Furðulegt þras um lögfræðiálit og minnisblöð

Mjög undarleg umræða hefur verið í gangi í þjóðfélaginu að undanförnu um lögfræðiálit, sem unnið var fyrir Seðlabankann um hvort löglegt væri að lána íslenskum fjárfestum í íslenskum krónum, en lánta þá endurgreiða í erlendum gjaldeyri.  Hugsunin á bak við þá aðgerð var að reyna að ýta íslenskum fjárfestum út í orkufrekan iðnað, sem aflað gæti tekna í gjaldeyri, en stöðugur skortur er á gjaldeyri til að greiða neyslu þjóðarinnar á erlendum vörum og erlendum skuldum almennings og fyrirtækja.

Lögmannsstofan Lex komst að þeirri niðurstöðu, að slíkar lánveitingar myndu vera á skjön við lög og því varð ekkert meira úr því máli.  Minnisblað um þessa niðurstöðu var send í Viðskiptaráðuneytið, sem gerði ekkert sérstakt við það blað, þar sem málið sem unnið hafði verið að, var sjálfdautt eftir álitsgjöfina frá Lex.  Lögfræðiálitið snerist ekkert um bíla- eða húsnæðislán, enda hefði það engu máli skipt, því hvorki Lex, Seðlabankinn eða ráðuneytin eru dómstólar og enginn þessara aðila gat kveðið upp marktækan úrskurð um "gengislánin".  Það gat enginn nema dómstólarnir og það hafa þeir nú gert og þar með ætti sú réttaróvissa að vera út úr heiminum og allir skuldarar ættu að geta unað glaðir við sitt.

Líklega af völdum einskærrar þrasgirni, eru allir fjölmiðlar og blogg uppfull núna af röfli um ársgamla vinnupappíra úr Seðlabankanum og ráðuneytum, sem engu máli skipta um stöðuna eins og hún er í dag og hefðu engu breytt fyrir ári síðan, þó þau hefðu verið opinberuð þá.  Það eina sem hefði gerst hefði verið, að hægt hefði verið að þrasa um þessa pappíra til viðbótar við það þras sem þegar var komið af stað um "gengislánin" og hefði engu bætt við þá umræðu.

Um þetta verður væntanlega röflað fram og aftur, þangað til dómur fellur í Hæstarétti um vextina af "gengislánunum" og þá verður auðvitað allt vitlaust út af honum, a.m.k. ef hann staðfestir Héraðsdóminn. 

Þá mun enginn dásama Hæstarétt eins og gert var, þegar hann dæmdi gengislánin ólögleg.


mbl.is Talið nóg að kynna minnisblaðið ráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig vinnur þetta lið eiginlega,vita ráðherrar ekki hvað er að gerast í þeirra ráðurneitum eða hvað?Henda þessu liði út í tunnu.

Birna (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 16:58

2 identicon

Sæll Axel

Nú er ljóst að milli þess sem þetta álit var unnið þangað til dómurinn féll í hæstarétti var gengið að mörgum eignum hér á landi, bæði eignir einstaklinga og fyrirtækja.  

Þetta hefur skapað gríðarlegt tjón þar sem mikil verðmæti tapast ævinlega í slíkum aðgerðum (hlutir fara á slikk á uppboði eða á einhverju grín uppitökuverði) og þær óafturkræfar (t.d. búið að selja tækið eða bílinn í Hollandi, aðrir fluttir inn í fasteignina). 

Auk þess myndast tengt tjón eins og t.d. fjárnám í öðrum eignum í framhaldi, missir af tekjum ef um tekjuberandi tæki/ einstaklingsfyrirtæki var um að ræða, kostnaðarsamir búferlaflutningar (ef um heimili er að ræða), gjaldþrot fyrirtækja (þar sem eigið fé upp á jafnvel tugi milljóna fer) os.fv.

Þannig getur aðför að 2 millj. kr. bíl undið svakanlega upp á sig og endað í tugmilljóna tjóni.

Kjarninn í þessu þrasi um þessa "vinnupappíra" í seðlabankanum er margþættur að mínu mati

1) Þegar dómur var loks kveðinn upp í þessu máli kom strax frá seðlabanka og FME fyrirmæli um vaxtaákvæði (og tóku þar sér í raun dómsvald).  Af hverju þegar þessir vinnupappírar lágu fyrir hjá Seðlabankanum voru ekki gefin út fyrirmæli að stöðva aðfarir til fullnustu mögulega ólöglegra lánasamninga samstundis?  Ekki daginn eftir eða vikuna á eftir heldur STRAX.

2)Þegar gengislánadómurinn féll svo að lokum í hæstarétti var birt dómsdagsspá um afleiðingar fyrir fjármálakerfið ef ekki yrðu notaðir x vextir og sett gríðarpressa á dómara í héraðsrétti vegna þessa.   Með því að taka tillit til þessara vinnupappíra þegar bönkunum var skipt þá hefði það upphlaup verið óþarft.   Enn eitt fúskið í kerfinu. 

3)Í stað þess að þegar vinnupappírarnir komu fram að þá hefði verið sett flýtimeðferð á þessi mál og þetta klárað er ljóst að næstu 2-4 árin verða allir dómstólar helpakkaðir í málaferlum vegna afleiddra tjóna aðfara veða og fjárnáms vegna ólöglegra samninga - við erum að tala um þúsundir málaferla, bæði einstaklinga og fyrirtækja.  Hversu dýrt fyrir þjóðfélagið verður það?

4)Þegar vinnupappírarnir komu fram hefði FME átt strax að framkvæma STRAX þolpróf á  lánveitendunum  og þá SP, Avant og Lýsingu sérstaklega.   Ef í ljós kæmi að þessi fyrirtæki gætu ekki lifað af óbreytta vexti- niðurfellingu gengisákvæðis hefði þurft að keyra þau niður til að að verja þau verðmæti sem innan þeirra liggja þar sem þau munu þurfa allt sitt (og rúmlega það) til að greiða út kröfur.   Nú þegar er Avant farið á hausinn og lántakendur sem búnir eru að ofgreiða fá trúlega ekki neitt upp í það.

Þetta er bara nýjasta dæmið um fúsk og aðgerðarleysi stjórnvalda sem er búið að vera gríðarvandamál síðan árið 2007.   Það að ríkisstjórninHaarderi vandamálin er einfaldlega óviðunandi.

Sigurður Hermannsson (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 18:29

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Punkturinn í málinu er að niðurstaða löfræðiálitsins var að gengistrygging væri óheimil skv. lögum um vexti og verðtryggingu, sem kom á daginn að var samhljóða niðurstöðum hæstaréttar um bílalánin. Þetta "furðulega" þras um álitið á rætur að rekja til þess að svo virðist sem enginn undirbúningur hafi átt sér stað fyrir hugsanlegar afleiðingar þessarar niðurstöðu, jafnvel þó hún hafi mátt vera augljós hverjum þeim sem hafði fyrir því að lesa vaxtalögin og athugasemdir með frumvarpinu.

Ástæðuna fyrir moldverðuna tel ég vera þessa: Til að byrja með hentaði það stjórnarandstöðunni vel að nota þetta mál til að gagnrýna stjórnarflokkana, og á sú gagnrýni fullan rétt á sér. Á móti hentar það stjórnarmeirihlutanum ágætlega að halda þessum skítastormi gangandi, því það dregur athyglina frá aðalatriðunum sem máli skipta, eins og t.d. umdeildum tilmælum Seðlabankans og FME, klúðrinu við að gera ekki fyrirvara um þetta þegar bankarnir voru gerðir upp, ásamt þeirri staðreynd að fjármögnunarfyrirtækin hafa öll gerst sek um margbrotna refsiverða háttsemi að því er virðist undir verndarvæng Fjármálaeftirlitsins, og svo mætti lengi telja.

Þessi áróðurstækni virðist virka, upp að vissu marki... ... Eða minntist ég nokkuð á innstæðutryggingar? En bjölluat í Brüssel?

Guðmundur Ásgeirsson, 10.8.2010 kl. 18:36

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður, þetta lögfræðiálit hefði engu breytt um feril málsins, því á svipuðum tíma og þetta álit frá Lex lá fyrir, sendi Björn Þorri Viktorsson, lögfræðingur, stjórnvöldum samhljóða álit og ekkert var gert með það.   Lögfræðingar voru ekki einu sinni sammála um að lánin væru ólögleg og tveir dómar héraðsdómara voru algerlega misvísandi, þannig að enginn hafði vald til að skikka fjármálafyrirtækin til eins eða neins, fyrr en eftir dóm Hæstaréttar.

Jafnvel þó FME og Seðlabankinn hafi gefið út "leiðbeiningar" um vexti á lánin, eftir dóminn, þá fer enginn eftir þeim og allir bíða eftir dómi Hæstaréttar um það efni.  Auðvitað er forkastanlegt, hvernig lánafyrirtækin höguðu sér í innheimtu þessara lána, ekki síst eftir að byrjað var að efast um lögmæti þeirra og enn frekar á meðan beðið var niðurstöðu dómstóla.  Eins og þú segir, mun dómskerfið verða yfirhlaðið af skaðabótamálum vegna þessa, en "vinnupappírarnir" hefðu engu breytt, þeir hefðu bara orðið enn eitt sprekið á bálið, sem logaði vegna þessara lána.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, og ríkisstjórnin öll hafa orðið margsaga um þessi mál, en Gylfi sagði að reiknað hefði verið með því að þessi lán væru ólögleg, þegar þau voru flutt frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju, en fáir virðast hafa tekið eftir þeim orðum hans og enginn fjölmiðill fylgt málinu eftir.  Um þessi ummæli hans má lesa HÉRNA

Miðað við það sem Gylfi sagði, þá var þetta upphlaup um að bankakerfið færi á hvolf, algerlega tilbúið áróðursleikrit af hálfu stjórnvalda, án þess að augljóst sé í hvaða tilgangi það var sett á svið.  Kanski til að reyna að hafa áhrif á dómstólana?

Hitt er svo annað mál, að fyrst forsenda lágu vaxtanna dæmdist ólögleg, þá hlýtur að teljast hæpið að vextirnir standi óbreyttir, því ef lánin teljast hafa verið íslensk, óverðtryggð lán allan tímann, þá er ekki óeðlilegt að þau beri tilheyrandi vexti.

Alveg er ég sammála þér um getu- og aðgerðarleysi Haarde stjórnarinnar í hruninu og ekki hefur stjórnunin batnað síðan, þvert á móti er núverandi stjórn algerlega ófær um að taka á vandamálunum.

Axel Jóhann Axelsson, 10.8.2010 kl. 18:49

5 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það yrði kannski ekki "alslæmt" þó samningsvextir gengistryggðu lánana, yrðu dæmdir ómerkir sökum forsendubrests.  Það hlýtur að ýta undir leiðréttingu annarra lána, eins og t.d. þessara verðtrygðu.

Alla vega má segja að verði forsendubrestur ástæða þess að samningsvextir gildi ekki. Þá eru sterk rök fyrir því að þau kjör sem verðtryggðu lánin eru á standist ekki heldur, vegna forsendubrests.  Eða er ekki hrun bankakerfis heillar þjóðar ekki forsendubrestur?

Kristinn Karl Brynjarsson, 10.8.2010 kl. 19:03

6 identicon

Sæll Axel

Ég ætla nú að afsaka langlokuna hérna fyrst - ætlaði nú ekki að skrifa pistil á bloggsíðuna hjá þér.  Stundum er bara svo gaman að skrifa.

Mér sýnist við vera meira og minna sammála nema um tvo punkta. 

1.  Þú segir að ekkert hefði verið gert með þetta vegna þess að ekkert var gert með Björn Þorra og hans baráttu á þessum tíma.   Ljóst er að álit unnið fyrir Seðlabankann og staðfest af yfirlögfræðingi bankans hefur töluvert meiri vikt inn á þingi og í almennri umræðu en (með fullri virðingu fyrir Birni Þorra) lögmaður sem er að sækja mál í einkarétti.  

Ef Gylfi hefði t.d. komið fram á Alþingi 1/7 2010 og sagt í ræðustól að í áliti unnu í Seðlabankanum og staðfest af yfirlögfræðingi bankans væri ólöglegt að gengistryggja lán hefði umræðan þróast svolítið mikið öðruvísi, skuldarar fengið vopn í hendurnar í samningaviðræðum við lánveitendur og mörgum tjónunum forðað. 

2.  Fyrirmæli Seðlabankans og FME hafa mikla vikt á fjármálamarkaði.  Þess  vegna var þetta uppnám vegna vaxtafyrirmælana.  Ef þetta væru valdalausar stofnanir sem skipta engu máli þá hefði öllum verið sama en það er bara ekki svo.

Bestu kveðjur

Sigurður H.

Sigurður Hermannsson (IP-tala skráð) 10.8.2010 kl. 19:04

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður, við getur líka verið sammála um að Seðlabankinn hefði haft meiri vikt í umræðunni heldur en Björn Þorri og eins er ég sammála því, að það hefði haft mikil áhrif ef Gylfi hefði tekið á þessum málum eins og maður, en greinilegt er á öllu að hann vonaðist eftir annarri niðurstöðu Hæstaréttar, þrátt fyrir að hafa greinilega haft vitneskju um að allar líkur væri á að lánin væru ólögleg.

Ég lýsi enn og aftur yfir furðu minni á því að fjölmiðlar skuli ekki ganga á hann vegna ummælana um að lánin hefðu verið yfirfærð úr gömlu bönkunum eins og hver önnur íslensk lán, með Seðlabankavöxtum.

Hvað varðar "tilmælin" um vextina frá FME og Seðlabankanum, þá er allt frosið vegna þessara lána og ekkert gerist frekar með þau, fyrr en eftir Hæstaréttardóm.  "Tilmæli" þessara stofnana hafa ekki meiri áhrif en það, enda ekkert traust á þeim, frekar en stjórnvöldum.

Axel Jóhann Axelsson, 10.8.2010 kl. 19:21

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú eru flestir orðnir svo flæktir í eigin lygi að þeir eru byrjaðir að stama.

Árni Gunnarsson, 10.8.2010 kl. 20:51

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Kristinn Karl bendir réttilega á mikilvægasta punktinn í þessu máli, sem er sá að úr því sem komið er verður annað hvort dæmt að samningsvextir standi á gengistryggðum lánum, eða þá að farin verði einhver millivegur á borð við óverðtryggða seðlabankavexti á grundvelli "sanngirni" sem hljóti þá með sömu rökum að geta náð til verðtryggðra lána líka. Persónulega held ég að það fyrrnefnda væri réttari niðurstaða því það er ekki dómstóla að skera úr um sanngirni heldur eiga þeir að dæma eftir lögum, en hið síðarnefnda yrði hinsvegar sanngjarnara og líklega þjóðhagslega hagkvæmara. Þegar öllu er á botninn hvolft hefur gengishrunið líka skilað sér inn í verðtryggingu að talsverðu leyti, og með því að klessukeyra hagkerfið og spila beggja vegna borðs orsökuðu bankarnir sjálfir forsendubrest.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.8.2010 kl. 21:04

10 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Axel,

Ég held þetta sé rétt hjá þér - þetta ætti ekki að vera rétt undir eðlilegum kringumstæðum, en ég held að þú hafir rétt fyrir þér. 

Ég legg til að Seðlabanki Íslands og Fjármáleftirlitið verði lagt niður.  Hvorug þessara stofnana hafa sýnt það undanfarin áratug að vera starfi sínu vaxin eða hafa yfirleitt hugmynd um hvert starf þeirra á að vera.  Þetta eru stæði fyrir afdankaða pólitíkusa sem eru óhæfir í starfi og er sparkað upp.  Ég hef ekki séð stafkrók af viti koma frá þessum stofnunum og raunin er sú að þessar stofnanir vinna í eigin bólu og enginn veit lengur hvað þær eru að gera eða til hvers þær eru.  Fúskið og ruglið á Íslandi er svo yfirgengilegt að það er varla hægt annað en hlæja að þessum trúðum.  En því miður þá hafa þessir trúðar haldið um stjórnvölinn áratugum saman og spillingin og ruglið á Íslandi er orðið svo samofið öllu að það er orðin hreinn ódaunn af þessu öllu saman.

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 10.8.2010 kl. 21:06

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já, leggja niður FME og stofna í staðinn Ráðgjafarstofu um rekstur fjármálastofnana, og leggja svo niður restina af fjármálakerfinu í skrefum (fyrningarleið?). Ísland þarf ekki að borga laun mörg þúsund bankamanna til að gera það sem væri hægt að sjálfvirknivæða og reka á einni skrifstofu í Seðlabankanum, þ.e. ef þar væru menn komnir í 21. öldina.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.8.2010 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband