Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
17.8.2010 | 08:58
Dómstólar fái frið fyrir upphlaupslýðnum
Enn hefur hópur ólátaseggja og upphlaupsfólks safnast saman við Héraðsdóm í þeim tilgangi að trufla störf réttarins vegna máls gegn fólki, sem braut sér leið inn í Alþingi og slasaði þar starfsfólk, þegar það reyndi að hindra störf löggjafarsamkundu þjóðarinnar, sem nánast jafngildir valdaráni og telst því mjög alvarlegur verknaður.
Þegar Hæstiréttur kvað upp sinn dóm vegna "gengislánanna" fagnaði allur almenningur og þakkaði sínum sæla fyrir dómstólana, sem vernduðu hann gegn lögleysu bankanna, sem eins og komið hefur fram, var studd af ríkisstjórninni og þá taldi fólk sína einu vörn felast í sjálfstæði dómstóla landsins.
Vegna nauðsynjar þess, að dómstólarnir fái frið til að sinna sínum mikilvægu störfum verður að gera þá kröfu að óaldalýður trufli ekki störf þeirra með hrópum, köllum og öðrum ólátum í réttarsal, eða í eða við hús réttarins.
Lögreglan, sem eins og dómstólarnir, hefur sýnt og sannað að hún veldur verkefni sínu fyllilega, hlýtur að sjá til þess að halda ólátabelgjunum í skefjum og tryggja vinnufrið hjá dómurum landsins.
Átök í héraðsdómi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
16.8.2010 | 16:41
Gylfi situr sem fastast í skilningsleysinu
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur viðurkennt opinberlega að hann hafi svarað fyrirspurnum á Alþingi út í hött, enda hafi hann hvorki skilið spurningarnar og hvað þá málið, sem þær snerust um. Líklega er þar um að kenna menntunarleysi Gylfa, en hann er bara hagfræðikennari við háskóla og ekki hægt að ætlast til að hann skilji einfaldar spurningar um fjármál.
Þess vegna tekur Gylfi það afar nærri sér að vera ásakaður um lygar, enda hafi hann svarað eftir bestu vitneskju sinni og geti ekki borið ábyrgð á því, sem starfsmenn ráðuneytisins kunni að hafa vitað og jafnvel þó þeir hafi látið sig hafa einhver skrifleg minnisblöð um gengistryggð lán, þá hafi hann ekkert vit á slíku og því ekki hægt að ætlast til að hann svari asnalegum spurningum um svoleiðis smámál, sem honum komi heldur ekkert við persónulega.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og annað Samfylkingarfólk er yfir sig hrifið af þessum skýringum Gylfa og telja þær algerlega fullnægjandi, enda ekki meiri skilningur á málefninu innan flokksins en hjá Gylfa og því styður þingflokkur Samfylkingarinnar Gylfa áfram, sem talsmann efnahagsmála fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, því ekki sé hægt að ætlast til að aðrir fari að setja sig inn í mál, sem eru hvort sem er óskiljanleg.
Gylfi er afar ánægður með traustyfirlýsinguna, þótt hann segist aldrei hafa langað til að verða ráðherra og ætlaði heldur ekkert að gegna starfinu nema í stuttan tíma og því hafi svo sem ekki verið nein þörf á að setja sig inn í erfið og flókin mál.
Vegna gífurlegrar eftirspurnar Samfylkingarfólks eftir áframhaldandi starfskröftum Gylfa, ætlar hann að sitja eitthvað áfram í stólnum, en veit þó ekki hve lengi. Það fer líklega eftir því hvort einhver fer að gera kröfur um að hann setji sig inn í málefnin sem ráðuneytið er að fjalla um hverju sinni.
Gylfi ætlar ekki að láta bjóða sér slíkt, en fari svo, þá mun hann segja af sér embætti samdægurs.
Gylfi situr áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.8.2010 | 15:38
Það á að kaupa lyfin þaðan sem þau eru ódýrust
Álfheiður Ingadóttir, sem illu heilli titlast heilbrigðisráðherra, ætlar að skella sér til Færeyja í vikunni til að skoða nýja lyfjaverksmiðju frænda vorra, með það í huga að hefja innflutning lyfja þaðan til Íslands. Ekki er nema sjálfsagt að flytja inn lyf frá Færeyjum, eins og öðrum, ef þeir eru samkeppnisfærir í verði, enda hlýtur að það að vera haft að leiðarljósi í heilbrigðiskerfinu, að kaupa ódýrustu lyfin hverju sinni, svo framarlega sem þau uppfylla tilskyldar kröfur.
Vafasamt hlýtur þó að teljast að örsmá lyfjaverksmiðja í Færeyjum geti keppt í verði við einn stærsta lyfjarisa heims á sviði samheitalyfja, þ.e. íslenska fyrirtækið Actavis, sem getur verðlagt sína framleiðslu eins og henni sýnist, eftir því á hvaða markaði er verið að keppa. Þannig eru lyf Actavis miklu ódýrari í öllum nágrannalöndunum en þau eru hér á landi og er smæð markaðarins hérlendis kennt um, því miklu dýrara sé að þjóna litlum markaði en stórum.
Eitt af því sem nefnt hefur verið að valdi miklum kostnaði er, að í hvert einasta lyfjabox þurfi að setja leiðbeiningar um lyfið og innihaldslýsingu á íslensku, þó vandséð til hvers það er gert, því neytendur lyfjanna lesa þann pappír aldrei og henda honum um leið og umbúðir lyfjanna eru opnaðar.
Væri ekki ráð að spara allan þennan óþarfa prentkostnað og bjóða upp á þessa fylgiseðla í apótekunum fyrir þá sem vilja, en hætta að prenta þá eingöngu til að útvega Sorpu hráefni.
Þetta er sjálfsagt ekki stærsta einstaka atriðið sem spara mætti í heilbrigðiskerfinu, en margt smátt gerir eitt stórt.
Færeysk lyf til Íslands? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.8.2010 | 13:22
Lögreglurannsóknir án gruns um lögbrot eiga ekki rétt á sér
Ragna Árnadóttir, Dómsmálaráðherra, hefur hug á að leggja fram frumvarp til laga, sem á að rýmka heimildir heimildir lögregluyfirvalda til "forvirkra" rannsókna á afbrotum, án þess að grunur liggi fyrir um ákveðin brot á lögum.
Ragna, sem gegnt hefur starfi sínu af miklum myndarskap, fer hér út á hála braut, þar sem slíkar heimildir gefa lögreglu tækifæri til að hlera og fylgjast með einkalífi jafnvel blásaklausra borgara og því hlýtur að vera lágmarkskrafa að rökstuddur grunur um að viðkomandi einstaklingur sé viðriðinn undirbúnings glæps, þannig að hinn breiði fjöldi landsmanna eigi ekki á hættu, að lögreglan safni um hann alls kyns upplýsingum, sem aldrei tengjast neinum afbrotum.
Ragna segir að slíkar rannsóknir þurfi að vera undir ákveðnu eftirliti, eða eins og segir í fréttinni: "Ráðherra segir að forvirkum rannsóknarheimildum verði að fylgja skýrt eftirlit. Það geti verið í höndum þingnefndar eða sérstakrar deildar innan dómstóls."
Þetta er gott og blessað, en hver á að fylgjast með því að þingnefndin eða dómstóladeildin sinni eftirlitshlutverki sínu? Þarf sérstakt eftirlit með því?
Affarasælast hlýtur að vera að takmarka rannsóknarheimildirnar við rökstuddan grun um þátttöku í afbrotum og hlífa saklausum almenningi við að lögregluyfirvöld séu sífellt andandi ofan í hálsmálið hjá honum.
Lögregla fái auknar rannsóknarheimildir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.8.2010 | 09:01
Virkjanir og ferðamennska geta vel farið saman
Nú er ríkisstjórnin að áforma næsta leik sinn í baráttunni gegn atvinnuuppbyggingu í landinu og á nú að slá hagkvæmasta virkjunarkost landsins út af borðinu, Norðlingaölduveitu, með því að stækka friðland Þjórsárvera langt út fyrir öll eðlileg mörk.
Alveg virðist vera sama hvað fyrirhugað er að gera í virkjanamálum, hvort sem er í vatnsafls- eða gufuvirkjunum, gegn öllu er barist af hálfu ríkisstjórnarinnar og sjálfskipaðra "verndunarsinna", nú síðast undir forystu Bjarkar Guðmundsdóttur, sem elskar land sitt svo mikið, að henni dettur ekki í hug að spilla því með búsetu sinni, enda býr hún, starfar og greiðir skatta erlendis, eins og útrásarvíkingum þykir líka svo fínt.
Ekki síst er hamrað á því, að virkjanir skemmi fyrir ferðamennsku á viðkomandi svæðum, en slík rök standast ekki skoðun, því virkjanir draga að sér ferðamenn, ekki síður en landslagið í kring um þær, enda mikill ferðamannastraumur að þeim virkjunum, sem þegar eru fyrir í landinu.
Þessi staðreynd er líka þekkt erlendis frá og nægir að nefna Igazu fossana á landamærum Argentínu, Brasilíu og Paragvæ því til staðfestingar, en fyrir neðan fossana er stærsta virkjun Suður-Ameríku, sem dregur að sér stóran hluta þeirra ferðamanna, sem koma á svæðið til að skoða fossana.
Það þarf að breyta þeim úrelta hugsunarhætti, að virkjanir og ferðamennska eigi ekki samleið, því það er svo sannarlega hugsun gamla tímans. Réttara væri að huga að ferðamennskunni samhliða virkjununum.
Vilja breyta rammaáætlun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.8.2010 | 21:45
Styður nýjan skatt, en ekki ríkisstjórnina
Enn einn stjórnarþingmaðurinn er að gefast upp á stuðningi við ríkisstjórnina, núna síðast lýsti Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, því yfir að honum væri skapi næst að hætta stuðningi við stjórnina vegna skattahækkanabrjálæðis hennar.
Magnús lýsti því yfir að hann vildi að stjórnin einbeitti sér að útgjaldahlið fjárlaganna og skæri niður í ríkisrekstrinum, enda væri búið að hækka alla skatta langt upp fyrir öll þolanleg mörk og ekki yrði gengið lengra í þeim efnum. Loksins lætur stjórnarþingmaður frá sér heyra um skattabrjálæðið, sem farið er að þjaka almenning og atvinnurekstur og það svo, að allt þjóðfélagið er að kikna undan ósköpunum.
Nýjustu skattauppfinningunni er Magnús þó hrifinn af, en það er svokallaður bankaskattur og það réttlætir hann með því, að ríkið ábyrgist bankainnistæður og sjálfsagt sé að bankarnir borgi fyrir það. Bankarnir borga auðvitað tekjuskatt eins og önnur fyrirtæki og um þessar mundir er litlum, sem engum hagnaði fyrir að fara í bankakerfinu, svo varla er á þá sköttum bætandi, eins og ástandið er.
Ekki datt þingmanninum í hug að stinga bara upp á því að hinni tímabundnu ríkisábyrgð á bankainnistæðum yrði aflétt og þar með hyrfi grundvöllurinn undan þessari skattahugmynd á ríkisábyrgðina. Skattkerfi eiga að vera einföld, réttlát, gagnsæ og helst réttlát, þannig að allir séu jafnir fyrir þeim lögum, eins og öðrum. Því eiga svona sérskattar sér lítinn tilverurétt.
Sé hugmynd þingmannsins að festa ríkisábyrgð á bankainnistæðum í sessi til allrar framtíðar, þá er sanngjarnt að bankarnir borgi ábyrgðargjald fyrir það, en fjármálaráðherra hefur lýst því yfir, að ríkisábyrgðin sé aðeins tímabundin, á meðan verið sé að koma nýju bönkunum á koppinn og svo falli hún niður. Hvernig ætlar þingmaðurinn þá að réttlæta sérstakan bankaskatt?
Magnús sagði í sjónvarpinu, að það liti út eins og lýðskrum, að hóta að hætta að styðja ríkisstjórnina.
Réttlæting hans á bankaskatti er ekki minna lýðskrum, enda veit hann hug almennings til bankanna um þessar mundir og reiknar því með að svona málflutningur falli í frjóan jarðveg.
Líst vel á bankaskatt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2010 | 13:41
Ósannsögli eða vanræksla í ráðherrastörfum, jafnvel bæði.
Steingrímur J. segir að það hefði verið æskilegt að lögfræðiálit um ólögmæti gengislánanna hefðu komið fyrir augu sín og Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir einu ári síðan, þegar umræðan um málið var á miklu skriði í þjóðfélaginu og fyrstu málin komin fyrir dómstóla og biðu úrskurðar.
Á sama tíma var ríkisstjórnin, undir forystu Steingríms J. og Gylfa, í samningaviðræðum við skilanefndir gömlu bankanna um yfirfærslu lána til nýju bankanna og á hvaða grundvelli þau skyldu reiknast. Sá útreikningur skipti sköpum um þær upphæðir sem ríkið þyrfti að leggja nýju bönkunum til, í formi eigin fjár. Gylfi hefur reyndar sagt opinberlega, að þá hafi verið reiknað með því að lánin yrðu færð á milli sem óverðtryggð lán í íslenskum krónum, með þeim vöxtum Seðlabankans sem um slík lán giltu. Enginn hefur gengið á ráðherrann til að fá nánari skýringar á þeim ummælum og má það furðu gegna í því fári, sem gengið hefur yfir vegna margsögli Gylfa í málinu.
Sé það rétt, sem Steingrímur J. segir, að ríkisstjórnin hafi ekki aflað sér neinna gagna, hvorki lögfræðiálita eða annarra skýrslna um þau lán, sem nýju bankarnir áttu að yfirtaka, sýnir það ekkert annað en vanrækslu í starfi ráðherranna og allra þeirra annarra, sem að stofnun nýju bankanna komu.
Vandséð er hvort ósannsögli um málið, eða hrein vanræksla ráðherra er verri. Hvort tveggja er gild ástæða til afsagnar og í þessu tilfelli virðist það eiga við um alla helstu ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Æskilegt að álitin hefðu borist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.8.2010 | 11:32
Að ljúga með þögninni
Mörður Árnason reynir að réttlæta svör Gylfa Magnússonar vegna fyrirspurnar Ragnheiðar Ríkharðsdóttur á Alþingi um myntkörfulánin, sem hún sagði að væru með íslenskan höfuðstól, en gengisviðmiðun og spurði ráðherrann hvort hann teldi slík lán lögleg.
Gylfi sagði að það væri samdóma álit lögfræðinga innan ráðuneytis og utan að lán í erlendri mynt væru lögleg, en svaraði ekki spurningu Ragnheiðar sem slíkri. Þetta heitir víst ekki að ljúga, en er a.m.k. hálfsannleikur, sem nú heitir að afvegaleiða Alþingi. Gylfi segist ekki hafa séð önnur lögfræðiálit um "gengislánin" en álit lögfræðings ráðuneytisins, en hann virðist ekki einu sinni hafa lesið það álit, því þar kemur skýrt fram, að lögmæti gengislánanna orki tvímælis, en dómstóla þurfi til að skera úr um þau. Þetta álit má sjá á vef Viðskiptaráðuneytisins.
Lokaniðurstaða lögfræðiálits Viðskiptaráðuneytisins er þessi:
4. Niðurstaða
4.1. Heimild til lánveitinga í erlendri mynt, tengdum gengi erlendra gjaldmiðla
Hvorki lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 né lög um neytendalán nr. 121/1994 banna lánveitingar í erlendri mynt, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla. Ekki fæst séð að önnur löggjöf komi til álita í þessu samhengi og er það því niðurstaða undirritaðrar að lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla, séu ekki ólögmætar.
Lög nr. 38/2001 taka af skarið um það að verðtrygging á lánum í íslenskum krónum er aðeins heimil ef grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs. SRP Page 6
Hins vegar kann það að vera álitaefni hvort lánssamningur er raunverulega í íslenskum krónum eða í erlendum gjaldmiðli. Niðurstaða veltur á atvikum hverju sinni, efni samnings og atvikum við samningsgerð og eiga dómstólar lokaorðið um hana.
4.2. Ógilding staðlaðra samningsákvæða um mynt lánsfjár og tengingu við erlent gengi
Um ógildingu staðlaðra samningsskilmála gilda ákvæði 36. gr. a.-d. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt þeim skulu stöðluð samningsákvæði m.a. vera á skýru og skiljanlegu máli og allan vafa varðandi túlkun slíkra samningsákvæða skal skýra neytanda í hag.
Tekið er sérstaklega fram í 2. mgr. 36. gr. c. að ef skilmála sem telst ósanngjarn er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skuli samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans. Ef dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að ógilda beri ákvæði lánssamnings í íslenskum krónum (eða lánssamnings sem túlka má þannig að sé í raun og veru í íslenskum krónum) er ljóst að samningurinn verður efndur án þess (lægri afborganir en ella) og væntanlega myndu a.m.k. margir neytendur gera kröfu til þess (í stað uppgreiðslu). Af hefðbundnum kröfuréttarreglum leiðir að sannanleg skuld lántaka við lánveitanda hverfur ekki, hins vegar kunna samningskjör endurgreiðslu að koma til endurskoðunar.Ef á reyndi myndi dómstóll væntanlega kveða á um það við hvað sanngjarnt væri að miða í staðinn fyrir ógilda gengistryggingu láns í íslenskum krónum (t.d. verðtryggingu, þ.e. þróun vísitölu neysluverðs á lánstímanum). Fordæmisgildi slíkrar dómsniðurstöðu takmarkast við sambærilega staðlaða lánssamningsskilmála (og atvik við samningsgerð)."
Hafi Gylfi lesið álit síns eigin lögfræðings, þá var hann að minnsta kosti ekki að segja allan sannleikann um málið og það hefur hann í raun viðurkennt núna, eftir fjaðrafokið sem orðið hefur um svar hans í þinginu.
Það er nefninlega líka hægt að ljúga með þögninni.
Fráleitt að Gylfi hafi logið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.8.2010 | 20:30
Vinstri stjórn að hækka skatta? Er einhver hissa?
Steingrímur J. boðar enn meira skattahækkanabrjálæði en hann hefur þegar hrellt þjóðina með og í þetta sinn á enn að hækka skatta á fjármagnstekjur, fyrirtækjaskatta, erfðafjárskatta, auðlindaskatta og auðlegðargjald.
Orðið "fjármagnseigandi" er orðið skammaryrði í þjóðfélaginu, á meðan orðið "skuldari" er orðið að heiðursnafnbót og hverjum manni til sóma, að bera slíkan titil, ekki síður en fínt þykir að bera titilinn "sir" í Englandi. Af þeim sökum mun enginn mótmæla hækkun fjármagnstekjuskatts, auðlegðargjalds eða erfðafjárskatts, því öllum þykir sjálfsagt að bévítans "fjármagnseigendurnir" borgi alla þá skatta, sem vinstri sinnuðustu mönnum landsins dettur í hug að finna upp til að leggja á þá.
Ekki mun almenningur heldur mótmæla hækkun skatta á fyrirtæki, enda er það orðin almenn skoðun að eintómir glæpamenn stundi atvinnurekstur og því hreint ekkert of góðir til að borga meiri skatta. Ríkisstjórnin hefur gert allt sem í hennar valdi er, til að eyðileggja alla atvinnuuppbyggingu í landinu og þar sem ekki er enn búið að koma öllum einkarekstri á hausinn með því móti, er eina ráðið sem eftir er, að drepa þau atvinnufyrirtæki sem enn tóra, með enn meiri skattageggjun.
Þá er nú ekki erfitt að réttlæta hærri auðlindaskatta, enda bara óþjóðalýður og útlendingar sem nýta þær og það til atvinnuuppbyggingar, sem að sjálfsögðu verður ekki liðið og því meira en sjálfsagt að láta þessa djöfla borga "sanngjarnt" gjald fyrir afnot af "auðlindum þjóðarinnar".
Það er enginn vandi fyrir allan almenning að sameinast í þeirri sjálfsögðu kröfu, að allir skattar sem hugsast getur, verði hækkaðir upp úr öllu valdi, svo lengi sem einhver annar verði að borga þá.
Að vísu lenda allir atvinnurekstrarskattar úti í verðlaginu og eru borgaðir af almennum neytendum (skattgreiðendum) á endanum, en hver lætur slík smáatriði flækjast fyrir sér?
Ætla að hækka skatta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.8.2010 | 00:22
Að hanga eins og ráðherra á stól
Jóhanna, Steingrímur J. og Gylfi áttu með sér langan fund til að fá einhvern botn í margvísandi ummæli Gylfa um "gengislánin", en Gylfi sjálfur hefur enga tölu á því lengur, hvað útgáfurnar af svörum hans við spurningum um málið eru orðin mörg. Ekki tókst að komast að endanlegri niðurstöðu um hvert svaranna komst næst sannleikanum, en unnið verður að því næstu daga, að finna rétta svarið, enda er það ráðherrahagur og þar með almannahagur.
Ef að líkum lætur, mun þurfa að fá álitsgerð lögmannsstofu utan úr bæ um hvort og þá hvenær ráðherrann slysaðist til að gefa rétt svar við þeim spurningum, sem að honum hefur verið beint og vonandi leggjast embættismenn ráðuneytisins ekki á það álit, eins og ormar á gull, eins og þeir hafa gert við allar skýrslur lögfræðinga fram að þessu.
Á meðan botn fæst í þessi mál mun Gylfi sitja sem fastast á sínum mjúka ráherrastóli og í því samhengi öllu bendir Gylfi á, hvað hundar passa vel upp á matinn sinn, enda mun framvegis verða sagt að þeir hangi á roði sínu eins og ráðherra á stól.
Gylfi áfram ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)