Voru bankarnir alger glæpabæli?

Kastljós sjónvarpsins fjallaði í kvöld ýtarlega um skýrslu franskra rannsakenda, sem Sérstakur saksóknari og Eva Joly fengu til að fara yfir rekstur Glitnis árin fyrir bankahrunið og samkvæmt henni er ekki annað að sjá, en að Glitnir hafi verið rekið sem hreint glæpafyrirtæki síðustu árin og hafi í raun verið orðinn gjaldþrota á árinu 2007, en líf hans verið framlengt með tómum blekkingum og svikum fram á haustmánuði 2008.

Ekki hefur verið nóg með að bankanum hafi verið haldið á floti með sviksamlegum aðferðum síðustu árin, heldur styður rannsóknin ljóslega við það sem vitað var áður, þ.e. að eigendur bankans og stjórnendur rændu hann innanfrá og komu ótrúlegum upphæðum á glæpsamlegan hátt til fyrirtækja í sinni eigu og eigin vasa.  Upphæðir sem eigendur hafa krafsað ofan í eigin vasa sýnast hafa numið milljörðum, eða tugmilljörðum króna, sem þessir stórglæpamenn hafa falið í hinum ýmsu bankaskjólum alþjóðlegra fíkniefnabaróna og annars glæpalýðs.

Kastljós boðaði jafnframt að á morgun yrði fjallað um skýrslur sem vörðuðu Landsbankann, sem sýndu að hann hafi í raun verið orðinn gjaldþrota á árinu 2007, eins og Glitnir, en verið einnig verið haldið á lífi með vafasömum hætti fram í október 2008.  Endurskoðendur virðast hafa verið samverkamenn bankanna um þessa svindlstarfsemi og ef það er á rökum reist, er það gífurlegt áfall fyrir þá sem treyst hafa á heiðarleika endurskoðenda og uppáskriftum þeirra á reikninga fyrirtækja.

Samkvæmt þessum skýrslum sem Kastljós hefur undir höndum, ásamt öðrum sönnunum sem hljóta að hafa hlaðist upp hjá Sérstökum saksóknara undanfarin tæp tvö ár, hlýtur að fara að verða grundvöllur til að taka höfuðpaurana fasta og setja í gæsluvarðhald, þar sem refsing fyrir þau glæpaverk sem þeir virðast hafa framið hlýtur að vera margra ára fangelsisvist.

Ef refsing fyrir glæpi sem til rannsóknar eru, er talin varða meira en tveggja ára fangelsi eru sakborningar nánast undantekningarlaust látnir sitja í gæsluvarðhaldi á meðan að á rannsókn máls stendur og dómur hefur verið kveðinn upp.  Má t.d. benda á morðrannsóknir sem dæmi.


mbl.is Segja að bókhald Glitnis hafi verið í molum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skríllinn aftur á ferðinni

Sá hluti þeirra sem stóð að mótmælum eftir bankahrunið og stundaði mestu skrílslætin við og í Alþingishúsinu þann 8. desember 2008, sem enduðu með ofbeldi og líkamsmeiðingum á að minnsta kosti einum starfsmanni þingsins, virðist vera kominn á kreik í enn eitt skiptið og enn á ný með dólgslæti á áhorfendapöllum Alþingis.

Skrifstofustjóri Alþingis kærði innrásina í þinghúsið á sínum tíma og rannsókn Ríkislögreglustjóra leiddi til ákæru á hendur níu af ofbeldisseggjunum og er kæran nú til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur, eins og landslög gera ráð fyrir, en ekki hefur heldur fengist mikill vinnufriður þar, við fyrirtökur málsins, fyrir skrílslátum þess rustalýðs sem segist vera "stuðningsmenn níumenninganna" og ætla sér að koma í veg fyrir eðlilega dómsmeðferð með ofbeldi og rustaskap.

Það er óskiljanlegt að þetta fólk skuli ekki sætta sig við löglega meðferð málsins fyrir dómstólum, fyrst niðurstaða rannsóknaraðila var sú að allt útlit hefði verið að framin hefðu verið lögbrot í þinghúsinu.  Héðan af kveður enginn endanlega upp úr með sýknu eða sakleysi nema dómstólarnir.  Fari svo að sakborningar sætti sig ekki við niðurstöðu íslenskra dómstóla er það þeirra réttur að geta vísað málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu. 

Dómur um sekt eða sakleysi varðandi skrílslæti og ofbeldi verður a.m.k. ekki kveðinn upp með ennþá meiri skrílslátum og ofbeldi.

 


mbl.is Tvö ár frá uppþoti á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velferðin lækkuð - bensínið hækkað

„Það er ekki hægt að kalla það nýjar hækkanir eða sérstakar álögur, að þessi gjöld fylgi verðlagi,“ sagði Steingrímur J. aðspurður um fyrirhugaðar hækkanir á bensíni og olíu um áramótin, en hækkaðar álögur á þessar vörur eiga að skila tveim milljörðum í auknar tekjur í ríkissjóð, og eru að sjálfsögðu teknar úr vösum almennings í landinu, sem þar með hefur tveim milljörðum króna minna til kaupa á matvörum og öðrum nauðsynjum til heimilanna.  

Á sama tíma og Steingrímur J. segist einungis vera að láta gjöldin fylgja verðlagi, leggur hann fram fjárlagafrumvarp sem ekki gerir ráð fyrir að elli- og örorkulífeyrir "fylgi verðlagi" eins og orkugjafaálögur ráðherrans, en eins og allir vita segist Steingrímur J. vera ráðherra í "norrænni velferðarstjórn".  Laun á vinnumarkaði hafa ekki heldur "fylgt verðlagi" undanfarið, þannig að ekki aukast ráðstöfunartekjur fólks við þetta nýjasta skattahækkanabrjálæði "velferðarstjórnarinnar", sem reyndar er á góðri leið með að eyðileggja það velferðarkerfi, sem stóreflt var og endurbætt undanfarin tuttugu ár, áður en "velferðarstjórnin" tók við.

Margt af þessum toga einkennir störf þessarar "norrænu velferðarstjórnar" og er almenningur vægast sagt farin að vonast til að stjórnartíma hennar fari að ljúka sem allra fyrst. 

 


mbl.is Ekki verið að auka álögur á eldsneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnaver og "eitthvað annað"

Þegar álverið á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun voru í byggingu sneriist helsti áróður stóriðjuandstæðinga landsins um að hætta ætti vatnsaflsvirkjunum og snúa alfarið að jarðvarmavirkjunum og nýta orkuna frá þeim til að knýja gagnaver og "eitthvað annað", en "eitthvað annað" hafa verið þau atvinnutækifæri sem aðallega hefur verið bent á af andstæðingum stóriðjuveranna.

Þegar til á að taka stenst Ísland ekki samkeppni við önnur lönd í Evrópu um uppbyggingu gagnavera vegna skattpíningar hérlendis, sem fjármálaráðuneytið undir stjórn Steingríms J. hefur ekki tekist að jafna við önnur lönd og er því svo komið að einhver stórfyrirtæki hafa ákveðið að snúa sér annað með gagnaversviðskipti sín og önnur, sem búin voru að gera samninga, um það bil að gefast upp á biðinni.

Reyndar er nú svo komið, að "náttúruvinir", sem auðvitað eru ekkert meiri vinir náttúrunnar en þeir sem vilja nýta hana skynsamlega, eru nú farnir að berjast með oddi og egg gegn jarðvarmavirkjunum með ekkert minni hamagangi en vatnsaflsvirkjununum og ætti að taka mark á þessu fólki verður trúlega ekki mikið um orku fyrir gagnaver, frekar en annað, í framtíðinni.

Þá er auðvitað hægt að benda á "eitthvað annað" til atvinnusköpunar.


mbl.is Regluverk um gagnaver verði klárt fyrir jól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt klúðrið enn

Ríkisstjórninni virðist vera algerlega fyrirmunar að koma frá sér nokkru máli án stórkostlegra ágalla og oft klúðrast þau algerlega vegna lélegs skipulagns og enn verri undirbúnings.  

Nýjasta dæmið er fyrirhugað Stjórnlagaþing, sem þjóðin lét berlega í ljós í kosingunum til þess að hún kærði sig alls ekki um neitt slíkt þing, en eftir því sem Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir, þá er niðurstaða talningar kosningaklúðursins ekki í samræmi við lögin sem um þingið giltu og aðeins 11 þingfulltrúar réttilega kjörnir samkvæmt þeim.

Fulltrúar landskjörsstjórnar munu hafa viðurkennt á fundi þingnefndar að stjórnin hafi ekki skilið lögin sem kosið var eftir til Stjórnlagaþingsins, né greinarnar um úthlutun þingsæta og því hafi niðurstaðan orðið sú, að enginn gæti skorið úr um réttmæti sætisúthlutananna annar en Hæstiréttur og þangað yrði að skjóta málinu til úrlausnar.

Sé þetta staðreynd og niðurstaðan verði sú að Hæstiréttur þurfi að skera úr klúðrinu, er þetta enn einn skandallinn í langri sögu slíkra í tíð ríkisstjórnarinnar og ljótur blettur á þingsögunni, sem þó mátti ekki við að miklu meira væri sullað niður á þá skítugu flík til viðbótar við það sem áður hafði þangað lekið.

Ljótt er að ekki skuli einu sinni vera hægt að úthluta sætum á þetta umboðslitla ráðgjafaþing án þess að ríkisstjórnin geri sig að athlægi í leiðinni.  


mbl.is Stjórnlagaþing til Hæstaréttar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður engin "niðurstaða" í vikunni

Jóhanna Sigurðardóttir segist vonast til að niðurstaða fáist í Icesave-málinu í vikunni og á þá væntanlega við þessa viku, sem nú er nýhafin, en ekki "eftir helgi" eða í "næstu viku", eins og verið hefur um allar "niðurstöður" ríkisstjórnarinnar fram að þessu.

Þó Jóhanna og ríkisstjórnin öll og jafnvel allur þingheimur samþykki fjárkúgunarkröfur Breta og Hollendinga á hendur íslenskum skattgreiðendum vegna viðskipta einkafyrirtækis, sem þar að auki var rekið af fjárglæframönnum, þá verður það engin "niðurstaða" í þrælasölumálinu, því tilvonandi þrælar Breta og Hollendinga munu aldrei samþykkja að ganga sjálfviljugir í skattaþrældóm fyrir erlenda kúgara.

Þjóðin mun hrinda þessu nútíma "Tyrkjaráni" af höndum sér, jafnvel þó ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir gefist enn einu sinni upp fyrir innrás þrælakaupmanna.


mbl.is Niðurstaða vonandi í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrum af grófasta tagi

Enginn hefur stundað annað eins lýðskrum undanfarna mánuði og Lilja Mósesdóttir, nema ef vera skyldi þingmenn Hreyfingarinnar, með þvaðrinu um að hægt sé að gera allt fyrir alla, þurrka nánast út skuldir hvers einasta manns og láta eins og aldrei hafi orðið neitt bankahrun.

Nú er Lilja farin að tala eins og það sé einfalt val fyrir fólk að "fara í gjaldþrot" og verða laust allra skuldamála eftir tvö ár, þegar það er staðreynd, að  lánadrottnar geta vel haldið kröfum sínum vakandi áfram, þó það verði meiri skilyrðum háð en nú er, ef frumvarp til breytinga á gjaldþrotalögum nær fram að ganga á Alþngi.

Lilja segir marga sem nú séu með yfirveðsettar eignir munu telja "að það sé best að fara í gjaldþrot" þegar staðreyndin er sú að ef fólk á ekki fyrir skuldsetningum sínum, þá ER það gjaldþrota og þó þær leiðir til skuldaniðurfellinga sem fyrir hendi eru, hreinsi fólk ekki af skuldamistökum sínum, þá gera þær fólki kleyft að halda eignum sínum og sleppa við að ganga í gegn um gjaldþrotauppgjör, sem er eitt það versta sem nokkur maður þarf að upplifa og enginn hefur gert að gamni sínu fram að þessu.

Lilja er svo óforskömmuð að segja að til standi að "bjóða fólki upp á" að fara í gjaldþrot með tveggja ára fyrningartíma krafna.  Þetta er versta og grófasta lýðskrum og blekkingar, sem lengi hafa sést frá nokkrum stjórnmálamanni.

 


mbl.is Kjósa að fara í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætla að gera millistéttina að öreigum

Ásgerður Flosadóttir, framkvæmdastjóri Fjölskylduhjálpar Íslands, spáir því að obbinn af millistétt landsins muni enda í fátækt og markar það líklega af því hve aukningin í aðstoð hjá Fjölskylduhjálpinni er mikil og fer sívaxandi.

Þetta þarf hins vegar ekki að koma neinum á óvart, því það er staðföst stefna Steingríms J. og félaga í VG, með dyggri aðstoð Samfylkingarinnar, að gera sem allra flesta Íslendinga að öreigum, enda rúmast það ekki innan þeirra þjóðfélagsskoðana að einn hafi það betra en annar og helst eiga allir að hafa það sem verst, því þannig er auðveldast að deila og drottna, samkvæmt kenningum kommúnismans, sem Steingrímur og þeir rauðu, grænu og gulu trúa ennþá á.

"Sovét Ísland, draumalandið, hvenær kemur þú?", hefur verið þessu fólki kær ljóðlína og Internationalinn er kyrjaður við hvert tækifæri og augun verða tárvot þegar innlifunin í sönginn nær hámarki og draumalandið birtist í hillingum fyrir hugskotssjónunum. Þar næst takast félagarnir í hendur, klappa hver öðrum á bakið með enn einni gamalkunnri baráttukveðju sinni: "Öreigar allra landa sameinist." Að lokum er svo fallist í faðma og kysstst á báðar kinnar, alveg eins og fyrirmyndirnar í sovétunum hafa alltaf gert.

Fyrsta skrefið að draumaríkinu er auðvitað að gera alla landa sína að öreigum og fljótlegasta leiðin til þess er að standa gegn allri uppbyggingu, sérstaklega atvinnuuppbyggingu, þannig að sem flestir verði háðir styrkjum og bótum sem forsjárhyggjufólkið úthlutar.


mbl.is Telur millistéttina enda í fátækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB vill samning - Íslendingar vilja dóm

John Diizard, pistlahöfundur á vef Financial Times, segir að stjórnvöld í Evrópu vilji ekki fá dómsúrskurð um Icesave, þar sem slíkur dómur setji fordæmi um hver beri ábyrgð á innistæðutryggingum og þess vegna leggi Bretar og Hollendingar alla áherslu á að ná nýjum samningi í stað þess, sem þjóðin felldi eftirminnilega þann 6. mars s.l.

Stjórnvöld í Evrópu eiga ekki að fá að ráða málsmeðferð í þessu kúgunarmáli Breta og Hollendinga gegn íslenskum skattgreiðendum, sem enga aðild eiga að málinu, enda eiga kúgararnir að snúa sér með kröfur sínar að þeim sem þær beinast að, þ.e. þrotabúi einkafyrirtækisins sem til þeirra stofnaði. Íslendingar verða enn á ný að sýna samstöðu í málinu og hrinda nýrri fjárkúgun þessara erlendu yfirgangsþjóða af höndum sér og standa sem einn maður gegn öllum fyrirætlunum Steingríms J. og félaga, um að selja íslenska þjóð í skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga til næstu áratuga.

Eftirfarandi klausa úr greininni er afar athyglisverð fyrir Íslendinga:   "Ef enginn utan landsteinanna vissi af eða tæki eftir stígandi bata Íslands þá skipti þetta svo sem ekki miklu máli. En Grikkir, Írar og Spánverjar lesa dagblöð og vefsíður og sumir þeirra, sem og stjórnmálamennirnir sem þurfa að sitja fyrir svörum, spyrja sig hvort það sé kannski til önnur leið til að reka hagkerfi," segir Financial Times. Yfirvöld í Evrópu hafi gripið til allra verstu leiðanna til að eiga við vandann."

Hvenær skyldu Íslendingar sjálfir fara að viðurkenna þá framsýni og fagmennsku sem sýnd var við aðgerðirnar, sem gripið var til hér á landi, við bankahrunið? 


mbl.is Icesave samkomulag áhugavert fordæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsakið (á meðan ég æli)

Samfylkingin var soðin saman upp úr brotum úr Alþýðuflokknum, Alþýðubandalaginu, Kvennalistanum, ásamt ýmsu pólitísku draumórafólki sem sá í hyllingum að búa til stóran "jafnaðarmannaflokk" sem næði eins miklu fylgi hérlendis og slíkir flokkar hafa oftast notið á norðurlöndunum og Bretlandi og var Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra Breta, aðaðátrúnaðargoð og fyrirmynd þessa draumórafólks.  Ekki síður var útblásið að þessi nýja Samfylking skyldi verða verðugt mótvægi við eina alvöru stjónmálaflokk landsins, Sjálfstæðisflokkinn, sem frá stofnun hefur verið stærsti, öflugasti og traustasta stjórnmálaafl landsins.

Ekki rættust stærðardraumar stofnenda Samfylkingarinnar og því leið ekki á löngu, þar til bandalag var gert við helstu andstæðingaa Sjálfstæðisflokksins, en það voru helstu banka- og útrásargengin, en þau höguðu sér ekki í viðskiptum eins og sannir Sjálfstæðismenn telja að fólk eigi að haga sér í viðskiptum, þ.e. að sýna fyrst og fremst sanngirni og heiðarleika í viðskiptum sínum.  Þessi óheiðarlegasti armur íslensks viðskiptalífs tók fagnandi upp samstarf við Samfylkinguna og barðist með öllum ráðum og ómældum fjárframlögum við að koma flokknum í ríkisstjórn.

Að lokum tókst að koma Samfylkingunni í ríkisstjórn á árinu 2007, en þá þegar voru fjárhagslegir bakhjarlar Samfylkingarinnar búnir að koma sér í þvílíkt klúður í viðskiptum sínum að það leiddi að lokum nánast til gjaldþrots þjóðarbúsins, sem eingöngu var forðað vegna þess að í ríkisstjórn með Samfylkingunni voru menn sem voru þeim vanda vaxnir að taka á erfiðum málum á réttan hátt.

Nú dirfist Jóhanna Sigurðardóttir að koma fram fyrir þjóðina og biðjast afsökunar á samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn en minnist ekki á þá samstarfsmenn flokksins, sem fjármögnuðu stjórnmálastarf hennar og studdu hana með öllum ráðum á ríkisstjórnarvegfeðinni.

Samfylkingin ætti að hafa rænu á að koma heiðarlega fram og biðjast afsökunar á því að hafa verið orðin að fyrirtækinu "Samfylking Group" eins og önnur útrásarfyrirtæki voru á þessum tíma. 


mbl.is Samfylkingin biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband