Pólitískt réttarhneyksli

Samfylkingin lét VG teyma sig út í pólitískan skrípaleik til þess að koma Geir H. Haarde fyrir Landsdóm og gekk plottið út á að ráðherrar Samfylkingarinnar í síðustu ríkisstjórn myndu sleppa við ákærur, gegn því að flokkurinn sæi til þess að Geir yrði ákærður og helst Árni Matt. einnig.

Jóhanna Sigurðardóttir gaf út þá yfirlýsingu að kæran væri til þess að róa almenning og Lilja Mósesdóttir sagði að stefna ætti Sjálfstæðismönnunum fyrir Landsdóminn til þess að gera upp við pólitískar skoðanir þeirra og frjálshyggjuna, eins og hún orðaði það.

Í dag sagði Ögmundur Jónasson að honum þætti miður að Geir væri einum stefnt fyrir dóminn til þess að taka á sig pólitíska ábyrgð á hruninu.  Þetta er enn ein staðfestingin á því, að þetta Landsdómsmál hefur allan tímann verið hugsað sem pólitísk aðför að fyrrverandi ríkisstjórn og slík pólitísk réttarhöld hafa verið algerlega óþekkt á vesturlöndum undanfarna áratugi, en voru alþekkt í Sovétríkjunum sálugu, en þangað sækir VG sínar pólitísku fyrirmyndir.

Aðspurður játaði Ögmundur því að þetta væru pólitísk réttarhöld og uppgjör við ákveðna stjórnmálastefnu.  Þessar játningar um tilgang réttarhaldanna þyrftu nánari rannsóknar við.

VG og Samfylkingin hafa með þessum gerðum sínum staðið fyrir mesta pólitíska réttarhneyksli sem um getur frá falli kommúnismans í austrinu.


mbl.is „Dapurleg niðurstaða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áætlun sem byggir á mislukkuðum brandara

Þriðja endurskoðun efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar og AGS var samþykkt af stjórn sjóðsins í dag og þar með aukast lánamöguleikar frá sjóðnum og norðurlöndunum og eins virðist þessi afgreiðsla sanna að AGS sé hættur störfum sem handrukkari fyrir fjárkúgarana í Bretlandi og Hollandi.

Það sem vekur þó mesta athygli við þessa endurskoðun er viljayfirlýsing ríkisstjórnarninnar sem lögð var fyrir stjórn sjóðsins í tilefni endurskoðunarinnar, en yfirlýsingin er grátbrosleg aflestrar og virkar eins og misheppnaður brandari, en þar segir m.a: 

"Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar byggir á fjórum meginþáttum. Í fyrsta lagi er unnið að því að byggja upp traust fjármálakerfi sem getur sinnt þörfum heimila og fyrirtækja. Í öðru lagi þarf að tryggja fjárhagslega stöðu ríkissjóðs og hins opinbera og leika þar fjárlög haustsins lykilhlutverk. Í þriðja lagi verður að taka frekari skref til afnáms gjaldeyrishafta og móta peningastefnu til frambúðar. Í fjórða lagi þarf að tryggja aðlögun skulda heimila og fyrirtækja, með virkri þátttöku lánastofnana. Nýfallinn dómur Hæstaréttar og fyrirhuguð lagasetning vegna gengisbundinna lána munu tryggja sanngjarna niðurstöðu í málinu og flýta fyrir endurskipulagningu skulda. Markmið efnahagsstefnunnar er að leggja grunninn að sjálfbærum hagvexti og atvinnutækifærum til framtíðar."

Það sem þarna segir um áætlanir stjórnarinnar um fjármál heimilanna og skuldir þeirra hlýtur að eiga að vera brandari, þó varla þyki hann mjög fyndinn í þeim fjölskyldum, sem þegar hafa misst heimili sitt, eða eiga það í vændum á næstu mánuðum.  Hvað skyldi fólk oft hafa hlutstað á Árna Pál Árnason lýsa því yfir að "ráðstafanir" væru væntanlegar í næstu viku, þegar búið væri að "útfæra þær nánar"?

Reyndar er ólíklegt að nokkrum manni þyki þetta fyndið, því svo hefur hert að pyngju hvers einasta þjóðfélagsþegns, að það virkar frekar eins og móðgun, að halda því fram að ríkisstjórnin hafi verið að vinna sérstaklega í þágu heimilanna í landinu.  Ekki er minnst á það í þessari yfirlýsingu að til standi að gera einhverjar ráðstafanir til að efla atvinnulífið í landinu og koma nýjum orkufyrirtækjum á koppinn.

Skyldi hafa verið hlegið á stjórnarfundi AGS?


mbl.is Þriðja endurskoðunin samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunstjórnum Evrópu mótmælt

Þó engu líkara sé, en að Íslendingar haldi að hvergi hafi orðið efnahagshrun annarsstaðar en hér á landi, þá er það engu að síður staðreynd og fjöldi banka hefur orðið gjaldþrota, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, þrátt fyrir að ríkissjóðir viðkomandi landa hafi ausið stjarnfræðilegum upphæðum til að bjarga bankakerfum sínum, þó ekki hafi allir bankar lifað þær björgunaraðgerir af.

Atvinnuleysi austan hafs og vestan er í flestum löndum jafnvel meira en hérlendis, þó íslensku atvinnuleysistölurnar gefi ekki rétta mynd af ástandinu, þar sem fjöldi fólks hefur farið til náms í atvinnuleysinu og mörg þúsund manns hafi flutt af landi brott í leit að atvinnu, aðallega til Noregs.

Vandamálin í öllum þessum löndum er það sama, en það er skortur á atvinnutækifærum og vangeta ríkisstjórnanna við að koma atvinnulífinu í gang á ný, þó fæstar ríkisstjórnir berjist beinlínis gegn allri atvinnuuppbyggingu, eins og sú íslenska gerir.  Samdrátturinn í atvinnulífinu hefur orðið til þess að skatttekjur landanna hafa skroppið saman og eina ráðið til að mæta tekjumissinum er að skera niður ríkisútgjöld og spara á öllum sviðum ríkisrekstrarins.

Slíkur niðurskurður bitnar í mörgum tilfellum helst á þeim sem síst skyldi, þ.e. atvinnulausum, öryrkjum og láglaunafólki.  Þetta ástand hefur orðið til þess að mikil mótmæli eru nú víða um Evrópu og þó mest í höfuðborg hrunveldis ESB, Brussel.

Fari svo sem Samfylkingin vill, þurfa Íslendingar að bregða sér til Brussel, vilji þeir mótmæla einhverju í framtíðinni.


mbl.is Verkföll og mótmæli víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vændið og forsjárhyggjufólkið

Dómari í Ortario í Kanada úrskurðaði í gær, við mikinn fögnuð vændiskvenna, að bann við rekstri vændishúsa í ríkinu skyldi afnumið.  Rök vændiskvennanna fyrir afnámi bannsins voru öryggismál þeirra, en eins og gefur að skilja telja þær sig öruggari í viðskiptum sínum innan öruggra veggja vændishúsanna, en í götuharkinu.

Það sem ekki síst er merkilegt við þetta má, er þessi klausa úr fréttinni:  "Athygli vekur að dómarinn, Susan Himel , er kona en í rökstuðningi hennar segir að bann við rekstri vændishúsa og útgerð vændis brjóti í bága við stjórnarskrárbundin rétt einstaklinga til frelsis, athafna og öryggis.

Dómsniðurstaðan er rökstudd í 131 bls. skýrslu sem er aðgengileg hér en á blaðsíðu 24 kemur fram að sönnunargögnum hafi verið aflað á tveggja og hálfs árs tímabili og grein gerð fyrir þeim á alls 25.000 síðum í 88 bindum."  Miðað við þessa rannsókn, sem greinilega hefur verið bæði tímafrek og viðamikil, þá bliknar skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis í samanburðinum, bæði hvað varðar rannsóknartíma og blaðsíðu- og bindafjölda.

Annað sem vert er að veita athygli í fréttinni af þessari rannsókn er niðurlag fréttarinnar, sem hljóðar svona:  "Tekið er fram í skýrslunni að engin ein staðalmynd af vændiskonu dugi til að lýsa vændiskonum í Kanada, enda sé bakgrunnur þeirra sem leggja fyrir sig vændi afar ólíkur. Ástæður þess að konur leggi fyrir sig vændi séu jafn ólíkar og þær séu margar."

Hvað ætli feministar og annað forsjárhyggjufólk segi við þessu?


mbl.is Vændiskonur fagna sigri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skömm þings og þjóðar er mikil

Dagurinn í dag, 28. september 2010, mun lifa í sögunni sem dagurinn sem Alþingi lagðist lægst í meira en þúsund ára sögu sinni.  Dagurinn sem pólitísk hrossakaup réðu því að fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar var stefnt fyrir Landsdóm án sérstakrar rannsóknar og að hafa fengið að taka til varna, áður en ákæra var gefin út.

Þór Sari, sem þó var einn kæruliðanna, kallaði það sem fram fór á Alþingi pólítískan hráskinnaleik og ætti vitnisburður manns úr innsta hring kæruliðanna að vera fullkomlega marktækur.

Í dag er skömm þjóðarinnar og þingsins mikil og sérstaklega þeirra þingmanna, sem hráskinnaleikinn léku.


mbl.is Þungbær og erfið niðurstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endemis rugl í Árna Þór

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, setti fram furðulega röksemdarfærslu á Alþingi í dag, þegar hann var að réttlæta tillögurnar um ákærur á hendur nokkrum fyrrverandi ráðherrum, sem VG þráir heitast að niðurlægja fyrir þjóðinni og sýna umheiminum hvað það séu kaldir karlar og kerlingar, sem nú eru við völd í landinu.

Árni heldur því fram að með því að fella tillögur um ákærur, þá sé þingið að kveða upp sýknudóm yfir þessum ráðherrum, en með því að samþykkja kærurnar sé alls ekki verið að gefa í skyn að þeir séu sekir.  Að ganga úr skugga um að svo sé, sé seinni tíma mál og allt annarra en þingsins, að fella þann dóm.

Þetta verður að teljast furðulegasti málflutningurinn til þessa í þeim pólitíska skollaleik, sem VG, Hreyfingin og hluti Samfylkingarinnar leika í þinginu þessa dagana og tefja um leið umræður um þarfari mál, sem á þjóðinni brenna.

Allir hljóta að sjá hvílík endemis della það er, að segja að ef þú ákærir einhvern, sért þú ekki að gefa í skyn að hann sé sekur, en ef þú ákærir ekki, þá sértu þar með að sýkna einhvern.  Að sjálfsögðu fer enginn að ákæra annan og stefna honum fyrir dómstóla, nema telja viðkomandi sekan um lögbrot.

Líklega eru þessir þingmenn undantekning frá þeirri reglu, enda bara í pólitískum hefndarleiðangri gegn andstæðingum sínum í stjórnmálum.


mbl.is Landsdómur dæmir - ekki Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákærur eða þakklæti?

Margir virðast standa í þeirri trú, að ákærur Atlanefndarinnar á hendur sumum ráðherrum síðustu ríkisstjórnar snúist um ábyrgð á banka- og efnahagshruninu í október 2008, en svo er auðvitað alls ekki, heldur snúast kærurnar aðallega um að þessir ráðherrar hafi ekki boðað til sérstakra ríkisstjórnarfunda um bankamál, skort á samningu skýrslna um málin, að hafa ekki séð um að flytja Icesave í erlenda lögsögu, að hafa ekki látið bankana minnka efnahagsreikning sinn og fleira í þessum dúr.

Að mörgu leyti er vandséð hvernig ráðherrar hefðu átt að grípa inn í rekstur einkabanka, sem lutu lögmálum ESB um frelsi til fjármagnsflutninga og eigendum sínum og stjórnum, sem ábyrgar áttu að vera fyrir þessum einkafyrirtækjum.  Ákærurnar eru í flestum atriðum þær sömu á hendur öllum ráðherrunum og hljóðar t.d. ein þeirra svona:  "Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi."

Hvernig skyldu bankar minnka efnahagsreikning sinn?  Það verður varla gert svo neinu nemi öðruvísi en með því að greiða niður skuldir bankans og til þess hefði hann væntanlega ekki haft neitt fjármagn, nema að innheimta útistandandi kröfur sínar og það hefði hann ekki getað gert, nema gjaldfella meirihluta þeirra og með slíkum aðgerðum hefðu bankarnir fallið umsvifalaust.  Hvað hefði svo gerst, ef bankarnir hefðu verið orðnir að erlendum bönkum, eftir flutning höfuðstöðvanna úr landi og þeir hefðu hrunið hvort sem var, ekki síst vegna glæpsamlegs reksturs þeirra til margra ára? 

Það sem hefði auðvitað gerst við slíkar aðstæður hefði verið það, að allar innistæður Íslendinga hefðu tapast, nema það sem fengist hefði úr tryggingarsjóðum, 20.008 evrur á hvern reikning, og þar með hefði tap þjóðarbúsins orðið gífurlegt og ekki nokkur möguleiki til að endurvekja bankakerfi hér á landi og þar með efnahagslíf, nema á mörgum áratugum.

Hefðu ráðherrarnir haft völd til að beita sér fyrir framangreindu og gert það, yrðu þeir sjálfsagt ákærðir fyrir að hafa beitt sér fyrir aðgerðum, sem hefðu valdið óbætanlegum skaða fyrir íslenskt efnahagslíf.  Þá hefði mátt segja að þeir hefðu tekið glæpsamlegar ákvarðanir og ættu refsingu skilda.

Með því að gera það ekki var haldið opnum þeim möguleika, sem síðar var nýttur, en það var að stofna nýtt bankakerfi á grundvelli þeirra innistæðna sem hægt var að flytja úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju.  Þær björgunaraðgerðir sem þó tókst að framkvæma í kjölfar hrunsins voru afrek og allir sem að þeim komu eiga þakklæti þjóðarinnar skilið fyrir, en ekki vanþakklæti og ákærur.

Í þessu efni, sem öðrum, eru laun heimsins vanþakklæti.

 


mbl.is Atkvæði um málshöfðun í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin í ljósum logum

Innviðir Samfylkingarinnar standa í ljósum logum og brennuvargarnir sem kveiktu bálið eru Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir og á bálið vörpuðu þau Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi formanni flokksins, vegna þess að hún er hætt á þingi, en vilja hinsvegar forða Björgvini G. Sigurðssyni, fyrrverandi bankamálaráðherra, frá brennunni af þeirri ástæðu að hann er góður vinur Össurar, sem einnig gerði hann að þingmanni og ráðherra fyrir Samfylkinguna.

Jóhanna og Össur virðast hafa ógnartök á þingmönnum flokksins, sem líklegt er að fylgi þessum foringjum sínum í algerri blindni í atkvæðagreiðlunni um ráðherraákærurnar, en grasrótin í flokknum er ævareið forustunni fyrir framgöngu hennar gegn Ingibjörgu Sólrúnu og er allt við það að sjóða uppúr í flokknum vegna þessa.

Veði niðurstaða þingsins sú, að Ingibjögu verði stefnt fyrir Landsdóm, en Björgvini ekki og það vegna atkvæða þingmanna Samfylkingarinnar, er líklegast að flokkurinn klofni og stuðningsmenn Ingibjargar rói á önnur mið.

Fari svo verður fróðlegt að sjá hvað Össur stendur uppi með fjölmennan flokk eftir næstu kosningar, en þá verður Jóhanna bandamaður hans í þessari blóðhefnd farin af þingi fyrir fullt og allt.


mbl.is Skiptar skoðanir um ákærur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Heiðrunin" er Atla ekki til vegsauka

Einhver fámennur hópur, sem kallar sig alþingi götunnar sýndi Atla Gíslasyni aðdáun sína fyrir utan Alþingi Íslendinga, vegna þess hve Atli hafi staðið fast gegn hvers kyns mótbárum þingmanna og ráðherra við framgangi hans, sem formanns nefndarinnar um ráðherraákærur og telja talsmenn götunnar að mikill sómi sé að framgöngu Atla í þeirri herferð allri.

Af þessu tilefni vaknar sú spurnig, hverjir hafi kosið þessa þingmenn götunnar, hvenær kosningin hafi farið fram og hvernig þinginu sé skipað í meiri- og minnihluta og hvenær og hvernig samþykktin um heiðrun Atla hafi verið samþykkt og afgreidd á götuþinginu.

Getur verið að ekkert sé á bak við þetta alþingi götunnar nema örfáir sjálfkjörnir ofstækismenn, sem fréttamenn taki gagnrýnislaust við tilkynningum frá og fjalli um, eins og um alvörufélagsskap sé að ræða, sem komist að niðurstöðum sínum með atkvæðagreiðslu eftir lýðræðislegar umræður?

Eftir hvaða stefnuskrá starfar þetta götuþing og finnst alvöru Alþingismönnum virkilega heiður að því að fá viðurkenningar frá svona óskilgreindum hópi manna, sem fáir eða engir vita deili á? 

Fram að þessu hefur það ekki þótt nein heiðursnafnbót að vera talinn meðlimur í alþingi götunnar.  Móttaka Atla á þessari "viðurkenningu" er honum ekki til álitsauka, heldur þvert á móti.


mbl.is Heiðruðu Atla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á að rannsaka rannsóknirnar?

Nú er tími hinna miklu rannsókna í þjóðfélaginu og hver þingmaðurinn eftir annan ber fram tillögur um að þetta og hitt sem gert var í fortíðinni verði rannsakað af sérstökum rannsóknarnefndum.  Að minnsta kosti tvær tillögur eru komnar fram á alþingi um að rannsakaðar verði sölur á Landsbankanum og Búnaðarbankanum á sínum tíma og hlýtur slík rannsókn að verða jafnframt rannsókn á Ríkisendurskoðun, sem mun vera búin að rannsaka þessar bankasölur tvisvar og skila skýrslum um þær rannsóknir sínar.

Rannsóknarnefnd þarf líka að setja í verk núverandi ríkisstjórnar, svo sem Icesave og andstöðuna við atvinnuuppbyggingu.  Svo þarf að setja rannsóknarnefndir í að rannsaka allt sem ekki hefur verið gert á undanförnum áratugum og hvers vegna það var ekki gert.  Rannsóknarnefndir þarf nauðsynlega til að rannsaka allar þingkosningar frá lýðveldisstofnun og komast að því hvort rétt hafi verið talið og hver sé skýringin á fylgi hvers flokks fyrir sig og af hverju aðrir buðu ekki fram en þeir sem buðu fram.

Þegar búið verður að rannsaka allt sem hægt verður að rannsaka, þarf að setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd til að rannsaka allar rannsóknarnefndirnar og niðurstöður þeirra og kanna alla þá þætti, sem nefndunum kynni að hafa yfirsést í rannsóknum sínum.

Í öllum þessum rannsóknum skal hafa vinnubrögð rannsóknarréttar miðalda til fyrirmyndar.  Einnig má líta til fleiri slíkra fyrirmynda síðari tíma, t.d. menningarbyltingarinnar í Kína, en rannsóknir voru þó ekki mjög djúpar á þeim tíma, enda allt slíkt tímafrekt og eingöngu til að tefja fyrir dómsniðurstöðum.


mbl.is Vill rannsókn á einkavæðingu banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband