Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Hvers konar Evrópusamband?

Þó íslenskt Samfylkingarfólk og fámennur hópur annarra ESBaðdáenda vilji hvorki sjá, heyra eða viðurkenna að evran sé að hruni komin og lífróður sé róinn í Evrópu til að bjarga henni ásamt efnahagskrísunni sem flest evruríkin hrjáir um þessar mundir, þá hika kommisarar ESB ekkert við að ræða þau mál og hvaða breytingar þurfi að gera til að ESBdraumurinn verði ekki að verri martröð en hann þegar er orðinn.

Kommisararnir stefna að því að gera ESB að stórríki Evrópu, með einni sterkri yfirstjórn á öllum sviðum, ekki síst í peninga- og efnahagsmálum, eða eins og Olli Rehn, yfirmaður efnahagsmála ESB, lýsti yfir í viðtali á fréttavefnum Euobserver.com:  „Við þurfum að velta fyrir okkur hvers konar Evrópusamband á þurfi að halda til þess að dýpka efnahagslegan og pólitískan samruna, til að mynda til þess að sameiginleg útgáfa á skuldabréfum gæti gengið fyrir öll þau aðildarríki sem deila sameiginlega gjaldmiðlinum."

Yfirstandandi fundarhöldum, sem alfarið er stjórnað af kommisörum ESB, um innlimun Íslands í framtíðarríkið  verður að slíta umsvifalaust, enda liggur ekki fyrir ennþá í hvers konar ríki er verið að innlima landið.

Lágmarkskrafa er að þjóðin fái að segja álit sitt á þessum "viðræðum" í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvort halda beri áfram inn í þá óvissu sem nú stefnir í. 


mbl.is Evruskuldabréf aftur á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mammon brýst inn hjá Sérstökum saksóknara

Risastór mál varðandi hugsanlegt fjármálamisferli eru til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara og er þar um fjárhæðir að ræða sem hlaupa á milljónum og upp í hunduð milljarða.

Þegar um svo mikil og stór spillingar- og glæpamál er að ræða er öllum brögðum beitt til að trufla, tefja og eyðileggja rannsókn málanna og til þess er öllum brögðum beitt og allir færustu og dýrustu lögfræðingar landsins eru komnir í varnarvinnu fyrir þá grunuðu í þessum málum.

Enn ein birtingarmynd þeirra klækja sem beitt er birtist í dag, þegar fréttist að þrotabú Milstone hafi keypt skýrslu af tveim (fyrrverandi) starfsmönnum Sérstaks saksóknara á þrjátíu milljónir króna, þar sem þeir nota upplýsingar sem þeir komust yfir í starfi sínu fyrir saksóknarann til að selja meintum sakborningum.

Fégræðgi mannskepnunnar eru eru fá takmörk sett og langt er til seilst þegar starfsmenn laga og reglna verða henni að bráð, eins og þetta mál virðist sanna.


mbl.is Kærðir vegna brots á þagnarskyldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarliðar niðurlægja Alþingi

Í hverju málinu á fætur öðru sýna stjórnarliðar á Alþingi löggjafarstarfinu algera vanvirðingu og niðurlægja sjálfa sig og þingið með því að nenna ekki einu sinni að láta sjá sig í þingsalnum þegar stjórnarfrumvörp eru þar til umræðu.

Stjórnarandstöðuþingmenn mæta vel á þingfundi og ræða kosti og galla þeirra frumvarpa sem fyrir þá eru lögð, en stjórnarþingmennirnir nenna sjaldnast að taka til máls og kveina svo og kvarta yfir því sem þeir kalla málþóf, þegar samviskusamir þingmenn stunda vinnu sína af samviskusemi og ábyrgð.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar og fylgismenn þeirra á Alþingi ættu að skammast sín og biðja þjóðina afsökunar á framferði sínu.


mbl.is „Ræðum við tóman sal og við hvort annað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grafið undan samfélagssáttmálanum

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli í dag á því óréttlæti sem sífellt eykst í þjóðfélaginu og felst í því að varla borgar sig að safna áratugum saman í lífeyrissjóði þar sem á móti er allt skert sem mögulegt er að skerða, t.d. ellilífeyrir Tryggingastofnunar, sem fólk hefur þó greitt til með sköttum sínum allan tímann sem það hefur verið á vinnumarkaði og heldur reyndar áfram að  greiða skatta af lífeyrinum.

Í annan stað bendir Bjarni á það  hve vinnuletjandi það er að lægstu laun á vinnumarkaði skuli vera lítið hærri en atvinnuleysisbætur og sé þar með alls ekki vinnuhvetjandi, enda fylgir því oft talsverður aukakostnaður að stunda vinnu umfram það að vera á atvinnuleysisbótum.  Gera þarf alvöru átak til að hækka lægstu launin, sem auðvitað myndi þá verða til þess að hífa önnur laun upp í leiðinni.

Sérstaka athygli er vert að vekja á þessum ummælum Bjarna:  „Við þurfum að byggja hér hvetjandi samfélag. Þar sem fólk finnur stuðning frá stjórnvöldum þegar það leggur sig fram um að  bæta líf sitt og annarra. Lög og reglur mega ekki ganga gegn heilbrigðri skynsemi fólks því ella dvínar öll virðing fyrir þeim og það grefur undan samfélagssáttmálanum."

Þó ekki sé hægt að kenna núverandi ríkisstjórn um að hafa fundið upp tekjutengingarnar, þá verður að segjast að stjórn sem kennir sig við velferð skuli hafa aukið þetta óréttlæti margfalt á við það sem áður var. 

 

 


mbl.is Grefur undan samfélagssáttmálanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herdís er vænlegur kostur sem forseti

Eins og látið hefur verið í fjölmiðlum undanfarnar vikur er farið að líta út fyrir að aðeins sé um tvo kosti að velja í væntanlegum forsetakosningum eftir rúman mánuð, þ.e. að valið standi aðeins á milli Ólafs Ragnars Grímssonar og Þóru Arnþórsdóttur og að framboð annarra skipti engu máli.

Eftir því sem nær dregur og fleiri frambjóðendur hafa náðasamlegast fengið örlítið pláss í fjölmiðlum kemur æ betur í ljós að a.m.k. tveir frambjóðendur í viðbót við Ó.R.G. og Þóru ættu fullt erindi í forsetaembættið, en það eru þau Ari Trausti Guðmundsson og Herdís Þorgeirsdóttir.

Reyndar er það svo að eftir að meira fór að bera á Herdísi og hún hefur fengið tækifæri til að koma sínum málstað á framfæri, þá virðist hún vera "besti" frambjóðandinn og sá sem helst ætti skilið að ná kosningu til setu á Bessastöðum næstu fjögur árin.

Vikurnar sem eftir lifa til kosninga munu gjörbreyta öllum niðurstöðum skoðanakannanna, frá því sem verið hefur til þessa. Kosningarnar munu án nokkurs vafa ekki snúast eingöngu um "tvo turna", heldur a.m.k. þrjá ef ekki fjóra.


mbl.is Hefur ekki áhyggjur af skoðanakönnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegt framtak á Siglufirði

Undanfarin ár hefur Róbert Guðfinnsson, fyrrum aðaleigandi og forstjóri Þormóðs ramma hf., staðið fyrir fádæma vel heppnaðri uppbyggingu gamalla húsa á Siglufirði, sem fengið hafa ný hlutverk sem veitinga-, samkomu- og sýningasalir. Húsin hafa gjörbreytt allri ásýnd hafnarsvæðisins í bænum og eru þar til mikillar prýði.

Róbert er langt frá því hættur, því hann áformar að endurbæta bæði golfvöll bæjarins og skíðasvæði og þegar þær áætlanir verða komnar í framkvæmd munu þau svæði standa því besta á landinu fyllilega á sporði.

Til að kóróna uppbygginguna mun svo bætast við fallegt, lágreist, hótel á uppfyllingu við höfnina, beint framan við Síldarminjasafnið heimsfræga og skammt frá húsunum sem þegar heifur verið breytt til mikils sóma fyrir alla sem að því hafa komið.

Það er mikið fagnaðarefni að samningar skuli hafa tekist við bæjaryfirvöld um þessa uppbyggingu alla, því með þeim mun Siglufjörður skipa sér í raðir fallegustu, skemmtilegustu og eftirsóttustu ferðamannastaða á landinu.

Allt er þetta glæsilegur vitnisburður um væntumþykju Róberts Guðfinnssonar fyrir heimabæ sínum.


mbl.is 1,2 milljarða fjárfesting á Siglufirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar verða að læra að tjá sig við væntanlega herraþjóð

Kínverjar fara víða um lönd og kaupa upp fasteignir, fyrirtæki og landsvæði og láta í þeim viðskiptum eins og þeir séu tilbúnir til að taka þátt í viðskiptum á forsendum þeirra laga og reglna sem í gildi eru í hverju landi fyrir sig.

Þrátt fyrir slík látalæti hika Kínverjar ekki við að flytja tugþúsundir íbúa sinna hreppaflutningum milli landa til að vinna við kínversk fyrirtæki á mun lægri launum en viðgangast í viðskiptalandinu og draga þannig niður kaupgjald og lífsafkomu verkafólks sem fyrir er á þeim svæðum sem þeir "leggja undir sig".

Ekki þarf að fara langt til að staðfesta slíkar undirborganir Kínverjanna því slíkt viðgekkst við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og nú hafa Kínverjarnir lagt fram "beiðni" um að fá að flytja þúsundir verkamanna frá Kína til Grænlands til að vinna að framkvæmdum þar og auðvitað á mun lægri launum en kjarasamningar á Grænlandi segja fyrir um.

Hér á landi hafa Kínverjar verið að koma sér fyrir í atvinnulífinu og hægt og hljótt munu þeir verða allsráðandi í þessu dvergríki þar sem íbúafjöldinn er ekki meiri en í meðalstóru kínversku fyrirtæki, en sum þeirra hafa mörg hundruðþúsund starfsmanna í sinni þjónustu.

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og því þyrftu Íslendingar að drífa í því að taka upp kennslu í kínversku í barnaskólum landsins svo hægt verði fyrir Íslendinga að gera sig skiljanlega við herraþjóðina í framtíðinni.

Ekki verður hægt að reikna með að yfirheyrslur með tilheyrandi pyntingum muni fara fram á íslensku þegar þar að kemur.


mbl.is Fjölskylda Chens barin til óbóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófyrirleitinn Steingrímur J.

Steingrímur J., allsherjarráðherra, hefur farið geyst í svívirðingum og ruddaskap í garð þeirra sem látið hafa í ljós álit á frumvarpsbastörðum hans um stjórn fiskveiða og veiðileyfagjald, sem nánast hver einasti umsagnaraðili hefur lagt til að hent verði í ruslafötuna umsvifalaust og allt málið unnið upp á nýtt og þá af vandvirkni og ábyrgð.

Vegna þess hve einróma umsagnirnar hafa verið fól Atvinnumálanefnd Alþingis óháðum aðilum að fara yfir frumvörpin og gefa álit á þeim og að sjálfsögðu varð niðurstaða þessara óháðu aðila sú sama og annarra; frumvörpin eru ónothæf og eiga hvergi heima annarsstaðar en á öskuhaug ríkistjórnarinnar.

Þrátt fyrir þetta óháða álit heldur Steingrímur J. áfram rógi sínum og svívirðingum gegn hverjum þeim sem dirfist að segja sannleikann um vinnubrögð hans og ríkisstjórnarinnar í þessu afdrifaríka máli fyrir afkomu þjóðarinnar til langrar framtíðar.

Vonandi dugar árið sem eftir er af kjörtímabilinu ríkisstjórninni ekki til að valda meira tjóni en þegar er orðið.


mbl.is Hafna ávirðingum ráðuneytisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxtaokrið sem á að leysa verðtrygginguna af

Undanfarin misseri hefur verið rekinn mikill áróður gegn verðtryggðum húsnæðislánum vegna þeirrar hækkunar sem höfuðstóll þeirra tekur á sig á verðbólgutímum, sem því miður eru algengir hér á landi vegna slakrar hagstjórnar.  Krafan hefur verið um að í stað verðtryggðu lánanna yrði boðið upp á óverðtryggð lán og nú stendur húsnæðiskaupendum til boða að velja á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána og er það að sjálfsögðu til mikilla bóta að skuldarar skuli hafa slíkt val á milli lánaforma.

Ekki er hins vegar alveg víst að þeir sem harðast hafa gagnrýnt verðtryggðu jafngreiðslulánin hafi gert sér fulla grein fyrir því hversu mikið greiðslubyrði óverðtryggðra lána með jöfnum afborgunum eykst við tiltölulega litla vaxtabreytingu.  Þetta kemur hins vegar vel fram í viðvörun sem FME hefur sent frá sér og ástæða er til að vekja sérstaka athygli á:  "FME tekur sem dæmi í samantekt sinni að mánaðargreiðsla 20 milljón króna láns til 25 ára myndi hækka um 25.503 kr. úr 128.860 kr. í 154.363 kr. við 2% vaxtahækkun. Ekki sé óraunhæft fyrir lántakendur að vera viðbúnir slíkri hækkun. Leiddi ferlið til 4% hækkunar áður en því lyki hefði það tvöföld hækkunaráhrif og greiðsla umrædds láns myndi hækka um 51.006 kr. svo dæmi sé tekið. Áhrif á mánaðargreiðslu samsvarandi láns til 40 ára yrðu heldur meiri, en hún myndi hækka um rúmar 29.019 kr. úr 110.043 kr. í 139.062 kr. við sömu vaxtahækkun. 4% hækkunarferli myndi þá leiða til rúmlega 58.038 kr. hækkunar í mánaðarlegri greiðslubyrði, að því er segir í nýrri samantekt FME."

Þessi viðvörun beinir vonandi athygli fólks að því, að versti óvinur skuldara á Íslandi hefur verið vaxtaokrið sem hér hefur viðgengist í áratugi, mun frekar en verðtryggingin. 


mbl.is Óverðtryggð lán næm fyrir vaxtahækkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankainnistæður notaðar til bjargar skuldavandanum?

Ríkisstjórnin ætlast til þess að inneignir félaga í lífeyrissjóðunum verði nýttar til að niðurgreiða lán einstaklinga sem eiga í skuldavanda, sérstaklega þeirra sem tekið hafa svo mikil lán að eigin veð hafa ekki staðið undir lántökunum, svo fengin hafa verið "lánsveð" hjá ættingjum sem viðbótarveð.

Innistæður í lífeyrissjóðum eru eign sjóðfélaganna og skapa þeim réttindi til lífeyrisgreiðslan á efri árum og jafngilda að því leyti innistæðusöfnun á bankareikningum, sem innistæðueigandinn getur síðan notað sér til framfærslu í ellinni eða eytt í hvað annað sem hann hefur þörf fyrir.

Ennþá virðist ríkisstjórninni ekki hafa dottið það "snjallræði" í hug að taka hluta af uppsöfnuðum innistæðum á bankareikningum einstaklinga til að nýta til niðurgreiðslu á lánum annarra skuldsettra einstaklinga og vekur það nokkra furðu fyrst Steingrími J. og félögum dettur í hug að nýta eignir fólks í lífeyrissjóðunum til þess.

Ef til vill gengur stjórnin einfaldlega alla leið í þessu og þjóðnýtir lífeyrissjóðina til að greiða upp skuldir ríkissjóðs.


mbl.is Funduðu um lánsveðslán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband