Bankarnir verði rannsakaðir

Starfsemi bankanna eftir endurreisn þeirra hefur verið þoku hulin og í raun veit enginn eftir hvaða reglum, ef nokkrum, þeir starfa í sambandi við skuldauppgjör einstaklinga og fyrirtækja.  Fyrirtæki eru látin lifa og deyja eftir einhverju lögmáli, sem enginn skilur og skuldir eru afskrifaðar svo tugum milljarða nemur hjá sumum, á meðan önnur fyrirtæki eru sett í þrot fyrir tiltölulega litlar skuldir.

Sama á við um einstaklinga, enginn veit hvort kunningsskapur ræður þar einhverju um afgreiðslu mála, en heyrst hafa raddir um einkennilegar móttökur sem skuldarar hafa fengið hjá lánastofnunum.  Í einhverjum tilfellum hafa bankarnir hert innheimtuaðgerðir sínar og jafnvel knúið fólk í gjaldþrot, um leið og þeir hafa frétt af því, að viðkomandi hafi leitað til Umboðsmanns skuldara og þannig gert möguleikana á skuldaaðlögun að engu.  Slík framkoma af hálfu bankanna er algerlega óverjandi.

Nú eru að birtast fréttir af því að tvöþúsunogsexhundruð milljónir króna hafi verið afskrifaðar af félagi í eigu eins stöndugasta útgerðarfélags landsins, allir vita af afskriftum vegna fyrirtækja útrásarvíkinga, Jón Ásgeir á ennþá lúxusíbúðir austan hafs og vestan, ásamt skíðahöll, Bakkabræður halda öllu sínu, þar á meðal skíðahöll, eins og Jón Ásgeir, Pálmi í Iceland Express kemst upp með að stinga fyrirtækinu undan gjaldþroti Fons, ásamt flugfélaginu Astereus og heldur áfram og útvíkkar rekstur þeirra og engum virðist þykja neitt athugavert við það.

Svona mætti lengi telja og því er reiði almennings, sem stigmagnast, afar skiljanleg og til þess að fá einhvern botn í vinnubrögð lánastofnana verður að skipa sérstaka rannsóknarnefnd til að fara ofan í starfsemi þeirra eftir hrun, ásamt því að rannsaka störf skilanefnda gömlu bankanna frá árinu 2008.

Það er ekki nóg að gera upp tímann fyrir hrun, það þarf ekki síður uppgjör á það sem hefur verið að gerast eftir það.


mbl.is Réðist inn í Landsbankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband