Vinstri stjórn að hækka skatta? Er einhver hissa?

Steingrímur J. boðar enn meira skattahækkanabrjálæði en hann hefur þegar hrellt þjóðina með og í þetta sinn á enn að hækka skatta á fjármagnstekjur, fyrirtækjaskatta, erfðafjárskatta, auðlindaskatta og auðlegðargjald. 

Orðið "fjármagnseigandi" er orðið skammaryrði í þjóðfélaginu, á meðan orðið "skuldari" er orðið að heiðursnafnbót og hverjum manni til sóma, að bera slíkan titil, ekki síður en fínt þykir að bera titilinn "sir" í Englandi.  Af þeim sökum mun enginn mótmæla hækkun fjármagnstekjuskatts, auðlegðargjalds eða erfðafjárskatts, því öllum þykir sjálfsagt að bévítans "fjármagnseigendurnir" borgi alla þá skatta, sem vinstri sinnuðustu mönnum landsins dettur í hug að finna upp til að leggja á þá.

Ekki mun almenningur heldur mótmæla hækkun skatta á fyrirtæki, enda er það orðin almenn skoðun að eintómir glæpamenn stundi atvinnurekstur og því hreint ekkert of góðir til að borga meiri skatta.  Ríkisstjórnin hefur gert allt sem í hennar valdi er, til að eyðileggja alla atvinnuuppbyggingu í landinu og þar sem ekki er enn búið að koma öllum einkarekstri á hausinn með því móti, er eina ráðið sem eftir er, að drepa þau atvinnufyrirtæki sem enn tóra, með enn meiri skattageggjun.

Þá er nú ekki erfitt að réttlæta hærri auðlindaskatta, enda bara óþjóðalýður og útlendingar sem nýta þær og það til atvinnuuppbyggingar, sem að sjálfsögðu verður ekki liðið og því meira en sjálfsagt að láta þessa djöfla borga "sanngjarnt" gjald fyrir afnot af "auðlindum þjóðarinnar".

Það er enginn vandi fyrir allan almenning að sameinast í þeirri sjálfsögðu kröfu, að allir skattar sem hugsast getur, verði hækkaðir upp úr öllu valdi, svo lengi sem einhver annar verði að borga þá. 

Að vísu lenda allir atvinnurekstrarskattar úti í verðlaginu og eru borgaðir af almennum neytendum (skattgreiðendum) á endanum, en hver lætur slík smáatriði flækjast fyrir sér?


mbl.is Ætla að hækka skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Ertu hissa? Ertu búinn að kynna þér lausnir íhaldsmanna á Bretlandi, sem nýteknir eru þar við og hafa þar snarhækkað skatta og álögur á fólk og fyrirtæki?

Þetta er alltaf sama sagan, hvar sem er í heiminum og hverjir sem stjórna, hægri eða vinstri menn.

Þegar ríkið hefur eytt allt of miklu - þá hækka allir skattar og nýjum er bætt við.

Í guðanna bænum láttu ekki eins og skattahækkanir séu sér íslenskt vandamál.

Það er bara hræsni, ef ekki eitthvað annað verra.

Björn Birgisson, 14.8.2010 kl. 20:55

2 identicon

Ekki fagna ég þessu. En hvað er til ráða þegar fjárhirslurnar eru tómar og reikningur óstjórnartímabils Dabba kóngs ógreiddur? Ekki kann ég svar við því.

Hrunið var hins vegar engin tilviljun. Það var í boði Sjálfstæðisflokksins. Gleymum þeim ekki í kvöldbænunum...

Ybbar gogg (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 20:59

3 identicon

Björn, í hvað eru peningar ríkisins að renna?  Aðild að ESB, moka peningum í bankana meðan skýrslu um gengislán er stungið undir stól, umboðsmann skuldara, íslendingastofu, tónlistarhöll o.s.frv. o.s.frv. 

Ofsóknir á fyrirtækjum, hindranir við atvinnuuppbyggingu, tvískinnung í sjávarútvegsmálum, aumingjaskapur gagnvart erlendum öflum og klúður hvert sem augað eygir. 

Það eru fátækleg rök að benda á annara manna böl til að bæta það sem á að leggja á fólk hér heima.  Steingrímur J. hefur notað þessa taktík hingað til fyrir aumingjaskap sínum í Icesave og ESB málinu, bendir alltaf í baksýnisspegilinn.  Ég gæti skilið að þú værir svekktur með að hafa kastað atkvæði þínu á VG en skrif þín bera vott um bullandi meðvirkni eða ónæmi fyrir því hvernig fólk í atvinnurekstri dregur fram lífið.

Ríkið á ekki að verða mátturinn og dýrðin.

Sigurður Gunnarsson (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 21:15

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Björn, það er ekki eins og að þetta séu fyrstu og einu skattahækkanir þessarar voluðu ríkisstjórnar.   Það eina sem sem henni hefur dottið í hug til þessa varðandi ríkisfjármálin er að hækka skatta og það hefur verið gert ótæpilega alveg frá því stjórnin tók við völdum, en sparnaður og niðurskurður í ríkiskerfinu hefur hins vegar látið á sér standa, enda hefur stjórnin ekki þingstyrk til að taka á þeim málum.

Það er jafnvel verra en hræsni að viðurkenna ekki vanmátt þessarar ríkisstjórnar til að taka á þeim vandamálum, sem við er að glíma.

Ybba gogg ybbar bara gogg með lygum og glamri.  Dabbi kóngur skilaði ríkissjóði skuldlausum, þannig að skuldavandi ríkisins núna stafar ekki frá hans tíð og hrunið var ekki í boði Sjálfstæðisflokksins, heldur útrásarvíkinga og glæpamanna, sem koma stjórnmálaflokkunum ekkert við, frekar en þeir glæpamenn sem setið hafa á Hrauninu í gegnum tíðina. 

Axel Jóhann Axelsson, 14.8.2010 kl. 21:18

5 Smámynd: Björn Birgisson

OK, látum bara Sjálfstæðisflokkinn taka við öllu draslinu! Viðsnúningur eftir viku, kannski 10 daga? Lausnirnar allar í röðum í hillum Valhallar? Væri það svo mundi ég fyrstur manna fagna því.

En það er ekki svo. Íslensk pólitík hefur áratugum saman verið í einhverjum Pollíönnuleik, svo þegar allt hrundi kann enginn neitt, eða veit neitt í sinn haus.

Endilega látum Bláherinn fá öll völd, strax í fyrramálið og allt verður betra.

OK? - Allir ánægðir? 

Björn Birgisson, 14.8.2010 kl. 21:38

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekki gæti ástandið versnað við það, Björn.  Allar breytingar sem yrðu, gætu ekki orðið til annars en batnaðar.

Axel Jóhann Axelsson, 14.8.2010 kl. 21:51

7 Smámynd: Björn Birgisson

Gott að heyra, þá takið þið bara við í fyrramálið kl. 8.00.

Björn Birgisson, 14.8.2010 kl. 22:13

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Björn, því miður óttast ég að þú sért ekki að veifa þessu uppgjafarflaggi í umboði ríkisstjórnarinnar. 

Trúlegra er að hún hrökklist frá völdum með meiri bægslagangi en þetta.

Axel Jóhann Axelsson, 14.8.2010 kl. 22:27

9 identicon

Nafni, fyrir hönd okkar allra vona ég að stjórnin falli klukkan 8:00 á morgun! Boðið verði til kosninga strax og við taki bráðabirgðastjórn þar til ný stjórn er mynduð. Ég treysti þessari stjórn ALLS EKKI til að setja saman fjárlög næsta árs!

Björn (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 22:37

10 identicon

Hver verða ráðin þegar svokallaðir auðmenn fá nóg af "auðlegðarskattinum" (hét áður eignarskattur) og flytja lögheimili sín úr landi?

Palli (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 23:03

11 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Ég er nú meira hlynntari aðhaldi í ríkisfjármálum...algerlega óþolandi að það skuli vera halli á fjárlögum á hverju einasta ári..ég bara fer fram á að fyrirtækið Ísland..sé rekið hallalaust..m.ö.o...það verður að skera niður hjá hinu opinbera.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 15.8.2010 kl. 00:52

12 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Hverig væri bara  að gera landið okkar, Ísland að fyrirtæki, Ísland.is (corporated) , þar  sem  fjárfestar valdir  úr hópi góðra einstaklinga tækju landið og færu með það eins og þrjúhundruðþúsundmanna fyrirtæki sem ekki er óalgengt erlendis!!!

Þeir væru ekki lengi að snúa því til betri vegar!

Guðmundur Júlíusson, 15.8.2010 kl. 03:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband