Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Önnur fjármálakreppa framundan?

Deutsche Bank hefur tapað máli sem höfðað var á hendur bankanum vegna vaxtaskiptasamnings sem viðskiptavinur bankans tapaði 100 milljónum króna á, en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði haft þá skyldu að sinna eingöngu hagsmunum viðskiptavinarins, en hafi ekki gert það með því að leyna hann áhættunni sem samningnum fylgdi og þess gróða sem bankinn myndi njóta, ef illa færi fyrir viðskiptavininum.

Samkvæmt fréttinni vofir yfir þessum banka og öðrum, röð málaferla vegna sambærilegra mála og gæti slíkt haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér, eða eins og segir í fréttinni:  "Financial Times segir að fjöldi sambærilegra málaferla vofi yfir Deutsche Bank í kjölfar úrskurðarins. Blaðið hefur eftir lögfræðingi bankans að úrskurðurinn kunni að hafa meiriháttar afleiðingar fyrir fjármálakerfið þar sem hann felur í sér að bankar þurfi að færa til bókar hagnað af slíkum samningum og það gæti leitt til málaferla þar sem að milljarðar evra væru undir. Að mati lögfræðingsins gæti slíkt leitt til annarrar fjármálakreppu."

Ýmis teikn hafa verið á lofti undanfarið um að ný fjármálakreppa sé um það bil að skella á, a.m.k. á vesturlöndum og er þessi dómur enn eitt hættumerkið um það sem framundan gæti verið í efnahagslífinu.  Íslendingar myndu ekki fara varhluta af slíkri fjármálakreppu, fremur en aðar þjóðir og jafnvel ennþá verr, vegna þess að hér varð bankakreppan enn verri en víðast annarsstaðar á árinu 2008.

Varla dettur nokkrum manni í hug að setja íslenskan fjárhag í enn meiri tvísínu með því að samþykkja að taka á sig skuldir fjárglæframanna vegna Icesave, sem almenningur á ekki að bera nokkra ábyrgð á.


mbl.is Úrskurður hristir upp í þýska bankakerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur Össur umboð til stríðsaðgerða

Í tilefni af því að kynnt hefur verið bresk könnun um afstöðu almennings þar í landi til þátttöku Breta í hernaðaraðgerðum í Líbíu vaknar sú spurning hvort ekki væri ástæða til að kanna afstöðu Íslendinga til hvatningar og stuðnings íslensku ríkisstjórnarinnar við hernaðinn.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, var einn harðasti stuðningsmaður hernaðar á hendur Gaddafi, Líbíuleiðtoga, og var afar óánægður með seinagang og takmarkaðan áhuga annarra verstrænna þjóða á því að blanda sér í átökin.  Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í útvarpsviðtali að þetta væru algerlega bráðnauðsynlegar hernaðaraðgerðir og því miður væri mannfall óbreyttra borgara óhjákvæmilegur fórnarkostnaður til þess að koma Gaddafi frá völdum.

Í átta ár hafa ýmsir, þá ekki síst þingmenn núverandi stjórnarflokka, býsnast mikið yfir stuðningi þáverandi ríkisstjórnar við innrásina í Írak, sem hafði það að meginmarkmiði að koma Saddam Hussein frá völdum og einnig hefur þeirri gagnrýni verið haldið mjög á lofti, að þá hafi Utanríkismálanefnd Alþingis ekki verið með í ráðum, áður en ákvörðun var tekin.

Hverjir komu að ákvörðun um hvatningu og stuðning við árásirnar á Líbíu?  Var ríkisstjórnarsamþykkt á bak við athafnir og orð Össurar vegna málsins?  Var Utanríkismálanefnd Alþingis með í ráðum, eða var gerð formleg samþykkt um málið á Alþingi?

Þessu öllu hljóta Össur, ríkisstjórnin og Alþingismenn að svara.


mbl.is Bretar styðja ekki aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr kommúnistaflokkur í fæðingu?

Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason hafa sagt sig úr þingflokki VG og hljóta því að vera á leið út úr flokknum sjálfum og þá hlýtur að liggja beinast við að álykta, að þau séu að undirbúa stofnun nýs stjórnmálaflokks lengst til vinstri á væng stjórnmálanna, eins og slíkt er oft orðað á hátíðlegan hátt.

Lilja Mósesdóttir hefur undanfarið boðað sótsvartasta kommúnisma sem á sér enga hliðstæðu, nema ef vera skyldi í Norður-Kóreu, þó spurning sé hvort stjórnarfarið þar eigi í raun nokkuð skylt við kommúnisma, en sé ekki bara heimatilbúin mannhaturs- og ofríkisráðstjórn.

Atli Gíslason hefur ekki látið frá sér fara eins öfgafullar og mannfjandlegar hugmyndir og Lilja hefur gert, þannig að spurnig vaknar hvort þau tvö séu algerlega sammála um þá vægast sagt skelfilegu stjórnarhætti sem Lilju dreymir um að koma á hérlendis. 

Atli og Lilja hafa tilheyrt hinni svokölluðu órólegu deild innan VG, ásamt Jóni Bjarnasyni, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Ögmundi Jónassyni, en ekki er víst að þau eigi öll samleið inn í nýjan öfgaflokk til vinstri við VG, þar sem áherslur þeirra í pólitík eru nokkuð mismunandi, þó andstaðan gegn Steingrími J. og hans félögum innan VG hafi verið sameiginleg.

Dagar VG, í þeirri mynd sem sá flokkur hefur verið í, eru taldir og spurning um hvort þetta sé einnig upphaf endaloka ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Segja sig úr þingflokki VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rekinn fyrir að framfylgja eigendastefnunni

Kristján Jóhannsson, fulltrúi ríkisins í stjórn Arion banka hefur verið rekinn úr stjórn bankans fyrir að fylgja eigendastefnu ríkisins við ráðningu bankastjórans og að hafa samþykkt launakjör hans.  Þessi samviskusemi hans gagnvart eigendastefnu ríkisins í bankarekstri hefur sem sagt kostað hann stjórnarsetuna, eftir því sem fréttir herma.

Í fréttinni kemur þetta fram:  "Þorsteinn Þorsteinsson, formaður stjórnar Bankasýslunnar, segir að stjórn stofnunarinnar telji ekki að með ákvörðun sinni að styðja ákvörðun um laun forstjóra Arion banka hafi Kristján Jóhannsson, fulltrúi Bankasýslunnar í stjórn bankans, brotið gegn eigendastefnu ríkisins."

Vegir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eru órannsakanlegir, eða öllu heldur vegleysur.


mbl.is Braut ekki gegn eigendastefnunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hussein, Gaddafi og stuðningur Íslendinga

Fyrir nákvæmlega átta árum var ráðist inn í Írak, með stuðningi hinna viljugu þjóða, til þess að koma illmenninu Saddam Hussein frá völdum, en hann stjórnaði landi sínu með harðri hendi og fannst ekki vera stórt mál að murka lífið úr löndum sínum, ef honum þurfa þótti og beitti jafnvel til þess eiturgasi.

Íslendingar studdu innrásina í Írak og allt fram á þennan dag hafa verið háværar raddir í þjóðfélaginu, sem harðlega hafa gagnrýnt þann stuðning og kallað hann nánast landráð og nokkrir þingmenn núverandi ríkisstjórnar hafa jafnvel talað um að flytja tillögu um sérstaka rannsóknarnefnd til að upplýsa leyndardóminn um stuðning þáverandi stjórnvalda við innrásina.

Nú, upp á dag átta árum seinna er gerð árás á Líbíu í þeim tilgangi að vernda almenning þar í landi fyrir sínum eigin æðstráðanda, sem stjórnað hefur landinu áratugum saman með harðýðgi og grimmd og ekki vílað fyrir sér að drepa landa sína og aðra, hvenær sem hann hefur fundið til þess þörf.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og ríkisstjórnin hefur stutt árásina á Líbíu staðfastlega og lýst miklum vonbrigðum sínum með að ríkisstjórnir vesturlanda hafa ekki viljað ganga eins langt og íslenska ríkisstjórnin í hernaðaraðgerðum gegn Gaddafi og hans hyski.

Skyldu þeir sem mest hafa gasprað um innrásina í Írak og eru reyndar flestir stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar, vera búnir að semja varnarræðurnar fyrir Össur og ríkisstjórnina vegna stríðsæsinganna gegn Líbíu?


mbl.is Líkir árásum við hryðjuverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr eineltur?

Í fyrsta skipti á borgarstjórnarferli sínum hefur Jón Gnarr og meirihluti hans í borgarstjórninni lent í verulega kröppum sjó. Á bátinn gefur svo hraustlega vegna illa unninna tillagna meirihlutans um sparnað og sameiningu skóla borgarinnar.

Í öllum hverfum borgarinnar hefur nánast orðið uppreisn foreldra leik- og grunnskólabarna, sem fjölmennt hafa á fundi meirihlutans, þar sem tilkynna hefur átt um þær breytingar sem meirihlutinn hafði ákveðið í þessum efnum.

Svo langt hefur gengið á fundunum að fundarmenn hafa tekið stjórnina í sínar hendur og samþykktar hafa verið ályktanir gegn áformum Jóns Gnarr og félaga og fundarstjóra þeirra hefur hvarvetna verið bylt úr embætti og nýr skipaður.

Þar sem foreldrar úr öllum skólahverfum borgarinnar taka þátt í þessari baráttu gegn áformum borgarstjórans og félaga hans, hlýtur sú spurnig að vakna hvort svona uppreisn flokkist ekki undir hreint einelti í garð Jóns Gnarr.

Borgarstjórinn ætti að kalla til dómskvadda matsnefnd til að skera úr málinu.


mbl.is Fékk aðeins eitt atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave og hagvöxturinn

Hagvöxtur hefur verið mun minni en ríkisstjórnin hafði spáð og reyndar gumað sig af þangað til hagtölur birtust um annað og það sem meira er, er að nú þegar er farið að draga úr hagvaxtaspám fyrir þetta ár, eða úr 3,2% í 1,9%.

Í vikunni sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að hvert prósent í hagvexti skilaði þjóðarbúinu 15 milljarða tekjum og það sem uppá vantar í hagvexti, miðað við spár og fyrirætlanir, skiptir því tugum milljarða króna. Tekjutapinu vegna baráttu ríkisstjórnarinnar gegn atvinnuuppbyggingu þarf síðan að mæta annaðhvort með enn meiri niðurskurði ríkisútgjalda en þegar er orðið, eða með miklum skattahækkunum ofan á skattahækkanabrjálæðið sem þegar hefur bitnað á þjóðinni.

Ofan á allt þetta krefjast Jóhanna og Steingrímur þess, að þjóðin gangist undir viðbótarskattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga vegna krafna sem almenningi eru óviðkomandi, fyrir upphæð sem enginn veit hvort verður 60 milljarðar króna eða 240 milljarðar.

Jafnvel þó miðað sé við lægstu upphæðina, jafngildir hún 4% töpuðum hagvexti, sem aftur þýðir enn meiri niðurskurð ríkisútgjalda og skattpíningu. Aldrei er minnst á það einu orði í áróðrinum fyrir samþykkt þrælalagannna hvaðan eigi að taka peningana til að greiða þessa ólögmætu kröfu, þvert á móti er því vandlega haldið utan umræðunnar hvílíkar álögur hér er um að ræða fyrir væntanlega skattaþræla hér á landi.

Verði skattaþrældómurinn samþykktur þann 9. apríl, þarf að reiða fyrstu greiðslu af hendi strax um miðjan apríl og nemur hún um 26,1 milljarði króna. Það vantar algerlega að útskýra hvernig í ósköpunum mönnum dettur í hug að bæta þessu ofan á allt það sem ríkissjóður þarf raunverulega að standa skil á.

Varla verða þeir teknir undan kodda fjármálaráðherrans, enda blankheitin á ríkissjóði svo mikil um þessar mundir að líklega er ekki einu sinni neinn koddi fyrir hendi lengur.


mbl.is Viðkvæm staða ríkissjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki skánar hugmyndin við endurbirtingu fréttarinnar

Hugmyndin um rafmagnssölu til meginlands Evrópu um sæstreng batnar ekki við endurbirtingu fréttarinnar um áhuga Breta kaupum á rafmagni sem flutt yrði frá Íslandi, líklega vegna þess að Bretar og aðrar Evrópuþjóðir þurfa að loka kjarorkuverum sínum á næstu árum.

Þar sem fréttin er endurflutt óbreytt á mbl.is frá gærdegi, leyfi ég mér að endurnýta bloggfærslu mína frá því í gær, þar sem fjallað er um þessa fáránlegu hugmynd.  Það blogg má lesa HÉRNA

 


mbl.is Rætt um rafstreng til Bretlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránlegar hugmyndir um rafmagsútflutning

Bretar eru farnir að seilast eftir raforku frá Íslandi, sem seld yrði til þeirra í gegn um 1.600 kílómetra rafstreng, sem lagður yrði milli landanna. Virðist áherslan aðallega vera lögð á rafmagn sem framleitt yrði með jarðhitaorku.

Reikna má með að áhugi á slíkum sæstreng aukist á næstunni vegna aukinnar eftirspurnar eftir mengunarlítilli raforku, sérstaklega þar sem trú og traust á kjarnorkuknúnum raforkuverum fer nú ört þverrandi í kjölfar þeirra slysa sem orðið hafa í slíkum verum og ekki síður vegna fyrirhugaðra lokana gamalla kjarnorkuvera í Evrópu.

Hér á landi hafa alls kyns afturhalds- og úrtöluseggir fundið því allt til foráttu að virkjað verði til atvinnuuppbyggingar í landinu og sjá ekkert svartara í hugskoti sínu en virkjanir og stóriðju. Sumt af þessu sama fólki sér hins vegar ekkert athugavert við að virkja og selja rafmagn til iðnaðar í öðrum löndum, sem þar með skapaði atvinnu fyrir fjölda manna annarra en Íslendinga.

Margar fáránlegar hugmyndir hafa litið dagsins ljós varðandi orkumálin, en að láta sér detta í hug að fara að selja rafmagn úr takmörkuðum orkuauðlindum landsins til notkunar erlendis, er sú allra vitlausasta sem litið hefur dagsljósið.

Allt rafmagn, sem framleitt er í landinu núna dugar ekki einu sinni til að sjá borg eins og Hamborg í Þýskalandi fyrir nauðsynlegri orku og öll raforkuframleiðla Íslands er á við 10% þess rafmagns sem framleitt er í kjarnorkuverum Evrópu, en slík ver framleiða þó aðeins lítinn hluta þess rafmagns sem notað er á meginlandinu.

Allar hugmyndir um raforkuframleiðslu á Íslandi til atvinnusköpunar í Bretlandi, eða annarsstaðar í Evrópu verður að kveða niður í fæðingu.


mbl.is Rafstrengur til Bretlands?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt jákvætt án þrælasölu

Lansdvirkjun skilaði ágætum hagnaði á árinu 2010 og horfur á árinu 2011 er bjartar, samkvæmt tilkynningu sem fyrirtækið hefur sent frá sér.

Í skýrslunni koma m.a. fram þessar athyglisverðu upplýsingar, samkvæmt viðhangandi frétt:  "Þar kemur fram að horfur á árinu 2011 séu góðar og helgist af hagstæðu vaxtaumhverfi og viðunandi álverði. Þá hafi fyrirtækið  mætt miklum áhuga, nýrra jafnt sem eldri, viðskiptavina á kaupum á raforku."

Þessi stutta framangreinda setning afhjúpar tvenn ósannindi sem ríkistjórnin hefur klifað á að undanförnu.  Í fyrsta lagi hefur því verið haldið fram að ekki fengjust nein erlend lán til landsins nema Icesaveþrælalögin verði staðfest, en öll stórfyrirtæki landsins hafa afsannað þá kenningu undanfarna mánuði með tugmilljarða erlendri lántöku, bæði til endurfjármögnunar eldri lána og til nýrra verkefna.  Þessi lán hafa fengist á góðum kjörum eins og fram kemur hjá landsvirkju, þ.e. vaxtaumhverfið er hagstætt um þessar mundir.

Í öðru lagi hefur því verið haldið fram að erlendir fjárfestar hefðu ekki áhuga á fjárfestingum hérlendis vegna óvissunnar um þrælasöluna, en Landsvirkjun staðfestir í tilkynningu sinni að mikill áhugi erlendra fjárfesta sé fyrir hendi, bæði nýrra jafnt sem eldri viðskiptavina fyrirtækisins.

Það eru því hrein ósannindi að íslendingar þurfi að selja sig í skattaþrældóm til útlendinga til þess að greiða fyrir uppbyggingu atvinnulífs í landinu. 

Það eina sem vantar er almennileg ríkisstjórn sem hægt er að treysta.  Ríkisstjórn sem leggur áherslu á að koma atvinnuuppbyggingunni í gang, en berst ekki gegn henni með kjafti og klóm.


mbl.is Dregur úr hagnaði en tekjur aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband