Úr upplausn í algjört öngþveiti?

Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur, telur að stjórnmálaflokkarnir muni ekki vilja nýjar kosningar á næstunni, vegna hræðslu um að fram komi nýjir framboðslistar í anda Besta flokksins, enda hafi óvenju margir verið óákveðnir í síðustu skoðanakönnun, um hvað þeir myndu kjósa í næstu kosningum.

Það er í sjálfu sér skiljanlegt, að miðað við fordæmið sem við öllum blasir í stjórn Reykjavíkurborgar núna, séu menn ekki áfjáðir í að fá álíka lista og Besta flokkinn inn á Alþingi, sem er miklu merkilegri og þýðingarmeiri samkoma en sveitarstjórnin í höfuðborginni.  Alþingi er mikilvægasta og merkasta stofnun lýðveldisins og þangað eiga ekki að veljast aðrir en úrval bestu sona og dætra þjóðarinnar, þó nú um stundir njóti Alþingi ekki þeirrar virðingar, sem það á skilið.

Þyki fólki að nú ríki óvissa og ákveðin upplausn í þinginu, þá getur getur lausnin á þeim vanda varla verið að búa til enn meiri ringulreið með því að kjósa í staðinn inn á þingið Gnarrara og aðra álíka vanhæfa einstaklinga til að setja þjóðinni lög til að lifa eftir.  Það sem vantar aðallega núna, er starfhæf ríkisstjórn, en bæði Jóhanna og Steingrímur haf sýnt að þau hafa engin tök á landsstjórninni, enda flestir sem bundu vonir við þeirra flokka, löngu gengnir af þeirri trú.

Ekki er ólíklegt, að stjórnin springi á limminu við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár og verður að mynda nýja ríkisstjórn hið allra fyrsta og best væri að núverandi þingmenn öxluðu þá ábyrgð, því ekki er vænlegt að boða til kosninga um miðjan vetur og láta landið verða algerlega stjórnlaust í nokkra mánuði fram að kosningum og fyrst þar á eftir, á meðan ný stjórn væri mynduð.

Sú upplausn sem nú ríkir í stjórn landsins og þjóðfélaginu öllu verður ekki leyst með algerri ringulreið.


mbl.is „Skíthræddir“ við nýtt framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Finnst þér virkilega vera úrval bestu sona og dætra þjóðarinnar á þingi núna og eina vandamál þingsins sé að almenningur treysti þessu úrvali ekki?

Steinar Birgisson (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 10:37

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er kjósenda að sjá til þess í hverjum kosningum, að bestu synir og dætur þjóðarinnar veljist á Alþingi.  Það getur ekki verið ásættanlegt, að eftir kosningar skuli sami kórinn alltaf byrja fljótlega að kyrja sönginn um að þingmenn séu fífl og glæpamenn, jafnvel nautheimskir glæpamenn, og það þurfi skrílslæti og upphlaup til að "losa" þjóðina við "óþjóðalýðinn" sem á þinginu situr.

Kjósendur hafa alla möguleika til að koma nýju fólki að í kosningum og það þarf að vera eftirsóknarvert fyrir bestu syni og dætur þjóðarinnar að taka sæti á Alþingi.  Það verður hins vegar ekki á meðan þingmenn þurfa að sitja undir sífelldum svívirðingum og allt að því einelti óvandaðs fólks í þjóðfélaginu, fyrir það eitt að vera þingmaður.

Axel Jóhann Axelsson, 1.10.2010 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband