Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Icesaveviðræður? Um hvað?

Enn einu sinni virðist ríkisstjórnin ætla að leggjast á hnén og láta bresku og hollensku fjárkúgarana halda áfram að láta svipuhöggin dynja á berum bossanum og ýfa upp gömlu sárin, sem byrjuð voru að gróa, eftir að kjósendur reistu ríkisstjórnina upp á lappirnar og girtu upp um hana í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars s.l.

Þó ríkisstjórnin kalli þetta viðræður, var eingöngu um einræður að ræða af hálfu kúgaranna og Steingrímur J. og félagar samþykktu og undirrituðu þá pappíra sem þeim voru afhentir, enda sárir og kvaldir eftir hýðingarnar og höfðu ekkert þrek til að standa uppi í hárinu á andskotum sínum.

Bæði framkvæmdastjórn ESB og forystumenn ESA hafa viðurkennt að engin ríkisábyrgð eigi að vera á tryggingasjóðum innistæðueigenda og fjárfesta, en samt skuli íslenskir skattgreiðendur bera ábyrgð á íslenska tryggingasjóðnum og skýringin á því er ekki merkilegri en röksemdir í rifrildum barna, en þar er gjarnan notað sama orðalag og hjá ESB og ESA:  "Af því bara".

Um hvað Steingrímur J. og vinir, innlendir og erlendir, ætla að ræða í september liggur ekki í augum uppi, því varla ætla þeir að koma sér saman um íslenska ríkisábyrgð, svona "af því bara" og gera þjóðina þar með að skattaþrælum erlendra yfirgangsríkja til margra áratuga.

Það eina sem Steingrímur J. getur gert, er að benda á gamla Landsbankann og segja við ofbeldisseggina:  "Gjörið svo vel og hirðið hræið upp í kröfur ykkar og látið okkur svo í friði".


mbl.is Icesave-viðræður á næstu vikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkissósíalismi í atvinnumálum, eða ekki?

Björk Guðmundsdóttir og félagar fara mikinn þessa dagana vegna kaupa Magma Energy á HS Orku og gefa í skyn að fyrirtækið ætli sér að ryðjast upp um fjöll og fyrnindi í leit að virkjanlegum jarðvarma og muni ekki hika við að leggja allar helstu náttúruperlur landsins í rúst vegna virkjnaframkvæmda.

HS Orka og önnur orkufyrirtæki þurfa að sækja um leyfi til Iðnaðarráðuneytisins ef þau hyggjast fá leyfi til rannsókna á mögulegum virkjanakostum, en geta ekki, að eigin frumkvæði, rannsakað hvern þann blett á landinu sem þeim sýnist og enn síður ráðist í virkjanaframkvæmdir á tilskilinna leyfa frá ráðuneytinu.

Þar sem ríkið hefur fullt forræði á því hvar megi rannsaka og hvar megi svo virkja í framhaldinu, verður ekki séð, að miklu máli skipti hvort orkufyrirtækið sem fær þessi leyfi til rannsókna og virkjana sé í einkaeigu eða ríkiseigu.  Mikil áhætta getur fylgt jarðhitarannsóknum og alls ekki fyrirfram tryggt að þær leiði til vænlegra virkjanakosta og því getur það engan veginn verið keppikeflið, að öll áhætta af slíkum rannsóknum lendi endilega á ríkisfyrirtækjum. 

Ríkið getur haft alla þá stjórn á þessum málaflokki og hvar verður rannsakað og hvar yrði virkjað, jafnvel þó öll orkufyrirtæki landsins væru í einkaeigu og meira að segja þó þau væru öll í eigu útlendinga.

Snýst málið ekki bara um hvort hér skuli ríkja alger ríkissósíalismi í atvinnumálum, eða ekki?


mbl.is Rannsóknarleyfi ekki yfirfæranleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Besti flokkurinn kominn á kaf í spillingu?

Fyrr á árinu urðu miklar umræður um prófkjörsstyrki til stjórnmálamanna og voru þeir taldir til mikillar spillingar og yllu hagsmunaárekstrum, þar sem viðkomandi stjórnmálamaður yrði fjárhagslega skuldbundinn þeim fyrirtækjum, sem styrkina veittu.  Þrátt fyrir að sannanir fyndust ekki um slíkt, voru nokkrir pólitíkusar neyddir til afsagnar vegna slíkra mála.

Nú hefur Jón Gnarr, borgarstjóri, þegið bifreiðastyrk frá bílaumboði í formi tugmilljóna króna lánsjeppa, sem merktur er viðkomandi fyrirtæki í bak og fyrir og hlýtur móttaka slíks styrks að orka tvímælis, vægast sagt og hefði verið um alvörustjórnmálamann að ræða, sem þægi slíkt, væri það umsvifalaust flokkað sem hreinar mútur.

Ekki eru þessi nýstárlegu styrkjamál bundin við borgarstjórann einan, því nú hefur Besti flokkurinn tekið upp á því að sníkja styrki af einkafyrirtækjum til reksturs borgarinnar og er fyrsta kunna dæmið um slíkt, styrkur Vodafone til borgarinnar vegna fjármögnunar flugeldasýningarinnar á Menningarnótt.  Að sjálfsögðu fær fyrirtækið sitt í staðinn í formi auglýsingar, en spurning vaknar hvort fleira hangi á þessari spýtu.

Þessi tvö atriði eru þó hreinn hégómi miðað við þá nýjung í borgarstjórn, að fjárhagsáætlun borgarinnar skuli vera unnin á leynifundum úti í bæ og hvorki nefndir eða fagráð borgarinnar hafðar með í ráðum og hvað þá að borgarfulltrúum minnihlutans skuli leyft að fylgjast með pukrinu.  Þetta eru algerlega óafsakanleg vinnubrögð og gefa ekki fagra mynd af því sem koma skal í stjórn borgarinnar.

Opin og gagnsæ stjórnsýsla, þar sem öll mál eru uppi á borðum og engu leynt, er krafa samtímans.  Besti flokkurinn hunsar slíkt algerlega og stefnir í að verða versti flokkurinn í borgarstjórn og taka þar með þann kyndil af Samfylkingunni.


mbl.is Engir fundir vegna fjárhagsáætlunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi sagði Alþingi ósatt

Í morgun var bloggað HÉRNA um þetta mál og að Gylfi væri orðinn margsaga um vitneskju sína um lögfræðiálitin.  Í svörum við því bloggi má einnig sjá hvar hægt er að lesa minnisblað lögfræðings Viðskiparáðuneytisins og þar sést að Gylfa var gerð góð grein fyrir því að "gengislánin" væru líklega ólögleg, þó tekið væri fram að endanlega yrðu dómstólar að skera úr um það.

Eftir sem áður, lét Gylfi í svari sínu á Alþingi, eins og öll lánin væru eins, þ.e. erlend lán og allir lögmenn væru sammála um að þau væru lögleg.  Fyrirspurnin snerist hins vegar ekkert um "erlend lán", heldur myntkörfulán, þar sem höfuðstóllinn væri tilgreindur í íslenskum krónum, sem skyldu endurgreiðast með viðmiði við verð erlendra gjaldmiðla á hverjum gjalddaga.

Allt málið er með svo miklum ólíkindum, að Alþingi verður að koma saman nú þegar, fara yfir málið og verði niðurstaðan sú, sem allt virðist benda til, að Gylfi hafi hreinlega sagt ósatt í þinginu, þá verði flutt vantrauststillaga á hann og jafnvel ríkisstjórnina í heild, sem hlýtur að vera samábyrg vegna þessa klúðurs.

 


mbl.is Bjarni: „Staða Gylfa í uppnámi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkabú, samyrkjubú eða hreinn ríkisrekstur?

Bújarðir og hvers kyns ræktun matvæla á þeim er atvinnurekstur eins og hver annar og ætti því að lúta sömu lögmálum og annar fyrirtækjarekstur í landinu.  Fyrirkomulagið á þessum rekstri er núna sá, að ríkið úthlutar hverju búi ákveðnu hámarki, sem þar má framleiða og greiðir síðan bændunum bein laun til viðbótar við þær skertu tekjur, sem þeir geta aflað sér með framleiðslunni.

Þannig má segja að hver einasti bóndabær á landinu sé í samrekstri bóndans og ríkisins og hömlurnar á framleiðslunni verða til þess, að bændur eru fastir í sama framleiðslufarinu til eilífðar og hafa afar takmarkaða möguleika á að stækka bú sín og auka þannig tekjurnar og samkeppnismöguleikar milli búa er enginn.

Þetta fyrirkomulag á búrekstri er komið í algerar ógöngur og bráðnauðsynlegt að stokka allt kerfið upp og annað hvort á að reka búin eins og hver önnur fyrirtæki í áhætturekstri, eða ríkið taki alfarið við framleiðslunni og stofni um hana samyrkjubú í anda Sovétríkjanna sálugu.

Reynslan af rekstri samyrkjubúa og annarrar ríkisrekinnar matvælaframleiðslu hefur hins vegar hvergi skilað tilætluðum árangri og væri því frekar reynandi að einkavæða bújarðirnar að fullu, ríkið drægi sig alfarið út úr rekstrinum og bændum gefinn kostur á að stækka bú sín og keppa síðan á markaði á jafnréttisgrundvelli.

Á meðan bændur sjálfir kjósa að vera hálfgerðir ríkisstarfsmenn, verður líklega seint komist út úr þessu haftakerfi fortíðarinnar.  Það þarf nýja hugsun í þessu efni, bæði hjá bændum og stjórnmálamönnum, sem réttlæta þetta úrelta kerfi í nafni umhyggju fyrir neytendum.

Hagur neytenda og bænda fer saman í því, að nútímavæða landbúnaðinn.


mbl.is Heimdallur gagnrýnir refsiheimild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin hefur engin önnur ráð en skattahækkanir

Samkvæmt álagningarskrám hafa launatekjur lækkað verulega á milli ára, atvinnuleysisbætur hins vegar hækkað gríðarlega og skuldir aukist umfram eignir.  Í viðhangandi frétt kemur þetta m.a. fram:  "Laun og hlunnindi lækkuðu hins vegar allverulega nú eða um 5,8% sem samsvarar 40 mö.kr. enda hefur fjöldi starfandi minnkað, vinnutími styst og víða laun verið lækkuð."

Einnig koma fram skuggalegar upplýsingar um greiðslur úr lífeyrissjóðum, eða eins og þar stendur:  „Hækkun á tekjuskatts- og útsvarsstofni skýrist fyrst og fremst af því að greiðslur úr lífeyrissjóðum jukust verulega á milli ára. Voru greiddir tæpir 92 ma.kr. úr lífeyrissjóðunum á síðasta ári samanborið við tæplega 54 ma.kr. árinu áður."

Þessar auknu greiðslur frá lífeyrissjóðunum byggjast á því, að sífellt fleiri eru farnir að taka út séreignarlífeyrissparnað sinn, bæði þeir sem atvinnulausir eru og margir sem enn hafa vinnu, en launin duga engan veginn fyrir framfæslu fjölskyldnanna og afborgana af lánum.  Það er hrikaleg staða, að fólk á besta aldri skuli þurfa að rústa afkomu sinni í ellinni, til þess að draga fram lífið undir þeirri "norrænu velferðarstjórn" sem nú situr í landinu í flestra óþökk.

Eina ráðið sem ríkisstjórnin kann, til að bregðast við efnahagsvanda þjóðarinnar er að hækka skatta og er hún nú þegar farin að hóta frekari skattahækkunum á næsta ári.

Ráðið, sem best myndi reynast til að rétta við efnahag þjóðarinnar væri að stuðla að eflingu atvinnulífsins og þar með minnkun atvinnuleysisins, en gegn öllu slíku berst ríkisstjórnin með kjafti og klóm og á því eina sviði hefur hún náð miklum árangri.

 


mbl.is Kreppan birtist í skattframtölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi og ráðuneytið í vondum málum

Undanfarið hefur mikið verið rætt og ritað um lögfræðiálit frá Lex, lögmannsstofu, sem unnið var fyrir Seðlabankann í tengslum við fyrirhuguð útlán bankans til fjárfesta, en þau átti að lána í íslenskum krónum, en endurgreiðast með erlendum gjaldeyri.  Lex komst að þeirri niðurstöðu að slíkt væri ekki heimilt og því varð ekkert af þessum fyrirhuguðu útlánum.

Lögfræðingur í Viðskiptaráðuneytinu fékk álitið sent frá Seðlabankanum og studdist við það, þegar samið var álit um erlend lán og gengistryggð lán fyrir Gylfa, viðskiptaráðherra, sem hann svo studdist við til að svara fyrirspurnum á Alþingi.  Álit lögfræðings Viðskiptaráðuneytisins hefur ekki verið birt opinberlega, svo vitað sé, en í ljósi svara ráðherrans á Alþingi er bráðnauðsynlegt, að álitið verði opinberað í heild sinni.

Gylfi harðneitar að hafa vitað um lögfræðiálit Seðlabankans, þótt upplýst sé að lögfræðingurinn hafi sent það umsvifalaust til ráðuneytisstjórans, sem algerlega hefur brugðist starfsskyldum sínum, hafi hann ekki kynnt það fyrir ráðherranum.  Hafi það verið gert, hefur Gylfi viljandi sagt ósatt á Alþingi og síðan margítrekað ósannindin í fjölmiðlum undanfarið.

Þó hvorki ráðherrann, seðlabankinn eða þingmenn hefðu getað skorið endanlega úr um lögmæti gegnislánanna, er það eftir sem áður stóralvarlegur hlutur, ef ráðherra verður uppvís að ósannindum fyrir þingi og þjóð og úr því sem komið er, verður að kalla alla þá aðila, sem að málinu koma, fyrir þingnefnd og upplýsa hvað hver vissi og sagði á hverjum tíma.

Trúverðugleiki Gylfa er í húfi, en hann hefur ekki sýnt sig valda embætti sínu, svo vel hafi verið, en bætist ósannsögli þar ofaná, verður þessi bráðabirgðaráðherra að snúa til annarra starfa strax.


mbl.is Upplýsti yfirmenn sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herskip ESB á Íslandsmið?

ESB er komið í stríðsham gegn Íslendingum vegna makrílveiða og stigmagnast ofsi talsmanna ESB, eins og títt er um sanna stríðsherra í þann mund sem þeir tefla liði sínu fram á stríðvöllinn.  Tónninn í hótunum ESB verður æ harðari og eru skoskir liðsforingjar í makrílstríðinu farnir að minna á þorskastríðin og bresku herskipin, sem þá voru send á Íslandsmið, þó stríðssagan hafi eitthvað skolast til í tímans rás, því herfræðin eru ekki nákvæmari en svo, að nú er sagt að þau hafi haldið í sjóoruturnar á Íslandsmiðum til að ,,til þess að reka íslenska togara af umdeildum veiðisvæðum.”

Maria Damanaki yfirmaður sjávarútvegsmála hjá Framkvæmdastjórn ESB, hefur látið þau boð út ganga, að gegni Íslendingar og Færeyingar ekki því, sem ESB fyrirskipar þeim, "...... að  þá mun Framkvæmdastjórnin hugleiða allar nauðsynlegar aðgerðir til að vernda makrílstofninn og gæta hagsmuna ESB.”

Einnig eru nefndar til sögunnar viðskiptaþvinganir, eða löndunarbann á íslensk skip í evrópskum höfnum og reyndar er þegar farið að neita færeyskum skipum um löndun í Bretlandi.

The Independent segir frá hörku stríðsherranna og nefnir sem dæmi að Bretland, Noregur og önnur ríki gætu átt það til að hindra inngöngu Íslendinga í ESB.  Kalt vatn hlýtur að renna milli skinns og hörunds sannra Breta- og ESBvina hérlendis við slíkar yfirlýsingar, enda óþreytandi að dásama þann mannkærleik og ást á öllu kviku, sem þeir segja ríkja í stórríkinu væntanlega.

Samkvæmt Independent sagði sjávarútvegsráðherra Skotlands í gær: „Ég finn fyrir miklum liðsauka með þeirri staðfestu sem ESB sýnir í þessu máli og vona að þessi mál verði í forgrunni í aðildarviðræðum Íslendinga við ESB.”

Svo dettur ESBsinnum og öðrum nytsömum sakleysingjum í hug, að ESB muni samþykkja í væntanlegum inngönguviðræðum, að breyta fiskveiðistefnu sinni til að þóknast Íslendingum.


mbl.is Spáir „makrílstríði" við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græddur er geymdur útrásareyrir

Það er ákaflega gleðilegt að sjá hve góðar fyrirmyndir sumir útrásarvíkinganna eru æsku landsins í ráðdeildarsemi  og útsjónarsemi, a.m.k. hvað varðar eigin fjármál.  Flestum þeirra hefur tekist að öngla saman dágóðum varasjóði, með reglulegum sparnaði af naumt skömmtuðum launum sínum í gegnum tíðina og eiga nú þokkalegt sparifé til að grípa til, núna þegar harðnað hefur á dalnum hjá þeim sumum.

Karl Wernersson hefur verið einna duglegastur í einkasparnaðinum, þrátt fyrir að hafa lent í ýmsum erfiðleikum með rekstur fyrirtækja sinna, sem er afar sárt fyrir slíkan ráðdeildarmann, ekki síst hvernig fór með bótasjóð Sjóvár, sem Karl og félagar reyndu eftir bestu getu að ávaxta vel, en töpuðu öllum og þurfa nú að sæta rannsókn og jafnvel ákæru fyrir frá vanþakklátu þjóðfélagi.

Sama má segja um heiðurshjónin Jón Ásgeir og Ingibjörgu, þeim hefur tekist að öngla saman svolitlum eignum hérlendis, þó ekki nema tæpum sjöhundruð milljónum, sem allir geta séð að ekki er hægt að leggja fyrir á fáeinum árum, nema með mikilli útsjónarsemi og ráðdeild, án þess þó að þurfa að neita sér um smá munað öðru hverju, sem þó hefur verið afar hófstillt og látlaust.

Skýringin á því, hvers vegna Jón Ásgeir gaf einungis upp eignir upp á rúmar tvöhundruð milljónir fyrir dómstóli í London, þegar illa innrætt fólk lét kyrrsetja eignir hans, liggur auðvitað í því að það er húsmóðirin á heimilinu sem er sú hagsýna í fjölskyldunni og hefur sparað meira af laununum sínum, en eiginmaðurinn.

Nema skýringin sé sú, að Jón Ásgeir viti bara alls ekki aura sinna tal.

 


mbl.is Karl á rúman milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegt þras um lögfræðiálit og minnisblöð

Mjög undarleg umræða hefur verið í gangi í þjóðfélaginu að undanförnu um lögfræðiálit, sem unnið var fyrir Seðlabankann um hvort löglegt væri að lána íslenskum fjárfestum í íslenskum krónum, en lánta þá endurgreiða í erlendum gjaldeyri.  Hugsunin á bak við þá aðgerð var að reyna að ýta íslenskum fjárfestum út í orkufrekan iðnað, sem aflað gæti tekna í gjaldeyri, en stöðugur skortur er á gjaldeyri til að greiða neyslu þjóðarinnar á erlendum vörum og erlendum skuldum almennings og fyrirtækja.

Lögmannsstofan Lex komst að þeirri niðurstöðu, að slíkar lánveitingar myndu vera á skjön við lög og því varð ekkert meira úr því máli.  Minnisblað um þessa niðurstöðu var send í Viðskiptaráðuneytið, sem gerði ekkert sérstakt við það blað, þar sem málið sem unnið hafði verið að, var sjálfdautt eftir álitsgjöfina frá Lex.  Lögfræðiálitið snerist ekkert um bíla- eða húsnæðislán, enda hefði það engu máli skipt, því hvorki Lex, Seðlabankinn eða ráðuneytin eru dómstólar og enginn þessara aðila gat kveðið upp marktækan úrskurð um "gengislánin".  Það gat enginn nema dómstólarnir og það hafa þeir nú gert og þar með ætti sú réttaróvissa að vera út úr heiminum og allir skuldarar ættu að geta unað glaðir við sitt.

Líklega af völdum einskærrar þrasgirni, eru allir fjölmiðlar og blogg uppfull núna af röfli um ársgamla vinnupappíra úr Seðlabankanum og ráðuneytum, sem engu máli skipta um stöðuna eins og hún er í dag og hefðu engu breytt fyrir ári síðan, þó þau hefðu verið opinberuð þá.  Það eina sem hefði gerst hefði verið, að hægt hefði verið að þrasa um þessa pappíra til viðbótar við það þras sem þegar var komið af stað um "gengislánin" og hefði engu bætt við þá umræðu.

Um þetta verður væntanlega röflað fram og aftur, þangað til dómur fellur í Hæstarétti um vextina af "gengislánunum" og þá verður auðvitað allt vitlaust út af honum, a.m.k. ef hann staðfestir Héraðsdóminn. 

Þá mun enginn dásama Hæstarétt eins og gert var, þegar hann dæmdi gengislánin ólögleg.


mbl.is Talið nóg að kynna minnisblaðið ráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband