkrum, þeir starfa í sambandi við skuldauppgjör einstaklinga og fyrirtækja. Fyrirtæki eru látin lifa og deyja eftir einhverju lögmáli, sem enginn skilur og skuldir eru afskrifaðar svo tugum milljarða nemur hjá sumum, á meðan önnur fyrirtæki eru sett í þrot fyrir tiltölulega litlar skuldir.
Sama á við um einstaklinga, enginn veit hvort kunningsskapur ræður þar einhverju um afgreiðslu mála, en heyrst hafa raddir um einkennilegar móttökur sem skuldarar hafa fengið hjá lánastofnunum. Í einhverjum tilfellum hafa bankarnir hert innheimtuaðgerðir sínar og jafnvel knúið fólk í gjaldþrot, um leið og þeir hafa frétt af því, að viðkomandi hafi leitað til Umboðsmanns skuldara og þannig gert möguleikana á skuldaaðlögun að engu. Slík framkoma af hálfu bankanna er algerlega óverjandi.
Nú eru að birtast fréttir af því að tvöþúsunogsexhundruð milljónir króna hafi verið afskrifaðar af félagi í eigu eins stöndugasta útgerðarfélags landsins, allir vita af afskriftum vegna fyrirtækja útrásarvíkinga, Jón Ásgeir á ennþá lúxusíbúðir austan hafs og vestan, ásamt skíðahöll, Bakkabræður halda öllu sínu, þar á meðal skíðahöll, eins og Jón Ásgeir, Pálmi í Iceland Express kemst upp með að stinga fyrirtækinu undan gjaldþroti Fons, ásamt flugfélaginu Astereus og heldur áfram og útvíkkar rekstur þeirra og engum virðist þykja neitt athugavert við það.
Svona mætti lengi telja og því er reiði almennings, sem stigmagnast, afar skiljanleg og til þess að fá einhvern botn í vinnubrögð lánastofnana verður að skipa sérstaka rannsóknarnefnd til að fara ofan í starfsemi þeirra eftir hrun, ásamt því að rannsaka störf skilanefnda gömlu bankanna frá árinu 2008.
Það er ekki nóg að gera upp tímann fyrir hrun, það þarf ekki síður uppgjör á það sem hefur verið að gerast eftir það.
![]() |
Réðist inn í Landsbankann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2010 | 14:02
Skríllinn mættur á Austurvöll
Samkvæmt fréttum eru nokkur hundruð manns á Austurvelli að mótmæla við þingsetninguna og í hópnum eru greinilega nokkrir upphlaups- og ofstopamenn, því strax í upphafi mótmælanna voru rúður brotnar í Dómkirkjunni og eggjum, tómötum og einhverju fleiru var kastað í þingmenn á leið þeirra frá Alþingishúsinu í kirkjuna. DV segir frá því, að m.a. hafi eggi verið kastað í höfuð Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og eins mun hafa verið púað á forsetann, sem a.m.k. til skamms tíma var einn allra vinsælasti maður þjóðarinnar.
Jafn sjálfsögð og friðsöm mótmæli eru, á að fordæma með öllu skrílslæti, uppþot og ofbeldi tengd þeim, en ofstopamenn eru gjarnir á að nýta sér slíkar aðstæður til óhæfuverka og reyna að réttlæta ofbeldishneigð sína og ribbaldahátt með því að illvirkin séu framkvæmd í mótmælaskyni við eitthvert málefni, ríkisstjórn á hverjum tíma, eða bara hverju sem mótmælt er hvert sinn.
Sem betur fer er óþjóðalýðurinn sem fyrir skrílslátunum stendur aðeins lítið brot þeirra sem mæta til mótmæla, en setja hins vegar ljótan svip á ástandið, hvar sem hann blandar sér í fjöldann.
![]() |
Eggjum kastað í alþingismenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
1.10.2010 | 09:56
Úr upplausn í algjört öngþveiti?
Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur, telur að stjórnmálaflokkarnir muni ekki vilja nýjar kosningar á næstunni, vegna hræðslu um að fram komi nýjir framboðslistar í anda Besta flokksins, enda hafi óvenju margir verið óákveðnir í síðustu skoðanakönnun, um hvað þeir myndu kjósa í næstu kosningum.
Það er í sjálfu sér skiljanlegt, að miðað við fordæmið sem við öllum blasir í stjórn Reykjavíkurborgar núna, séu menn ekki áfjáðir í að fá álíka lista og Besta flokkinn inn á Alþingi, sem er miklu merkilegri og þýðingarmeiri samkoma en sveitarstjórnin í höfuðborginni. Alþingi er mikilvægasta og merkasta stofnun lýðveldisins og þangað eiga ekki að veljast aðrir en úrval bestu sona og dætra þjóðarinnar, þó nú um stundir njóti Alþingi ekki þeirrar virðingar, sem það á skilið.
Þyki fólki að nú ríki óvissa og ákveðin upplausn í þinginu, þá getur getur lausnin á þeim vanda varla verið að búa til enn meiri ringulreið með því að kjósa í staðinn inn á þingið Gnarrara og aðra álíka vanhæfa einstaklinga til að setja þjóðinni lög til að lifa eftir. Það sem vantar aðallega núna, er starfhæf ríkisstjórn, en bæði Jóhanna og Steingrímur haf sýnt að þau hafa engin tök á landsstjórninni, enda flestir sem bundu vonir við þeirra flokka, löngu gengnir af þeirri trú.
Ekki er ólíklegt, að stjórnin springi á limminu við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár og verður að mynda nýja ríkisstjórn hið allra fyrsta og best væri að núverandi þingmenn öxluðu þá ábyrgð, því ekki er vænlegt að boða til kosninga um miðjan vetur og láta landið verða algerlega stjórnlaust í nokkra mánuði fram að kosningum og fyrst þar á eftir, á meðan ný stjórn væri mynduð.
Sú upplausn sem nú ríkir í stjórn landsins og þjóðfélaginu öllu verður ekki leyst með algerri ringulreið.
![]() |
Skíthræddir við nýtt framboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2010 | 16:16
Atli ásakar samþingmenn sína
Atli Gíslason, formaður ákærunefndar Alþingis, segir í viðtali við mbl.is: "Þetta var lýðræðisleg kosning en það virtust samt vera einhver undirmál í gangi eða eitthvað sem ég næ ekki utan um." Þar sem Atli hefur marg sagt að hann sé ekki saksóknari, heldur eingöngu þingmaður sem ákvarðar hvort gerðir manna og aðgerðaleysi séu líkleg til sakfellingar fyrir dómi, hlýtur hann að hafa eitthvað í höndunum, sem er líklegra en ekki, til að sanna þessa fullyrðingu um pólitísk hrossakaup í þinginu.
Varla getur svo heiðvirður maður, sem Atli segist vera, verið að dylgja um undirmál samþingmanna sinna, nema hafa eitthvað bitastætt til að byggja á og enn síður getur verið að hann hlaupi með slíkt í fjölmiðla, ef það væri tómt fleipur. Því verða fjölmiðlar að krefja þingmanninn um betri skýringar á ummælunum og við hvaða samþingmenn sína hann á við, því annars liggja allir hinir 62 þingmennirnir undir grun um að hafa verið að bralla eitthvað á bak við Atla.
Vegna sérstakrar hæfni, sem Atli er einnig sannfærður um að hafa til að bera, ætlar hann að bjóða sig fram í saksóknaranefnd þingsins, sem skal vera sækjanda til halds og traust í málshöfðuninni gegn Geir H. Haarde, sem Atli segist ekki vera viss um að verði sakfelldur, þó hann segist viss um að hann hafi gerst sekur um lögbrot.
Blóðþorsti Atla hefur ekki verið slökktur ennþá og því vill hann fá að fylgja málinu eftir allt til enda, en ætti raunar að vera síðastur þingmanna til að veljast í þessa nefnd, þar sem hann hefur þegar lýst yfir sannfæringu sinni um sekt sakborningsins, en slíkar yfirlýsingar eiga að duga til að gera hvern mann vanhæfan í raunverulegu réttarríki.
Atli hefur sennilega enga trú á raunverulegu réttlæti, frekar en lærimeistarar hans í sovétinu.
![]() |
Atli segir undirmál viðhöfð á Alþingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.9.2010 | 13:52
Jón Ásgeir að afvegaleiða mál
Skilanefnd Glitnis rekur mál gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi stjórnarformanni FL Group, eiginkonu hans, Pálma í Iceland Express og fleiri tengdum aðilum fyrir að hafa svikið tvo milljarða Bandaríkjadala út úr bankanum fyrir hrun og krefst bóta frá þeim fyir svikin.
Jón Ásgeir fer hins vegar mikinn í baráttu sinni gegn slitastjórninni og Steinunni Guðbjartsdóttur, formanni hennar, og sendir opinbera áskorun á hana um að tilgreina þá peninga og aðrar eignir, sem slitastjórnin hafi sakað hann um að fela. Málið í New York snýst ekki um að finna peninga og eignir Jóns Ásgeirs, heldur er um skaðabótamál að ræða og ef það vinnst hlýtur það að vera vandamál Jóns Ásgeirs sjálfs og klíku hans að finna þá fjármuni sem til þarf, til greiðslu skaðabótanna.
Eva Joly hefur marg bent á, að sakborningar í svona stórum efnahagsbrotamálum muni gera allt sem í þeirra valdi standi til að sverta persónur rannsakendanna og sækjenda í málum þeirra og beita fyrir sig leigupennum til viðbótar þeirri baráttu sem þeir munu sjálfir heyja í stríðinu, sem þeir munu heyja gegn yfirvöldum og þeim embættismönnum sem að rannsóknunum munu koma.
Þessi skrif Jóns Ásgeirs eru liður í þeirri fyrirséðu herferð.
![]() |
Jón Ásgeir skorar á Steinunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2010 | 13:19
Útvarp Saga ýtir undir ofbeldi
Undanfarna daga hefur Útvarp Saga, og þá sérstaklega Pétur Gunnlaugsson, dagskrárgerðarmaður og stjórnarmaður stöðvarinnar, nánast hvatt hlutstendur sína til ofbeldisverka gagnvart ríkisstjórninni og "stjórnmálastéttinni", eins og Pétur orðar það.
Í gær, eða fyrradag, hringdi inn maður og hvatti fólk til að mæta við þinghúsið á morgun með vatnsbyssur, fylltar af hlandi, og sprauta úr þeim yfir þingmenn við þingsetninguna og Pétur tók undir þetta með manninum, en lagði þó til að vatn yrði látið duga sem hleðsla í byssurnar.
Í morgun hvatti Pétur alla hlustendur stöðvarinnar lögeggjan að mæta til mótmæla við Alþingi á morgun og sagði að ekkert nema ógnanir dygðu til að hafa áhrif á "stjórnmálastéttina", án þess þó að útskýra betur fyrir hlutstendum hverning ógnanir væru áfrifaríkastar. Óhætt er að segja að aðrir eigs öfgar og óhróður gegn stjórnmálamönnum hefur aldrei áður heyrst eða sést í íslenskum fjölmiðlum og Pétur þessi lætur sér sæma að dengja yfir hlustendur stöðvarinnar.
Útvarp Saga, þrátt fyrir einstaka ágæta þætti, er án nokkurs vafa einn auðvirðilegasti fjölmiðill landsins nú um stundir og er DV þá meðtalið.
![]() |
Viðbúnaður með venjulegu sniði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
30.9.2010 | 09:50
The Gnarr-effect
Nýlega gortaði Jón Gnarr sig af því að hann væri orðinn sérstakt hugtak í stjórnmálafræðum, sem kallaðist "The Gnarr-effect", eða "Gnarr-áhrifin" eins og það ætti væntanlega að þýðast á íslensku. Ekki fylgdi með gortinu af þessari nafngift í hverju áhrifin á stjórnmálafræðin væru fólgin, en nú virðast þau vera að koma í ljós í kosningum sitt hvorum megin við Atlanshafið.
Í Brasilíu eru kosningar framundan og þar eru Gnarr-áhrifin nokkuð áberandi, en þar eru ýmsir í framboði, sem greinilega hafa orðið fyrir Gnarr-áhrifunum, eins og ÞESSI frétt sýnir glögglega, en þar geta kjósendur t.d. valið á milli vændiskonu, boxara og starfsbróður Jóns Gnarrs, þ.e. trúðs.
Birgitta Jónsdóttir er nú stödd á Ítalíu, þar sem hún hvetur Ítali til að kjósa hina ítölsku útgáfu af Jóni Grarr, sem er í framboði fyrir ítalska útgáfu af Hreyfingunni. Hvort tenging ítalskra gnarrista og Hreyfingarinnar boðar eitthvað um samstarf þessara grínframboða hérlendis, skal ósagt látið, en einkennileg er þessi trúboðsferð Birgittu til Ítalíu í því skyni að útbreiða Gnarr-áhrifin.
Væntanlega mun slagorð þessara hreyfinga verða: "Trúðar allra landa sameinist".
![]() |
Ítölsk Hreyfing í fæðingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)