4.12.2010 | 00:17
Krefjast hjálpar án þess að vera hjálparþurfi
Nú er ríkisstjórnin loksins búin að kynna í fimmta sinn, lokaaðgerðir sínar til að forða þeim heimilum frá gjaldþroti sem bjargað verður, en Jóhanna lét þess þó getið í leiðinni að "ekki verður hægt að bjarga öllum" og þeir koma ríkisstjórn Íslands ekkert við eftirleiðis.
Þau "úrræði" sem kynnt voru í dag eru þau sömu og bankarnir hafa verið að vinna eftir í nokkra mánuði, að viðbættum því framlagi ríkisstjórnarinnar að hætta við að lækka vaxta- og húsaleigubætur og setja á tímabundnar viðbótarvaxtabætur sem eftir er að "útfæra" og ákveða hverjir eigi að borga þær og hvernig.
Þar sem þetta eru lokaaðgerðir fyrir þau heimili sem ekki sjá fram úr skuldunum, rísa nú upp Hagsmunasamtök heimilanna, Hreyfingin og ýmsir fleiri og heimta hjálp fyrir þá sem þurfa enga hjálp, en finnst alveg hörmulegt að horfa á björgun þeirra sem þarf að bjarga, án þess að fá senda einhverja jólagjöf til sín.
Fólk virðist í alvöru halda að hægt sé að eyða kreppunni með einu pennastriki og færa klukkuna einfaldlega aftur til 1. janúar 2008 og byrja upp á nýtt eins og ekkert hefði í skorist.
Er ekki tími til kominn að fólk fari að takast á við þá erfiðleika sem við er að etja og munu ekki hverfa með því að þylja töfraþulur?
Enginn og ekkert mun laga efnahagsástandið í landinu nema atvinna og verðmætasköpun. Ástandið mun ekki lagast á meðan fólk lítur á atvinnuleysisbætur sem valkost, frekar en atvinnu, til að auka ráðstöfunartekjur sínar.
![]() |
Hinir ráðdeildarsömu tapa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
3.12.2010 | 11:41
Ekki eftir helgi, en strax á næsta ári
Loksins er komið fram samkomulag þeirra aðila sem hlut eiga að máli um endanlega afgreiðslu á skuldavanda heimilanna, sem boðaðar hafa verið "eftir helgi" í heilt ár og vegna þeirra tafa hefur fólk ekki gert það sem þurft hefði að gera í skuldamálunum og því ástandið eingöngu farið versnandi og fleiri endað með eignamissi, en annars hefði orðið.
Nú verður farið í ýmsar aðgerðir til að létta skuldabyrði vegna húsnæðislána, en líklega eru stærstu vandamál heimilanna ekki tilkomin vegna þeirra lána, heldur ýmissa neyslulána sem tekin voru ótæpilega í "lánærinu" mikla og margir hefðu lent í erfiðleikum vegna þó ekkert bankahrun hefði komið til.
Það sem óneitanlega vekur upp spurningu er, hvers vegna miðað sé við fasteignamat en ekki brunabótamat, eins og alltaf hefur verið gert í fasteignaviðskiptum fram til þessa. Um það var fjallað áður í þessu bloggi HÉRNA
Ef til vill breytist verð fasteigna til samræmis við fasteignamatið í framhaldi af þessu. Það verður auðvitað til þess að mun stærri hópur tapar á fasteignakaupum sínum en ef áfram hefði verið miðað við brunabótamatið.
Þessar aðgerðir munu víst ekki koma til framkvæmda strax "eftir helgi" og ekki heldur í "næstu viku", heldur á næsta og þarnæsta ári.
Allt er gott sem endar vel, a.m.k. er gott að þetta strögl virðist vera að taka enda og þá ætti að vera hægt að snúa sér að öðrum brýnum málum sem plaga þjóðfélagið.
![]() |
60 þúsund heimili njóta góðs af |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.12.2010 | 10:53
Fasteignamat en ekki brunabótamat?
Svo langt aftur sem elstu menn muna miðuðust húsnæðislán við ákveðið hlutfall af brunabótamati fasteignar, en breyting varð á þessu með innrás bankanna á þennan markað á haustdögum 2004, en þeir tóku að lána allt að 100% af kaupverði eigna, burtséð frá mati þeirra, en kaupendum var gert að kaupa viðbót við skyldutrygginguna, sem miðaðist við brunabótamat, þ.e. að tryggja mismuninn á kaupverði og brunabótamati eignarinnar.
Íbúðalánasjóður var og er með hámark á sínum lánum, þannig að á árunum fyrir hrun var hámarkslán hans átján milljónir króna, en er nú tuttugu milljónir króna og má þó aldrei fara upp fyrir 80% kaupverðsins, þannig að ólíklegt er að margir séu í erfiðleikum vegna Íbúðasjóðslánanna einna og sér, en hafa sjálfsagt lent í vanskilum með þau í framhaldi vanskila vegna annarra neyslulána, svo sem bílalána, yfirdráttar og greiðslukortaskulda.
Kaupverð fasteigna hefur sem sagt aldrei miðast við fasteingnamat þeirra, en nú þegar afskrifa á skuldir, þá verður miðað við 110% af því mati þannig að um leið og fasteignamarkaðurinn kemst í "eðlilegt" horf verður sjálfsagt farið að miða við brunabótamatið aftur og þá verða þeir sem nú fá niðurfellingar fljótir að komast í "gróða" á ný.
Samkvæmt vef Þjóðskrár er eftirfarandi mismunur á fasteigna- og brunabótamati:
Fasteignamat
Fasteignamat er gangverð sem ætla má að eign hefði haft í kaupum og sölum. Matið er gert í maí mánuði ár hvert og miðast við verðlag í febrúar. Hið nýreiknaða mat tekur gildi í árslok. Fasteignamat tekur bæði til húss og lóðar og skiptist í húsmat og lóðarmat.
Tilgangur fasteignamats er fyrst og fremst að skapa grundvöll fyrir álagningu opinberra gjalda en fasteignamatið er stofn fasteignagjalda og erfðafjárskatts.
Brunabótamat
Í brunabótamati felst mat á því hvað það myndi kosta að reisa hús á ný ef það yrði eldi að bráð. Brunabótamat miðast við byggingarkostnað og tekur tillit til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar.
Matið er vátryggingarfjárhæð og út frá því er lögbundin brunatrygging reiknuð út.
Lesa meira um brunabótamat
Fram að þessu hefur engum dottið í hug að óska eftir hækkun á fasteignamatinu, enda hefur það verið notað til álagningar fasteignagjalda og annarra skatta, en brunabótamatið hafa menn hins vegar viljað hafa sem hæst, vegna þess að fasteigna- og lánamarkaðurinn miðaði lengst af við það.
Nú verður gósentíð fyrir þá sem búa við lágt fasteignamat íbúða sinna.
![]() |
Telur kostnaðinn 174 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2010 | 09:17
Már viðurkennir björgunarafrekið frá 2008
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, viðurkennir í samtali við Bloomberg fréttastofuna að ríkisstjórn Geirs H. Haarde og þáverandi stjórnendur seðlabankans hafi í raun bjargað þjóðfélaginu frá algeru hruni með setningu neyðarlaganna í október 2008, en ef rétt er munað var Már á annarri skoðun á þeim tíma.
HÉRNA var þann 23/11 s.l. fjallað um það ótrúlega björgunarafrek sem unnið var í þröngri stöðu og í kapphlaupi við tímann á þessum haustdögum árið 2008, þegar bankakerfi heimsbyggðarinnar riðaði til falls og margar ríkisstjórnir hlupu upp til handa og fóta í örvæntingaræði og lýstu yfir ríkisábyrgð á bankakerfum landa sinna og hafa síðan dælt stjarnfræðilegum upphæðum inn í þau til að halda þeim gangandi og skattgreiðendur munu strita fyrir þeim skuldbindingum næstu áratugina.
Hér á landi var lengi vel lítill skilningur á því réttlæti sem fólst í neyðarlögunum, þ.e. að láta tap af óviturlegri og áhættusækinni lánastarfsemi erlendra fjármálafyrirtækja til ennþá óviturlegri og áhættusæknari íslenskra banka, lenda á þeim sem áhættuna tóku en ekki leggja tapið á íslenska skattgreiðendur, eins og núverandi stjórnvöld reyna að gera við hluta þessara bakaskulda, þ.e. Icesave.
Skammsýni og þó frekar pólitískt ofstæki hefur hins vegar orðið til þess að björgunarmennirnir íslensku eru svívirtir og niðurníddir og þurfa jafnvel að sæta ákærum fyrir Landsdómi, í stað þess að hljóta þær þakkir þjóðarinnar sem þeir eiga inni hjá henni.
Allt er þetta að koma betur og betur í ljós og tíminn og sagan mun kveða upp endanlega dóminn í þessu máli, sem öðrum.
![]() |
Seðlabankastjóri: Íslensk stjórnvöld brugðust rétt við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.12.2010 | 21:45
Flókið kerfi fyrir einfalda niðurstöðu
Fimm þeirra sem teljast hafa náð kjöri á Stjórnlagaþing, voru alls ekki meðal þeirra tuttuguogfimm sem flest atkvæði fengu í kosningunni. Kosið var eftir flóknu kerfi, þar sem fólki var talin trú um að setja þann sem það vildi helst í fyrsta sæti og setja síðan þann sem það vildi næsthelst í annað sætið á kjörseðlinum. Svona skyldi fólk raða frambjóðendum í öll tuttuguogfimm sætin á seðlinum, eftir þeirri áherslu sem það legði á hvern frambjóðanda fyrir sig.
Á þetta var lögð mikil áhersla í allri kynningu á kosningunum og þetta fyrirkomulag var stór þáttur í því að valda þeirri arfaslöku kjörsókn sem raun varð á, því fólki fannst þetta fyrirhafnarmikið kerfi og mikill tími færi í "heimavinnuna" sem nauðsynleg var við að velja úr 523 frambjóðendum og skrifa þá inn á handrit að kjörseðli, sem síðan átti að hafa með sér á kjörstað og hreinrita þar á raunverulegan kjörseðil.
Eftir allt þetta umstang með undirbúning og framkvæmd kjörsins, þurfti að leigja flókinn tölvubúnað erlendis frá til þess að reikna út úr kjörseðlum þess þriðjungs kjósenda, sem létu sig hafa það að taka þátt í þessari tilraun, sem tók þrjá daga að fá botn í eftir kosninguna. Þegar málið er svo skoðað nánar eftir að úrslitin voru kynnt, kemur í ljós að öll fyrirhöfnin var til einskis og algerlega óþörf.
Það skipti frambjóðanda sem sagt engu máli hve margir kusu hann á þingið, aðeins skipti máli hve margir settu hann í fyrsta sæti á kjörseðli sínum, því einungis þeir 25 sem oftast voru settir í það sæti töldust rétt kjörnir, en heildaratkvæðafjöldi skipti engu máli.
Fyrst svona átti að vera í pottinn búið hefði einungis átt að láta hvern kjósanda velja aðeins eitt nafn og þá hefðu væntanlega nákvæmlega þeir sömu komist á þingið og raunin varð og allt fyrirkomulagið fyrir og eftir kosningarnar orðið miklu einfaldara, auðskildara, þægilegra, fljótlegra og ódýrara.
Úrslitin hefðu þá einnig orðið sanngjarnari en raun varð á, en þegar ríkið stendur fyrir verkunum, þá skal það ekki bregðast að valin sé flóknari og dýrari leiðin, ef nokkur möguleiki er á því.
![]() |
Ekki nóg að koma oftast fyrir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
2.12.2010 | 16:35
Nekt og kynlíf alltaf vinsælt
Miðað við "vinsældarlista" frétta á mbl.is í dag er ungt fólk stór hópur lesenda síðunnar, því mest lesna fréttin fjallar um niðurhal á kvikmyndum og það er athöfn sem unga fólkið kann á, en við gömlu brýnin vitum ekkert hvernig á að framkvæma og hvað þá að finna myndir á netinu til að hala niður.´
Í þrem næstu þrem sætum á "vinsældarlistanum" koma blautlegar fréttir, sem þeir eldri hafa gaman af, ekki síður en þeir ungu, en fimmta vinsælasta fréttin fjallar svo um skuldir Símans, sem unga fólkið hefur líklega minni áhuga á, en þeir eldri.
Svona lítur vinsældalisti fréttanna út, þegar þetta er skrifað.
- Níu húsleitir vegna ólöglegs niðurhals
- Stundaði sjálfsfróun í kvikmyndahúsi yfir Harry Potter
- Berbrjósta konur valda usla
- Héldu að ég hefði verið í klámmynd
- Móðurfélag Símans þarf að greiða 74 milljarða fyrir 2014
Nekt og klám er sívinsælt umfjöllunarefni, ekki síst hjá feministum sem aldrei þreytast á að skoða það, að eigin sögn eingöngu til að geta hneykslast á því.
![]() |
Berbrjósta konur valda usla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.12.2010 | 11:18
Bjöggi og banki til rannsóknar
Lítið hefur farið fyrir fréttum af rannsóknum á Landsbankanum, eigendum hans og stjórnendum upp á síðkastið og var það farið að þykja nokkuð undarlegt hversu hljótt var orðið um þennan banka og gengið sem átti hann og rak.
Björgólfur Thor hefur, að því er fregnir herma, samið um allar sínar skuldbindingar svo ekkert þurfi að afskrifa eða lækka af hans skuldum og ef það gengi upp yrði það einsdæmi með þá "snillinga" sem öllu réðu í íslensku viðskiptalífi á tímum lántöku og eyðslurugls, sem að lokum leiddi til hruns bankanna og allra helstu atvinnufyrirtækja landsins.
Nú bregður hins vegar svo við að fréttir berast af því að Sérstakur saksóknari hefur nú til rannsóknar kaup Landsbréfa á skuldabréfi af Björgólfi Guðmundssyni á árinu 2005, að upphæð 400 milljóna króna, þrátt fyrir að sjóðnum væri óheimilt að kaupa slík bréf af einstaklingum. Þetta hlýtur að flokkast undir alvarlegt brot, þar sem Björgólfur var aðaleigandi Landsbankans og stjórnarformaður hans. Undarlegast er, hve seint þetta mál virðist koma á borð þess sérstaka, en fimm ár eru liðin frá þessum viðskiptum og tvö ár frá hruni.
Einnig hefur skilanefnd Landsbankans stefnt fyrrverandi bankastjórum vegna vanrækslu í starfi og krefur þá um 38 milljarða í skaðabætur, sem telja verður afar lága upphæð í ljósi þess tjóns sem þeir ollu bankanum og þjóðfélaginu með starfsháttum sínum. Ef til vill er þetta þó aðeins krafa vegna örlítils hluta skaðans sem hlaust af gerðum þeirra og að á næstunni komi fram hrina slíkra skaðabótakrafna.
Gott er til þess að vita, að rannsóknir á þeim gengjum sem þjóðfélagshruninu ollu skuli vera í fullum gangi og það eina sem skyggir á, er hvað þetta tekur allt langan tíma og að á meðan skuli meðlimir gengjanna ganga lausir og allt að því hæðast að rannsakendum og raunar þjóðinni allri.
![]() |
Skuldabréf Björgólfs til sérstaks saksóknara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2010 | 09:44
Allir óánægðir með alla
Samkvæmt skoðanakönnunum er stór meirihluti þjóðarinnar hundóánægður með ríkisstjórnina og telur hana alls ófæra um að leysa úr vandamálum þjóðfélagsins.
Samkvæmt sömu könnunum er mikill meirihluti einnign óánægður með stjórnarandstöðuna, sem þó ræður engu og fær engin mál samþykkt í þinginu, þrátt fyrir að hafa lagt fram margar góðar tillögur og allar betri en ríkisstjórnin hefur komið með. Samt telur meirihlutinn að stjórnarandstöðunni væri ekkert betur treystandi en stjórninni til að leysa úr vandamálunum.
Það sem vantar í þessar kannanir eru svör við því, hver á að stjórna landinu, ef það á ekki að vera ríkisstjór með þingmeirihluta á bak við sig.
Gefa þessi svör til kynna að almenningur sé að kalla á einhverskonar einræði í landinu?
Sýna þessar niðurstöður ef til vill að almenningur í landinu sé búinn að gefast upp og telji að landinu og vandamálum þess verði hreint ekki bjargað úr þessu?
![]() |
Fáir ánægðir með stjórnarandstöðuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.12.2010 | 21:43
Það vantar kynjasamþættingu í ákvarðanirnar
Nú er að koma í ljós skýringin á því, að lítið sem ekkert þokast með aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahags-, atvinnu- og skuldamálum, en beðið hefur verið í heilt ár eftir að þær litu dagsins ljós "eftir helgi", en hver helgin, vikan og mánuðurinn líður án þess að nokkuð bóli á framkvæmdum.
Skýringin á því að ekki hefur unnist neinn tími til að sinna þessum smærri málum er, að stjórnsýslan hefur öll verið upptekin upp fyrir haus við að móta "Fimmtu framkvæmdaáætlun stjórnvalda til að ná fram jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á Íslandi" og til þjóðinni til mikils léttis og gleði, hefur áætlunin nú verið lögð fram í formi þingsályktunartillögu og á að gilda fyrir árin 2011-2014.
Líklega tefst í nokkur ár ennþá að koma í verk einhverjum aðgerðum í efnahags-, atvinnu, og málefnum heimilanna, því strax hlýtur að þurfa að setja kraft í að móta sjöttu framkvæmdaáætlunina um kynjasjónarmiðin, enda þarf hún að vera tilbúin tímanlega áður en sú fimmta rennur út 2014.
Stórkostleg markmið eru fram sett í þeirri fimmtu og má t.d. vitna í þessa dásamlegu setningu, sem í raun dregur saman á skorinorðan hátt, allt sem þjóðin þarfnast sér til heilla á næstu árum: "Átak verði gert í að samþætta kynjasjónarmið inn í alla ákvarðanatöku og stefnumótun stjórnkerfisins, og áhersla lögð á kynjaða hagstjórn sem felst í því að kynjasamþættingu er beitt í öllu fjárlagaferlinu."
Furðulegt er, að kynjasamþættingu skuli ekki hafa verið beitt í lausn annarra verkefna, sem ríkisstjórnin þyrfti helst að fara að beina kröftum sínum að, enda kjörtímabilið nánast hálfnað.
![]() |
Jafnréttisáætlun stjórnvalda lögð fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.12.2010 | 10:12
Stjórnlagaþingsmenn með hroka og yfirlæti
Varla var búið að tilkynna úrslit í kjöri fulltrúa á Stjórnlagaþing, þegar tveir þeirra komu fram í fjölmiðlum með hroka og yfirlæti og töluðu eins og þeir hefðu verið kjörnir til umbyltinga á þjóðfélaginu og hefðu umboð sitt beint frá guði.
Þorvaldur Gylfason, prófessor, talaði eins og hans einkaskoðanir væru orðnar að samþykkt nýrrar stjórnarskrár og þar skyldi verða kveðið á um helmings fækkun þingmanna á Alþingi og ráðherrum fækkað niður í fimm. Með þessum tillögum sínum sagðist hann í raun vera að setja Alþingi af og stjórnarskrártillögur hans færu þar með beint í þjóðaratkvæðagreiðslu, án nokkurrar aðkomu Alþingismanna og þrátt fyrir ákvæði núverandi stjórnarskrár um tvöfalt samþykki Alþingis og kosningar skuli halda á milli afgreiðslna þingsins.
Eiríkur Bergmann, ESBáróðursmeistari, talaði á svipuðum nótum í viðræðuþætti í útvarpi, en Inga Lind Karlsdóttir, fjölmiðlakona, sagðist hvergi hafa séð það í lögum um Stjórnlagaþingið að þannig mætti fara með tillögur að stjórnarskrárbreytingu, en Eiríkur gerði lítið úr slíkum smámunum, sem honum og Þorvaldi þykja lagaheimildir vera, ef þeim finnst eitthvað annað prívat og persónulega.
Þessir hrokagikkir og hugsanlega aðrir, sem ætla sér að taka sæti á Stjórnlagaþinginum með slíku yfirlæti, ættu að rifja það upp að þeir eru einungis kjörnir til að leggja tillögur að breyttri stjórnarskrá fyrir Alþingi, sem síðan yfirfer þær og annaðhvort breytir eða samþykkir, boðar svo til kosninga og leggur tillögurnar aftur fyrir nýtt þing, sem saman kemur að loknum þeim kosningum.
Yfirlætisfullir hrokagikkir á Stjórnlagaþingi verða að skilja og muna, að þeim hefur alls ekki verið falið að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá, aðeins að leggja fram tillögur til Alþingismanna til nánari umfjöllunar.
Það er lágmarkskrafa að Stjórnlagaþingsmenn byrji ekki á að boða brot á núverandi stjórnarskrá.
![]() |
Vörpuðu hlutkesti 78 sinnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)