Það vantar kynjasamþættingu í ákvarðanirnar

Nú er að koma í ljós skýringin á því, að lítið sem ekkert þokast með aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahags-, atvinnu- og skuldamálum, en beðið hefur verið í heilt ár eftir að þær litu dagsins ljós "eftir helgi", en hver helgin, vikan og mánuðurinn líður án þess að nokkuð bóli á framkvæmdum.

Skýringin á því að ekki hefur unnist neinn tími til að sinna þessum smærri málum er, að stjórnsýslan hefur öll verið upptekin upp fyrir haus við að móta "Fimmtu framkvæmdaáætlun stjórnvalda til að ná fram jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á Íslandi" og til þjóðinni til mikils léttis og gleði, hefur áætlunin nú verið lögð fram í formi þingsályktunartillögu og á að gilda fyrir árin 2011-2014.

Líklega tefst í nokkur ár ennþá að koma í verk einhverjum aðgerðum í efnahags-, atvinnu, og málefnum heimilanna, því strax hlýtur að þurfa að setja kraft í að móta sjöttu framkvæmdaáætlunina um kynjasjónarmiðin, enda þarf hún að vera tilbúin tímanlega áður en sú fimmta rennur út 2014.

Stórkostleg markmið eru fram sett í þeirri fimmtu og má t.d. vitna í þessa dásamlegu setningu, sem í raun dregur saman á skorinorðan hátt, allt sem þjóðin þarfnast sér til heilla á næstu árum:  "Átak verði gert í að samþætta kynjasjónarmið inn í alla ákvarðanatöku og stefnumótun stjórnkerfisins, og áhersla lögð á kynjaða hagstjórn sem felst í því að kynjasamþættingu er beitt í öllu fjárlagaferlinu."

Furðulegt er, að kynjasamþættingu skuli ekki hafa verið beitt í lausn annarra verkefna, sem ríkisstjórnin þyrfti helst að fara að beina kröftum sínum að, enda kjörtímabilið nánast hálfnað. 


mbl.is Jafnréttisáætlun stjórnvalda lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og sé ekki annað fréttnæmara en þetta!

Í gær var maður opinberlega borinn þeim sökum að hafa framið ýmis kynferðisbrot gegn konu.

Meðal annars mun hann hafa framið á henni kynferðisbrot með augnaráðinu: augnaráði sem að sögn brotaþola gaf til kynna að brjótandinn liti ekki lengur á hana sem barn, en er þessi brot áttu sér stað var hún á bilinu fimmtán ára og framundir tvítugt, og varð, á þessum tíma, síkvenlegri í vexti að eigin sögn (og ekki ástæða til að rengja það).

Sami maður framdi (skv. frásögn á Pressunni) kynferðisbrot gegn sömu konu/stúlku með því að segja við hana þann fyrsta janúar 1986: "Þú ert ekki lengur stelpa, heldur kona".

Önnur kona hefur stigið fram og fullyrðir að sá hinn sami maður og framdi þessa kynferðisglæpi sé sekur um þann kynferðisglæp að hafa, í það minnsta stundum er þau föðmuðust, snert með brjóstkassa sínum barm hennar. Styrkir það trúverðugleika frásagnar hennar um þetta atriði að maður þessi er nokkuð þrekinn.

Að fremja kynferðisglæp er að fremja sálarmorð (eflaust til ótal rannsóknir sem sanna það og óskandi að einhverjar þeirra væru íslenskum almenningi aðgengilegar, á íslensku semsagt, en svo er ekki að því er ég veit, og meira en sjálfsagt að krefjast þá þegar fjárveitingar til að slík gögn verði þýdd).

Að fremja kynferðisglæp er að fremja sálarmorð, og þar eð um þennan part mannsins er að ræða, sálina, þarf enginn að undrast að hægt er að fremja kynferðisglæpi með - einmitt - augnaráði, og með orðum sem klyngja í sálinni svo hún deyr, orðum eins og: "þú ert ekki lengur stelpa, heldur kona".

Konur sem skýrasta yfirsýn hafa yfir umfang kynferðisglæpa gegn konum fullyrða að nánast hver einasta kona hér á landi sé fórnarlamb kynferðisglæpa. Af því má klárlega ráða að nánast hver einasti karlmaður landsins hefur gerst sekur um kynferðisglæp gegn konu. Samt er það staðreynd, sorglega staðreynd, að nánast hver einasti karlmaður landsins gengur laus. Hversu lengi á það að viðgangast. How many roads must ...? (við þekkjum öll sönginn).

Á gullöld Stalínismans framdi fólk margvíslega glæpi gegn þjóð sinni og valdhöfum og var réttilega refsað. Hef ég lesið margt um þá gullöld og ætíð undrast allar þær nánast óteljandi tegundir glæpa sem fólk varð uppvíst að að fremja gegn þjóð sinni og Stalín, en ég hef ekki enn rekist á að nokkur hafi verið borinn þeirri sök í Sovét að hafa framið glæp með augnaráðinu einu. Þetta sýnir að Íslenskir karlmenn eru orðnir enn útsmognari glæpamenn en glæpafólk það sem Stalín og hans lögregla og leyniþjónusta átti við að eiga. Sem þýðir að hér á landi er þörf fyrir enn viðameiri og fullkomnari löggæslu en Stalin beitti gegn þegnum sínum.

Að byrjað sé - í fjölmiðlum - að ákæra fólk fyrir augnatillit og setningar á borð við "þú ert ekki lengur barn, heldur kona" er þó altént spor í rétt átt, og óskandi að dómskerfið láti ekki sitt eftir liggja gagnvart glæpum sem þessum. Stalín vísað veginn, við þurfum að ganga enn lengra og fagna ég því að konur séu þess meðvitaðar. Áfram stelpur ...!

Og eitt enn, Axel: er það ekki komið inn í hausinn á þér, karlmannshausinn á þér, að kynferðislegt ofbeldi er sálarmorð? Því þetta er væntanlega ekki bara frasi. Eða heldurðu það karl? Femínistar - en þær hafa jú langmest vit á kynferðisofbeldi - femínistar fullyrða að það hefur verið brotið kynferðislega á næstum hverri einustu konu landsins. Sem þýðir að næstum hver einasta kona landsins er orðin sálarlaus. Já, því það er jú búið að myrða í þeim sálina. Og þar með spyr ég þig karl: Hvaða vit er í því að láta sálarleysingja koma að mikilvægum ákvörðunartökum? Reyndar er mannlífið fremur einfalt á Íslandi: karlmenn eiga að vera í tukthúsi og restin er orðin sálarlaus og skiptir því ekki meira máli en dauðir hlutir. 

asdis o. (IP-tala skráð) 1.12.2010 kl. 22:33

2 Smámynd: Vendetta

Þetta er skemmtileg ádeila á femínistana hjá þér, Ásdís O.  Meira af þessu, takk.

Vendetta, 2.12.2010 kl. 02:38

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Asdis O, við lestur þessarar greiningar á glæpaeðli karlkynsins opnuðust augu mín algerlega og játa ég hér með sekt mína fullur iðrunar vegna þeirra sálarmorða þar sem ég telst vera ábyrgur/meðsekur.  Til viðbótar faðmlögum af þeim toga sem fram kemur í verknaðarlýsingu þinni hef ég nokkuð örugglega látið falla setningar á við "Þú ert ekki lengur stelpa, heldur kona", Þó ég geti ekki dagsett glæpi mína eins nákvæmlega og gert er í ásökununum sem þú vitnar til, enda hefur mér algerlega láðst að halda nákvæma dagbók yfir þessi glæpaverk mín.

Ég myndi gefa mig fram á skrifstofu Feministafélagsins og rekja fyrir þeim allan minn glæpaferil á þessari braut, ef ég væri ekki hræddur um að drepa saklausar sálir þeirra kvenna, sem ég þyrfti að horfast í augu við á meðan á játningunum stæði og þar sem hluti glæpaverka minna felst í að horfa á fleira í sambandi við kvenfólk, en eingöngu augun, gæti orðið um hreint fjöldasálarmorð að ræða og slíkan og þvílíkan viðbjóð verður að forðast, nóg er nú samt.

Loksins vaknar skilningur á því hvers vegna konur í sumum löndum "heimta" að fá að ganga í búrkum og álíka klæðnaði.  Það er auðvitað eingöngu til að halda lífi í sálinni.  Þetta ættu konur á vesturlöndum að gera til að forða okkur karlpeningnum frá glæpaverkum okkar og ekki síður ósiðlegum athugasemdum um aldur og þroska kvenna.

Axel Jóhann Axelsson, 2.12.2010 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband