Ósannsögli eða vanræksla í ráðherrastörfum, jafnvel bæði.

Steingrímur J. segir að það hefði verið æskilegt að lögfræðiálit um ólögmæti gengislánanna hefðu komið fyrir augu sín og Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir einu ári síðan, þegar umræðan um málið var á miklu skriði í þjóðfélaginu og fyrstu málin komin fyrir dómstóla og biðu úrskurðar.

Á sama tíma var ríkisstjórnin, undir forystu Steingríms J. og Gylfa, í samningaviðræðum við skilanefndir gömlu bankanna um yfirfærslu lána til nýju bankanna og á hvaða grundvelli þau skyldu reiknast.  Sá útreikningur skipti sköpum um þær upphæðir sem ríkið þyrfti að leggja nýju bönkunum til, í formi eigin fjár.  Gylfi hefur reyndar sagt opinberlega, að þá hafi verið reiknað með því að lánin yrðu færð á milli sem óverðtryggð lán í íslenskum krónum, með þeim vöxtum Seðlabankans sem um slík lán giltu.  Enginn hefur gengið á ráðherrann til að fá nánari skýringar á þeim ummælum og má það furðu gegna í því fári, sem gengið hefur yfir vegna margsögli Gylfa í málinu.

Sé það rétt, sem Steingrímur J. segir, að ríkisstjórnin hafi ekki aflað sér neinna gagna, hvorki lögfræðiálita eða annarra skýrslna um þau lán, sem nýju bankarnir áttu að yfirtaka, sýnir það ekkert annað en vanrækslu í starfi ráðherranna og allra þeirra annarra, sem að stofnun nýju bankanna komu.

Vandséð er hvort ósannsögli um málið, eða hrein vanræksla ráðherra er verri.  Hvort tveggja er gild ástæða til afsagnar og í þessu tilfelli virðist það eiga við um alla helstu ráðherra ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Æskilegt að álitin hefðu borist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Hafa verður í huga að þegar þetta álit kom fram hafði ekki fallið dómur. Þetta sem kom frá lögfræðistofunni er álit, það er ekki dómur eða neitt slíkt heldur álit. Sem slíkt er það gagnlegt innlegg í umræðuna en vafalítið voru líka til álit um hið gagnstæða.

Þó ég sé ekki aðdáandi Gylfa er ég sammála honum þegar hann sagði að hann hefði ekki svarað spurningunni nógu skýrt. Það er það eina sem hann er sekur um. Ráðuneytið fékk í hendur álit - ekki dóm. Þetta mál er stormur í vatnsglasi og engin ástæða til að hann víki vegna þessa máls. Hann hefði átt að víkja vegna ummæla sinna um að Icesave væri klink eða smáaurar, man ekki hvernig hann orðaði það. Að segja slíkt er mikill dómgreindarbrestur, þá hefði hann átt að fara.

Hvernig er það annars, hvar hafa þingmenn t.d. Sjálfstæðisflokksins haldið sig undanfarið? Eru þeir í þagnarbindindi? Frá þeim hefur hvorki heyrst hósti né stunda (nema frá Pétri B.) um t.d. Magmamálið.

Nú eru að fara af stað aftur samningaviðræður vegna Icesave og allir flokkarnir eru þöglir um það mál! Ríkisstjórnin virðist ekki einu sinni vilja skilja að ESB sagði að engin ríkisábyrð væri á innistæðutryggingastjóðnum. Þar með er málið dautt og í reynd ekkert að ræða við Breta og Hollendinga, höfðinglegt tilboð okkar frá því í september í fyrra stendur enn. Hvað þarf að ræða?

Jonas (IP-tala skráð) 15.8.2010 kl. 14:03

2 Smámynd: Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson

Ef lán voru færð á milli sem óverðtryggð lán, með Seðlabankavöxtum var réttilega að málum staðið og líkast til verður ekki tjón vegna þess fyrir bankanna. Hins vegar hefur óvissuástand sem uppi hefur verið skaðað bæði fjármálafyrirtæki og lántaka.

--

Hvernig á að reikna upp lán ef samningur um vexti eða annað endurgjald telst ógilt ? Svar við því er gefið í 18 gr. vaxtalaga sem er svohljóðandi:

"Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt."

Fyrri málsliður vekur ekki tilefni til vangaveltna, það á að endurgreiða ólögmætt endurgjald sem oftekið er. Síðari málsliður felur í sér mikilvæga reglu, sem kalla má meginreglu. Hún felur það í sér að þegar reikna á út hve mikið var ofgreitt beri að reikna lánið upp með vöxtum skv. 4. gr. vaxtalaga (lægstu vöxtum seðlabanka á óverðtr. útlán) og greiða skuldara mismuninn. Við túlkun lagaákvæðisins ber að horfa til þess að sagt er við ákvörðun endurgreiðslu, þ.e. þegar reikna á út inneign skuldara.

Orðalag lagaákvæðisins ráð fyrir að skuld hafi verið að fullu uppgerð, en sú er ekki staðan um fjölda lánasamninga sem voru til margra ára. Beita ber þessari meginreglu á slíka samninga og reikna þá upp eftirleiðis með vöxtum skv. 4. gr. vaxtalaga til framtíðar með sama hætti og uppgjör vegna mögulegrar ofgreiðslu frá fyrri tíð.

Möguleg inneign skuldara ber vexti skv. 8. gr. vaxtalaga allt þar til 30 dögum eftir að skuldari setur fram kröfu um endurgreiðslu. Eftir það ber krafa um endurgreiðslu dráttarvexti.

Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson, 15.8.2010 kl. 14:26

3 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Steingrímur J. Sigfússon sagði í viðtali við blaðamann DV, eftir að hafa hlustað á skýringar Gylfa, að líklegast hafi Gylfi ekki skilið þau hugtök, sem komu fram í fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.  Hugtökin sem um er að ræða eru: "krónulán með erlendu viðmiði" og "myntkörfulán".  Hafi sú verið raunin, þá hlýtur það að vekja upp efasemdir, um hæfni Gylfa til þess að gegna ráðherraembætti og hæfni þeirra sem taka slík svör góð og gild, um sitja í stóli forsætisráðherra og fjármálaráðherra.

 Það að álit sé bara álit, en ekki dómur, breytir litlu sem engu um ábyrgð ráðherra og ríkisstjórnar.  Á þessum tíma lágu ekki bara fyrir álit, lögmannastofunnar Lex, heldur einnig álit aðallögfræðinga Seðlabankans og Efnahags og viðskiptaráðuneytis. Þegar álit lögmanna þessara höfuðstofnana í íslenskri fjármálastjórn, styðja álit Lex, þá er það ábyrgðarleysi, að láta þar staðar numið.   Frumvarp um flýtimeðferð og hópmálsóknir fyrir dómstólum, vegna þessarar lána, voru í rauninni, einu aðgerðir stjórnvalda sem í boði voru á þessum tímapunkti, auk þess sem að samningaviðræðum við kröfuhafa bankana, hefði átt að slá á frest uns þessari réttaróvissu væri eytt.

 Þau skaðabótamál, sem kröfuhafar bankana hafa hótað stjórnvöldum vegna dóms Hæstaréttar, byggjast á því að kröfuhöfunum, hafi verið seld "gölluð vara", eða óinnheimtanleg lán á þeim kjörum sem þau voru seld á.

Það ætti hverjum manni, að vera það ljóst að ef til slíkrar málsóknar kemur, þá verða þau loforð stjórnvalda við kröfuhafana, borin saman við þessi þrjú lögfræðiálit um ólögmæti gengistrygginar.  Stangist loforðin þannig á þessi lögfræðiálit, að ætla megi að kröfuhöfum hafi verið lofað "hærri" heimtum vegna þessara lána er lögfræðiálitin, bentu til, þá er réttarstaða íslenskra stjórnvalda afar slæm.  Líkurnar til þess að stjórnvöld ( ríkið, íslenskir skattgreiðendur) yrðu dæmd til þess að greiða kröfuhöfunum háar skaðabætur, eru því afar miklar, komi í ljós að kröfuhöfum hafi verið leynt einhverju í þessum samningaviðræðum.

Kristinn Karl Brynjarsson, 15.8.2010 kl. 14:47

4 identicon

Viðskiptamenntaður gat Gylfi ekki skilið hugtökin.... það er sennilega vegna þess að hann er ekki flugfreyja... eða strútur.

Óskar Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.8.2010 kl. 15:06

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jónas, Gylfi þurfti ekki annað en lesa skýrslu Sigríðar Rafnar, lögfræðings í hans eigin ráðuneyti og sem var unnið sérstaklega fyrir hann til undirbúnings svars hans við fyrirspurnunum, sem fyrir hann voru lagðar á Alþingi, þ.m.t. spurning Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, sem var alveg skýr um lán í íslenskum krónum, en með viðmiði við erlenda gjaldmiðla.  HÉRNA má sjá álitið í heild sinni og hafi Gylfi lesið það, þó ekki væri nema lokaorðin, sem birt voru í síðasta bloggi mínu, þá hefði hann getað svarað spurningunum skýrar, en það gerði hann einmitt ekki, heldur "afvegaleiddi" þingið, eins og hálfsannleikur ráðherra og lygar eru nú kallaðar.

Hvað varðar þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þá hafa þeir líklega verið í sumarfríi, eins og þingmenn annarra flokka, en þrátt fyrir það hafa ýmsir þingmenn flokksins verið að tjá sig um þetta mál og önnur, t.d Icesave undanfarna daga, t.d. Bjarni Ben., Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Óli Björn Kárason, svo einhverjir séu nefndir.

Axel Jóhann Axelsson, 15.8.2010 kl. 17:41

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kristinn Karl, það eru þungar ásakanir sem Steingrímur J. leyfir sér að láta frá sér fara um að Efnahags- og viðskiptaráðherra landsins skilji ekki einföldustu hugtök varðandi þau lán, sem veitt eru í þjóðfélaginu.

Á þessum tíma var mikið rætt opinberlega um "gengislánin" og búið að stefna slíkum málum fyrir dómstóla, þannig að allur almenningur vissi nákvæmlega um hvað þessi mál snerust.

Að halda því fram að Gylfi hafi ekki haft vit á þessu og ekki skilið spurnirngar um efnið, er fjármálaráðherrann að gera vægast sagt lítið úr meðráðherra sínum og það á grófan og niðurlægjandi hátt.

Hvað segir þetta um fjármálaráðherrann sjálfan, sem um þetta leiti var að semja um millifærslu lána frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju?  Hafði hann hvorki vit né skilning á málefninu sem hann var að vinna við?

Axel Jóhann Axelsson, 15.8.2010 kl. 17:47

7 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Því ber að halda til haga, að Steingrímur, lét þessi orð falla, eftir að hann og Jóhanna, höfðu hlustað á Gylfa skýra sína hlið á málinu.  Ályktun Steingríms, hlýtur því að byggja á þeim upplýsingum, sem fram komu á þeim fundi.

 Það hlýtur þá að segja töluvert um forsætis og fjármálaráðherra, ef að þau sjá ekki annan kost í stöðunni, eftir að hafa fengið þessar upplýsingar, að lýsa yfir trausti á Gylfa.  Það ætti að vera hverjum manni ljóst, að efnahags og viðskiptaráðherra, sem að kann ekki skil á þessum hugtökum, er engan vegin fær um að sinna starfi sínu.

Kristinn Karl Brynjarsson, 15.8.2010 kl. 18:22

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er nú eins og að enginn skilningur á þessum málum sé til innan ríkisstjórnarinnar.  Hvorki núna né fyrir ári síðan.

Allt aðgerðaleysi og vandræðagangu stjórnarinnar, ekki síst Forsætis-, Fjármála- og Efnahags- og viðskiptaráðherra að ógleymdum Félagsmálaráðherranum, Árna Páli Árnasyni, bendir einmitt til skilningsleysis á þeim vandamálum sem við er að etja.

Það á ekki einungis við um þetta tiltekna mál, heldur nánast öll mál sem stjórnin hefur fengist við frá upphafi, að undanskildu ljósabekkjamálinu mikla, þar stóð ríkisstjórnin aldeilis í lappirnar.

Axel Jóhann Axelsson, 15.8.2010 kl. 18:59

9 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Plan ríkisstjórnarinnar í þeim málum sem valdið hafa, eða valdið geta ágrenningi í stjórnarflokkunum og milli þeirra, er að gera ekki neitt, bíða og sjá.............. og búast við því að þetta reddist.

Kristinn Karl Brynjarsson, 15.8.2010 kl. 19:09

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

En málin reddast bara aldrei af sjálfu sér og þess vegna gerist auðvitað ekkert, sem alvarlegt er vegna slóðaskaparins í atvinnumálum, skuldamálum heimilanna, Icesave o.s.frv., o.s.frv.

Af nægu er að taka, ef rifja á upp ræfildóm þessarar örmu og skilningslausu stjórnar.

Axel Jóhann Axelsson, 15.8.2010 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband