Þrek til að taka á vandanum

Í dag eru tvö ár frá því að banka- og efnahagshrunið skall á þjóðinni af fullum þunga og neyðarlögin voru sett, til að bjarga því sem bjargað varð í peningamálum þjóðarinnar, þ.e. að stofna nýja banka í stað þeirra gömlu og flytja innistæður á milli þeirra og útistandandi kröfur bankanna á móti og síðan lagði ríkissjóður bönkunum til hlutafé.

Við fall bankanna urðu margir fjármagnseigendur fyrir gríðarlegu tapi, bæði þar sem hlutabréfaeign tapaðist nánast öll á einu bretti og skuldabréf urðu mörg verðlaus og eignir í peningamarkaðssjóðum rýrnuðu verulega.  Gengi erlendra gjaldmiðla, sem hafði byrjað að hækka í mars 2008, fór upp úr öllu valdi í kjölfar hrunsins, sem leiddi til gífulegrar hækkunar á erlendum skuldum og verðbólgan í kjölfarið hækkaði vísitölubundnar skuldir verulega.

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde hrökklaðist frá völdum í kjölfar "búsáhaldabyltingarinnar" og við völdum tók ríkisstjórn, sem síðan hefur sannað sig sem einhverja þá alverstu, sem um stjórnartaumana hefur haldið frá lýðveldisstofnun og hefur ekki haft getu, vilja né hugmyndir til þess að glíma við þann vanda, sem hrunið olli heimilunum í landinu og þjóðfélaginu öllu.

Í stað þess að leggja áherslu á atvinnuuppbyggingu og minnkun atvinnuleysis, hefur ríkisstjórnin þvert á móti barist með öllum sínum ráðum gegn öllum hugmyndum og undirbúningi að nýjum atvinnutækifærum og hefur reynst algerlega ráðalaus gagnvart vanda heimilanna og reyndar aukið hann umtalsvert með skattahækkunarbrjálæði sínu og bótaskerðingum til barnafjölskyldna og íbúðakaupenda, að ekki sé nú minnst á elli- og örorkulífeyrisþega.

Á mánudag reis almenningur upp gegn þessari vesælu ríkisstjórn með stærsta útifundi Íslandssögunnar, sem fram fór á Austurvelli við þingsetningu og í kjölfarið á honum virtust ráðherrar loksins byrja að átta sig á alvöru mála, en vegna skorts á úrræðum og hugmyndum ákölluðu þeir stjórnarandstöðuna sér til bjargar, en eins og flest annað sem stjórnin hefur gert, sýndi sú fundarboðun sig vera tóm sýndarmennska og stjórnin gat ekkert nýtt lagt þar fram, en ætlaðist til þess að stjórnarandstaðan legði blessun sína yfir að ekkert yrði gert frekar í skuldavanda fjölskyldnanna í landinu.

Orð Ólafar Nordal, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, sem hún lét falla að fundi loknum, segja allt sem segja þarf um ríkisstjórnina og ráðherra hennar, en Ólöf sagði m.a:  "Menn verða bara að hafa þrek til að taka á þeim vanda sem framundan er. Ef ríkisstjórnin getur það ekki verður hún bara að fara frá."


mbl.is Fela sig á bak við AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Jóhanna skammast sem aldrei  fyrr í bönkunum, vegna þess hversu vondir þeir eru við fjölskyldurnar í landinu.  Samkvæmt tölum Credit Info  eru 26 % uppboðsbeiðna, fyrstu vikuna í október frá Íbúðalánasjóði.  Uppboðsbeiðir frá bönkum á sama tíma eru hins vegar tæp 16%.    Þokkalega velgefið fólk hlýtur að sjá að það er eitthvað í heildarmyndinni, sem að forsætisráðherra lokar augunum fyrir.

Kristinn Karl Brynjarsson, 6.10.2010 kl. 10:16

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Svo stranda uppgjör vegna skuldaaðlögunar einstaklinga oftast á því, að fólkið er líka með opinber gjöld í vanskilum og ríki og sveitarfélög eru afar treg, ef ekki algerlega óviljug, til að fella niður slíkar kröfur.  Svo er skammast í bönkunum.

Axel Jóhann Axelsson, 6.10.2010 kl. 10:19

3 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Ríki og sveitarfélög eiga svo örlítið fleiri uppboðsbeiðnir en bankarnir eða 16,6%,  aðrir minna. 

Hér er linkur á greinina sem ég vitna :

http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/skjaldborgin-i-oktober-riki-og-sveitarfelog-med-taepan-helming-uppbodsbeidna-fyrstu-viku-oktober

Kristinn Karl Brynjarsson, 6.10.2010 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband